Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 102

102 Bæn hrjáðs manns, þá er hann örmagnast og úthellir kveini sínu fyrir Drottni.

Drottinn, heyr þú bæn mína og hróp mitt berist til þín.

Byrg eigi auglit þitt fyrir mér, þegar ég er í nauðum staddur, hneig að mér eyra þitt, þegar ég kalla, flýt þér að bænheyra mig.

Því að dagar mínir hverfa sem reykur, bein mín brenna sem eldur.

Hjarta mitt er mornað og þornað sem gras, því að ég gleymi að neyta brauðs míns.

Sakir kveinstafa minna er ég sem skinin bein.

Ég líkist pelíkan í eyðimörkinni, er sem ugla í rústum.

Ég ligg andvaka og styn eins og einmana fugl á þaki.

Daginn langan smána óvinir mínir mig, fjandmenn mínir formæla með nafni mínu.

10 Ég et ösku sem brauð og blanda drykk minn tárum

11 sakir reiði þinnar og bræði, af því að þú hefir tekið mig upp og varpað mér burt.

12 Dagar mínir eru sem hallur skuggi, og ég visna sem gras.

13 En þú, Drottinn, ríkir að eilífu, og nafn þitt varir frá kyni til kyns.

14 Þú munt rísa upp til þess að miskunna Síon, því að tími er kominn til þess að líkna henni, já, stundin er komin.

15 Þjónar þínir elska steina hennar og harma yfir öskuhrúgum hennar.

16 Þá munu þjóðirnar óttast nafn Drottins og allir konungar jarðarinnar dýrð þína,

17 því að Drottinn byggir upp Síon og birtist í dýrð sinni.

18 Hann snýr sér að bæn hinna nöktu og fyrirlítur eigi bæn þeirra.

19 Þetta skal skráð fyrir komandi kynslóð, og þjóð, sem enn er ósköpuð, skal lofa Drottin.

20 Því að Drottinn lítur niður af sínum helgu hæðum, horfir frá himni til jarðar

21 til þess að heyra andvarpanir bandingjanna og leysa börn dauðans,

22 að þau mættu kunngjöra nafn Drottins í Síon og lofstír hans í Jerúsalem,

23 þegar þjóðirnar safnast saman og konungsríkin til þess að þjóna Drottni.

24 Hann hefir bugað kraft minn á ferð minni, stytt daga mína.

25 Ég segi: Guð minn, tak mig eigi burt á miðri ævinni. Ár þín vara frá kyni til kyns.

26 Í öndverðu grundvallaðir þú jörðina, og himnarnir eru verk handa þinna.

27 Þeir líða undir lok, en þú varir. Þeir fyrnast sem fat, þú skiptir þeim sem klæðum, og þeir hverfa.

28 En þú ert hinn sami, og þín ár fá engan enda.

29 Synir þjóna þinna munu búa kyrrir og niðjar þeirra standa stöðugir fyrir augliti þínu.

Sálmarnir 107:1-32

107 Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.

Svo skulu hinir endurleystu Drottins segja, þeir er hann hefir leyst úr nauðum

og safnað saman úr löndunum, frá austri og vestri, frá norðri og suðri.

Þeir reikuðu um eyðimörkina, um veglaus öræfin, og fundu eigi byggilegar borgir,

þá hungraði og þyrsti, sál þeirra vanmegnaðist í þeim.

Þá hrópuðu þeir til Drottins í neyð sinni, hann bjargaði þeim úr angist þeirra

og leiddi þá um slétta leið, svo að þeir komust til byggilegrar borgar.

Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans og dásemdarverk hans við mannanna börn,

því að hann mettaði magnþrota sál og fyllti hungraða sál gæðum.

10 Þeir sem sátu í myrkri og niðdimmu, bundnir eymd og járnum,

11 af því að þeir höfðu þrjóskast við orðum Guðs og fyrirlitið ráð Hins hæsta,

12 svo að hann beygði hug þeirra með mæðu, þeir hrösuðu, og enginn liðsinnti þeim.

