Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 75-76

75 Til söngstjórans. Lag: Spill eigi. Asafs-sálmur. Ljóð.

Vér lofum þig, ó Guð, vér lofum þig, og þeir er ákalla nafn þitt, segja frá dásemdarverkum þínum.

"Þegar mér þykir tími til kominn, dæmi ég réttvíslega.

Þótt jörðin skjálfi með öllum þeim, er á henni búa, þá hefi ég samt fest stoðir. [Sela]

Ég segi við hina hrokafullu: Sýnið eigi hroka! og við hina óguðlegu: Hefjið eigi hornin!

Hefjið eigi hornin gegn himninum, mælið eigi drambyrði hnakkakerrtir!"

Því að hvorki frá austri né vestri né frá eyðimörkinni kemur neinn, sem veitt geti uppreisn,

heldur er Guð sá sem dæmir, hann niðurlægir annan og upphefur hinn.

Því að bikar er í hendi Drottins með freyðandi víni, fullur af kryddi. Af því skenkir hann, já, dreggjar þess súpa og sötra allir óguðlegir menn á jörðu.

10 En ég vil fagna að eilífu, lofsyngja Jakobs Guði.

11 Öll horn óguðlegra verða af höggvin, en horn réttlátra skulu hátt gnæfa.

76 Til söngstjórans. Með strengjaleik. Asafs-sálmur. Ljóð.

Guð er augljós orðinn í Júda, í Ísrael er nafn hans mikið.

Skáli hans er í Salem og bústaður hans á Síon.

Þar braut hann sundur leiftur bogans, skjöld og sverð og hervopn. [Sela]

Þú birtist dýrlegur, ógurlegri en hin öldnu fjöll.

Hinir harðsvíruðu urðu öðrum að herfangi, þeir sofnuðu svefni sínum, og hendurnar brugðust öllum hetjunum.

Fyrir ógnun þinni, Jakobs Guð, hnigu bæði vagnar og hestar í dá.

Þú ert ógurlegur, og hver fær staðist fyrir þér, er þú reiðist?

Frá himnum gjörðir þú dóm þinn heyrinkunnan, jörðin skelfdist og kyrrðist,

10 þegar Guð reis upp til dóms til þess að hjálpa öllum hrjáðum á jörðu. [Sela]

11 Því að reiði mannsins verður að lofa þig, leifum reiðinnar gyrðir þú þig.

12 Vinnið heit og efnið þau við Drottin, Guð yðar, allir þeir sem eru umhverfis hann, skulu færa gjafir hinum óttalega,

13 honum sem lægir ofstopa höfðingjanna, sem ógurlegur er konungum jarðarinnar.

Sálmarnir 23

23 Davíðssálmur. Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta.

Á grænum grundum lætur hann mig hvílast, leiðir mig að vötnum, þar sem ég má næðis njóta.

Hann hressir sál mína, leiðir mig um rétta vegu fyrir sakir nafns síns.

Jafnvel þótt ég fari um dimman dal, óttast ég ekkert illt, því að þú ert hjá mér, sproti þinn og stafur hugga mig.

Þú býr mér borð frammi fyrir fjendum mínum, þú smyr höfuð mitt með olíu, bikar minn er barmafullur.

Já, gæfa og náð fylgja mér alla ævidaga mína, og í húsi Drottins bý ég langa ævi.

Sálmarnir 27

27 Davíðssálmur. Drottinn er ljós mitt og fulltingi, hvern ætti ég að óttast? Drottinn er vígi lífs míns, hvern ætti ég að hræðast?

Þegar illvirkjarnir nálgast mig til þess að fella mig, þá verða það andstæðingar mínir og óvinir, sem hrasa og falla.

Þegar her sest um mig, óttast hjarta mitt eigi, þegar ófriður hefst í gegn mér, er ég samt öruggur.

Eins hefi ég beðið Drottin, það eitt þrái ég: Að ég fái að dveljast í húsi Drottins alla ævidaga mína til þess að fá að skoða yndisleik Drottins, sökkva mér niður í hugleiðingar í musteri hans.

Því að hann geymir mig í skjóli á óheilladeginum, hann felur mig í fylgsnum tjalds síns, lyftir mér upp á klett.

Þess vegna hefst upp höfuð mitt yfir óvini mína umhverfis mig, að ég með fögnuði megi færa fórnir í tjaldi hans, syngja og leika Drottni.

Heyr, Drottinn, ég hrópa hátt, sýn mér miskunn og svara mér!

Mér er hugsað til þín, er sagðir: "Leitið auglitis míns!" Ég vil leita auglitis þíns, Drottinn.

Hyl eigi auglit þitt fyrir mér, vísa þjóni þínum eigi frá í reiði. Þú hefir verið fulltingi mitt, hrind mér eigi burt og yfirgef mig eigi, þú Guð hjálpræðis míns.

10 Enda þótt faðir minn og móðir hafi yfirgefið mig, tekur Drottinn mig að sér.

11 Vísa mér veg þinn, Drottinn, leið mig um slétta braut sakir óvina minna.

12 Ofursel mig eigi græðgi andstæðinga minna, því að falsvitni rísa í gegn mér og menn er spúa rógmælum.

13 Ég treysti því að fá að sjá gæsku Drottins á landi lifenda!

