Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 16-17

16 Davíðs-miktam. Varðveit mig, Guð, því að hjá þér leita ég hælis.

Ég segi við Drottin: "Þú ert Drottinn minn, ég á engin gæði nema þig."

Á hinum heilögu sem í landinu eru og hinum dýrlegu _ á þeim hefi ég alla mína velþóknun.

Miklar eru þjáningar þeirra, er kjörið hafa sér annan guð. Ég vil eigi dreypa þeirra blóðugu dreypifórnum og eigi taka nöfn þeirra mér á varir.

Drottinn er hlutskipti mitt og minn afmældi bikar; þú heldur uppi hlut mínum.

Mér féllu að erfðahlut indælir staðir, og arfleifð mín líkar mér vel.

Ég lofa Drottin, er mér hefir ráð gefið, jafnvel um nætur er ég áminntur hið innra.

Ég hefi Drottin ætíð fyrir augum, þegar hann er mér til hægri handar, skriðnar mér ekki fótur.

Fyrir því fagnar hjarta mitt, sál mín gleðst, og líkami minn hvílist í friði,

10 því að þú ofurselur Helju eigi líf mitt, leyfir eigi að þinn trúaði sjái gröfina.

11 Kunnan gjörir þú mér veg lífsins, gleðignótt er fyrir augliti þínu, yndi í hægri hendi þinni að eilífu.

17 Bæn Davíðs. Heyr, Drottinn, á réttvíst málefni, hlýð á hróp mitt, ljá eyra bæn minni, er ég flyt með tállausum vörum.

Lát rétt minn út ganga frá augliti þínu, augu þín sjá hvað rétt er.

Þá er þú rannsakar hjarta mitt, prófar það um nætur, reynir mig í eldi, þá finnur þú engar illar hugsanir hjá mér, munnur minn heldur sér í skefjum.

Hvað sem aðrir gjöra, þá hefi ég eftir orði vara þinna forðast vegu ofbeldismannsins.

Skref mín fylgdu sporum þínum, mér skriðnaði ekki fótur.

Ég kalla á þig, því að þú svarar mér, ó Guð, hneig eyru þín til mín, hlýð á orð mín.

Veit mér þína dásamlegu náð, þú sem hjálpar þeim er leita hælis við þína hægri hönd fyrir ofsækjendum.

Varðveit mig sem sjáaldur augans, fel mig í skugga vængja þinna

fyrir hinum guðlausu, er sýna mér ofbeldi, fyrir gráðugum óvinum, er kringja um mig.

10 Mörhjörtum sínum hafa þeir lokað, með munni sínum mæla þeir drambsamleg orð.

11 Hvar sem ég geng, umkringja þeir mig, þeir beina augum sínum að því að varpa mér til jarðar.

12 Þeir líkjast ljóni er langar í bráð, ungu ljóni, er liggur í felum.

13 Rís upp, Drottinn! Far í móti óvininum og varpa honum niður, frelsa mig undan hinum óguðlega með sverði þínu.

14 Frelsa mig undan mönnunum með hendi þinni, Drottinn, undan mönnum heimsins, sem hafa hlutskipti sitt í lífinu og þú kviðfyllir gæðum þínum. Þeir eru ríkir að sonum og skilja börnum sínum eftir nægtir sínar.

15 En ég mun sakir réttlætisins skoða auglit þitt, þá er ég vakna, mun ég mettast af mynd þinni.

Sálmarnir 22

22 Til söngstjórans. Lag: Hind morgunroðans. Davíðssálmur.

Guð minn, Guð minn, hví hefir þú yfirgefið mig? Ég hrópa, en hjálp mín er fjarlæg.

"Guð minn!" hrópa ég um daga, en þú svarar ekki, og um nætur, en ég finn enga fró.

Og samt ert þú Hinn heilagi, sá er ríkir uppi yfir lofsöngvum Ísraels.

Þér treystu feður vorir, þeir treystu þér, og þú hjálpaðir þeim,

til þín hrópuðu þeir, og þeim var bjargað, þér treystu þeir og urðu ekki til skammar.

En ég er maðkur og eigi maður, til spotts fyrir menn og fyrirlitinn af lýðnum.

Allir þeir er sjá mig gjöra gys að mér, bregða grönum og hrista höfuðið.

"Hann fól málefni sitt Drottni. Hann hjálpi honum! hann frelsi hann, því að hann hefir þóknun á honum!"

