Book of Common Prayer
97 Drottinn er konungur orðinn! jörðin fagni, eyjafjöldinn gleðjist.
2 Ský og sorti eru umhverfis hann, réttlæti og réttvísi eru grundvöllur hásætis hans,
3 eldur fer fyrir honum og bálast umhverfis spor hans.
4 Leiftur hans lýsa um jarðríki, jörðin sér það og nötrar.
5 Björgin bráðna sem vax fyrir Drottni, fyrir Drottni gjörvallrar jarðarinnar.
6 Himnarnir kunngjöra réttlæti hans, og allar þjóðir sjá dýrð hans.
7 Allir skurðgoðadýrkendur verða til skammar, þeir er stæra sig af falsguðunum. Allir guðir falla fram fyrir honum.
8 Síon heyrir það og gleðst, Júdadætur fagna sakir dóma þinna, Drottinn.
9 Því að þú, Drottinn, ert Hinn hæsti yfir gjörvallri jörðunni, þú ert hátt hafinn yfir alla guði.
10 Drottinn elskar þá er hata hið illa, hann verndar sálir dýrkenda sinna, frelsar þá af hendi óguðlegra.
11 Ljós rennur upp réttlátum og gleði hjartahreinum.
12 Gleðjist, þér réttlátir, yfir Drottni, vegsamið hans heilaga nafn.
99 Drottinn er konungur orðinn! Þjóðirnar skjálfi. Hann situr uppi yfir kerúbunum, jörðin nötri.
2 Drottinn er mikill á Síon og hátt upp hafinn yfir alla lýði.
3 Þeir skulu lofa nafn þitt, hið mikla og óttalega. Heilagur er hann!
4 Þú ert voldugur konungur, sem elskar réttinn, þú hefir staðfest réttvísina, rétt og réttlæti hefir þú framið í Jakob.
5 Tignið Drottin, Guð vorn, og fallið fram fyrir fótskör hans. Heilagur er hann!
6 Móse og Aron eru meðal presta hans, Samúel meðal þeirra er ákalla nafn hans, þeir ákalla Drottin og hann bænheyrir þá.
7 Hann talar til þeirra í skýstólpanum, því að þeir gæta vitnisburða hans og laganna, er hann gaf þeim.
8 Drottinn, Guð vor, þú bænheyrir þá, þú reynist þeim fyrirgefandi Guð og sýknar þá af gjörðum þeirra.
9 Tignið Drottin Guð vorn, og fallið fram fyrir hans heilaga fjalli, því að heilagur er Drottinn, Guð vor.
100 Þakkarfórnar-sálmur. Öll veröldin fagni fyrir Drottni!
2 Þjónið Drottni með gleði, komið fyrir auglit hans með fagnaðarsöng!
3 Vitið, að Drottinn er Guð, hann hefir skapað oss, og hans erum vér, lýður hans og gæsluhjörð.
4 Gangið inn um hlið hans með lofsöng, í forgarða hans með sálmum, lofið hann, vegsamið nafn hans.
5 Því að Drottinn er góður, miskunn hans varir að eilífu og trúfesti hans frá kyni til kyns.
94 Drottinn, Guð hefndarinnar, Guð hefndarinnar, birst þú í geisladýrð!
2 Rís þú upp, dómari jarðar, endurgjald ofstopamönnunum það er þeir hafa aðhafst!
3 Hversu lengi, Drottinn, eiga illir menn, hversu lengi, Drottinn, eiga illir menn að fagna?
4 Þeir ausa úr sér drambyrðum, allir illvirkjarnir rembast.
5 Þeir kremja lýð þinn, Drottinn, þjá arfleifð þína,
6 drepa ekkjur og aðkomandi og myrða föðurlausa
7 og segja: "Drottinn sér það ekki, Jakobs Guð tekur eigi eftir því."