13 Þá hrópuðu þeir til Drottins í neyð sinni, hann frelsaði þá úr angist þeirra,

14 hann leiddi þá út úr myrkrinu og niðdimmunni og braut sundur fjötra þeirra.

15 Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans og dásemdarverk hans við mannanna börn,

16 því að hann braut eirhliðin og mölvaði járnslárnar.

17 Heimskingjar, er vegna sinnar syndsamlegu breytni og vegna misgjörða sinna voru þjáðir,

18 þeim bauð við hverri fæðu og voru komnir nálægt hliðum dauðans.

19 Þá hrópuðu þeir til Drottins í neyð sinni, hann frelsaði þá úr angist þeirra,

20 hann sendi út orð sitt og læknaði þá og bjargaði þeim frá gröfinni.

21 Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans og dásemdarverk hans við mannanna börn,

22 og færa þakkarfórnir og kunngjöra verk hans með fögnuði.

23 Þeir sem fóru um hafið á skipum, ráku verslun á hinum miklu vötnum,

24 þeir hafa séð verk Drottins og dásemdir hans á djúpinu.

25 Því að hann bauð og þá kom stormviðri, sem hóf upp bylgjur þess.

26 Þeir hófust til himins, sigu niður í djúpið, þeim féllst hugur í neyðinni.

27 Þeir römbuðu og skjögruðu eins og drukkinn maður, og öll kunnátta þeirra var þrotin.

28 Þá hrópuðu þeir til Drottins í neyð sinni, og hann leiddi þá úr angist þeirra.

29 Hann breytti stormviðrinu í blíðan blæ, svo að bylgjur hafsins urðu hljóðar.

30 Þá glöddust þeir, af því að þær kyrrðust, og hann lét þá komast í höfn þá, er þeir þráðu.

31 Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans og dásemdarverk hans við mannanna börn,

32 vegsama hann á þjóðarsamkomunni og lofa hann í hóp öldunganna.

Jeremía 31:27-34

27 Sjá, þeir dagar koma _ segir Drottinn _ að ég sái Ísraels hús og Júda hús með mannsáði og fénaðarsáði,

28 og eins og ég vakti yfir þeim til þess að uppræta og umturna, rífa niður og eyða og vinna þeim mein, þannig mun ég og vaka yfir þeim til þess að byggja og gróðursetja _ segir Drottinn.

29 Á þeim dögum munu menn eigi framar segja: "Feðurnir átu súr vínber og tennur barnanna urðu sljóar!"

30 Heldur mun hver deyja fyrir eigin misgjörð. Hver sá maður, er etur súr vínber, hans tennur munu sljóar verða.

31 Sjá, þeir dagar munu koma _ segir Drottinn _ að ég mun gjöra nýjan sáttmála við Ísraels hús og Júda hús,

32 ekki eins og þann sáttmála, er ég gjörði við feður þeirra, þá er ég tók í hönd þeirra til þess að leiða þá út af Egyptalandi, sáttmálann sem þeir hafa rofið, þótt ég væri herra þeirra _ segir Drottinn.

33 En í þessu skal sáttmálinn fólginn vera, sá er ég gjöri við Ísraels hús eftir þetta _ segir Drottinn: Ég legg lögmál mitt þeim í brjóst og rita það á hjörtu þeirra, og ég skal vera þeirra Guð og þeir skulu vera mín þjóð.

34 Og þeir skulu ekki framar kenna hver öðrum, né einn bróðirinn öðrum, og segja: "Lærið að þekkja Drottin," því að þeir munu allir þekkja mig, bæði smáir og stórir _ segir Drottinn. Því að ég mun fyrirgefa misgjörð þeirra og ekki framar minnast syndar þeirra.

Bréf Páls til Efesusmanna 5:1-20

Verðið því eftirbreytendur Guðs, svo sem elskuð börn hans.

