Book of Common Prayer
55 Til söngstjórans. Með strengjaleik. Davíðs-maskíl.
2 Hlýð, ó Guð, á bæn mína, fel þig eigi fyrir grátbeiðni minni.
3 Veit mér athygli og svara mér. Ég kveina í harmi mínum og styn
4 sakir háreysti óvinarins, sakir hróps hins óguðlega, því að þeir steypa yfir mig ógæfu og ofsækja mig grimmilega.
5 Hjartað berst ákaft í brjósti mér, ógnir dauðans falla yfir mig,
6 ótti og skelfing er yfir mig komin, og hryllingur fer um mig allan,
7 svo að ég segi: "Ó að ég hefði vængi eins og dúfan, þá skyldi ég fljúga burt og finna hvíldarstað,
8 já, ég skyldi svífa langt burt, ég skyldi gista í eyðimörkinni. [Sela]
9 Ég skyldi flýta mér að leita mér hælis fyrir þjótandi vindum og veðri."
10 Rugla, Drottinn, sundra tungum þeirra, því að ég sé kúgun og deilur í borginni.
11 Dag og nótt ganga þær um á múrum hennar, en ógæfa og armæða eru þar inni fyrir.
12 Glötun er inni í henni, ofbeldi og svik víkja eigi burt frá torgi hennar.
13 Því að það er eigi óvinur sem hæðir mig _ það gæti ég þolað, og eigi hatursmaður minn er hreykir sér yfir mig _ fyrir honum gæti ég farið í felur,
14 heldur þú, jafningi minn, vinur minn og kunningi,
15 við sem vorum ástúðarvinir, sem gengum í eindrægni saman í Guðs hús.
16 Dauðinn komi yfir þá; stígi þeir lifandi niður til Heljar, því að illska er í bústöðum þeirra, í hjörtum þeirra.
17 En ég hrópa til Guðs, og Drottinn mun hjálpa mér.
18 Kvöld og morgna og um miðjan dag harma ég og styn, og hann heyrir raust mína.
19 Hann endurleysir sál mína og gefur mér frið, svo að þeir geta eigi nálgast mig, því að mótstöðumenn mínir eru margir.
20 Guð mun heyra, og hann er ríkir frá eilífð mun lægja þá. [Sela] Þeir breytast ekki og óttast eigi Guð.
21 Vinur minn lagði hendur á þann er lifði í sátt við hann, hann rauf sáttmál sitt.
22 Hálli en smjör er tunga hans, en ófriður er í hjarta hans, mýkri en olía eru orð hans, og þó brugðin sverð.
23 Varpa áhyggjum þínum á Drottin, hann mun bera umhyggju fyrir þér, hann mun eigi að eilífu láta réttlátan mann verða valtan á fótum.
24 Og þú, ó Guð, munt steypa þeim niður í grafardjúpið. Morðingjar og svikarar munu eigi ná hálfum aldri, en ég treysti þér.
138 Eftir Davíð. Ég vil lofa þig af öllu hjarta, lofsyngja þér frammi fyrir guðunum.
2 Ég vil falla fram fyrir þínu heilaga musteri og lofa nafn þitt sakir miskunnar þinnar og trúfesti, því að þú hefir gjört nafn þitt og orð þitt meira öllu öðru.
3 Þegar ég hrópaði, bænheyrðir þú mig, þú veittir mér hugmóð, er ég fann kraft hjá mér.
4 Allir konungar á jörðu skulu lofa þig, Drottinn, er þeir heyra orðin af munni þínum.
5 Þeir skulu syngja um vegu Drottins, því að mikil er dýrð Drottins.
6 Því að Drottinn er hár og sér þó hina lítilmótlegu og þekkir hinn drambláta í fjarska.
7 Þótt ég sé staddur í þrengingu, lætur þú mig lífi halda, þú réttir út hönd þína gegn reiði óvina minna, og hægri hönd þín hjálpar mér.
8 Drottinn mun koma öllu vel til vegar fyrir mig, Drottinn, miskunn þín varir að eilífu. Yfirgef eigi verk handa þinna.
139 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Drottinn, þú rannsakar og þekkir mig.
