Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 89

89 Etans-maskíl Esraíta.

Um náðarverk Drottins vil ég syngja að eilífu, kunngjöra trúfesti þína með munni mínum frá kyni til kyns,

því að ég hefi sagt: Náð þín er traust að eilífu, á himninum grundvallaðir þú trúfesti þína.

Ég hefi gjört sáttmála við minn útvalda, unnið Davíð þjóni mínum svolátandi eið:

"Ég vil staðfesta ætt þína að eilífu, reisa hásæti þitt frá kyni til kyns." [Sela]

Þá lofuðu himnarnir dásemdarverk þín, Drottinn, og söfnuður heilagra trúfesti þína.

Því að hver er í himninum jafn Drottni, hver er líkur Drottni meðal guðasonanna?

Guð er ægilegur í hópi heilagra, mikill er hann og óttalegur öllum þeim, sem eru umhverfis hann.

Drottinn, Guð hersveitanna, hver er sem þú? Þú ert voldugur, Drottinn, og trúfesti þín er umhverfis þig.

10 Þú ræður yfir ofstopa hafsins, þegar öldur þess hefjast, stöðvar þú þær.

11 Þú knosaðir skrímslið eins og veginn mann, með þínum volduga armi tvístraðir þú óvinum þínum.

12 Þinn er himinninn, þín er og jörðin, þú hefir grundvallað veröldina og allt sem í henni er.

13 Þú hefir skapað norðrið og suðrið, Tabor og Hermon fagna yfir nafni þínu.

14 Þú hefir máttugan armlegg, hönd þín er sterk, hátt upphafin hægri hönd þín.

15 Réttlæti og réttvísi er grundvöllur hásætis þíns, miskunn og trúfesti ganga frammi fyrir þér.

16 Sæll er sá lýður, sem þekkir fagnaðarópið, sem gengur í ljósi auglitis þíns, Drottinn.

17 Þeir gleðjast yfir nafni þínu alla daga og fagna yfir réttlæti þínu,

18 því að þú ert þeirra máttug prýði, og sakir velþóknunar þinnar munt þú hefja horn vort,

19 því að Drottni heyrir skjöldur vor, konungur vor Hinum heilaga í Ísrael.

20 Þá talaðir þú í sýn til dýrkanda þíns og sagðir: "Ég hefi sett kórónu á kappa, ég hefi upphafið útvaldan mann af lýðnum.

21 Ég hefi fundið Davíð þjón minn, smurt hann með minni heilögu olíu.

22 Hönd mín mun gjöra hann stöðugan og armleggur minn styrkja hann.

23 Óvinurinn skal eigi ráðast að honum, og ekkert illmenni skal kúga hann,

24 heldur skal ég gjöra út af við fjendur hans að honum ásjáandi, og hatursmenn hans skal ég ljósta.

25 Trúfesti mín og miskunn skulu vera með honum, og fyrir sakir nafns míns skal horn hans gnæfa hátt.

26 Ég legg hönd hans á hafið og hægri hönd hans á fljótin.

27 Hann mun segja við mig: Þú ert faðir minn, Guð minn og klettur hjálpræðis míns.

28 Og ég vil gjöra hann að frumgetning, að hinum hæsta meðal konunga jarðarinnar.

29 Ég vil varðveita miskunn mína við hann að eilífu, og sáttmáli minn við hann skal stöðugur standa.

30 Ég læt niðja hans haldast við um aldur og hásæti hans meðan himinninn er til.

31 Ef synir hans hafna lögmáli mínu og ganga eigi eftir boðum mínum,

32 ef þeir vanhelga lög mín og varðveita eigi boðorð mín,

33 þá vil ég vitja afbrota þeirra með vendinum og misgjörða þeirra með plágum,

34 en miskunn mína mun ég ekki frá honum taka og eigi bregða trúfesti minni.

35 Ég vil eigi vanhelga sáttmála minn og eigi breyta því, er mér hefir af vörum liðið.

36 Ég hefi einu sinni svarið við heilagleik minn og mun aldrei svíkja Davíð:

37 Niðjar hans skulu haldast við um aldur og hásæti hans sem sólin fyrir mér.

38 Það skal standa stöðugt að eilífu sem tunglið, svo sannarlega sem áreiðanlegt vitni er á himnum." [Sela]

39 Og þó hefir þú útskúfað og hafnað og reiðst þínum smurða.

40 Þú hefir riftað sáttmálanum við þjón þinn, vanhelgað kórónu hans og fleygt henni til jarðar.

41 Þú hefir brotið niður alla múrveggi hans og lagt virki hans í eyði.

42 Allir vegfarendur ræna hann, hann er til háðungar orðinn nágrönnum sínum.

43 Þú hefir hafið hægri hönd fjenda hans, glatt alla óvini hans.

44 Þú hefir og látið sverðseggjar hans hörfa undan og eigi látið hann standast í bardaganum.

45 Þú hefir látið endi á verða vegsemd hans og hrundið hásæti hans til jarðar.

46 Þú hefir stytt æskudaga hans og hulið hann skömm. [Sela]

47 Hversu lengi, Drottinn, ætlar þú að dyljast, á reiði þín ætíð að brenna sem eldur?

48 Minnst þú, Drottinn, hvað ævin er, til hvílíks hégóma þú hefir skapað öll mannanna börn.

49 Hver er sá, er lifi og sjái eigi dauðann, sá er bjargi sálu sinni úr greipum Heljar. [Sela]

50 Hvar eru þín fyrri náðarverk, ó Drottinn, þau er þú í trúfesti þinni sórst Davíð?

51 Minnst, ó Drottinn, háðungar þjóna þinna, að ég verð að bera í skauti smánan margra þjóða,

52 er óvinir þínir, Drottinn, smána mig með, smána fótspor þíns smurða. _________

53 Lofaður sé Drottinn að eilífu. Amen. Amen.

Jósúabók 1:1-9

Eftir andlát Móse, þjóns Drottins, mælti Drottinn við Jósúa Núnsson, þjónustumann Móse, á þessa leið:

"Móse, þjónn minn, er andaður. Rís þú nú upp og far yfir ána Jórdan með allan þennan lýð, inn í landið, sem ég gef þeim, Ísraelsmönnum.

