Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 80

80 Til söngstjórans. Liljulag. Asafs-vitnisburður. Sálmur.

Hirðir Ísraels, hlýð á, þú sem leiddir Jósef eins og hjörð, þú sem ríkir uppi yfir kerúbunum, birst þú í geisladýrð.

Tak á mætti þínum frammi fyrir Efraím, Benjamín og Manasse og kom oss til hjálpar!

Guð, snú oss til þín aftur og lát ásjónu þína lýsa, að vér megum frelsast.

Drottinn, Guð hersveitanna, hversu lengi ætlar þú að vera reiður þrátt fyrir bænir lýðs þíns?

Þú hefir gefið þeim tárabrauð að eta og fært þeim gnægð tára að drekka.

Þú hefir gjört oss að þrætuefni nágranna vorra, og óvinir vorir gjöra gys að oss.

Guð hersveitanna leið oss aftur til þín og lát ásjónu þína lýsa, að vér megum frelsast.

Þú kipptir upp vínvið úr Egyptalandi, stökktir burt þjóðum, en gróðursettir hann,

10 þú rýmdir til fyrir honum, hann festi rætur og fyllti landið.

11 Fjöllin huldust í skugga hans og sedrustré Guðs af greinum hans.

12 Hann breiddi út álmur sínar til hafsins og teinunga sína til Fljótsins.

13 Hví hefir þú brotið niður múrveggina um hann, svo að allir vegfarendur tína berin?

14 Skógargeltirnir naga hann, og öll dýr merkurinnar bíta hann.

15 Guð hersveitanna, æ, snú þú aftur, lít niður af himni og sjá og vitja vínviðar þessa

16 og varðveit það sem hægri hönd þín hefir plantað, og son þann, er þú hefir styrkvan gjört þér til handa.

17 Hann er brenndur í eldi og upphöggvinn, fyrir ógnun auglitis þíns farast þeir.

18 Lát hönd þína hvíla yfir manninum við þína hægri hönd, yfir mannsins barni, er þú hefir styrkvan gjört þér til handa,

19 þá skulum vér eigi víkja frá þér. Viðhald lífi voru, þá skulum vér ákalla nafn þitt.

20 Drottinn, Guð hersveitanna, snú oss til þín aftur, lát ásjónu þína lýsa, að vér megum frelsast.

Sálmarnir 77

77 Til söngstjórans. Fyrir Jedútún. Asafs-sálmur.

Ég kalla til Guðs og hrópa, kalla til Guðs, að hann megi heyra til mín.

Þegar ég er í nauðum, leita ég Drottins, rétti út hendur mínar um nætur og þreytist ekki, sál mín er óhuggandi.

Ég minnist Guðs og kveina, ég styn, og andi minn örmagnast. [Sela]

Þú heldur uppi augnalokum mínum, mér er órótt og ég má eigi mæla.

Ég íhuga fyrri daga, ár þau sem löngu eru liðin,

ég minnist strengjaleiks míns um nætur, ég hugleiði í hjarta mínu, og andi minn rannsakar.

Mun Drottinn þá útskúfa um eilífð og aldrei framar vera náðugur?

Er miskunn hans lokið um eilífð, fyrirheit hans þrotin um aldir alda?

10 Hefir Guð gleymt að sýna líkn, byrgt miskunn sína með reiði? [Sela]

11 Þá sagði ég: "Þetta er kvöl mín, að hægri hönd Hins hæsta hefir brugðist."

12 Ég víðfrægi stórvirki Drottins, ég vil minnast furðuverka þinna frá fyrri tíðum,

13 ég íhuga allar athafnir þínar, athuga stórvirki þín.

14 Guð, helgur er vegur þinn, hver er svo mikill Guð sem Drottinn?

15 Þú ert Guð, sá er furðuverk gjörir, þú hefir kunngjört mátt þinn meðal þjóðanna.

16 Með máttugum armlegg frelsaðir þú lýð þinn, sonu Jakobs og Jósefs. [Sela]

17 Vötnin sáu þig, ó Guð, vötnin sáu þig og skelfdust, og undirdjúpin skulfu.

18 Vatnið streymdi úr skýjunum, þrumuraust drundi úr skýþykkninu, og örvar þínar flugu.

19 Reiðarþrumur þínar kváðu við, leiftur lýstu um jarðríki, jörðin skalf og nötraði.

20 Leið þín lá gegnum hafið, stígar þínir gegnum mikil vötn, og spor þín urðu eigi rakin.

21 Þú leiddir lýð þinn eins og hjörð fyrir Móse og Aron.

