Book of Common Prayer
5 Til söngstjórans. Með hljóðpípu. Davíðssálmur.
2 Heyr orð mín, Drottinn, gef gaum að andvörpum mínum.
3 Hlýð þú á kveinstafi mína, konungur minn og Guð minn, því að til þín bið ég.
4 Drottinn, á morgnana heyrir þú rödd mína, á morgnana legg ég bæn mína fram fyrir þig, og ég bíð þín.
5 Þú ert eigi sá Guð, er óguðlegt athæfi líki, hinir vondu fá eigi að dveljast hjá þér.
6 Hinir hrokafullu fá eigi staðist fyrir þér, þú hatar alla er illt gjöra.
7 Þú tortímir þeim, sem lygar mæla, á blóðvörgum og svikurum hefir Drottinn andstyggð.
8 En ég fæ að ganga í hús þitt fyrir mikla miskunn þína, fæ að falla fram fyrir þínu heilaga musteri í ótta frammi fyrir þér.
9 Drottinn, leið mig eftir réttlæti þínu sakir óvina minna, gjör sléttan veg þinn fyrir mér.
10 Einlægni er ekki til í munni þeirra, hjarta þeirra er glötunardjúp. Kok þeirra er opin gröf, með tungu sinni hræsna þeir.
11 Dæm þá seka, Guð, falli þeir sakir ráðagjörða sinna, hrind þeim burt sakir hinna mörgu afbrota þeirra, því að þeir storka þér.
12 Allir kætast, er treysta þér, þeir fagna að eilífu, því að þú verndar þá. Þeir sem elska nafn þitt gleðjast yfir þér.
13 Því að þú, Drottinn, blessar hinn réttláta, hlífir honum með náð þinni eins og með skildi.
6 Til söngstjórans. Með strengjaleik á áttstrengjað hljóðfæri. Davíðssálmur.
2 Drottinn, refsa mér ekki í reiði þinni og tyfta mig ekki í gremi þinni.
3 Líkna mér, Drottinn, því að ég örmagnast, lækna mig, Drottinn, því að bein mín tærast.
4 Sál mín er óttaslegin, en þú, ó Drottinn _ hversu lengi?
5 Snú þú aftur, Drottinn, frelsa sálu mína, hjálpa mér sakir elsku þinnar.
6 Því að enginn minnist þín í dánarheimum, hver skyldi lofa þig hjá Helju?
7 Ég er þreyttur af andvörpum mínum, ég lauga rekkju mína í tárum, læt hvílu mína flóa hverja nótt.
8 Augu mín eru döpruð af harmi, orðin sljó sakir allra óvina minna.
9 Farið frá mér, allir illgjörðamenn, því að Drottinn hefir heyrt grátraust mína.
10 Drottinn hefir heyrt grátbeiðni mína, Drottinn tekur á móti bæn minni.
11 Allir óvinir mínir skulu verða til skammar og skelfast mjög, hraða sér sneyptir burt.
10 Hví stendur þú fjarri, Drottinn, hví byrgir þú augu þín á neyðartímum?
2 Hinn óguðlegi ofsækir hina hrjáðu í hroka sínum, þeir flækjast í vélum þeim, er þeir hafa upp hugsað.
3 Hinn óguðlegi lofar Guð fyrir það, er sála hans girnist, og hinn ásælni prísar Drottin, sem hann fyrirlítur.
4 Hinn óguðlegi segir í drambsemi sinni: "Hann hegnir eigi!" "Guð er ekki til" _ svo hugsar hann í öllu.
5 Fyrirtæki hans heppnast ætíð, dómar þínir fara hátt yfir höfði hans, alla fjandmenn sína kúgar hann.
6 Hann segir í hjarta sínu: "Ég verð eigi valtur á fótum, frá kyni til kyns mun ég eigi í ógæfu rata."
7 Munnur hans er fullur af formælingum, svikum og ofbeldi, undir tungu hans býr illska og ranglæti.
8 Hann situr í launsátri í þorpunum, í skúmaskotinu drepur hann hinn saklausa, augu hans skima eftir hinum bágstöddu.
9 Hann gjörir fyrirsát í fylgsninu eins og ljón í skógarrunni; hann gjörir fyrirsát til þess að ná hinum volaða, hann nær honum í snöru sína, í net sitt.
