Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 80

80 Til söngstjórans. Liljulag. Asafs-vitnisburður. Sálmur.

Hirðir Ísraels, hlýð á, þú sem leiddir Jósef eins og hjörð, þú sem ríkir uppi yfir kerúbunum, birst þú í geisladýrð.

Tak á mætti þínum frammi fyrir Efraím, Benjamín og Manasse og kom oss til hjálpar!

Guð, snú oss til þín aftur og lát ásjónu þína lýsa, að vér megum frelsast.

Drottinn, Guð hersveitanna, hversu lengi ætlar þú að vera reiður þrátt fyrir bænir lýðs þíns?

Þú hefir gefið þeim tárabrauð að eta og fært þeim gnægð tára að drekka.

Þú hefir gjört oss að þrætuefni nágranna vorra, og óvinir vorir gjöra gys að oss.

Guð hersveitanna leið oss aftur til þín og lát ásjónu þína lýsa, að vér megum frelsast.

Þú kipptir upp vínvið úr Egyptalandi, stökktir burt þjóðum, en gróðursettir hann,

10 þú rýmdir til fyrir honum, hann festi rætur og fyllti landið.

11 Fjöllin huldust í skugga hans og sedrustré Guðs af greinum hans.

12 Hann breiddi út álmur sínar til hafsins og teinunga sína til Fljótsins.

13 Hví hefir þú brotið niður múrveggina um hann, svo að allir vegfarendur tína berin?

14 Skógargeltirnir naga hann, og öll dýr merkurinnar bíta hann.

15 Guð hersveitanna, æ, snú þú aftur, lít niður af himni og sjá og vitja vínviðar þessa

16 og varðveit það sem hægri hönd þín hefir plantað, og son þann, er þú hefir styrkvan gjört þér til handa.

17 Hann er brenndur í eldi og upphöggvinn, fyrir ógnun auglitis þíns farast þeir.

18 Lát hönd þína hvíla yfir manninum við þína hægri hönd, yfir mannsins barni, er þú hefir styrkvan gjört þér til handa,

19 þá skulum vér eigi víkja frá þér. Viðhald lífi voru, þá skulum vér ákalla nafn þitt.

20 Drottinn, Guð hersveitanna, snú oss til þín aftur, lát ásjónu þína lýsa, að vér megum frelsast.

Sálmarnir 77

77 Til söngstjórans. Fyrir Jedútún. Asafs-sálmur.

Ég kalla til Guðs og hrópa, kalla til Guðs, að hann megi heyra til mín.

Þegar ég er í nauðum, leita ég Drottins, rétti út hendur mínar um nætur og þreytist ekki, sál mín er óhuggandi.

Ég minnist Guðs og kveina, ég styn, og andi minn örmagnast. [Sela]

Þú heldur uppi augnalokum mínum, mér er órótt og ég má eigi mæla.

Ég íhuga fyrri daga, ár þau sem löngu eru liðin,

ég minnist strengjaleiks míns um nætur, ég hugleiði í hjarta mínu, og andi minn rannsakar.

Mun Drottinn þá útskúfa um eilífð og aldrei framar vera náðugur?

Er miskunn hans lokið um eilífð, fyrirheit hans þrotin um aldir alda?

10 Hefir Guð gleymt að sýna líkn, byrgt miskunn sína með reiði? [Sela]

11 Þá sagði ég: "Þetta er kvöl mín, að hægri hönd Hins hæsta hefir brugðist."

12 Ég víðfrægi stórvirki Drottins, ég vil minnast furðuverka þinna frá fyrri tíðum,

13 ég íhuga allar athafnir þínar, athuga stórvirki þín.

14 Guð, helgur er vegur þinn, hver er svo mikill Guð sem Drottinn?

15 Þú ert Guð, sá er furðuverk gjörir, þú hefir kunngjört mátt þinn meðal þjóðanna.

16 Með máttugum armlegg frelsaðir þú lýð þinn, sonu Jakobs og Jósefs. [Sela]

17 Vötnin sáu þig, ó Guð, vötnin sáu þig og skelfdust, og undirdjúpin skulfu.

18 Vatnið streymdi úr skýjunum, þrumuraust drundi úr skýþykkninu, og örvar þínar flugu.

19 Reiðarþrumur þínar kváðu við, leiftur lýstu um jarðríki, jörðin skalf og nötraði.

20 Leið þín lá gegnum hafið, stígar þínir gegnum mikil vötn, og spor þín urðu eigi rakin.

21 Þú leiddir lýð þinn eins og hjörð fyrir Móse og Aron.

