Book of Common Prayer
33 Hann gjörir fljótin að eyðimörk og uppsprettur að þurrum lendum,
34 frjósamt land að saltsléttu sakir illsku íbúanna.
35 Hann gjörir eyðimörkina að vatnstjörnum og þurrlendið að uppsprettum
36 og lætur hungraða menn búa þar, að þeir megi grundvalla byggilega borg,
37 sá akra og planta víngarða og afla afurða.
38 Og hann blessar þá, svo að þeir margfaldast stórum og fénað þeirra lætur hann eigi fækka.
39 Og þótt þeir fækki og hnígi niður sakir þrengingar af böli og harmi,
40 þá hellir hann fyrirlitning yfir tignarmenn og lætur þá villast um veglaus öræfi,
41 en bjargar aumingjanum úr eymdinni og gjörir ættirnar sem hjarðir.
42 Hinir réttvísu sjá það og gleðjast, og öll illska lokar munni sínum.
43 Hver sem er vitur, gefi gætur að þessu, og menn taki eftir náðarverkum Drottins.
108 Ljóð. Davíðssálmur.
2 Hjarta mitt er stöðugt, ó Guð, ég vil syngja og leika, vakna þú, sála mín!
3 Vakna þú, harpa og gígja, ég vil vekja morgunroðann.
4 Ég vil lofa þig meðal lýðanna, Drottinn, vegsama þig meðal þjóðanna,
5 því að miskunn þín er himnum hærri, og trúfesti þín nær til skýjanna.
6 Sýn þig himnum hærri, ó Guð, og dýrð þín breiðist yfir gjörvalla jörðina,
7 til þess að ástvinir þínir megi frelsast. Hjálpa þú með hægri hendi þinni og bænheyr mig.
8 Guð hefir sagt í helgidómi sínum: "Ég vil fagna, ég vil skipta Síkem, mæla út Súkkót-dal.
9 Ég á Gíleað, ég á Manasse, og Efraím er hlíf höfði mínu, Júda veldissproti minn.
10 Móab er mundlaug mín, í Edóm fleygi ég skónum mínum, yfir Filisteu fagna ég."
11 Hver vill fara með mig í örugga borg, hver vill flytja mig til Edóm?
12 Þú hefir útskúfað oss, ó Guð, og þú, Guð, fer eigi út með hersveitum vorum.
13 Veit oss lið gegn fjandmönnunum, því að mannahjálp er ónýt.
33 Gleðjist, þér réttlátir, yfir Drottni! Hreinlyndum hæfir lofsöngur.
2 Lofið Drottin með gígjum, leikið fyrir honum á tístrengjaða hörpu.
3 Syngið honum nýjan söng, knýið strengina ákaft með fagnaðarópi.
4 Því að orð Drottins er áreiðanlegt, og öll verk hans eru í trúfesti gjörð.
5 Hann hefir mætur á réttlæti og rétti, jörðin er full af miskunn Drottins.
6 Fyrir orð Drottins voru himnarnir gjörðir og öll þeirra prýði fyrir anda munns hans.
7 Hann safnaði vatni hafsins sem í belg, lét straumana í forðabúr.
8 Öll jörðin óttist Drottin, allir heimsbúar hræðist hann,
9 því að hann talaði _ og það varð, hann bauð _ þá stóð það þar.
10 Drottinn ónýtir ráð þjóðanna, gjörir að engu áform lýðanna,
11 en ráð Drottins stendur stöðugt um aldur, áform hjarta hans frá kyni til kyns.
12 Sæl er sú þjóð er á Drottin að Guði, sá lýður er hann hefir kjörið sér til eignar.
13 Drottinn lítur niður af himni, sér öll mannanna börn,
14 frá bústað sínum virðir hann fyrir sér alla jarðarbúa,
15 hann sem myndað hefir hjörtu þeirra allra og gefur gætur að öllum athöfnum þeirra.
16 Eigi sigrar konungurinn fyrir gnótt herafla síns, eigi bjargast kappinn fyrir ofurafl sitt.
17 Svikull er víghestur til sigurs, með ofurafli sínu bjargar hann ekki.
18 En augu Drottins hvíla á þeim er óttast hann, á þeim er vona á miskunn hans.
19 Hann frelsar þá frá dauða og heldur lífinu í þeim í hallæri.
20 Sálir vorar vona á Drottin, hann er hjálp vor og skjöldur.
21 Já, yfir honum fagnar hjarta vort, hans heilaga nafni treystum vér.
22 Miskunn þín, Drottinn, sé yfir oss, svo sem vér vonum á þig.
14 Móse sendi frá Kades menn á fund Edómkonungs: "Svo mælir bróðir þinn Ísrael: Þú þekkir allar þær þrautir, er oss hafa mætt.
15 Feður vorir fóru suður til Egyptalands, og vér höfum verið í Egyptalandi langa ævi og hafa Egyptar þjáð oss, sem og feður vora.
16 En vér hrópuðum til Drottins, og hann heyrði bæn vora og sendi engil, og leiddi hann oss brott af Egyptalandi. Og sjá, nú erum vér í Kades, borginni við landamæri þín.
