Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 31

31 Til söngstjórans. Davíðssálmur.

Hjá þér, Drottinn, leita ég hælis, lát mig aldrei verða til skammar. Bjarga mér eftir réttlæti þínu,

hneig eyru þín til mín, frelsa mig í skyndi, ver mér verndarbjarg, vígi mér til hjálpar.

Því að þú ert bjarg mitt og vígi, og sakir nafns þíns munt þú leiða mig og stjórna mér.

Þú munt draga mig úr neti því, er þeir lögðu leynt fyrir mig, því að þú ert vörn mín.

Í þínar hendur fel ég anda minn, þú frelsar mig, Drottinn, þú trúfasti Guð!

Ég hata þá, er dýrka fánýt falsgoð, en Drottni treysti ég.

Ég vil gleðjast og fagna yfir miskunn þinni, því að þú hefir litið á eymd mína, gefið gætur að sálarneyð minni

og eigi ofurselt mig óvinunum, en sett fót minn á víðlendi.

10 Líkna mér, Drottinn, því að ég er í nauðum staddur, döpruð af harmi eru augu mín, sál mín og líkami.

11 Ár mín líða í harmi og líf mitt í andvörpum, mér förlast kraftur sakir sektar minnar, og bein mín tærast.

12 Ég er að spotti öllum óvinum mínum, til háðungar nábúum mínum og skelfing kunningjum mínum: þeir sem sjá mig á strætum úti flýja mig.

13 Sem dáinn maður er ég gleymdur hjörtum þeirra, ég er sem ónýtt ker.

14 Ég heyri illyrði margra, _ skelfing er allt um kring _ þeir bera ráð sín saman móti mér, hyggja á að svipta mig lífi.

15 En ég treysti þér, Drottinn, ég segi: "Þú ert Guð minn!"

16 Í þinni hendi eru stundir mínar, frelsa mig af hendi óvina minna og ofsækjenda.

17 Lát ásjónu þína lýsa yfir þjón þinn, hjálpa mér sakir elsku þinnar.

18 Ó Drottinn, lát mig eigi verða til skammar, því að ég ákalla þig. Lát hina guðlausu verða til skammar, hverfa hljóða til Heljar.

19 Lát lygavarirnar þagna, þær er mæla drambyrði gegn réttlátum með hroka og fyrirlitningu.

20 Hversu mikil er gæska þín, er þú hefir geymt þeim er óttast þig, og auðsýnir þeim er leita hælis hjá þér frammi fyrir mönnunum.

21 Þú hylur þá í skjóli auglitis þíns fyrir svikráðum manna, felur þá í leyni fyrir deilum tungnanna.

22 Lofaður sé Drottinn, því að hann hefir sýnt mér dásamlega náð í öruggri borg.

23 Ég hugsaði í angist minni: "Ég er burtrekinn frá augum þínum." En samt heyrðir þú grátraust mína, er ég hrópaði til þín.

24 Elskið Drottin, allir þér hans trúuðu, Drottinn verndar trúfasta, en geldur í fullum mæli þeim er ofmetnaðarverk vinna.

25 Verið öruggir og hughraustir, allir þér er vonið á Drottin.

Sálmarnir 35

35 Davíðssálmur. Deil þú, Drottinn, við þá er deila við mig, berst þú við þá er berjast við mig.

Tak skjöld og törgu og rís upp mér til hjálpar.

Tak til spjót og öxi til þess að mæta ofsækjendum mínum, seg við sál mína: "Ég er hjálp þín!"

Lát þá er sitja um líf mitt hljóta smán og svívirðing, lát þá hverfa aftur með skömm, er ætla að gjöra mér illt.

Lát þá verða sem sáðir fyrir vindi, þegar engill Drottins varpar þeim um koll.

Lát veg þeirra verða myrkan og hálan, þegar engill Drottins eltir þá.

Því að ástæðulausu hafa þeir lagt net sitt leynt fyrir mig, að ástæðulausu hafa þeir grafið gryfju fyrir mig.

Lát tortíming koma yfir þá, er þá varir minnst, lát netið, er þeir hafa lagt leynt, veiða sjálfa þá, lát þá falla í þeirra eigin gryfju.

En sál mín skal kætast yfir Drottni, gleðjast yfir hjálpræði hans.

10 Öll bein mín skulu segja: "Drottinn, hver er sem þú, er frelsar hinn umkomulausa frá þeim sem er honum yfirsterkari, hinn hrjáða og snauða frá þeim sem rænir hann?"

11 Ljúgvottar rísa upp, þeir spyrja mig um það sem ég veit ekki um.

12 Þeir launa mér gott með illu, einsemd varð hlutfall mitt.

13 En þegar þeir voru sjúkir, klæddist ég hærusekk, þjáði mig með föstu og bað með niðurlútu höfði,

14 gekk um harmandi, sem vinur eða bróðir ætti í hlut, var beygður eins og sá er syrgir móður sína.

15 En þeir fagna yfir hrösun minni og safnast saman, útlendingar og ókunnugir menn safnast saman móti mér, mæla lastyrði og þagna eigi.

16 Þeir freista mín, smána og smána, nísta tönnum í gegn mér.