Sálmarnir 79

79 Asafs-sálmur. Guð, heiðingjar hafa brotist inn í óðal þitt, þeir hafa saurgað þitt heilaga musteri og lagt Jerúsalem í rústir.

Þeir hafa gefið lík þjóna þinna fuglum himins að fæðu og villidýrunum hold dýrkenda þinna.

Þeir hafa úthellt blóði þeirra sem vatni umhverfis Jerúsalem, og enginn jarðaði þá.

Vér erum til háðungar nábúum vorum, til spotts og athlægis þeim er búa umhverfis oss.

Hversu lengi, Drottinn, ætlar þú að vera reiður, á vandlæti þitt að brenna sem eldur án afláts?

Hell þú reiði þinni yfir heiðingjana, sem eigi þekkja þig, og yfir konungsríki, er eigi ákalla nafn þitt.

Því að þeir hafa uppetið Jakob og lagt bústað hans í eyði.

Lát oss eigi gjalda misgjörða forfeðra vorra, lát miskunn þína fljótt koma í móti oss, því að vér erum mjög þjakaðir.

Hjálpa þú oss, Guð hjálpræðis vors, sakir dýrðar nafns þíns, frelsa oss og fyrirgef syndir vorar sakir nafns þíns.

10 Hví eiga heiðingjarnir að segja: "Hvar er Guð þeirra?" Lát fyrir augum vorum kunna verða á heiðingjunum hefndina fyrir úthellt blóð þjóna þinna.

11 Lát andvörp bandingjanna koma fram fyrir þig, leys þá sem komnir eru í dauðann, með þínum sterka armlegg,

12 og gjald nágrönnum vorum sjöfalt háðungina er þeir hafa sýnt þér, Drottinn.

13 En vér, lýður þinn og gæsluhjörð þín, munum lofa þig um eilífð, kunngjöra lofstír þinn frá kyni til kyns.

Þriðja bók Móse 25:35-55

35 Ef bróðir þinn kemst í fátækt og verður ósjálfbjarga hjá þér, þá skalt þú styðja hann sem dvalarmann og hjábýling, svo að hann geti lifað hjá þér.

36 Þú skalt eigi taka fjárleigu af honum né aukagjald, heldur skalt þú óttast Guð þinn, svo að bróðir þinn geti lifað hjá þér.

37 Þú skalt eigi ljá honum silfur þitt gegn leigu, né heldur hjálpa honum um matvæli þín gegn aukagjaldi.

38 Ég er Drottinn, Guð yðar, sem leiddi yður út af Egyptalandi til þess að gefa yður Kanaanland og vera Guð yðar.

39 Komist bróðir þinn í fátækt hjá þér og selur sig þér, þá skalt þú ekki láta hann vinna þrælavinnu.

40 Sem kaupamaður, sem hjábýlingur skal hann hjá þér vera. Hann skal vinna hjá þér til fagnaðarárs.

41 En þá skal hann fara frá þér, og börn hans með honum, og hverfa aftur til ættar sinnar, og hann skal hverfa aftur til óðals feðra sinna.

42 Því að þeir eru þjónar mínir, sem ég hefi leitt út af Egyptalandi. Eigi skulu þeir seldir mansali.

43 Þú skalt eigi drottna yfir honum með hörku, heldur skalt þú óttast Guð þinn.

44 Viljir þú fá þér þræla og ambáttir, þá skuluð þér kaupa þræla og ambáttir af þjóðunum, sem umhverfis yður búa.

45 Svo og af börnum hjábýlinga, er hjá yður dvelja, af þeim skuluð þér kaupa og af ættliði þeirra, sem hjá yður er og þeir hafa getið í landi yðar, og þau skulu verða eign yðar.

46 Og þér skuluð láta þá ganga í arf til barna yðar eftir yður, svo að þau verði eign þeirra. Þér skuluð hafa þau að ævinlegum þrælum. En yfir bræðrum yðar, Ísraelsmönnum, skuluð þér eigi drottna með hörku, einn yfir öðrum.

47 Komist dvalarmaður eða hjábýlingur í efni hjá þér, en bróðir þinn kemst í fátækt hjá honum og selur sig dvalarmanni eða hjábýlingi hjá þér eða afkomanda dvalarmanns ættar,

48 þá skal heimilt að leysa hann eftir að hann hefir selt sig. Heimilt skal einhverjum af bræðrum hans að leysa hann,

49 eða föðurbróður hans eða bræðrungi hans eða einhverjum náfrænda í ætt hans, eða komist hann sjálfur í efni, þá er honum heimilt að leysa sig.

