Book of Common Prayer
69 Til söngstjórans. Liljulag. Davíðssálmur.
2 Hjálpa mér, ó Guð, því að vötnin ætla að drekkja mér.
3 Ég er sokkinn niður í botnlausa leðju og hefi enga fótfestu, ég er kominn ofan í vatnadjúp og bylgjurnar ganga yfir mig.
4 Ég hefi æpt mig þreyttan, er orðinn brennandi þurr í kverkunum, augu mín eru döpruð orðin af að þreyja eftir Guði mínum.
5 Fleiri en hárin á höfði mér eru þeir er hata mig að ástæðulausu, fleiri en bein mín þeir sem án saka eru óvinir mínir. Því sem ég hefi eigi rænt, hefi ég samt orðið að skila aftur.
6 Þú, Guð, þekkir heimsku mína, og sakir mínar dyljast þér eigi.
7 Lát eigi þá, er vona á þig, verða til skammar mín vegna, ó Drottinn, Drottinn hersveitanna, lát eigi þá er leita þín, verða til svívirðingar mín vegna, þú Guð Ísraels.
8 Þín vegna ber ég háðung, þín vegna hylur svívirðing auglit mitt.
9 Ég er ókunnur orðinn bræðrum mínum og óþekktur sonum móður minnar.
10 Vandlæting vegna húss þíns hefir uppetið mig, og smánanir þeirra er smána þig, hafa lent á mér.
11 Ég hefi þjáð mig með föstu, en það varð mér til háðungar.
12 Ég gjörði hærusekk að klæðnaði mínum, og ég varð þeim að orðskvið.
13 Þeir er sitja í hliðinu, ræða um mig, og þeir er drekka áfengan drykk, syngja um mig.
14 En ég bið til þín, Drottinn, á stund náðar þinnar. Svara mér, Guð, í trúfesti hjálpræðis þíns sakir mikillar miskunnar þinnar.
15 Drag mig upp úr leðjunni, svo að ég sökkvi eigi, lát mig björgun hljóta frá hatursmönnum mínum og úr hafdjúpinu.
16 Lát eigi vatnsbylgjurnar ganga yfir mig, né djúpið svelgja mig, og lát eigi brunninn lykja aftur op sitt yfir mér.
17 Bænheyr mig, Drottinn, sakir gæsku náðar þinnar, snú þér að mér eftir mikilleik miskunnar þinnar.
18 Hyl eigi auglit þitt fyrir þjóni þínum, því að ég er í nauðum staddur, flýt þér að bænheyra mig.
19 Nálgast sál mína, leys hana, frelsa mig sakir óvina minna.
20 Þú þekkir háðung mína og skömm og svívirðing, allir fjendur mínir standa þér fyrir sjónum.
21 Háðungin kremur hjarta mitt, svo að ég örvænti. Ég vonaði, að einhver mundi sýna meðaumkun, en þar var enginn, og að einhverjir mundu hugga, en fann engan.
22 Þeir fengu mér malurt til matar, og við þorstanum gáfu þeir mér vínsýru að drekka.
23 Svo verði þá borðið fyrir framan þá að snöru, og að gildru fyrir þá sem ugglausir eru.
24 Myrkvist augu þeirra, svo að þeir sjái eigi, og lát lendar þeirra ávallt riða.
25 Hell þú reiði þinni yfir þá og lát þína brennandi gremi ná þeim.
26 Búðir þeirra verði eyddar og enginn búi í tjöldum þeirra,
27 því að þann sem þú hefir lostið, ofsækja þeir og auka þjáningar þeirra er þú hefir gegnumstungið.
28 Bæt sök við sök þeirra og lát þá eigi ganga inn í réttlæti þitt.
29 Verði þeir afmáðir úr bók lifenda og eigi skráðir með réttlátum.
30 En ég er volaður og þjáður, hjálp þín, ó Guð, mun bjarga mér.
31 Ég vil lofa nafn Guðs í ljóði og mikla það í lofsöng.
32 Það mun Drottni líka betur en uxar, ungneyti með hornum og klaufum.
33 Hinir auðmjúku sjá það og gleðjast, þér sem leitið Guðs _ hjörtu yðar lifni við.
34 Því að Drottinn hlustar á hina fátæku og fyrirlítur eigi bandingja sína.
