Book of Common Prayer
25 Davíðssálmur.
2 Til þín, Drottinn, hef ég sál mína, Guð minn, þér treysti ég. Lát mig eigi verða til skammar, lát eigi óvini mína hlakka yfir mér.
3 Hver sá er á þig vonar, mun eigi heldur verða til skammar, þeir verða til skammar, er ótrúir eru að raunalausu.
4 Vísa mér vegu þína, Drottinn, kenn mér stigu þína.
5 Lát mig ganga í sannleika þínum og kenn mér, því að þú ert Guð hjálpræðis míns, allan daginn vona ég á þig.
6 Minnst þú miskunnar þinnar, Drottinn, og kærleiksverka, því að þau eru frá eilífð.
7 Minnst eigi æskusynda minna og afbrota, minnst mín eftir elsku þinni sakir gæsku þinnar, Drottinn.
8 Góður og réttlátur er Drottinn, þess vegna vísar hann syndurum veginn.
9 Hann lætur hina hrjáðu ganga eftir réttlætinu og kennir hinum þjökuðu veg sinn.
10 Allir vegir Drottins eru elska og trúfesti fyrir þá er gæta sáttmála hans og vitnisburða.
11 Sakir nafns þíns, Drottinn, fyrirgef mér sekt mína, því að hún er mikil.
12 Ef einhver óttast Drottin, mun hann kenna honum veg þann er hann á að velja.
13 Sjálfur mun hann búa við hamingju, og niðjar hans eignast landið.
14 Drottinn sýnir trúnað þeim er óttast hann, og sáttmála sinn gjörir hann þeim kunnan.
15 Augu mín mæna ætíð til Drottins, því að hann greiðir fót minn úr snörunni.
16 Snú þér til mín og líkna mér, því að ég er einmana og hrjáður.
17 Angist sturlar hjarta mitt, leið mig úr nauðum mínum.
18 Lít á eymd mína og armæðu og fyrirgef allar syndir mínar.
19 Lít á, hversu margir óvinir mínir eru, með rangsleitnishatri hata þeir mig.
20 Varðveit líf mitt og frelsa mig, lát mig eigi verða til skammar, því að hjá þér leita ég hælis.
21 Lát ráðvendni og hreinskilni gæta mín, því að á þig vona ég.
22 Frelsa Ísrael, ó Guð, úr öllum nauðum hans.
9 Til söngstjórans. Almút labben. Davíðssálmur.
2 Ég vil lofa þig, Drottinn, af öllu hjarta, segja frá öllum þínum dásemdarverkum.
3 Ég vil gleðjast og kætast yfir þér, lofsyngja nafni þínu, þú Hinn hæsti.
4 Óvinir mínir hörfuðu undan, hrösuðu og fórust fyrir augliti þínu.
5 Já, þú hefir látið mig ná rétti mínum og flutt mál mitt, setst í hásætið sem réttlátur dómari.
6 Þú hefir hastað á þjóðirnar, tortímt hinum óguðlegu, afmáð nafn þeirra um aldur og ævi.
7 Óvinirnir eru liðnir undir lok _ rústir að eilífu _ og borgirnar hefir þú brotið, minning þeirra er horfin.
8 En Drottinn ríkir að eilífu, hann hefir reist hásæti sitt til dóms.
9 Hann dæmir heiminn með réttvísi, heldur réttlátan dóm yfir þjóðunum.
10 Og Drottinn er vígi orðinn hinum kúguðu, vígi á neyðartímum.
11 Þeir er þekkja nafn þitt, treysta þér, því að þú, Drottinn, yfirgefur eigi þá, er þín leita.
12 Lofsyngið Drottni, þeim er býr á Síon, gjörið stórvirki hans kunn meðal þjóðanna.
13 Því að hann sem blóðs hefnir hefir minnst þeirra, hann hefir eigi gleymt hrópi hinna hrjáðu:
14 "Líkna mér, Drottinn, sjá þú eymd mína, er hatursmenn mínir baka mér, þú sem lyftir mér upp frá hliðum dauðans,
15 að ég megi segja frá öllum lofstír þínum, fagna yfir hjálp þinni í hliðum Síonardóttur."
16 Lýðirnir eru fallnir í gryfju þá, er þeir gjörðu, fætur þeirra festust í neti því, er þeir lögðu leynt.
17 Drottinn er kunnur orðinn: Hann hefir háð dóm, hinn óguðlegi festist í því, er hendur hans höfðu gjört. [Strengjaleikur. Sela]
18 Hinir óguðlegu hrapa til Heljar, allar þjóðir er gleyma Guði.
19 Hinum snauða verður eigi ávallt gleymt, von hinna hrjáðu bregst eigi sífellt.
20 Rís þú upp, Drottinn! Lát eigi dauðlega menn verða yfirsterkari, lát þjóðirnar hljóta dóm fyrir augliti þínu.
21 Skjót lýðunum skelk í bringu, Drottinn! Lát þá komast að raun um, að þeir eru dauðlegir menn. [Sela]
15 Davíðssálmur Drottinn, hver fær að gista í tjaldi þínu, hver fær að búa á fjallinu þínu helga?
2 Sá er fram gengur í flekkleysi og iðkar réttlæti og talar sannleik af hjarta,
3 sá er eigi talar róg með tungu sinni, eigi gjörir öðrum mein og eigi leggur náunga sínum svívirðing til;
4 sem fyrirlítur þá er illa breyta, en heiðrar þá er óttast Drottin, sá er sver sér í mein og bregður eigi af,
5 sá er eigi lánar fé sitt með okri og eigi þiggur mútur gegn saklausum _ sá er þetta gjörir, mun eigi haggast um aldur.
