Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 118

118 Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.

Það mæli Ísrael: "Því að miskunn hans varir að eilífu!"

Það mæli Arons ætt: "Því að miskunn hans varir að eilífu!"

Það mæli þeir sem óttast Drottin: "Því að miskunn hans varir að eilífu!"

Í þrengingunni ákallaði ég Drottin, hann bænheyrði mig og rýmkaði um mig.

Drottinn er með mér, ég óttast eigi, hvað geta menn gjört mér?

Drottinn er með mér með hjálp sína, og ég mun fá að horfa á ófarir hatursmanna minna.

Betra er að leita hælis hjá Drottni en að treysta mönnum,

betra er að leita hælis hjá Drottni en að treysta tignarmönnum.

10 Allar þjóðir umkringdu mig, en í nafni Drottins hefi ég sigrast á þeim.

11 Þær umkringdu mig á alla vegu, en í nafni Drottins hefi ég sigrast á þeim.

12 Þær umkringdu mig eins og býflugur vax, brunnu sem eldur í þyrnum, en í nafni Drottins hefi ég sigrast á þeim.

13 Mér var hrundið, til þess að ég skyldi falla, en Drottinn veitti mér lið.

14 Drottinn er styrkur minn og lofsöngur, og hann varð mér til hjálpræðis.

15 Fagnaðar- og siguróp kveður við í tjöldum réttlátra: Hægri hönd Drottins vinnur stórvirki,

16 hægri hönd Drottins upphefur, hægri hönd Drottins vinnur stórvirki.

17 Ég mun eigi deyja, heldur lifa og kunngjöra verk Drottins.

18 Drottinn hefir hirt mig harðlega, en eigi ofurselt mig dauðanum.

19 Ljúkið upp fyrir mér hliðum réttlætisins, að ég megi fara inn um þau og lofa Drottin.

20 Þetta er hlið Drottins, réttlátir menn fara inn um það.

21 Ég lofa þig, af því að þú bænheyrðir mig og ert orðinn mér hjálpræði.

22 Steinninn sem smiðirnir höfnuðu er orðinn að hyrningarsteini.

23 Að tilhlutun Drottins er þetta orðið, það er dásamlegt í augum vorum.

24 Þetta er dagurinn sem Drottinn hefir gjört, fögnum, verum glaðir á honum.

25 Drottinn, hjálpa þú, Drottinn, gef þú gengi!

26 Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins, frá húsi Drottins blessum vér yður.

27 Drottinn er Guð, hann lætur oss skína ljós. Tengið saman dansraðirnar með laufgreinum, allt inn að altarishornunum.

28 Þú ert Guð minn, og ég þakka þér, Guð minn, ég vegsama þig.

29 Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.

Sálmarnir 145

145 Davíðs-lofsöngur. Ég vil vegsama þig, ó Guð minn, þú konungur, og prísa nafn þitt um aldur og ævi.

Á hverjum degi vil ég prísa þig og lofa nafn þitt um aldur og ævi.

Mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur, mikilleikur hans er órannsakanlegur.

Ein kynslóðin vegsamar verk þín fyrir annarri og kunngjörir máttarverk þín.

Þær segja frá tign og dýrð vegsemdar þinnar: "Ég vil syngja um dásemdir þínar."

Og um mátt ógnarverka þinna tala þær: "Ég vil segja frá stórvirkjum þínum."

Þær minna á þína miklu gæsku og fagna yfir réttlæti þínu.

Náðugur og miskunnsamur er Drottinn, þolinmóður og mjög gæskuríkur.

Drottinn er öllum góður, og miskunn hans er yfir öllu, sem hann skapar.

10 Öll sköpun þín lofar þig, Drottinn, og dýrkendur þínir prísa þig.

11 Þeir tala um dýrð konungdóms þíns, segja frá veldi þínu.

12 Þeir kunngjöra mönnum veldi þitt, hina dýrlegu tign konungdóms þíns.

13 Konungdómur þinn er konungdómur um allar aldir og ríki þitt stendur frá kyni til kyns. Drottinn er trúfastur í öllum orðum sínum og miskunnsamur í öllum verkum sínum.

14 Drottinn styður alla þá, er ætla að hníga, og reisir upp alla niðurbeygða.

15 Allra augu vona á þig, og þú gefur þeim fæðu þeirra á réttum tíma.

16 Þú lýkur upp hendi þinni og seður allt sem lifir með blessun.

