Book of Common Prayer
93 Drottinn er konungur orðinn! Hann hefir íklæðst hátign, Drottinn hefir skrýðst, hann hefir spennt sig belti styrkleika síns og fest jörðina, svo að hún haggast eigi.
2 Hásæti þitt stendur stöðugt frá öndverðu, frá eilífð ert þú.
3 Straumarnir hófu upp, Drottinn, straumarnir hófu upp raust sína, straumarnir hófu upp dunur sínar.
4 Drottinn á hæðum er tignarlegri en gnýr mikilla, tignarlegra vatna, tignarlegri en boðar hafsins.
5 Vitnisburðir þínir eru harla áreiðanlegir, húsi þínu hæfir heilagleiki, ó Drottinn, um allar aldir.
96 Syngið Drottni nýjan söng, syngið Drottni öll lönd!
2 Syngið Drottni, lofið nafn hans, kunngjörið hjálpráð hans dag eftir dag.
3 Segið frá dýrð hans meðal þjóðanna, frá dásemdarverkum hans meðal allra lýða.
4 Því að mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur, óttalegur er hann öllum guðum framar.
5 Því að allir guðir þjóðanna eru falsguðir, en Drottinn hefir gjört himininn.
6 Heiður og vegsemd eru fyrir augliti hans, máttur og prýði í helgidómi hans.
7 Tjáið Drottni lof, þér kynkvíslir þjóða, tjáið Drottni vegsemd og vald.
8 Tjáið Drottni dýrð þá, er nafni hans hæfir, færið gjafir og komið til forgarða hans,
9 fallið fram fyrir Drottni í helgum skrúða, titrið fyrir honum, öll lönd!
10 Segið meðal þjóðanna: Drottinn er konungur orðinn! Hann hefir fest jörðina, svo að hún bifast ekki, hann dæmir þjóðirnar með réttvísi.
11 Himinninn gleðjist og jörðin fagni, hafið drynji og allt sem í því er,
12 foldin fagni og allt sem á henni er, öll tré skógarins kveði fagnaðaróp,
13 fyrir Drottni, því að hann kemur, hann kemur til þess að dæma jörðina. Hann mun dæma heiminn með réttlæti og þjóðirnar eftir trúfesti sinni.
34 Sálmur Davíðs, þá er hann gjörði sér upp vitfirringu frammi fyrir Abímelek, svo að Abímelek rak hann í burt, og hann fór burt.
2 Ég vil vegsama Drottin alla tíma, ætíð sé lof hans mér í munni.
3 Sál mín hrósar sér af Drottni, hinir hógværu skulu heyra það og fagna.
4 Miklið Drottin ásamt mér, tignum í sameiningu nafn hans.
5 Ég leitaði Drottins, og hann svaraði mér, frelsaði mig frá öllu því er ég hræddist.
6 Lítið til hans og gleðjist, og andlit yðar skulu eigi blygðast.
7 Hér er volaður maður sem hrópaði, og Drottinn heyrði hann og hjálpaði honum úr öllum nauðum hans.
8 Engill Drottins setur vörð kringum þá er óttast hann, og frelsar þá.
9 Finnið og sjáið, að Drottinn er góður, sæll er sá maður er leitar hælis hjá honum.
10 Óttist Drottin, þér hans heilögu, því að þeir er óttast hann líða engan skort.
11 Ung ljón eiga við skort að búa og svelta, en þeir er leita Drottins fara einskis góðs á mis.
12 Komið, börn, hlýðið á mig, ég vil kenna yður ótta Drottins.
13 Ef einhver óskar lífs, þráir lífdaga til þess að njóta hamingjunnar,
14 þá varðveit tungu þína frá illu og varir þínar frá svikatali,
15 forðast illt og gjörðu gott, leita friðar og legg stund á hann.
16 Augu Drottins hvíla á réttlátum, og eyru hans gefa gaum að hrópi þeirra.
17 Auglit Drottins horfir á þá er illa breyta, til þess að afmá minningu þeirra af jörðunni.
18 Ef réttlátir hrópa, þá heyrir Drottinn, úr öllum nauðum þeirra frelsar hann þá.
19 Drottinn er nálægur þeim er hafa sundurmarið hjarta, þeim er hafa sundurkraminn anda, hjálpar hann.
20 Margar eru raunir réttláts manns, en Drottinn frelsar hann úr þeim öllum.
21 Hann gætir allra beina hans, ekki eitt af þeim skal brotið.
22 Ógæfa drepur óguðlegan mann, þeir er hata hinn réttláta, skulu sekir dæmdir.
23 Drottinn frelsar líf þjóna sinna, enginn sá er leitar hælis hjá honum, mun sekur dæmdur.
25 Drottinn talaði við Móse á Sínaífjalli og sagði:
2 "Tala þú til Ísraelsmanna og seg við þá: Þegar þér komið í land það, sem ég mun gefa yður, þá skal landið halda Drottni hvíld.