Hvern þann stað, er þér stígið fæti á, mun ég gefa yður, eins og ég sagði Móse.

Frá eyðimörkinni og Líbanon allt til fljótsins mikla, Efratfljótsins, allt land Hetíta, allt til hafsins mikla mót sólar setri skal land yðar ná.

Enginn mun standast fyrir þér alla ævidaga þína. Svo sem ég var með Móse, svo mun ég og með þér vera. Ég mun eigi sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig.

Ver þú hughraustur og öruggur, því að þú skalt skipta meðal þessa lýðs landi því, er ég sór feðrum þeirra að gefa þeim.

Ver þú aðeins hughraustur og harla öruggur að gæta þess að breyta eftir öllu lögmálinu, því er Móse þjónn minn fyrir þig lagði. Vík eigi frá því, hvorki til hægri né vinstri, til þess að þér lánist vel allt, sem þú tekur þér fyrir hendur.

Eigi skal lögmálsbók þessi víkja úr munni þínum, heldur skalt þú hugleiða hana um daga og nætur, til þess að þú gætir þess að gjöra allt það, sem í henni er skrifað, því að þá munt þú gæfu hljóta á vegum þínum og breyta viturlega.

Hefi ég ekki boðið þér: Ver þú hughraustur og öruggur? Lát eigi hugfallast og óttast eigi, því að Drottinn Guð þinn er með þér í öllu, sem þú tekur þér fyrir hendur."

Bréf Páls til Efesusmanna 3:1-13

Þess vegna er það, að ég, Páll, bandingi Krists Jesú vegna yðar, heiðinna manna, beygi kné mín.

Víst hafið þér heyrt um þá ráðstöfun Guðs náðar, sem hann fól mér hjá yður:

Að birta mér með opinberun leyndardóminn. Ég hef stuttlega skrifað um það áður.

Þegar þér lesið það, getið þér skynjað, hvað ég veit um leyndardóm Krists.

Hann var ekki birtur mannanna sonum fyrr á tímum. Nú hefur hann verið opinberaður heilögum postulum hans og spámönnum í andanum:

Heiðingjarnir eru í Kristi Jesú fyrir fagnaðarerindið orðnir erfingjar með oss, einn líkami með oss, og eiga hlut í sama fyrirheiti og vér.

Ég varð þjónn þessa fagnaðarerindis, af því að Guð gaf mér gjöf náðar sinnar með krafti máttar síns.

Mér, sem minnstur er allra heilagra, var veitt sú náð að boða heiðingjunum fagnaðarerindið um hinn órannsakanlega ríkdóm Krists

og að upplýsa alla um það, hvernig Guð hefur ráðstafað þessum leyndardómi. Hann hefur frá eilífð verið hulinn í Guði, sem allt hefur skapað.

10 Nú skyldi kirkjan látin kunngjöra tignunum og völdunum í himinhæðum, hve margháttuð speki Guðs er.

11 Þetta er Guðs eilífa fyrirætlun, sem hann hefur framkvæmt í Kristi Jesú, Drottni vorum.

12 Á honum byggist djörfung vor. Í trúnni á hann eigum vér öruggan aðgang að Guði.

13 Fyrir því bið ég, að þér látið eigi hugfallast út af þrengingum mínum yðar vegna. Þær eru yður til vegsemdar.

Matteusarguðspjall 8:5-17

Þegar hann kom til Kapernaum, gekk til hans hundraðshöfðingi og bað hann:

"Herra, sveinn minn liggur heima lami, mjög þungt haldinn."

Jesús sagði: "Ég kem og lækna hann."

Þá sagði hundraðshöfðinginn: "Herra, ég er ekki verður þess, að þú gangir inn undir þak mitt. Mæl þú aðeins eitt orð, og mun sveinn minn heill verða.

Því að sjálfur er ég maður, sem verð að lúta valdi og ræð yfir hermönnum, og ég segi við einn: ,Far þú,` og hann fer, og við annan: ,Kom þú,` og hann kemur, og við þjón minn: ,Gjör þetta,` og hann gjörir það."

10 Þegar Jesús heyrði þetta, undraðist hann og mælti við þá, sem fylgdu honum: "Sannlega segi ég yður, þvílíka trú hef ég ekki fundið hjá neinum í Ísrael.

11 En ég segi yður: Margir munu koma frá austri og vestri og sitja til borðs með Abraham, Ísak og Jakob í himnaríki,

12 en synir ríkisins munu út reknir í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna."

13 Þá sagði Jesús við hundraðshöfðingjann: "Far þú, verði þér sem þú trúir." Og sveinninn varð heill á þeirri stundu.

14 Jesús kom í hús Péturs og sá, að tengdamóðir hans lá með sótthita.

15 Hann snart hönd hennar, og sótthitinn fór úr henni. Hún reis á fætur og gekk honum fyrir beina.

16 Þegar kvöld var komið, færðu menn til hans marga, er haldnir voru illum öndum. Illu andana rak hann út með orði einu, og alla þá, er sjúkir voru, læknaði hann.

17 Það átti að rætast, sem sagt er fyrir munn Jesaja spámanns: "Hann tók á sig mein vor og bar sjúkdóma vora."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society