17 Leyf oss að fara um land þitt. Eigi munum vér fara yfir akra né víngarða, og eigi munum vér drekka vatn úr brunnum, heldur munum vér fara Konungsveg og eigi hneigja af til hægri handar eða vinstri, þar til er vér erum komnir út úr landi þínu."
18 En Edóm svaraði honum: "Eigi mátt þú fara um land mitt, ella mun ég fara í móti þér með sverði."
19 Þá sögðu Ísraelsmenn við hann: "Vér munum þræða brautarveginn, og ef vér drekkum af vatni þínu, ég og fénaður minn, þá mun ég fé fyrir gjalda. Hér er eigi til meira mælst en að ég megi fara um fótgangandi."
20 En hann sagði: "Eigi mátt þú fara um landið." Og Edóm fór í móti honum með miklu liði og sterkri hendi.
21 Og er Edóm skoraðist undan að leyfa Ísrael yfirför um land sitt, þá sneri Ísrael af leið frá honum.
22 Nú lögðu þeir upp frá Kades, og Ísraelsmenn, allur söfnuðurinn, komu til fjallsins Hór.
23 Og Drottinn talaði við Móse og Aron á Hórfjalli, við landamæri Edómlands, og sagði:
24 "Aron skal safnast til fólks síns, því að eigi skal hann komast í það land, sem ég hefi gefið Ísraelsmönnum, af því að þið þrjóskuðust gegn skipan minni hjá Meríbavötnum.
25 Tak þú Aron og Eleasar son hans og leið þá upp á Hórfjall.
26 Fær þú Aron úr klæðum sínum og skrýð Eleasar son hans þeim, en Aron skal safnast til fólks síns og deyja þar."
27 Móse gjörði svo sem Drottinn bauð honum, og þeir gengu upp á Hórfjall í augsýn alls fólksins.
28 Og Móse færði Aron úr klæðum hans og skrýddi Eleasar son hans þeim. Og Aron dó þar á háfjallinu. Gengu þeir Móse og Eleasar þá niður af fjallinu.
29 En er allt fólkið sá, að Aron var andaður, grétu allir Ísraelsmenn Aron þrjátíu daga.
6 Hvað eigum vér þá að segja? Eigum vér að halda áfram í syndinni til þess að náðin aukist?
2 Fjarri fer því. Vér sem dóum syndinni, hvernig ættum vér framar að lifa í henni?
3 Eða vitið þér ekki, að allir vér, sem skírðir erum til Krists Jesú, erum skírðir til dauða hans?
4 Vér erum því dánir og greftraðir með honum í skírninni, til þess að lifa nýju lífi, eins og Kristur var upp vakinn frá dauðum fyrir dýrð föðurins.
5 Því að ef vér erum orðnir samgrónir honum í líkingu dauða hans, munum vér einnig vera það í líkingu upprisu hans.
6 Vér vitum, að vor gamli maður er með honum krossfestur, til þess að líkami syndarinnar skuli að engu verða og vér ekki framar þjóna syndinni.
7 Því að sá, sem dauður er, er leystur frá syndinni.
8 Ef vér erum með Kristi dánir, trúum vér því, að vér og munum með honum lifa.
9 Vér vitum að Kristur, upp vakinn frá dauðum, deyr ekki framar. Dauðinn drottnar ekki lengur yfir honum.
10 Með dauða sínum dó hann syndinni í eitt skipti fyrir öll, en með lífi sínu lifir hann Guði.
11 Þannig skuluð þér líka álíta yður sjálfa vera dauða syndinni, en lifandi Guði í Kristi Jesú.
21 Þegar þeir nálguðust Jerúsalem og komu til Betfage við Olíufjallið, sendi Jesús tvo lærisveina
2 og sagði við þá: "Farið í þorpið hér framundan ykkur, og jafnskjótt munuð þið finna ösnu bundna og fola hjá henni. Leysið þau og færið mér.
3 Ef einhver hefur orð um, þá svarið: ,Herrann þarf þeirra við,` og mun hann jafnskjótt senda þau."
4 Þetta varð, svo að rættist það, sem sagt er fyrir munn spámannsins:
5 Segið dótturinni Síon: Sjá, konungur þinn kemur til þín, hógvær er hann og ríður asna, fola undan áburðargrip.
6 Lærisveinarnir fóru og gjörðu sem Jesús hafði boðið þeim,
7 komu með ösnuna og folann og lögðu á þau klæði sín, en hann steig á bak.
8 Fjöldamargir breiddu klæði sín á veginn, en aðrir hjuggu lim af trjánum og stráðu á veginn.
9 Og múgur sá, sem á undan fór og eftir fylgdi, hrópaði: "Hósanna syni Davíðs! Blessaður sé sá sem kemur, í nafni Drottins! Hósanna í hæstum hæðum!"
10 Þegar hann kom inn í Jerúsalem, varð öll borgin í uppnámi, og menn spurðu: "Hver er hann?"
11 Fólkið svaraði: "Það er spámaðurinn Jesús frá Nasaret í Galíleu."
by Icelandic Bible Society