35 Hann skulu lofa himinn og jörð, höfin og allt sem í þeim hrærist.
36 Því að Guð veitir Síon hjálp og reisir við borgirnar í Júda, og menn skulu búa þar og fá landið til eignar.
37 Niðjar þjóna hans munu erfa það, og þeir er elska nafn hans, byggja þar.
73 Asafs-sálmur. Vissulega er Guð góður við Ísrael, við þá sem hjartahreinir eru.
2 Nærri lá, að fætur mínir hrösuðu, lítið vantaði á, að ég skriðnaði í skrefi,
3 því að ég fylltist gremju út af hinum hrokafullu, þegar ég sá gengi hinna guðlausu.
4 Þeir hafa engar hörmungar að bera, líkami þeirra er heill og hraustur.
5 Þeim mætir engin mæða sem öðrum mönnum, og þeir verða eigi fyrir neinum áföllum eins og aðrir menn.
6 Fyrir því er hrokinn hálsfesti þeirra, þeir eru sveipaðir ofríki eins og yfirhöfn.
7 Frá mörhjarta kemur misgjörð þeirra, girndir þeirra ganga fram úr öllu hófi.
8 Þeir spotta og tala af illsku, mæla kúgunarorð í mikilmennsku sinni.
9 Með munni sínum snerta þeir himininn, en tunga þeirra er tíðförul um jörðina.
10 Fyrir því aðhyllist lýðurinn þá og teygar gnóttir vatns.
11 Þeir segja: "Hvernig ætti Guð að vita og Hinn hæsti að hafa nokkra þekkingu?"
12 Sjá, þessir menn eru guðlausir, og þó lifa þeir ætíð áhyggjulausir og auka efni sín.
13 Vissulega hefi ég til ónýtis haldið hjarta mínu hreinu og þvegið hendur mínar í sakleysi,
14 ég þjáist allan daginn, og á hverjum morgni bíður mín hirting.
15 Ef ég hefði haft í hyggju að tala þannig, sjá, þá hefði ég brugðið trúnaði við kyn barna þinna.
16 En ég hugsaði um, hvernig ég ætti að skilja það, það var erfitt í augum mínum,
17 uns ég kom inn í helgidóma Guðs og skildi afdrif þeirra:
18 Vissulega setur þú þá á sleipa jörð, þú lætur þá falla í rústir.
19 Sviplega verða þeir að auðn, líða undir lok, tortímdir af skelfingum.
20 Eins og draum er maður vaknar, þannig fyrirlítur þú, Drottinn, mynd þeirra, er þú ríst á fætur.
21 Þegar beiskja var í hjarta mínu og kvölin nísti hug minn,
22 þá var ég fáráðlingur og vissi ekkert, var sem skynlaus skepna gagnvart þér.
23 En ég er ætíð hjá þér, þú heldur í hægri hönd mína.
24 Þú munt leiða mig eftir ályktun þinni, og síðan munt þú taka við mér í dýrð.
25 Hvern á ég annars að á himnum? Og hafi ég þig, hirði ég eigi um neitt á jörðu.
26 Þótt hold mitt og hjarta tærist, er Guð bjarg hjarta míns og hlutskipti mitt um eilífð.
27 Því sjá, þeir sem fjarlægjast þig, farast, þú afmáir alla þá, sem eru þér ótrúir.
28 En mín gæði eru það að vera nálægt Guði, ég hefi gjört Drottin að athvarfi mínu og segi frá öllum verkum þínum.
9 Gleð þig, ungi maður, í æsku þinni, og lát liggja vel á þér unglingsár þín, og breyt þú eins og hjartað leiðir þig og eins og augun girnast, en vit, að fyrir allt þetta leiðir Guð þig fyrir dóm.
10 Og hrind gremju burt frá hjarta þínu og lát eigi böl koma nærri líkama þínum, því að æska og morgunroði lífsins eru hverful.