Lifið í kærleika, eins og Kristur elskaði oss og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir oss svo sem fórnargjöf, Guði til þægilegs ilms.

En frillulífi og óhreinleiki yfirleitt eða ágirnd á ekki einu sinni að nefnast á nafn meðal yðar. Svo hæfir heilögum.

Ekki heldur svívirðilegt hjal eða ósæmandi spé. Þess í stað komi miklu fremur þakkargjörð.

Því að það skuluð þér vita og festa yður í minni, að enginn frillulífismaður eða saurugur eða ágjarn, _ sem er sama og að dýrka hjáguði _, á sér arfsvon í ríki Krists og Guðs.

Enginn tæli yður með marklausum orðum, því að vegna þessa kemur reiði Guðs yfir þá, sem hlýða honum ekki.

Verðið þess vegna ekki lagsmenn þeirra.

Eitt sinn voruð þér myrkur, en nú eruð þér ljós í Drottni. Hegðið yður eins og börn ljóssins. _

Því að ávöxtur ljóssins er einskær góðvild, réttlæti og sannleikur. _

10 Metið rétt, hvað Drottni þóknast.

11 Eigið engan hlut í verkum myrkursins, sem ekkert gott hlýst af, heldur flettið miklu fremur ofan af þeim.

12 Því að það, sem slíkir menn fremja í leyndum, er jafnvel svívirðilegt um að tala.

13 En allt það, sem ljósið flettir ofan af, verður augljóst. Því að allt, sem er augljóst, er ljós.

14 Því segir svo: Vakna þú, sem sefur, og rís upp frá dauðum, og þá mun Kristur lýsa þér.

15 Hafið því nákvæma gát á, hvernig þér breytið, ekki sem fávísir, heldur sem vísir.

16 Notið hverja stund, því að dagarnir eru vondir.

17 Verið því ekki óskynsamir, heldur reynið að skilja, hver sé vilji Drottins.

18 Drekkið yður ekki drukkna af víni, það leiðir aðeins til spillingar. Fyllist heldur andanum,

19 og ávarpið hver annan með sálmum, lofsöngum og andlegum ljóðum. Syngið og leikið fyrir Drottin í hjörtum yðar,

20 og þakkið jafnan Guði, föðurnum, fyrir alla hluti í nafni Drottins vors Jesú Krists.

Matteusarguðspjall 9:9-17

Þá er hann gekk þaðan, sá hann mann sitja hjá tollbúðinni, Matteus að nafni, og hann segir við hann: "Fylg þú mér!" Og hann stóð upp og fylgdi honum.

10 Nú bar svo við, er Jesús sat að borði í húsi hans, að margir tollheimtumenn og bersyndugir komu og settust þar með honum og lærisveinum hans.

11 Þegar farísear sáu það, sögðu þeir við lærisveina hans: "Hvers vegna etur meistari yðar með tollheimtumönnum og bersyndugum?"

12 Jesús heyrði þetta og sagði: "Ekki þurfa heilbrigðir læknis við, heldur þeir sem sjúkir eru.

13 Farið og nemið, hvað þetta merkir: ,Miskunnsemi vil ég, ekki fórnir.` Ég er ekki kominn til að kalla réttláta, heldur syndara."

14 Þá koma til hans lærisveinar Jóhannesar og segja: "Hví föstum vér og farísear, en þínir lærisveinar fasta ekki?"

15 Jesús svaraði þeim: "Hvort geta brúðkaupsgestir verið hryggir, meðan brúðguminn er hjá þeim? En koma munu þeir dagar, er brúðguminn verður frá þeim tekinn. Þá munu þeir fasta.

16 Enginn lætur bót af óþæfðum dúk á gamalt fat, því þá rífur bótin út frá sér og verður af verri rifa.

17 Ekki láta menn heldur nýtt vín á gamla belgi, því þá springa belgirnir, og vínið fer niður, en belgirnir ónýtast. Menn láta nýtt vín á nýja belgi, og varðveitist þá hvort tveggja."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society