17 Drottinn er réttlátur á öllum sínum vegum og miskunnsamur í öllum sínum verkum.

18 Drottinn er nálægur öllum sem ákalla hann, öllum sem ákalla hann í einlægni.

19 Hann uppfyllir ósk þeirra er óttast hann, og hróp þeirra heyrir hann og hjálpar þeim.

20 Drottinn varðveitir alla þá er elska hann, en útrýmir öllum níðingum.

21 Munnur minn skal mæla orðstír Drottins, allt hold vegsami hans heilaga nafn um aldur og ævi.

Fjórða bók Móse 21:4-9

Lögðu þeir þá upp frá Hórfjalli leiðina til Rauðahafs til þess að fara í kringum Edómland. En lýðnum féllst hugur á leiðinni.

Og lýðurinn talaði í gegn Guði og í gegn Móse: "Hví leidduð þið oss brott af Egyptalandi, til þess að vér dæjum í eyðimörkinni. Hér er hvorki brauð né vatn, og vér erum orðnir leiðir á þessu léttmeti."

Þá sendi Drottinn eitraða höggorma meðal lýðsins, og þeir bitu fólkið, svo að margt manna dó af Ísrael.

Þá gekk lýðurinn til Móse og sagði: "Vér höfum syndgað, því að vér höfum talað í gegn Drottni og í gegn þér. Bið þú til Drottins, að hann taki höggormana frá oss." Móse bað þá fyrir lýðnum.

Og Drottinn sagði við Móse: "Gjör þér eiturorm og set hann á stöng, og það skal verða, að hver sem bitinn er og lítur á hann, skal lífi halda."

Móse gjörði höggorm af eiri og setti á stöng. Og það varð, að ef höggormur hafði bitið einhvern og hann leit til eirormsins, þá hélt hann lífi.

Fjórða bók Móse 21:21-35

21 Ísrael sendi menn á fund Síhons Amorítakonungs og lét segja honum:

22 "Leyf mér að fara um land þitt. Eigi munum vér hneigja af út á akra né víngarða, og eigi munum vér drekka vatn úr brunnum, heldur munum vér fara Konungsveg, þar til vér erum komnir út úr landi þínu."

23 En Síhon leyfði eigi Ísrael að fara um land sitt. Hann safnaði að sér öllum lýð sínum og fór í móti Ísrael inn í eyðimörkina. Og er hann kom til Jahsa, lagði hann til orustu við Ísrael.

24 En Ísrael vann sigur á honum með sverðseggjum og lagði undir sig land hans frá Arnon til Jabbok, allt að Ammónítum, því að landamerki Ammóníta voru ekki auðunnin.

25 Ísrael tók allar þessar borgir og settist að í öllum borgum Amoríta, í Hesbon og öllum þorpunum þar í kring.

26 Hesbon var borg Síhons Amorítakonungs. Hafði hann átt í ófriði við hinn fyrri konung Móabíta og tekið frá honum allt land hans að Arnon.

27 Fyrir því sögðu háðskáldin: Komið til Hesbon! Endurreist og grundvölluð verði borg Síhons!

28 Því að eldur gekk út frá Hesbon, logi frá borg Síhons. Hann eyddi Ar í Móab, lávörðum Arnonhæða.

29 Vei þér, Móab! Það er úti um þig, Kamoss lýður! Kamos lét sonu sína verða flóttamenn og dætur sínar herteknar verða af Síhon, Amorítakonungi.

30 Vér skutum á þá. Gjöreydd var Hesbon allt til Díbon, og vér fórum herskildi yfir, svo að eldurinn bálaðist upp allt til Medeba.

31 Ísrael settist nú að í landi Amoríta.

32 En Móse sendi njósnarmenn til Jaser, og þeir unnu hana og þorpin þar í kring og ráku burt Amorítana, sem þar bjuggu.

33 Sneru þeir nú við og héldu veginn, sem liggur til Basan. En Óg, konungur í Basan, fór í móti þeim með öllu liði sínu til þess að heyja bardaga hjá Edreí.

34 Þá sagði Drottinn við Móse: "Eigi skalt þú óttast hann, því að ég gef hann og lið hans allt og land hans í þínar hendur, og skalt þú svo fara með hann, eins og þú fórst með Síhon, Amorítakonung, er bjó í Hesbon."

35 Og þeir felldu hann og sonu hans og allt hans lið, svo að enginn var eftir skilinn, er undan kæmist, og lögðu þeir land hans undir sig.

Postulasagan 17:12-34

12 Margir þeirra tóku trú og einnig Grikkir ekki allfáir, tignar konur og karlar.

13 En er Gyðingar í Þessaloníku fréttu, að Páll hefði einnig boðað orð Guðs í Beroju, komu þeir og hleyptu líka ólgu og æsingu í múginn þar.

14 Þá sendu bræðurnir jafnskjótt með Pál af stað til sjávar, en Sílas og Tímóteus urðu eftir.

15 Leiðsögumenn Páls fylgdu honum allt til Aþenu og sneru aftur með boð til Sílasar og Tímóteusar að koma hið bráðasta til hans.