2 Hvort sem ég sit eða stend, þá veist þú það, þú skynjar hugrenningar mínar álengdar.
3 Hvort sem ég geng eða ligg, þá athugar þú það, og alla vegu mína gjörþekkir þú.
4 Því að eigi er það orð á tungu minni, að þú, Drottinn, þekkir það eigi til fulls.
5 Þú umlykur mig á bak og brjóst, og hönd þína hefir þú lagt á mig.
6 Þekking þín er undursamlegri en svo, að ég fái skilið, of háleit, ég er henni eigi vaxinn.
7 Hvert get ég farið frá anda þínum og hvert flúið frá augliti þínu?
8 Þótt ég stigi upp í himininn, þá ertu þar, þótt ég gjörði undirheima að hvílu minni, sjá, þú ert þar.
9 Þótt ég lyfti mér á vængi morgunroðans og settist við hið ysta haf,
10 einnig þar mundi hönd þín leiða mig og hægri hönd þín halda mér.
11 Og þótt ég segði: "Myrkrið hylji mig og ljósið í kringum mig verði nótt,"
12 þá myndi þó myrkrið eigi verða þér of myrkt og nóttin lýsa eins og dagur, myrkur og ljós eru jöfn fyrir þér.
13 Því að þú hefir myndað nýru mín, ofið mig í móðurlífi.
14 Ég lofa þig fyrir það, að ég er undursamlega skapaður, undursamleg eru verk þín, það veit ég næsta vel.
15 Beinin í mér voru þér eigi hulin, þegar ég var gjörður í leyni, myndaður í djúpum jarðar.
16 Augu þín sáu mig, er ég enn var ómyndað efni, ævidagar voru ákveðnir og allir skráðir í bók þína, áður en nokkur þeirra var til orðinn.
17 En hversu torskildar eru mér hugsanir þínar, ó Guð, hversu stórkostlegar eru þær allar samanlagðar.
18 Ef ég vildi telja þær, væru þær fleiri en sandkornin, ég mundi vakna og vera enn með hugann hjá þér.
19 Ó að þú, Guð, vildir fella níðingana. Morðingjar! Víkið frá mér.
20 Þeir þrjóskast gegn þér með svikum og leggja nafn þitt við hégóma.
21 Ætti ég eigi, Drottinn, að hata þá, er hata þig, og hafa viðbjóð á þeim, er rísa gegn þér?
22 Ég hata þá fullu hatri, þeir eru orðnir óvinir mínir.
23 Prófa mig, Guð, og þekktu hjarta mitt, rannsaka mig og þekktu hugsanir mínar,
18 Reisti Móse búðina, lagði undirstöðurnar, sló upp þiljunum, setti í slárnar og reisti upp stólpana.
19 Og hann þandi tjaldvoðina yfir búðina og lagði tjaldþökin þar yfir, eins og Drottinn hafði boðið Móse.
20 Hann tók sáttmálið og lagði það í örkina, setti stengurnar í örkina og lét arkarlokið yfir örkina.
21 Og hann flutti örkina inn í búðina, setti upp fortjaldsdúkbreiðuna og byrgði fyrir sáttmálsörkina, eins og Drottinn hafði boðið Móse.
22 Hann setti borðið inn í samfundatjaldið, við norðurhlið búðarinnar, fyrir utan fortjaldið,
23 og hann raðaði á það brauðunum frammi fyrir Drottni, eins og Drottinn hafði boðið Móse.
24 Hann setti upp ljósastikuna í samfundatjaldinu gegnt borðinu við suðurhlið búðarinnar.
25 Og hann setti upp lampana frammi fyrir Drottni, eins og Drottinn hafði boðið Móse.
26 Hann setti upp gullaltarið inni í samfundatjaldinu fyrir framan fortjaldið,
27 og brenndi á því ilmreykelsi, eins og Drottinn hafði boðið Móse.
28 Síðan hengdi hann dúkbreiðuna fyrir dyr búðarinnar,
29 setti brennifórnaraltarið við dyr samfundatjalds-búðarinnar og fórnaði á því brennifórn og matfórn, eins og Drottinn hafði boðið Móse.