14 Vona á Drottin, ver öruggur og hugrakkur, já, vona á Drottin.

Fjórða bók Móse 3:1-13

Þessir voru niðjar Arons og Móse, þá er Drottinn talaði við Móse á Sínaífjalli.

Þessi voru nöfn Arons sona: Nadab frumgetinn og Abíhú, Eleasar og Ítamar.

Þessi voru nöfn Arons sona, hinna smurðu presta, sem vígðir voru til prestsþjónustu,

en þeir Nadab og Abíhú dóu fyrir augliti Drottins, þá er þeir báru óvígðan eld fram fyrir Drottin í Sínaí-eyðimörk; en þeir áttu enga sonu. Þeir Eleasar og Ítamar þjónuðu því í prestsembætti frammi fyrir Aroni, föður sínum.

Drottinn talaði við Móse og sagði:

"Lát þú ættkvísl Leví koma og leið þú hana fyrir Aron prest, að þeir þjóni honum.

Þeir skulu annast það, sem annast þarf fyrir hann, og það, sem annast þarf fyrir allan söfnuðinn fyrir framan samfundatjaldið, og gegna þjónustu í búðinni.

Og þeir skulu sjá um öll áhöld samfundatjaldsins og það, sem annast þarf fyrir Ísraelsmenn, og gegna þjónustu í búðinni.

Og þú skalt gefa levítana Aroni og sonum hans. Þeir eru honum gefnir af Ísraelsmönnum til fullkominnar eignar.

10 En Aron og sonu hans skalt þú setja til þess að annast prestsembætti, og komi óvígður maður þar nærri, skal hann líflátinn verða."

11 Drottinn talaði við Móse og sagði:

12 "Sjá, ég hefi tekið levítana af Ísraelsmönnum í stað allra frumburða Ísraelsmanna, þá er opna móðurlíf, og skulu levítarnir vera mín eign.

13 Því að ég á alla frumburði. Á þeim degi, er ég laust alla frumburði í Egyptalandi, helgaði ég mér alla frumburði í Ísrael, bæði menn og skepnur. Mínir skulu þeir vera. Ég er Drottinn."

Bréf Páls til Galatamanna 6:11-17

11 Sjáið, með hversu stórum stöfum ég skrifa yður með eigin hendi.

12 Allir þeir, sem vilja líta vel út að holdinu til, það eru þeir, sem eru að þröngva yður til að láta umskerast, einungis til þess að þeir verði eigi ofsóttir vegna kross Krists.

13 Því að ekki halda einu sinni sjálfir umskurnarmennirnir lögmálið, heldur vilja þeir að þér látið umskerast, til þess að þeir geti stært sig af holdi yðar.

14 En það sé fjarri mér að hrósa mér af öðru en krossi Drottins vors Jesú Krists. Sakir hans er ég krossfestur heiminum og heimurinn mér.

15 Umskurn eða yfirhúð skipta engu, heldur að vera ný sköpun.

16 Og yfir öllum þeim, sem þessari reglu fylgja, sé friður og miskunn, og yfir Ísrael Guðs.

17 Enginn mæði mig héðan í frá, því að ég ber merki Jesú á líkama mínum.

Matteusarguðspjall 17:1-13

17 Eftir sex daga tekur Jesús með sér þá Pétur, Jakob og Jóhannes, bróður hans og fer með þá upp á hátt fjall, að þeir væru einir saman.

Þar ummyndaðist hann fyrir augum þeirra, ásjóna hans skein sem sól, og klæði hans urðu björt eins og ljós.

Og Móse og Elía birtust þeim, og voru þeir á tali við hann.

Pétur tók til máls og sagði við Jesú: "Herra, gott er, að vér erum hér. Ef þú vilt, skal ég gjöra hér þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina."

Meðan hann var enn að tala, skyggði yfir þá bjart ský, og rödd úr skýinu sagði: "Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á. Hlýðið á hann!"

Þegar lærisveinarnir heyrðu þetta, féllu þeir fram á ásjónur sínar og hræddust mjög.

Jesús gekk til þeirra, snart þá og mælti: "Rísið upp, og óttist ekki."

En er þeir hófu upp augu sín, sáu þeir engan nema Jesú einan.

Á leiðinni ofan fjallið bauð Jesús þeim og mælti: "Segið engum frá sýninni, fyrr en Mannssonurinn er risinn upp frá dauðum."

10 Lærisveinarnir spurðu hann: "Hví segja fræðimennirnir, að Elía eigi fyrst að koma?"

11 Hann svaraði: "Víst kemur Elía og færir allt í lag.

12 En ég segi yður: Elía er þegar kominn, og menn þekktu hann ekki, heldur gjörðu honum allt sem þeir vildu. Eins mun og Mannssonurinn píslir þola af hendi þeirra."

13 Þá skildu lærisveinarnir, að hann hafði talað við þá um Jóhannes skírara.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society