8 Takið eftir, þér hinir fíflsku meðal lýðsins, og þér fáráðlingar, hvenær ætlið þér að verða hyggnir?
9 Mun sá eigi heyra, sem eyrað hefir plantað, mun sá eigi sjá, sem augað hefir til búið?
10 Skyldi sá er agar þjóðirnar eigi hegna, hann sem kennir mönnunum þekkingu?
11 Drottinn þekkir hugsanir mannsins, að þær eru einber hégómi.
12 Sæll er sá maður, er þú agar, Drottinn, og fræðir í lögmáli þínu,
13 til þess að hlífa honum við mótlætisdögunum, uns gröf er grafin fyrir óguðlega.
14 Því að Drottinn hrindir eigi burt lýð sínum og yfirgefur eigi arfleifð sína,
15 heldur mun rétturinn hverfa aftur til hins réttláta, og honum munu allir hjartahreinir fylgja.
16 Hver rís upp mér til hjálpar gegn illvirkjunum, hver gengur fram fyrir mig gegn illgjörðamönnunum?
17 Ef Drottinn veitti mér eigi fulltingi, þá mundi sál mín brátt hvíla í dauðaþögn.
18 Þegar ég hugsaði: "Mér skriðnar fótur," þá studdi mig miskunn þín, Drottinn.
19 Þegar miklar áhyggjur lögðust á hjarta mitt, hressti huggun þín sálu mína.
20 Mun dómstóll spillingarinnar vera í bandalagi við þig, hann sem býr öðrum tjón undir yfirskini réttarins?
21 Þeir ráðast á líf hins réttláta og sakfella saklaust blóð.
22 En Drottinn er mér háborg og Guð minn klettur mér til hælis.
23 Hann geldur þeim misgjörð þeirra og afmáir þá í illsku þeirra, Drottinn, Guð vor, afmáir þá.
95 Komið, fögnum fyrir Drottni, látum gleðióp gjalla fyrir kletti hjálpræðis vors.
2 Komum með lofsöng fyrir auglit hans, syngjum gleðiljóð fyrir honum.
3 Því að Drottinn er mikill Guð og mikill konungur yfir öllum guðum.
4 Í hans hendi eru jarðardjúpin, og fjallatindarnir heyra honum til.
5 Hans er hafið, hann hefir skapað það, og hendur hans mynduðu þurrlendið.
6 Komið, föllum fram og krjúpum niður, beygjum kné vor fyrir Drottni, skapara vorum,
7 því að hann er vor Guð, og vér erum gæslulýður hans og hjörð sú, er hann leiðir. Ó að þér í dag vilduð heyra raust hans!
8 Herðið eigi hjörtu yðar eins og hjá Meríba, eins og daginn við Massa í eyðimörkinni,
9 þegar feður yðar freistuðu mín, reyndu mig, þótt þeir sæju verk mín.
10 Í fjörutíu ár hafði ég viðbjóð á þessari kynslóð, og ég sagði: "Þeir eru andlega villtur lýður og þekkja ekki vegu mína."
11 Þess vegna sór ég í reiði minni: "Þeir skulu eigi ganga inn til hvíldar minnar."
16 Drottinn sagði við Samúel: "Hversu lengi ætlar þú að vera sorgmæddur út af Sál, þar sem ég hefi þó hafnað honum og svipt hann konungdómi yfir Ísrael? Fyll þú horn þitt olíu og legg af stað; ég sendi þig til Ísaí Betlehemíta, því að ég hefi kjörið mér konung meðal sona hans."
2 Samúel svaraði: "Hversu má ég fara? Frétti Sál það, mun hann drepa mig." En Drottinn sagði: "Tak þú með þér kvígu og segðu: ,Ég er kominn til þess að færa Drottni fórn.`
3 Og bjóð þú Ísaí til fórnarmáltíðarinnar, og ég skal sjálfur láta þig vita, hvað þú átt að gjöra, og þú skalt smyrja mér þann, sem ég mun segja þér."
4 Samúel gjörði það, sem Drottinn sagði. Og er hann kom til Betlehem, gengu öldungar borgarinnar í móti honum hræddir í huga og sögðu: "Kemur þú góðu heilli?"