10 Kraminn hnígur hann niður, hinn bágstaddi fellur fyrir klóm hans.
11 Hann segir í hjarta sínu: "Guð gleymir því, hann hefir hulið auglit sitt, sér það aldrei."
12 Rís þú upp, Drottinn! Lyft þú upp hendi þinni, Guð! Gleym eigi hinum voluðu.
13 Hvers vegna á hinn óguðlegi að sýna Guði fyrirlitningu, segja í hjarta sínu: "Þú hegnir eigi"?
14 Þú gefur gaum að mæðu og böli til þess að taka það í hönd þína. Hinn bágstaddi felur þér það; þú ert hjálpari föðurlausra.
15 Brjót þú armlegg hins óguðlega, og er þú leitar að guðleysi hins vonda, finnur þú það eigi framar.
16 Drottinn er konungur um aldur og ævi, heiðingjum er útrýmt úr landi hans.
17 Þú hefir heyrt óskir hinna voluðu, Drottinn, þú eykur þeim hugrekki, hneigir eyra þitt.
18 Þú lætur hina föðurlausu og kúguðu ná rétti sínum. Eigi skulu menn af moldu framar beita kúgun.
11 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Hjá Drottni leita ég hælis. Hvernig getið þér sagt við mig: "Fljúg sem fugl til fjallanna!"
2 Því að nú benda hinir óguðlegu bogann, leggja örvar sínar á streng til þess að skjóta í myrkrinu á hina hjartahreinu.
3 Þegar stoðirnar eru rifnar niður, hvað megna þá hinir réttlátu?
4 Drottinn er í sínu heilaga musteri, hásæti Drottins er á himnum, augu hans sjá, sjónir hans rannsaka mennina.
5 Drottinn rannsakar hinn réttláta og hinn óguðlega, og þann er elskar ofríki, hatar hann.
6 Á óguðlega lætur hann rigna glóandi kolum, eldur og brennisteinn og brennheitur vindur er þeirra mældi bikar.
7 Því að Drottinn er réttlátur og hefir mætur á réttlætisverkum. Hinir hreinskilnu fá að líta auglit hans.
4 Heyrið, synir, áminning föður yðar og hlýðið til, svo að þér lærið hyggindi!
2 Því að góðan lærdóm gef ég yður, hafnið eigi kenning minni!
3 Þegar ég var sonur í föðurhúsum, viðkvæmt einkabarn heima hjá móður minni,
4 þá kenndi faðir minn mér og sagði við mig: "Hjarta þitt haldi fast orðum mínum, varðveit þú boðorð mín, og muntu lifa!
5 Afla þér visku, afla þér hygginda! Gleym eigi og vík eigi frá orðum munns míns!
6 Hafna henni eigi, þá mun hún varðveita þig, elska hana, þá mun hún vernda þig.
7 Upphaf viskunnar er: afla þér visku, afla þér hygginda fyrir allar eigur þínar!
8 Haf hana í hávegum, þá mun hún hefja þig, hún mun koma þér til vegs, ef þú umfaðmar hana.
9 Hún mun setja yndislegan sveig á höfuð þér, sæma þig prýðilegri kórónu."
10 Heyr þú, son minn, og veit viðtöku orðum mínum, þá munu æviár þín mörg verða.
11 Ég vísa þér veg spekinnar, leiði þig á brautir ráðvendninnar.
12 Gangir þú þær, skal leið þín ekki verða þröng, og hlaupir þú, skalt þú ekki hrasa.
13 Haltu fast í agann, slepptu honum ekki, varðveittu hann, því að hann er líf þitt.
14 Kom þú eigi á götu óguðlegra og gakk eigi á vegi vondra manna.
15 Sneið hjá honum, farðu hann ekki, snú þú frá honum og farðu fram hjá.
16 Því að þeir geta ekki sofið, nema þeir hafi gjört illt, og þeim kemur ekki dúr á auga, nema þeir hafi fellt einhvern.
17 Því að þeir eta glæpabrauð og drekka ofbeldisvín.