Sálmarnir 79

79 Asafs-sálmur. Guð, heiðingjar hafa brotist inn í óðal þitt, þeir hafa saurgað þitt heilaga musteri og lagt Jerúsalem í rústir.

Þeir hafa gefið lík þjóna þinna fuglum himins að fæðu og villidýrunum hold dýrkenda þinna.

Þeir hafa úthellt blóði þeirra sem vatni umhverfis Jerúsalem, og enginn jarðaði þá.

Vér erum til háðungar nábúum vorum, til spotts og athlægis þeim er búa umhverfis oss.

Hversu lengi, Drottinn, ætlar þú að vera reiður, á vandlæti þitt að brenna sem eldur án afláts?

Hell þú reiði þinni yfir heiðingjana, sem eigi þekkja þig, og yfir konungsríki, er eigi ákalla nafn þitt.

Því að þeir hafa uppetið Jakob og lagt bústað hans í eyði.

Lát oss eigi gjalda misgjörða forfeðra vorra, lát miskunn þína fljótt koma í móti oss, því að vér erum mjög þjakaðir.

Hjálpa þú oss, Guð hjálpræðis vors, sakir dýrðar nafns þíns, frelsa oss og fyrirgef syndir vorar sakir nafns þíns.

10 Hví eiga heiðingjarnir að segja: "Hvar er Guð þeirra?" Lát fyrir augum vorum kunna verða á heiðingjunum hefndina fyrir úthellt blóð þjóna þinna.

11 Lát andvörp bandingjanna koma fram fyrir þig, leys þá sem komnir eru í dauðann, með þínum sterka armlegg,

12 og gjald nágrönnum vorum sjöfalt háðungina er þeir hafa sýnt þér, Drottinn.

13 En vér, lýður þinn og gæsluhjörð þín, munum lofa þig um eilífð, kunngjöra lofstír þinn frá kyni til kyns.

Fjórða bók Móse 9:15-23

15 Á þeim degi, sem búðin var reist, huldi skýið búðina _ sáttmálstjaldið _ og um kveldið var það yfir búðinni eins og eldbjarmi allt til morguns.

16 Svo var það ávallt: Skýið huldi hana um daga og eldbjarmi um nætur.

17 Og í hvert sinn, er skýið hófst upp frá tjaldinu, lögðu Ísraelsmenn upp, og þar sem skýið nam staðar, þar settu Ísraelsmenn herbúðir sínar.

18 Að boði Drottins lögðu Ísraelsmenn upp, og að boði Drottins settu þeir herbúðir sínar. Alla þá stund, er skýið hvíldi yfir búðinni, héldu þeir kyrru fyrir í herbúðunum.

19 Þegar skýið var yfir búðinni marga daga samfleytt, gættu Ísraelsmenn skipunar Drottins og lögðu ekki upp.

20 Stundum var skýið aðeins fáa daga yfir búðinni; að boði Drottins héldu þeir kyrru fyrir í herbúðunum og að boði Drottins lögðu þeir upp.

21 Stundum var skýið frá kveldi allt til morguns, og er skýið hófst upp með morgninum, lögðu þeir upp, eða það var daginn og nóttina: Þegar skýið hófst, þá lögðu þeir upp.

22 Eða að skýið var tvo daga eða mánuð eða lengri tíma: Þegar það var langdvölum yfir búðinni og hvíldi yfir henni, héldu Ísraelsmenn kyrru fyrir í herbúðunum og lögðu ekki upp, en er það hófst, lögðu þeir upp.

23 Að boði Drottins settu þeir herbúðir sínar, og að boði Drottins lögðu þeir upp. Skipunar Drottins gættu þeir að boði Drottins, er Móse flutti.

Fjórða bók Móse 10:29-36

29 Þá sagði Móse við Hóbab Regúelsson Midíaníta, tengdaföður Móse: "Vér leggjum nú upp áleiðis til þess staðar, sem Drottinn hét, að hann mundi gefa oss. Kom þú með oss, og munum vér gjöra vel við þig, því að Drottinn hefir heitið Ísrael góðu."