5 Hann svaraði: "Já, ég er kominn til þess að færa Drottni fórn. Helgið yður og komið með mér til fórnarmáltíðarinnar." Og hann helgaði Ísaí og sonu hans og bauð þeim til fórnarmáltíðarinnar.
6 En er þeir komu, sá Samúel Elíab og hugsaði: "Vissulega stendur hér frammi fyrir Drottni hans smurði."
7 En Drottinn sagði við Samúel: "Lít þú ekki á skapnað hans og háan vöxt því að ég hefi hafnað honum. Guð lítur ekki á það, sem mennirnir líta á. Mennirnir líta á útlitið, en Drottinn lítur á hjartað."
8 Þá kallaði Ísaí á Abínadab og leiddi hann fyrir Samúel. En hann mælti: "Ekki hefir Drottinn heldur kjörið þennan."
9 Þá leiddi Ísaí fram Samma. En Samúel mælti: "Ekki hefir Drottinn heldur kjörið þennan."
10 Þannig leiddi Ísaí fram sjö sonu sína fyrir Samúel, en Samúel sagði við Ísaí: "Engan af þessum hefir Drottinn kjörið."
11 Og Samúel sagði við Ísaí: "Eru þetta allir sveinarnir?" Hann svaraði: "Enn er hinn yngsti eftir, og sjá, hann gætir sauða." Samúel sagði við Ísaí: "Send eftir honum og lát sækja hann, því að vér setjumst ekki til borðs fyrr en hann er kominn hingað."
12 Þá sendi hann eftir honum og lét hann koma, en hann var rauðleitur, fagureygur og vel vaxinn. Og Drottinn sagði: "Statt þú upp, smyr hann, því að þessi er það."
13 Þá tók Samúel olíuhornið og smurði hann mitt á meðal bræðra hans. Og andi Drottins kom yfir Davíð upp frá þeim degi. En Samúel tók sig upp og fór til Rama.
14 Þess vegna beygi ég kné mín fyrir föðurnum,
15 sem hvert faðerni fær nafn af á himni og jörðu.
16 Megi hann gefa yður af ríkdómi dýrðar sinnar að styrkjast fyrir anda sinn að krafti hið innra með yður,
17 til þess að Kristur megi fyrir trúna búa í hjörtum yðar og þér verða rótfestir og grundvallaðir í kærleika.
18 Þá fáið þér ásamt öllum heilögum skilið, hve kærleikur Krists er víður og langur, hár og djúpur, og komist að raun um hann,
19 sem gnæfir yfir alla þekkingu, og náið að fyllast allri Guðs fyllingu.
20 En honum, sem í oss verkar með krafti sínum og megnar að gjöra langt fram yfir allt það, sem vér biðjum eða skynjum,
21 honum sé dýrð í kirkjunni og í Kristi Jesú um öll æviskeið, öld eftir öld. Amen.
18 En þegar Jesús sá mikinn mannfjölda kringum sig, bauð hann að fara yfir um vatnið.
19 Þá kom fræðimaður einn til hans og sagði: "Meistari, ég vil fylgja þér, hvert sem þú ferð."
20 Jesús sagði við hann: "Refar eiga greni og fuglar himins hreiður, en Mannssonurinn á hvergi höfði sínu að að halla."
21 Annar, úr hópi lærisveinanna, sagði við hann: "Herra, leyf mér fyrst að fara og jarða föður minn."
22 Jesús svarar honum: "Fylg þú mér, en lát hina dauðu jarða sína dauðu."
23 Nú fór hann í bátinn og lærisveinar hans fylgdu honum.
24 Þá gjörði svo mikið veður á vatninu, að bylgjurnar gengu yfir bátinn. En Jesús svaf.
25 Þeir fara til, vekja hann og segja: "Herra, bjarga þú, vér förumst."
26 Hann sagði við þá: "Hví eruð þér hræddir, þér trúlitlir?" Síðan reis hann upp og hastaði á vindinn og vatnið, og varð stillilogn.
27 Mennirnir undruðust og sögðu: "Hvílíkur maður er þetta? Jafnvel vindar og vatn hlýða honum."
by Icelandic Bible Society