50 Og við þann, sem keypti hann, skal hann reikna frá árinu, er hann seldi sig honum, til fagnaðarársins, og söluverðið skal fara eftir árafjöldanum. Skal hann vera hjá honum ákveðinn tíma, svo sem kaupamaður væri.

51 Ef enn eru mörg ár eftir, þá skal hann að tiltölu við árafjöldann endurgreiða lausnargjald sitt af fé því, er hann var keyptur fyrir,

52 en ef fá ár eru eftir til fagnaðarárs, þá skal hann og reikna honum þau. Eftir áratölunni skal hann endurgreiða lausnargjald sitt.

53 Skal hann sæta sömu kjörum hjá honum eins og sá, sem er kaupamaður ár eftir ár. Hann skal eigi drottna yfir honum með hörku að þér ásjáandi.

54 En sé hann ekki leystur með þessum hætti, þá skal hann ganga úr eigu kaupanda fagnaðarárið, hann og börn hans með honum.

55 Því að Ísraelsmenn eru þjónar mínir, mínir þjónar eru þeir, sem ég hefi leitt út af Egyptalandi. Ég er Drottinn, Guð yðar.

Bréf Páls til Kólossumann 1:9-14

Frá þeim degi, er vér heyrðum þetta, höfum vér því ekki látið af að biðja fyrir yður. Vér biðjum þess, að þér mættuð fyllast þekkingu á vilja Guðs með allri speki og skilningi andans,

10 svo að þér hegðið yður eins og Drottni er samboðið, honum til þóknunar á allan hátt, og fáið borið ávöxt í öllu góðu verki og vaxið að þekkingu á Guði.

11 Mætti hann styrkja yður á allan hátt með dýrðarmætti sínum, svo að þér fyllist þolgæði í hvívetna og umburðarlyndi og getið með gleði

12 þakkað föðurnum, sem hefur gjört yður hæfa til að fá hlutdeild í arfleifð heilagra í ljósinu.

13 Hann hefur frelsað oss frá valdi myrkursins og flutt oss inn í ríki síns elskaða sonar.

14 Í honum eigum vér endurlausnina, fyrirgefningu synda vorra.

Matteusarguðspjall 13:1-16

13 Sama dag gekk Jesús að heiman og settist við vatnið.

Svo mikill mannfjöldi safnaðist að honum, að hann varð að stíga í bát og sitja þar. En allt fólkið stóð á ströndinni.

Hann talaði margt til þeirra í dæmisögum. Hann sagði: "Sáðmaður gekk út að sá,

og þá er hann sáði, féll sumt hjá götunni, og fuglar komu og átu það upp.

Sumt féll í grýtta jörð, þar sem var lítill jarðvegur, og það rann skjótt upp, því það hafði ekki djúpa jörð.

Þegar sól hækkaði, visnaði það, og sökum þess að það hafði ekki rætur, skrælnaði það.

Sumt féll meðal þyrna, og þyrnarnir uxu og kæfðu það.

En sumt féll í góða jörð og bar ávöxt, sumt hundraðfaldan, sumt sextugfaldan og sumt þrítugfaldan.

Hver sem eyru hefur, hann heyri."

10 Þá komu lærisveinarnir til hans og spurðu: "Hvers vegna talar þú til þeirra í dæmisögum?"

11 Hann svaraði: "Yður er gefið að þekkja leynda dóma himnaríkis, hinum er það ekki gefið.

12 Því að þeim, sem hefur, mun gefið verða, og hann mun hafa gnægð, en frá þeim, sem eigi hefur, mun tekið verða jafnvel það, sem hann hefur.

13 Þess vegna tala ég til þeirra í dæmisögum, að sjáandi sjá þeir ekki og heyrandi heyra þeir ekki né skilja.

14 Á þeim rætist spádómur Jesaja: Með eyrum munuð þér heyra og alls ekki skilja, og sjáandi munuð þér horfa og ekkert sjá.

15 Því að hjarta lýðs þessa er sljótt orðið, og illa heyra þeir með eyrum sínum, og augunum hafa þeir lokað, svo að þeir sjái ekki með augunum né heyri með eyrunum og skilji með hjartanu og snúi sér, og ég lækni þá.

16 En sæl eru augu yðar, að þau sjá, og eyru yðar, að þau heyra.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society