3 Sex ár skalt þú sá akur þinn og sex ár skalt þú sniðla víngarð þinn og safna gróðrinum.
4 En sjöunda árið skal vera helgihvíld fyrir landið, hvíldartími Drottni til handa. Akur þinn skalt þú ekki sá og víngarð þinn skalt þú ekki sniðla.
5 Korn það, er vex sjálfsáið eftir uppskeru þína, skalt þú eigi skera, og vínber óskorins vínviðar þíns skalt þú eigi lesa. Það skal vera hvíldarár fyrir landið.
6 Gróður landsins um hvíldartímann skal vera yður til fæðu, þér, þræli þínum og ambátt, kaupamanni þínum og útlendum búanda, er hjá þér dvelja.
7 Og fénaði þínum og villidýrunum, sem í landi þínu eru, skal allur gróður þess vera til fæðu.
8 Þú skalt telja sjö hvíldarár, sjö ár sjö sinnum, svo að tími þeirra sjö hvíldarára verði fjörutíu og níu ár.
9 Og þá skaltu í sjöunda mánuðinum, tíunda dag mánaðarins, láta hvellilúðurinn gjalla. Friðþægingardaginn skuluð þér láta lúðurinn gjalla um gjörvallt land yðar,
10 og helga þannig hið fimmtugasta árið og boða frelsi í landinu fyrir alla íbúa þess. Það skal vera yður fagnaðarár. Þá skuluð þér hverfa aftur hver og einn til óðals síns, og þá skuluð þér hverfa aftur hver og einn til ættar sinnar.
11 Fagnaðarár skal fimmtugasta árið vera yður. Þér skuluð eigi sá og eigi uppskera það, sem vex sjálfsáið það ár, né heldur skuluð þér þá lesa vínber af óskornum vínviðum.
12 Því að það er fagnaðarár. Það sé yður heilagt. Skuluð þér eta af jörðinni það er á henni sprettur.
13 Á þessu fagnaðarári skuluð þér hverfa aftur hver og einn til óðals síns.
14 Þá er þú selur náunga þínum eitthvað eða þú kaupir eitthvað af náunga þínum, þá skuluð þér eigi sýna hver öðrum ójöfnuð.
15 Eftir því, hve mörg ár eru liðin frá fagnaðarári, skalt þú kaupa af náunga þínum, eftir því, hve uppskeruárin eru mörg, skal hann selja þér.
16 Því fleiri sem árin eru, því hærra skalt þú setja verðið, og því færri sem árin eru, því lægra skalt þú setja það, því að það er uppskerufjöldinn, sem hann selur þér.
17 Og þér skuluð eigi sýna hver öðrum ójöfnuð, heldur skalt þú óttast Guð þinn, því að ég er Drottinn, Guð yðar.
2 Álítið það, bræður mínir, eintómt gleðiefni, er þér ratið í ýmiss konar raunir.
3 Þér vitið, að trúarstaðfesta yðar vekur þolgæði,
4 en þolgæðið á að birtast í fullkomnu verki, til þess að þér séuð fullkomnir og algjörir og yður sé í engu ábótavant.
5 Ef einhvern yðar brestur visku, þá biðji hann Guð, sem gefur öllum örlátlega og átölulaust, og honum mun gefast.
6 En hann biðji í trú, án þess að efast. Sá sem efast er líkur sjávaröldu, er rís og hrekst fyrir vindi.
7 Sá maður, tvílyndur og reikull á öllum vegum sínum, má eigi ætla,
8 að hann fái nokkuð hjá Drottni.
16 Villist ekki, bræður mínir elskaðir!
17 Sérhver góð gjöf og sérhver fullkomin gáfa er ofan að og kemur niður frá föður ljósanna. Hjá honum er engin umbreyting né skuggar, sem koma og fara.
18 Eftir ráðsályktun sinni fæddi hann oss með orði sannleikans, til þess að vér skyldum vera frumgróði sköpunar hans.
13 Einn úr mannfjöldanum sagði við hann: "Meistari, seg þú bróður mínum að skipta með mér arfinum."
14 Hann svaraði honum: "Maður, hver hefur sett mig dómara eða skiptaráðanda yfir ykkur?"
15 Og hann sagði við þá: "Gætið yðar, og varist alla ágirnd. Enginn þiggur líf af eigum sínum, þótt auðugur sé."
16 Þá sagði hann þeim dæmisögu þessa: "Maður nokkur ríkur átti land, er hafði borið mikinn ávöxt.
17 Hann hugsaði með sér: ,Hvað á ég að gjöra? Nú get ég hvergi komið fyrir afurðum mínum.`
18 Og hann sagði: ,Þetta gjöri ég: Ég ríf hlöður mínar og reisi aðrar stærri, og þangað safna ég öllu korni mínu og auðæfum.
19 Og ég segi við sálu mína: Sála mín, nú átt þú mikinn auð til margra ára, hvíl þig nú, et og drekk og ver glöð.`
20 En Guð sagði við hann: ,Heimskingi, á þessari nóttu verður sál þín af þér heimtuð, og hver fær þá það, sem þú hefur aflað?`
21 Svo fer þeim er safnar sér fé, en er ekki ríkur hjá Guði."
by Icelandic Bible Society