10 Já, þú leiddir mig fram af móðurlífi, lést mig liggja öruggan við brjóst móður minnar.

11 Til þín var mér varpað frá móðurskauti, frá móðurlífi ert þú Guð minn.

12 Ver eigi fjarri mér, því að neyðin er nærri, og enginn hjálpar.

13 Sterk naut umkringja mig, Basans uxar slá hring um mig.

14 Þeir glenna upp ginið í móti mér sem bráðsólgið, öskrandi ljón.

15 Mér er hellt út sem vatni, og öll bein mín eru gliðnuð sundur; hjarta mitt er sem vax, bráðnað sundur í brjósti mér;

16 gómur minn er þurr sem brenndur leir, og tungan loðir föst í munni mér. Og í duft dauðans leggur þú mig.

17 Því að hundar umkringja mig, hópur illvirkja slær hring um mig, hendur mínar og fætur hafa þeir gegnumstungið.

18 Ég get talið öll mín bein _ þeir horfa á og hafa mig að augnagamni,

19 þeir skipta með sér klæðum mínum og kasta hlut um kyrtil minn.

20 En þú, ó Drottinn, ver eigi fjarri! þú styrkur minn, skunda mér til hjálpar,

21 frelsa líf mitt undan sverðinu og sál mína undan hundunum.

22 Frelsa mig úr gini ljónsins, frá hornum vísundarins. Þú hefir bænheyrt mig!

23 Ég vil kunngjöra bræðrum mínum nafn þitt, í söfnuðinum vil ég lofa þig!

24 Þér sem óttist Drottin, lofið hann! Tignið hann, allir niðjar Jakobs! Dýrkið hann, allir niðjar Ísraels!

25 Því að hann hefir eigi fyrirlitið né virt að vettugi neyð hins hrjáða og eigi hulið auglit sitt fyrir honum, heldur heyrt, er hann hrópaði til hans.

26 Frá þér kemur lofsöngur minn í stórum söfnuði, heit mín vil ég efna frammi fyrir þeim er óttast hann.

27 Snauðir munu eta og verða mettir, þeir er leita Drottins munu lofa hann. Hjörtu yðar lifni við að eilífu.

28 Endimörk jarðar munu minnast þess og hverfa aftur til Drottins og allar ættir þjóðanna falla fram fyrir augliti hans.

29 Því að ríkið heyrir Drottni, og hann er drottnari yfir þjóðunum.

30 Já, fyrir honum munu öll stórmenni jarðar falla fram, fyrir honum munu beygja sig allir þeir er hníga í duftið. En ég vil lifa honum,

31 niðjar mínir munu þjóna honum. Komandi kynslóðum mun sagt verða frá Drottni,

32 og lýð sem enn er ófæddur mun boðað réttlæti hans, að hann hefir framkvæmt það.

Orðskviðirnir 8:1-21

Heyr, spekin kallar og hyggnin lætur raust sína gjalla.

Uppi á hæðunum við veginn, þar sem göturnar kvíslast _ stendur hún.

Við hliðin, þar sem gengið er út úr borginni, þar sem gengið er inn um dyrnar, kallar hún hátt:

Til yðar, menn, tala ég, og raust mín hljómar til mannanna barna.

Þér óreyndu, lærið hyggindi, og þér heimskingjar, lærið skynsemi.

Hlýðið á, því að ég tala það sem göfuglegt er, og varir mínar tjá það sem rétt er.

Því að sannleika mælir gómur minn og guðleysi er viðbjóður vörum mínum.

Einlæg eru öll orð munns míns, í þeim er ekkert fals né fláræði.

Öll eru þau einföld þeim sem skilning hefir, og blátt áfram fyrir þann sem hlotið hefir þekkingu.

10 Takið á móti ögun minni fremur en á móti silfri og fræðslu fremur en úrvals gulli.

11 Því að viska er betri en perlur, og engir dýrgripir jafnast á við hana.

12 Ég, spekin, er handgengin hyggindunum og ræð yfir ráðdeildarsamri þekking.

13 Að óttast Drottin er að hata hið illa, drambsemi og ofdramb og illa breytni og fláráðan munn _ það hata ég.

14 Mín er ráðspekin og framkvæmdarsemin, ég er hyggnin, minn er krafturinn.

15 Fyrir mína hjálp ríkja konungarnir og úrskurða höfðingjarnir réttvíslega.

16 Fyrir mína hjálp stjórna stjórnendurnir og tignarmennin _ allir valdsmenn á jörðu.

17 Ég elska þá sem mig elska, og þeir sem leita mín, finna mig.

