Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 93

93 Drottinn er konungur orðinn! Hann hefir íklæðst hátign, Drottinn hefir skrýðst, hann hefir spennt sig belti styrkleika síns og fest jörðina, svo að hún haggast eigi.

Hásæti þitt stendur stöðugt frá öndverðu, frá eilífð ert þú.

Straumarnir hófu upp, Drottinn, straumarnir hófu upp raust sína, straumarnir hófu upp dunur sínar.

Drottinn á hæðum er tignarlegri en gnýr mikilla, tignarlegra vatna, tignarlegri en boðar hafsins.

Vitnisburðir þínir eru harla áreiðanlegir, húsi þínu hæfir heilagleiki, ó Drottinn, um allar aldir.

Sálmarnir 96

96 Syngið Drottni nýjan söng, syngið Drottni öll lönd!

Syngið Drottni, lofið nafn hans, kunngjörið hjálpráð hans dag eftir dag.

Segið frá dýrð hans meðal þjóðanna, frá dásemdarverkum hans meðal allra lýða.

Því að mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur, óttalegur er hann öllum guðum framar.

Því að allir guðir þjóðanna eru falsguðir, en Drottinn hefir gjört himininn.

Heiður og vegsemd eru fyrir augliti hans, máttur og prýði í helgidómi hans.

Tjáið Drottni lof, þér kynkvíslir þjóða, tjáið Drottni vegsemd og vald.

Tjáið Drottni dýrð þá, er nafni hans hæfir, færið gjafir og komið til forgarða hans,

fallið fram fyrir Drottni í helgum skrúða, titrið fyrir honum, öll lönd!

10 Segið meðal þjóðanna: Drottinn er konungur orðinn! Hann hefir fest jörðina, svo að hún bifast ekki, hann dæmir þjóðirnar með réttvísi.

11 Himinninn gleðjist og jörðin fagni, hafið drynji og allt sem í því er,

12 foldin fagni og allt sem á henni er, öll tré skógarins kveði fagnaðaróp,

13 fyrir Drottni, því að hann kemur, hann kemur til þess að dæma jörðina. Hann mun dæma heiminn með réttlæti og þjóðirnar eftir trúfesti sinni.

Sálmarnir 34

34 Sálmur Davíðs, þá er hann gjörði sér upp vitfirringu frammi fyrir Abímelek, svo að Abímelek rak hann í burt, og hann fór burt.

Ég vil vegsama Drottin alla tíma, ætíð sé lof hans mér í munni.

Sál mín hrósar sér af Drottni, hinir hógværu skulu heyra það og fagna.

Miklið Drottin ásamt mér, tignum í sameiningu nafn hans.

Ég leitaði Drottins, og hann svaraði mér, frelsaði mig frá öllu því er ég hræddist.

Lítið til hans og gleðjist, og andlit yðar skulu eigi blygðast.

Hér er volaður maður sem hrópaði, og Drottinn heyrði hann og hjálpaði honum úr öllum nauðum hans.

Engill Drottins setur vörð kringum þá er óttast hann, og frelsar þá.

Finnið og sjáið, að Drottinn er góður, sæll er sá maður er leitar hælis hjá honum.

10 Óttist Drottin, þér hans heilögu, því að þeir er óttast hann líða engan skort.

11 Ung ljón eiga við skort að búa og svelta, en þeir er leita Drottins fara einskis góðs á mis.

12 Komið, börn, hlýðið á mig, ég vil kenna yður ótta Drottins.

13 Ef einhver óskar lífs, þráir lífdaga til þess að njóta hamingjunnar,

14 þá varðveit tungu þína frá illu og varir þínar frá svikatali,

15 forðast illt og gjörðu gott, leita friðar og legg stund á hann.

16 Augu Drottins hvíla á réttlátum, og eyru hans gefa gaum að hrópi þeirra.

17 Auglit Drottins horfir á þá er illa breyta, til þess að afmá minningu þeirra af jörðunni.

18 Ef réttlátir hrópa, þá heyrir Drottinn, úr öllum nauðum þeirra frelsar hann þá.

19 Drottinn er nálægur þeim er hafa sundurmarið hjarta, þeim er hafa sundurkraminn anda, hjálpar hann.

20 Margar eru raunir réttláts manns, en Drottinn frelsar hann úr þeim öllum.

21 Hann gætir allra beina hans, ekki eitt af þeim skal brotið.

22 Ógæfa drepur óguðlegan mann, þeir er hata hinn réttláta, skulu sekir dæmdir.