12 Og mundu eftir skapara þínum á unglingsárum þínum, áður en vondu dagarnir koma og þau árin nálgast, er þú segir um: "Mér líka þau ekki" _
2 áður en sólin myrkvast og ljósið og tunglið og stjörnurnar, og áður en skýin koma aftur eftir regnið _
3 þá er þeir skjálfa, sem hússins geyma, og sterku mennirnir verða bognir og kvarnarstúlkurnar hafast ekki að, af því að þær eru orðnar fáar, og dimmt er orðið hjá þeim, sem líta út um gluggana,
4 og dyrunum út að götunni er lokað, og hávaðinn í kvörninni minnkar, og menn fara á fætur við fuglskvak, en allir söngvarnir verða lágværir,
5 þá menn eru hræddir við hæðir og sjá skelfingar á veginum, og þegar möndlutréð stendur í blóma og engispretturnar dragast áfram og kaper-ber hrífa ekki lengur, því að maðurinn fer burt til síns eilífðar-húss og grátendurnir ganga um strætið _
6 áður en silfurþráðurinn slitnar og gullskálin brotnar og skjólan mölvast við lindina og hjólið brotnar við brunninn
7 og moldin hverfur aftur til jarðarinnar, þar sem hún áður var, og andinn til Guðs, sem gaf hann.
8 Aumasti hégómi, segir prédikarinn, allt er hégómi!
9 En auk þess sem prédikarinn var spekingur, miðlaði hann og mönnum þekkingu og rannsakaði og kynnti sér og samdi mörg spakmæli.
10 Prédikarinn leitaðist við að finna fögur orð, og það sem hann hefir skrifað í einlægni, eru sannleiksorð.
11 Orð spekinganna eru eins og broddar og kjarnyrðin eins og fastreknir naglar _ þau eru gefin af einum hirði.
12 Og enn fremur, sonur minn, þýðstu viðvaranir. Að taka saman margar bækur, á því er enginn endir, og mikil bókiðn þreytir líkamann.
13 Vér skulum hlýða á niðurlagsorðið í því öllu: Óttastu Guð og haltu hans boðorð, því að það á hver maður að gjöra.
25 Fyrst andinn er líf vort skulum vér lifa í andanum!
26 Verum ekki hégómagjarnir, svo að vér áreitum hver annan og öfundum hver annan.
6 Bræður! Ef einhver misgjörð kann að henda mann, þá leiðréttið þér, sem andlegir eruð, þann mann með hógværð. Og haf gát á sjálfum þér, að þú freistist ekki líka.
2 Berið hver annars byrðar og uppfyllið þannig lögmál Krists.
3 Sá sem þykist vera nokkuð, en er þó ekkert, dregur sjálfan sig á tálar.
4 En sérhver rannsaki breytni sjálfs sín og þá mun hann hafa hrósunarefni í samanburði við sjálfan sig, en ekki miðað við aðra,
5 því að sérhver mun verða að bera sína byrði.
6 En sá, sem uppfræðist í orðinu, veiti þeim, sem uppfræðir, hlutdeild með sér í öllum gæðum.
7 Villist ekki! Guð lætur ekki að sér hæða. Það sem maður sáir, það mun hann og uppskera.
8 Sá sem sáir í hold sjálfs sín, mun af holdinu uppskera glötun, en sá sem sáir í andann, mun af andanum uppskera eilíft líf.
9 Þreytumst ekki að gjöra það sem gott er, því að á sínum tíma munum vér uppskera, ef vér gefumst ekki upp.
10 Þess vegna skulum vér, meðan tími er til, gjöra öllum gott og einkum trúbræðrum vorum.
21 Upp frá þessu tók Jesús að sýna lærisveinum sínum fram á, að hann ætti að fara til Jerúsalem, líða þar margt af hendi öldunga, æðstu presta og fræðimanna og verða líflátinn, en rísa upp á þriðja degi.
22 En Pétur tók hann á einmæli og fór að átelja hann: "Guð náði þig, herra, þetta má aldrei fyrir þig koma."
23 Jesús sneri sér við og mælti til Péturs: "Vík frá mér, Satan, þú ert mér til ásteytingar, þú hugsar ekki um það, sem Guðs er, heldur það, sem manna er."
24 Þá mælti Jesús við lærisveina sína: "Hver sem vill fylgja mér, afneiti sjálfum sér, taki kross sinn og fylgi mér.
25 Því að hver sem vill bjarga lífi sínu, mun týna því, og hver sem týnir lífi sínu mín vegna, mun finna það.
26 Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn og fyrirgjöra sálu sinni? Eða hvað gæti maður látið til endurgjalds fyrir sálu sína?
27 Mannssonurinn mun koma í dýrð föður síns með englum sínum, og þá mun hann gjalda sérhverjum eftir breytni hans.
28 Sannlega segi ég yður: Nokkrir þeirra, sem hér standa, munu eigi dauða bíða, fyrr en þeir sjá Mannssoninn koma í ríki sínu."
by Icelandic Bible Society