18 Auður og heiður eru hjá mér, ævagamlir fjármunir og réttlæti.

19 Ávöxtur minn er betri en gull og gimsteinar og eftirtekjan eftir mig betri en úrvals silfur.

20 Ég geng á götu réttlætisins, á stigum réttarins miðjum,

21 til þess að gefa þeim sanna auðlegð, er elska mig, og fylla forðabúr þeirra.

Annað bréf Jóhannesar

Öldungurinn heilsar hinni útvöldu frú og börnum hennar, sem ég elska í sannleika. Og ekki ég einn, heldur einnig allir, sem þekkja sannleikann.

Vér gjörum það sakir sannleikans, sem er stöðugur í oss og mun vera hjá oss til eilífðar.

Náð, miskunn og friður frá Guði föður og frá Jesú Kristi, syni föðurins, mun vera með oss í sannleika og kærleika.

Það hefur glatt mig mjög, að ég hef fundið nokkur af börnum þínum, er ganga fram í sannleika, samkvæmt því boðorði, sem vér tókum við af föðurnum.

Og nú bið ég þig, frú mín góð, og er þá ekki að skrifa þér nýtt boðorð, heldur það, er vér höfðum frá upphafi: Vér skulum elska hver annan.

Og í þessu birtist elskan, að vér lifum eftir boðorðum hans. Þetta er boðorðið, eins og þér heyrðuð það frá upphafi, til þess að þér skylduð lifa í því.

Því að margir afvegaleiðendur eru farnir út í heiminn, sem ekki játa, að Jesús sé Kristur, kominn í holdi. Þetta er afvegaleiðandinn og andkristurinn.

Hafið gætur á sjálfum yður að þér missið ekki það, sem vér höfum áunnið, heldur megið fá full laun.

Sérhver sem fer of langt og er ekki stöðugur í kenningu Krists, hefur ekki Guð. Sá sem er stöðugur í kenningunni, hann hefur bæði föðurinn og soninn.

10 Ef einhver kemur til yðar og er ekki með þessa kenningu, þá takið hann ekki á heimili yðar og biðjið hann ekki vera velkominn.

11 Því að sá, sem biður hann vera velkominn, verður hluttakandi í hans vondu verkum.

12 Þótt ég hafi margt að rita yður, vildi ég ekki gjöra það með pappír og bleki, en ég vona að koma til yðar og tala munnlega við yður, til þess að gleði vor verði fullkomin.

Matteusarguðspjall 12:1-14

12 Um þessar mundir fór Jesús um sáðlönd á hvíldardegi. Lærisveinar hans kenndu hungurs og tóku að tína kornöx og eta.

Þegar farísear sáu það, sögðu þeir við hann: "Lít á, lærisveinar þínir gjöra það, sem ekki er leyft að gjöra á hvíldardegi."

Hann svaraði þeim: "Hafið þér eigi lesið, hvað Davíð gjörði, þegar hann hungraði og menn hans?

Hann fór inn í Guðs hús, og þeir átu skoðunarbrauðin, sem hvorki hann né menn hans og engir nema prestarnir máttu eta.

Eða hafið þér ekki lesið í lögmálinu, að prestar vanhelga hvíldardaginn í musterinu á hvíldardögum, og eru þó án saka?

En ég segi yður: Hér er meira en musterið.

Ef þér hefðuð skilið, hvað felst í orðunum: ,Miskunnsemi vil ég, ekki fórnir,` munduð þér ekki hafa sakfellt saklausa menn.

Því að Mannssonurinn er herra hvíldardagsins."

Hann fór þaðan og kom í samkundu þeirra.

10 Þar var maður með visna hönd. Og þeir spurðu Jesú: "Er leyfilegt að lækna á hvíldardegi?" Þeir hugðust kæra hann.

11 Hann svarar þeim: "Nú á einhver yðar eina sauðkind, og hún fellur í gryfju á hvíldardegi. Mundi hann ekki taka hana og draga upp úr?

12 Hve miklu er þó maðurinn sauðkindinni fremri! Það er því leyfilegt að gjöra góðverk á hvíldardegi."

13 Síðan segir hann við manninn: "Réttu fram hönd þína." Hann rétti fram höndina, og hún varð heil sem hin.

14 Þá gengu farísearnir út og tóku saman ráð sín gegn honum, hvernig þeir gætu náð lífi hans.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society