23 Drottinn frelsar líf þjóna sinna, enginn sá er leitar hælis hjá honum, mun sekur dæmdur.

Fjórða bók Móse 6:22-27

22 Drottinn talaði við Móse og sagði:

23 "Mæl þú til Arons og sona hans og seg: Með þessum orðum skuluð þér blessa Ísraelsmenn:

24 Drottinn blessi þig og varðveiti þig!

25 Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur!

26 Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið!

27 Þannig skulu þeir leggja nafn mitt yfir Ísraelsmenn, og ég mun blessa þá."

Postulasagan 13:1-12

13 Í söfnuðinum í Antíokkíu voru spámenn og kennarar. Þar voru þeir Barnabas, Símeon, nefndur Níger, Lúkíus frá Kýrene, Manaen, samfóstri Heródesar fjórðungsstjóra, og Sál.

Eitt sinn er þeir voru að þjóna Drottni og föstuðu sagði heilagur andi: "Skiljið frá mér til handa þá Barnabas og Sál til þess verks, sem ég hef kallað þá til."

Síðan föstuðu þeir og báðust fyrir, lögðu hendur yfir þá og létu þá fara.

Þeir fóru nú, sendir af heilögum anda, til Selevkíu og sigldu þaðan til Kýpur.

Þegar þeir voru komnir til Salamis, boðuðu þeir orð Guðs í samkunduhúsum Gyðinga. Höfðu þeir og Jóhannes til aðstoðar.

Þeir fóru um alla eyna, allt til Pafos. Þar fundu þeir töframann nokkurn og falsspámann, Gyðing, er hét Barjesús.

Hann var hjá landstjóranum Sergíusi Páli, hyggnum manni, sem hafði boðað þá Barnabas og Sál á fund sinn og fýsti að heyra Guðs orð.

Gegn þeim stóð Elýmas, töframaðurinn, en svo er nafn hans útlagt. Reyndi hann að gjöra landstjórann fráhverfan trúnni.

En Sál, sem og er nefndur Páll, hvessti á hann augun og sagði, fylltur heilögum anda:

10 "Þú djöfuls sonur, fullur allra véla og flærðar, óvinur alls réttlætis, ætlar þú aldrei að hætta að rangsnúa réttum vegum Drottins?

11 Nú er hönd Drottins reidd gegn þér, og þú munt verða blindur og ekki sjá sól um tíma." Jafnskjótt féll yfir hann þoka og myrkur, og hann reikaði um og leitaði einhvers til að leiða sig.

12 Þegar landstjórinn sá þennan atburð, varð hann gagntekinn af kenningu Drottins og tók trú.

Lúkasarguðspjall 12:41-48

41 Þá spurði Pétur: "Herra, mælir þú þessa líkingu til vor eða til allra?"

42 Drottinn mælti: "Hver er sá trúi og hyggni ráðsmaður, sem húsbóndinn setur yfir hjú sín að gefa þeim skammtinn á réttum tíma?

43 Sæll er sá þjónn, er húsbóndinn finnur breyta svo, er hann kemur.

44 Ég segi yður með sanni: Hann mun setja hann yfir allar eigur sínar.

45 En ef sá þjónn segir í hjarta sínu: ,Það dregst, að húsbóndi minn komi,` og tekur að berja þjóna og þernur, eta og drekka og verða ölvaður,

46 þá mun húsbóndi þess þjóns koma á þeim degi, er hann væntir ekki, á þeirri stundu, er hann veit ekki, höggva hann og láta hann fá hlut með ótrúum.

47 Sá þjónn, sem veit vilja húsbónda síns og hefur ekki viðbúnað né gjörir vilja hans, mun barinn mörg högg.

48 En hinn, sem veit hann ekki, en vinnur til refsingar, mun barinn fá högg. Hver sem mikið er gefið, verður mikils krafinn, og af þeim verður meira heimtað, sem meira er léð.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society