17 Drottinn, hversu lengi vilt þú horfa á? Frelsa sál mína undan eyðileggingu þeirra, mína einmana sál undan ljónunum.

18 Þá vil ég lofa þig í miklum söfnuði, vegsama þig í miklum mannfjölda.

19 Lát eigi þá sem án saka eru óvinir mínir, hlakka yfir mér, lát eigi þá sem að ástæðulausu hata mig, skotra augunum.

20 Því að frið tala þeir eigi, og móti hinum kyrrlátu í landinu hugsa þeir upp sviksamleg orð.

21 Þeir glenna upp ginið í móti mér, segja: "Hæ, hæ! Nú höfum vér séð það með eigin augum!"

22 Þú hefir séð það, Drottinn, ver eigi hljóður, Drottinn, ver eigi langt í burtu frá mér.

23 Vakna, rís upp og lát mig ná rétti mínum, Guð minn og Drottinn, til þess að flytja mál mitt.

24 Dæm mig eftir réttlæti þínu, Drottinn, Guð minn, og lát þá eigi hlakka yfir mér,

25 lát þá ekki segja í hjarta sínu: "Hæ! Ósk vor er uppfyllt!" lát þá ekki segja: "Vér höfum gjört út af við hann."

26 Lát þá alla verða til skammar og hljóta kinnroða, er hlakka yfir ógæfu minni, lát þá íklæðast skömm og svívirðing, er hreykja sér upp gegn mér.

27 Lát þá kveða fagnaðarópi og gleðjast, er unna mér réttar, lát þá ætíð segja: "Vegsamaður sé Drottinn, hann sem ann þjóni sínum heilla!"

28 Og tunga mín skal boða réttlæti þitt, lofstír þinn liðlangan daginn.

Orðskviðirnir 23:19-21

19 Heyr þú, son minn, og ver vitur og stýr hjarta þínu rétta leið.

20 Ver þú ekki með drykkjurútum, með þeim, sem hvoma í sig kjöt,

21 því að drykkjurútar og mathákar verða snauðir, og svefnmók klæðir í tötra.

Orðskviðirnir 23:29-24:2

29 Hver æjar? hver veinar? hver á í deilum? hver kvartar? hver fær sár að þarflausu? hver rauð augu?

30 Þeir sem sitja við vín fram á nætur, þeir sem koma saman til að bergja á krydduðum drykkjum.

31 Horf þú ekki á vínið, hve rautt það er, hversu það glóir í bikarnum og rennur ljúflega niður.

32 Að síðustu bítur það sem höggormur og spýtir eitri sem naðra.

33 Augu þín munu sjá kynlega hluti, og hjarta þitt mun mæla fláræði.

34 Og þú munt vera eins og sá, sem liggur úti í miðju hafi, já, eins og sá, er liggur efst uppi á siglutré.

35 "Þeir hafa slegið mig, ég kenndi ekkert til, þeir hafa barið mig, ég varð þess ekki var. Hvenær mun ég vakna? Ég vil meira vín!"

24 Öfunda ekki vonda menn og lát þig ekki langa til að vera með þeim,

því að hjarta þeirra býr yfir ofríkisverkum, og varir þeirra mæla ógæfu.

Fyrra bréf Páls til Tímót 5:17-25

17 Öldungar þeir, sem veita góða forstöðu, séu hafðir í tvöföldum metum, allra helst þeir sem erfiða í orðinu og í kennslu.

18 Því að ritningin segir: "Þú skalt ekki múlbinda uxann, er hann þreskir" og "verður er verkamaðurinn launa sinna."

19 Tak þú ekki við kæru gegn öldungi, nema tveir eða þrír vottar beri.

20 Ávíta brotlega í viðurvist allra, til þess að hinir megi hafa ótta.

21 Ég heiti á þig fyrir augliti Guðs og Krists Jesú og hinna útvöldu engla, að þú gætir þessa án nokkurs fordóms og gjörir ekkert af vilfylgi.

22 Eigi skalt þú fljótráðið leggja hendur yfir nokkurn mann. Tak eigi heldur þátt í annarra syndum, varðveit sjálfan þig hreinan.

23 Ver þú ekki lengur að drekka vatn, heldur skalt þú neyta lítils eins af víni vegna magans og veikinda þinna, sem eru svo tíð.

24 Syndirnar hjá sumum mönnum eru í augum uppi og eru komnar á undan, þegar dæma skal. En hjá sumum koma þær líka á eftir.

25 Á sama hátt eru góðverkin augljós, og þau, sem eru það ekki, munu ekki geta dulist.

Matteusarguðspjall 13:31-35

31 Aðra dæmisögu sagði hann þeim: "Líkt er himnaríki mustarðskorni, sem maður tók og sáði í akur sinn.

32 Smæst er það allra sáðkorna, en nær það vex, er það öllum jurtum meira, það verður tré, og fuglar himins koma og hreiðra sig í greinum þess."

33 Aðra dæmisögu sagði hann þeim: "Líkt er himnaríki súrdeigi, er kona tók og fól í þrem mælum mjöls, uns það sýrðist allt."

34 Þetta allt talaði Jesús í dæmisögum til fólksins, og án dæmisagna talaði hann ekki til þeirra.

35 Það átti að rætast, sem sagt er fyrir munn spámannsins: Ég mun opna munn minn í dæmisögum, mæla fram það, sem hulið var frá grundvöllun heims.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society