10 Orðskviðir Salómons. Vitur sonur gleður föður sinn, en heimskur sonur er móður sinni til mæðu.
2 Rangfenginn auður stoðar ekki, en réttlæti frelsar frá dauða.
3 Drottinn lætur ekki réttlátan mann þola hungur, en græðgi guðlausra hrindir hann frá sér.
4 Snauður verður sá, er með hangandi hendi vinnur, en auðs aflar iðin hönd.
5 Hygginn er sá, er á sumri safnar, en skammarlega fer þeim, er um kornsláttinn sefur.
6 Blessun kemur yfir höfuð hins réttláta, en munnur óguðlegra hylmir yfir ofbeldi.
7 Minning hins réttláta verður blessuð, en nafn óguðlegra fúnar.
8 Sá sem er vitur í hjarta, þýðist boðorðin, en sá sem er afglapi í munninum, steypir sér í glötun.
9 Sá sem gengur ráðvandlega, gengur óhultur, en sá sem gjörir vegu sína hlykkjótta, verður uppvís.
10 Sá sem deplar með auganu, veldur skapraun, en sá sem finnur að með djörfung, semur frið.
11 Munnur hins réttláta er lífslind, en munnur óguðlegra hylmir yfir ofbeldi.
12 Hatur vekur illdeilur, en kærleikurinn breiðir yfir alla bresti.
1 Páll, postuli Krists Jesú, að boði Guðs frelsara vors og Krists Jesú, vonar vorrar, heilsar
2 Tímóteusi, skilgetnum syni sínum í trúnni. Náð, miskunn og friður frá Guði föður og Kristi Jesú, Drottni vorum.
3 Þegar ég var á förum til Makedóníu, hvatti ég þig að halda kyrru fyrir í Efesus. Þú áttir að bjóða sumum mönnum að fara ekki með annarlegar kenningar
4 og gefa sig ekki að ævintýrum og endalausum ættartölum, er fremur efla þrætur en trúarskilning á ráðstöfun Guðs.
5 Markmið þessarar hvatningar er kærleikur af hreinu hjarta, góðri samvisku og hræsnislausri trú.
6 Sumir eru viknir frá þessu og hafa snúið sér til hégómamáls.
7 Þeir vilja vera lögmálskennendur, þó að hvorki skilji þeir, hvað þeir sjálfir segja, né hvað þeir eru að fullyrða.
8 Vér vitum, að lögmálið er gott, noti maðurinn það réttilega
9 og viti að það er ekki ætlað réttlátum, heldur lögleysingjum og þverbrotnum, óguðlegum og syndurum, vanheilögum og óhreinum, föðurmorðingjum og móðurmorðingjum, manndrápurum,
10 frillulífismönnum, mannhórum, mannaþjófum, lygurum, meinsærismönnum, og hvað sem það er nú annað, sem gagnstætt er hinni heilnæmu kenningu.
11 Þetta er samkvæmt fagnaðarerindinu um dýrð hins blessaða Guðs, sem mér var trúað fyrir.
12 Ég þakka honum, sem mig styrkan gjörði, Kristi Jesú, Drottni vorum, fyrir það að hann sýndi mér það traust að fela mér þjónustu,
13 mér, sem fyrrum var lastmælandi, ofsóknari og smánari. En mér var miskunnað, sökum þess að ég gjörði það í vantrú, án þess að vita, hvað ég gjörði.
14 Og náðin Drottins vors varð stórlega rík með trúnni og kærleikanum, sem veitist í Kristi Jesú.
15 Það orð er satt, og í alla staði þess vert, að við því sé tekið, að Kristur Jesús kom í heiminn til að frelsa synduga menn, og er ég þeirra fremstur.
16 En fyrir þá sök var mér miskunnað, að Kristur Jesús skyldi sýna á mér fyrstum gjörvallt langlyndi sitt, þeim til dæmis, er á hann munu trúa til eilífs lífs.
17 Konungi eilífðar, ódauðlegum, ósýnilegum, einum Guði sé heiður og dýrð um aldir alda. Amen.
22 Þá var færður til hans maður haldinn illum anda, blindur og mállaus. Hann læknaði hann, svo að hinn dumbi gat talað og séð.
23 Allt fólkið varð furðu lostið og sagði: "Hann er þó ekki sonur Davíðs?"
24 Þegar farísear heyrðu það, sögðu þeir: "Þessi rekur ekki út illa anda nema með fulltingi Beelsebúls, höfðingja illra anda."
25 En Jesús vissi hugsanir þeirra og sagði við þá: "Hvert það ríki, sem er sjálfu sér sundurþykkt, leggst í auðn, og hver sú borg eða heimili, sem er sjálfu sér sundurþykkt, fær ekki staðist.
26 Ef Satan rekur Satan út, er hann sjálfum sér sundurþykkur. Hvernig fær ríki hans þá staðist?
27 Og ef ég rek illu andana út með fulltingi Beelsebúls, með hverju reka þá yðar menn þá út? Því skulu þeir vera dómarar yðar.
28 En ef ég rek illu andana út með Guðs anda, þá er Guðs ríki þegar yfir yður komið.
29 Eða hvernig fær nokkur brotist inn í hús hins sterka og rænt föngum hans, nema hann bindi áður hinn sterka, þá getur hann rænt hús hans.
30 Hver sem er ekki með mér, er á móti mér, og hver sem safnar ekki saman með mér, hann sundurdreifir.
31 Þess vegna segi ég yður: Hver synd og guðlöstun verður mönnum fyrirgefin, en guðlast gegn andanum verður ekki fyrirgefið.
32 Hverjum sem mælir gegn Mannssyninum, verður það fyrirgefið, en þeim sem mælir gegn heilögum anda, verður ekki fyrirgefið, hvorki í þessum heimi né í hinum komanda.
by Icelandic Bible Society