30 Hann setti kerið milli samfundatjaldsins og altarisins og lét vatn í það til þvottar,
31 og þvoðu þeir Móse, Aron og synir hans hendur sínar og fætur úr því.
32 Hvert sinn er þeir gengu inn í samfundatjaldið og nálguðust altarið, þvoðu þeir sér, svo sem Drottinn hafði boðið Móse.
33 Síðan reisti hann forgarðinn umhverfis búðina og altarið og hengdi dúkbreiðuna fyrir forgarðshliðið, og hafði Móse þá aflokið verkinu.
34 Þá huldi skýið samfundatjaldið, og dýrð Drottins fyllti búðina,
35 og mátti Móse ekki inn ganga í samfundatjaldið, því að skýið lá yfir því og dýrð Drottins fyllti búðina.
36 Hvert sinn er skýið hófst upp frá búðinni, lögðu Ísraelsmenn upp, alla þá stund er þeir voru á ferðinni.
37 En er skýið hófst ekki upp, lögðu Ísraelsmenn ekki af stað fyrr en þann dag er skýið hófst upp.
4 Að endingu biðjum vér yður, bræður, og áminnum í Drottni Jesú. Þér hafið numið af oss, hvernig yður ber að breyta og þóknast Guði, og þannig breytið þér líka. En takið enn meiri framförum.
2 Þér vitið, hver boðorð vér gáfum yður frá Drottni Jesú.
3 Það er vilji Guðs, að þér verðið heilagir. Hann vill, að þér haldið yður frá frillulífi,
4 að sérhver yðar hafi vit á að halda líkama sínum í helgun og heiðri,
5 en ekki í losta, eins og heiðingjarnir, er ekki þekkja Guð.
6 Og enginn skyldi gjöra bróður sínum rangt til né blekkja hann í slíkum sökum. Því að Drottinn hegnir fyrir allt þvílíkt, eins og vér höfum áður sagt yður og brýnt fyrir yður.
7 Ekki kallaði Guð oss til saurlifnaðar, heldur helgunar.
8 Sá, sem fyrirlítur þetta, fyrirlítur þess vegna ekki mann, heldur Guð, sem hefur gefið yður sinn heilaga anda.
9 En ekki hafið þér þess þörf, að ég skrifi yður um bróðurkærleikann, því Guð hefur sjálfur kennt yður að elska hver annan.
10 Það gjörið þér einnig öllum bræðrum í allri Makedóníu. En vér áminnum yður, bræður, að taka enn meiri framförum.
11 Leitið sæmdar í því að lifa kyrrlátu lífi og stunda hver sitt starf og vinna með höndum yðar, eins og vér höfum boðið yður.
12 Þannig hegðið þér yður með sóma gagnvart þeim, sem fyrir utan eru, og eruð upp á engan komnir.
38 Þér hafið heyrt, að sagt var: ,Auga fyrir auga og tönn fyrir tönn.`
39 En ég segi yður: Rísið ekki gegn þeim, sem gerir yður mein. Nei, slái einhver þig á hægri kinn, þá bjóð honum einnig hina.
40 Og vilji einhver þreyta lög við þig og hafa af þér kyrtil þinn, gef honum eftir yfirhöfnina líka.
41 Og neyði einhver þig með sér eina mílu, þá far með honum tvær.
42 Gef þeim, sem biður þig, og snú ekki baki við þeim, sem vill fá lán hjá þér.
43 Þér hafið heyrt, að sagt var: ,Þú skalt elska náunga þinn og hata óvin þinn.`
44 En ég segi yður: Elskið óvini yðar, og biðjið fyrir þeim, sem ofsækja yður,
45 svo að þér reynist börn föður yðar á himnum, er lætur sól sína renna upp yfir vonda sem góða og rigna yfir réttláta sem rangláta.
46 Þótt þér elskið þá, sem yður elska, hver laun eigið þér fyrir það? Gjöra ekki tollheimtumenn hið sama?
47 Og hvað er það, þótt þér heilsið bræðrum yðar einum. Gjöra heiðnir menn ekki hið sama?
48 Verið þér því fullkomnir, eins og faðir yðar himneskur er fullkominn.
by Icelandic Bible Society