18 Gata réttlátra er eins og bjartur árdagsljómi, sem verður æ skærari fram á hádegi.
19 Vegur óguðlegra er eins og niðamyrkur, þeir vita ekki, um hvað þeir hrasa.
20 Son minn, gef gaum að ræðu minni, hneig eyra þitt að orðum mínum.
21 Lát þau eigi víkja frá augum þínum, varðveit þau innst í hjarta þínu.
22 Því að þau eru líf þeirra, er öðlast þau, og lækning fyrir allan líkama þeirra.
23 Varðveit hjarta þitt framar öllu öðru, því að þar eru uppsprettur lífsins.
24 Haltu fláræði munnsins burt frá þér og lát fals varanna vera fjarri þér.
25 Augu þín líti beint fram og augnalok þín horfi beint fram undan þér.
26 Gjör braut fóta þinna slétta, og allir vegir þínir séu staðfastir.
27 Vík hvorki til hægri né vinstri, haltu fæti þínum burt frá illu.
7 Þér elskaðir, elskum hver annan, því að kærleikurinn er frá Guði kominn, og hver sem elskar er af Guði fæddur og þekkir Guð.
8 Sá sem ekki elskar þekkir ekki Guð, því að Guð er kærleikur.
9 Í því birtist kærleikur Guðs meðal vor, að Guð hefur sent einkason sinn í heiminn til þess að vér skyldum lifa fyrir hann.
10 Þetta er kærleikurinn: Ekki að vér elskuðum Guð, heldur að hann elskaði oss og sendi son sinn til að vera friðþæging fyrir syndir vorar.
11 Þér elskaðir, fyrst Guð hefur svo elskað oss, þá ber einnig oss að elska hver annan.
12 Enginn hefur nokkurn tíma séð Guð. Ef vér elskum hver annan, þá er Guð stöðugur í oss og kærleikur hans er fullkomnaður í oss.
13 Vér þekkjum, að vér erum stöðugir í honum og hann í oss, af því að hann hefur gefið oss af sínum anda.
14 Vér höfum séð og vitnum, að faðirinn hefur sent soninn til að vera frelsari heimsins.
15 Hver sem játar, að Jesús sé Guðs sonur, í honum er Guð stöðugur og hann í Guði.
16 Vér þekkjum kærleikann, sem Guð hefur á oss, og trúum á hann. Guð er kærleikur, og sá sem er stöðugur í kærleikanum er stöðugur í Guði og Guð er stöðugur í honum.
17 Með því er kærleikurinn orðinn fullkominn hjá oss, að vér höfum djörfung á degi dómsins, því að vér erum í þessum heimi eins og hann er.
18 Ótti er ekki í elskunni. Fullkomin elska rekur út óttann. Því að óttinn felur í sér hegningu, en sá sem óttast er ekki fullkominn í elskunni.
19 Vér elskum, því að hann elskaði oss að fyrra bragði.
20 Ef einhver segir: "Ég elska Guð," og hatar bróður sinn, sá er lygari. Því að sá sem elskar ekki bróður sinn, sem hann hefur séð, getur ekki elskað Guð, sem hann hefur ekki séð.
21 Og þetta boðorð höfum vér frá honum, að sá sem elskar Guð á einnig að elska bróður sinn.
7 Þegar þeir voru farnir, tók Jesús að tala til mannfjöldans um Jóhannes: "Hvað fóruð þér að sjá í óbyggðum? Reyr af vindi skekinn?
8 Hvað fóruð þér að sjá? Prúðbúinn mann? Nei, prúðbúna menn er að finna í sölum konunga.
9 Til hvers fóruð þér? Að sjá spámann? Já, segi ég yður, og það meira en spámann.
10 Hann er sá, sem um er ritað: Sjá, ég sendi sendiboða minn á undan þér, er greiða mun veg þinn fyrir þér.
11 Sannlega segi ég yður: Enginn er sá af konu fæddur, sem meiri sé en Jóhannes skírari. En hinn minnsti í himnaríki er honum meiri.
12 Frá dögum Jóhannesar skírara og til þessa er ríki himnanna ofríki beitt, og ofríkismenn vilja hremma það.
13 Spámennirnir allir og lögmálið, allt fram að Jóhannesi, sögðu fyrir um þetta.
14 Og ef þér viljið við því taka, þá er hann Elía sá, sem koma skyldi.
15 Hver sem eyru hefur, hann heyri.
by Icelandic Bible Society