30 Hóbab svaraði: "Eigi vil ég fara, heldur mun ég halda heim í land mitt og til ættfólks míns."

31 En Móse sagði: "Eigi mátt þú yfirgefa oss, af því að þú veist, hvar vér getum tjaldað í eyðimörkinni, og skalt þú vera oss sem auga.

32 Og farir þú með oss og oss hlotnast þau gæði, sem Drottinn vill veita oss, þá munum vér gjöra vel við þig."

33 Héldu þeir nú frá fjalli Drottins þrjár dagleiðir, en sáttmálsörk Drottins fór á undan þeim þrjár dagleiðir til þess að velja hvíldarstað handa þeim.

34 Og ský Drottins var yfir þeim á daginn, er þeir tóku sig upp úr herbúðunum.

35 En er örkin tók sig upp, sagði Móse: "Rís þú upp, Drottinn, svo að óvinir þínir tvístrist og fjendur þínir flýi fyrir þér."

36 Og er hún nam staðar, sagði hann: "Hverf þú aftur, Drottinn, til hinna tíu þúsund þúsunda Ísraels."

Bréf Páls til Rómverja 1:1-15

Páll heilsar yður, þjónn Jesú Krists, kallaður til postula, kjörinn til að boða fagnaðarerindi Guðs,

sem hann gaf áður fyrirheit um fyrir munn spámanna sinna í helgum ritningum,

fagnaðarerindið um son hans, Jesú Krist, Drottin vorn, sem að holdinu er fæddur af kyni Davíðs,

en að anda heilagleikans með krafti auglýstur að vera sonur Guðs fyrir upprisu frá dauðum.

Fyrir hann hef ég öðlast náð og postuladóm til að vekja hlýðni við trúna meðal allra heiðingjanna, vegna nafns hans.

Meðal þeirra eruð þér einnig, þér sem Jesús Kristur hefur kallað sér til eignar.

Ég heilsa öllum Guðs elskuðu í Róm, sem heilagir eru samkvæmt köllun. Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Fyrst þakka ég Guði mínum sakir Jesú Krists fyrir yður alla, af því að orð fer af trú yðar í öllum heiminum.

Guð, sem ég þjóna í anda mínum með fagnaðarerindinu um son hans, er mér vottur þess, hve óaflátanlega ég minnist yðar

10 í bænum mínum. Ég bið stöðugt um það, að mér mætti loks einhvern tíma auðnast, ef Guð vildi svo verða láta, að koma til yðar.

11 Því að ég þrái að sjá yður, til þess að ég fái veitt yður hlutdeild í andlegri náðargjöf, svo að þér styrkist,

12 eða réttara sagt: Svo að vér getum uppörvast saman fyrir hina sameiginlegu trú, yðar og mína.

13 Ég vil ekki, bræður, að yður sé ókunnugt um, að ég hef oftsinnis ásett mér að koma til yðar, en hef verið hindraður allt til þessa. Ég vildi fá einhvern ávöxt einnig á meðal yðar, eins og með öðrum heiðnum þjóðum.

14 Ég er í skuld bæði við Grikki og útlendinga, vitra og fávísa.

15 Svo er ég og fyrir mitt leyti fús til að boða fagnaðarerindið, einnig yður, sem eruð í Róm.

Matteusarguðspjall 17:14-21

14 Þegar þeir komu til fólksins, gekk til hans maður, féll á kné fyrir honum

15 og sagði: "Herra, miskunna þú syni mínum. Hann er tunglsjúkur og illa haldinn. Oft fellur hann á eld og oft í vatn.

16 Ég fór með hann til lærisveina þinna, en þeir gátu ekki læknað hann."

17 Jesús svaraði: "Ó, þú vantrúa og rangsnúna kynslóð, hversu lengi á ég að vera hjá yður? Hversu lengi á ég að umbera yður? Færið hann hingað til mín."

18 Og Jesús hastaði á hann og illi andinn fór úr honum. Og sveinninn varð heill frá þeirri stundu.

19 Þá komu lærisveinarnir til Jesú og spurðu hann einslega: "Hvers vegna gátum vér ekki rekið hann út?"

20 Hann svaraði þeim: "Vegna þess að yður skortir trú. Sannlega segi ég yður: Ef þér hafið trú eins og mustarðskorn, getið þér sagt við fjall þetta: Flyt þig héðan og þangað, og það mun flytja sig. Ekkert verður yður um megn. [

21 En þetta kyn verður eigi út rekið nema með bæn og föstu.]"

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society