16 Meðan Páll beið þeirra í Aþenu, var honum mikil skapraun að sjá, að borgin var full af skurðgoðum.

17 Hann ræddi þá í samkundunni við Gyðinga og guðrækna menn, og hvern dag á torginu við þá, sem urðu á vegi hans.

18 En nokkrir heimspekingar, Epíkúringar og Stóumenn, áttu og í orðakasti við hann. Sögðu sumir: "Hvað mun skraffinnur sá hafa að flytja?" Aðrir sögðu: "Hann virðist boða ókennda guði," _ því að hann flutti fagnaðarerindið um Jesú og upprisuna.

19 Og þeir tóku hann og fóru með hann á Aresarhæð og sögðu: "Getum vér fengið að vita, hver þessi nýja kenning er, sem þú ferð með?

20 Því að eitthvað nýstárlegt flytur þú oss til eyrna, og oss fýsir að vita, hvað þetta er."

21 En allir Aþeningar og aðkomumenn þar gáfu sér ekki tóm til annars fremur en að segja eða heyra einhver nýmæli.

22 Þá sté Páll fram á miðri Aresarhæð og tók til máls: "Aþeningar, þér komið mér svo fyrir sjónir, að þér séuð í öllum greinum miklir trúmenn,

23 því að ég gekk hér um og hugði að helgidómum yðar og fann þá meðal annars altari, sem á er ritað: ,Ókunnum guði`. Þetta, sem þér nú dýrkið og þekkið ekki, það boða ég yður.

24 Guð, sem skóp heiminn og allt, sem í honum er, hann, sem er herra himins og jarðar, býr ekki í musterum, sem með höndum eru gjörð.

25 Ekki verður honum heldur þjónað með höndum manna, eins og hann þyrfti nokkurs við, þar sem hann sjálfur gefur öllum líf og anda og alla hluti.

26 Hann skóp og af einum allar þjóðir manna og lét þær byggja allt yfirborð jarðar, er hann hafði ákveðið setta tíma og mörk bólstaða þeirra.

27 Hann vildi, að þær leituðu Guðs, ef verða mætti þær þreifuðu sig til hans og fyndu hann. En eigi er hann langt frá neinum af oss.

28 Í honum lifum, hrærumst og erum vér. Svo hafa og sum skáld yðar sagt: ,Því að vér erum líka hans ættar.`

29 Fyrst vér erum nú Guðs ættar, megum vér eigi ætla, að guðdómurinn sé líkur smíði af gulli, silfri eða steini, gjörðri með hagleik og hugviti manna.

30 Guð, sem hefur umborið tíðir vanviskunnar, boðar nú mönnunum, að þeir skuli allir hvarvetna taka sinnaskiptum,

31 því að hann hefur sett dag, er hann mun láta mann, sem hann hefur fyrirhugað, dæma heimsbyggðina með réttvísi. Þetta hefur hann sannað öllum mönnum með því að reisa hann frá dauðum."

32 Þegar þeir heyrðu nefnda upprisu dauðra, gjörðu sumir gys að, en aðrir sögðu: "Vér munum hlusta á þetta hjá þér öðru sinni."

33 Þannig skildi Páll við þá.

34 En nokkrir menn slógust í fylgd hans. Þeir tóku trú. Meðal þeirra var Díónýsíus, einn úr Areopagus-dóminum, og kona nokkur, Damaris að nafni, og aðrir fleiri.

Lúkasarguðspjall 13:10-17

10 Jesús var að kenna á hvíldardegi í samkundu einni.

11 Þar var þá kona nokkur. Í átján ár hafði hún verið haldin sjúkleiks anda og var kreppt og alls ófær að rétta sig upp.

12 Jesús sá hana og kallaði hana til sín og sagði við hana: "Kona, þú ert laus við sjúkleik þinn!"

13 Þá lagði hann hendur yfir hana, og jafnskjótt réttist hún og lofaði Guð.

14 En samkundustjórinn reiddist því, að Jesús læknaði á hvíldardegi, og mælti til fólksins: "Sex daga skal vinna, komið þá og látið lækna yður og ekki á hvíldardegi."

15 Drottinn svaraði honum: "Hræsnarar, leysir ekki hver yðar á hvíldardegi naut sitt eða asna af stalli og leiðir til vatns?

16 En þessi kona, sem er dóttir Abrahams og Satan hefur fjötrað full átján ár, mátti hún ekki leyst verða úr fjötrum þessum á hvíldardegi?"

17 Við þessi orð hans urðu allir mótstöðumenn hans sneyptir, en allur lýður fagnaði yfir öllum þeim dýrðarverkum, er hann gjörði.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society