Book of Common Prayer
40 Til söngstjórans. Davíðssálmur.
2 Ég hefi sett alla von mína á Drottin, og hann laut niður að mér og heyrði kvein mitt.
3 Hann dró mig upp úr glötunargröfinni, upp úr hinni botnlausu leðju, og veitti mér fótfestu á kletti, gjörði mig styrkan í gangi.
4 Hann lagði mér ný ljóð í munn, lofsöng um Guð vorn. Margir sjá það og óttast og treysta Drottni.
5 Sæll er sá maður, er gjörir Drottin að athvarfi sínu og snýr sér eigi til hinna dramblátu né þeirra er snúist hafa afleiðis til lygi.
6 Mörg hefir þú, Drottinn, Guð minn, gjört dásemdarverk þín og áform þín oss til handa, ekkert kemst í samjöfnuð við þig. Ef ég ætti að boða þau og kunngjöra, eru þau fleiri en tölu verði á komið.
7 Á sláturfórnum og matfórnum hefir þú enga þóknun, _ þú hefir gefið mér opin eyru _ brennifórnir og syndafórnir heimtar þú eigi.
8 Þá mælti ég: "Sjá, ég kem, í bókrollunni eru mér reglur settar.
9 Að gjöra vilja þinn, Guð minn, er mér yndi, og lögmál þitt er hið innra í mér."
10 Ég hefi boðað réttlætið í miklum söfnuði, ég hefi eigi haldið vörunum aftur, það veist þú, Drottinn!
11 Ég leyndi eigi réttlæti þínu í hjarta mér, ég kunngjörði trúfesti þína og hjálpræði og dró eigi dul á náð þína og tryggð í hinum mikla söfnuði.
12 Tak þá eigi miskunn þína frá mér, Drottinn, lát náð þína og trúfesti ætíð vernda mig.
13 Því að ótal hættur umkringja mig, misgjörðir mínar hafa náð mér, svo að ég má eigi sjá, þær eru fleiri en hárin á höfði mér, mér fellst hugur.
14 Lát þér, Drottinn, þóknast að frelsa mig, skunda, Drottinn, mér til hjálpar.
15 Lát þá verða til skammar og hljóta kinnroða, er sitja um líf mitt, lát þá hverfa aftur með skömm, er óska mér ógæfu.
16 Lát þá verða forviða yfir smán sinni, er hrópa háð og spé.
17 En allir þeir er leita þín skulu gleðjast og fagna yfir þér, þeir er unna hjálpræði þínu skulu sífellt segja: "Vegsamaður sé Drottinn!"
18 Ég er hrjáður og snauður, en Drottinn ber umhyggju fyrir mér. Þú ert fulltingi mitt og frelsari, tef eigi, Guð minn!
54 Til söngstjórans. Með strengjaleik. Maskíl eftir Davíð,
2 þá er Sifítar komu og sögðu við Sál: Veistu að Davíð felur sig hjá oss?
3 Hjálpa mér, Guð, með nafni þínu, rétt hlut minn með mætti þínum.
4 Guð, heyr þú bæn mína, ljá eyra orðum munns míns.
5 Því að erlendir fjandmenn hefjast gegn mér og ofríkismenn sækjast eftir lífi mínu, eigi hafa þeir Guð fyrir augum. [Sela]
6 Sjá, Guð er mér hjálpari, það er Drottinn er styður mig.
7 Hið illa mun fjandmönnum mínum í koll koma, lát þá hverfa af trúfesti þinni.
8 Þá vil ég færa þér sjálfviljafórnir, lofa nafn þitt, Drottinn, að það sé gott,
9 því að það hefir frelsað mig úr hverri neyð, og auga mitt hefir svalað sér á að horfa á óvini mína.
51 Til söngstjórans. Sálmur Davíðs,
2 þá er Natan spámaður kom til hans, eftir að hann hafði gengið inn til Batsebu.
3 Guð, vertu mér náðugur sakir elsku þinnar, afmá brot mín sakir þinnar miklu miskunnsemi.
4 Þvo mig hreinan af misgjörð minni, hreinsa mig af synd minni,
5 því að ég þekki sjálfur afbrot mín, og synd mín stendur mér stöðugt fyrir hugskotssjónum.
6 Gegn þér einum hefi ég syndgað og gjört það sem illt er í augum þínum. Því ert þú réttlátur, er þú talar, hreinn, er þú dæmir.
7 Sjá, sekur var ég, er ég varð til, syndugur, er móðir mín fæddi mig.
8 Sjá, þú hefir þóknun á hreinskilni hið innra, og í fylgsnum hjartans kennir þú mér visku!
9 Hreinsa mig með ísóp, svo að ég verði hreinn, þvo mig, svo að ég verði hvítari en mjöll.
10 Lát mig heyra fögnuð og gleði, lát kætast beinin sem þú hefir sundurmarið.
11 Byrg auglit þitt fyrir syndum mínum og afmá allar misgjörðir mínar.
12 Skapa í mér hreint hjarta, ó Guð, og veit mér nýjan, stöðugan anda.
13 Varpa mér ekki burt frá augliti þínu og tak ekki þinn heilaga anda frá mér.
14 Veit mér aftur fögnuð þíns hjálpræðis og styð mig með fúsleiks anda,
15 að ég megi kenna afbrotamönnum vegu þína og syndarar megi hverfa aftur til þín.
16 Frelsa mig frá dauðans háska, Guð hjálpræðis míns, lát tungu mína fagna yfir réttlæti þínu.
17 Drottinn, opna varir mínar, svo að munnur minn kunngjöri lof þitt!
18 Þú hefir ekki þóknun á sláturfórnum _ annars mundi ég láta þær í té _ og að brennifórnum er þér ekkert yndi.
19 Guði þekkar fórnir eru sundurmarinn andi, sundurmarið og sundurkramið hjarta munt þú, ó Guð, eigi fyrirlíta.
20 Gjör vel við Síon sakir náðar þinnar, reis múra Jerúsalem!
21 Þá munt þú hafa þóknun á réttum fórnum, á brennifórn og alfórn, þá munu menn bera fram uxa á altari þitt.
18 Þú skalt halda hátíð hinna ósýrðu brauða. Sjö daga skaltu eta ósýrð brauð, eins og ég hefi boðið þér, á ákveðnum tíma í abíb-mánuði, því að í abíb-mánuði fórst þú út af Egyptalandi.
19 Allt það, sem opnar móðurlíf, er mitt, sömuleiðis allur fénaður þinn, sem karlkyns er, frumburðir nauta og sauða.
20 En frumburði undan ösnum skaltu leysa með lambi. Leysir þú ekki, skaltu brjóta þá úr hálsliðum. Alla frumburði sona þinna skaltu leysa, og enginn skal tómhentur koma fyrir auglit mitt.
21 Sex daga skaltu vinna, en hvílast hinn sjöunda dag, þá skaltu hvílast, hvort heldur er plægingartími eða uppskeru.
22 Þú skalt halda viknahátíðina, hátíð frumgróða hveitiuppskerunnar, og uppskeruhátíðina við árslokin.
23 Þrem sinnum á ári skal allt þitt karlkyn birtast frammi fyrir Drottni Guði, Guði Ísraels.
24 Því að ég mun reka heiðingjana burt frá þér og færa út landamerki þín, og enginn skal áseilast land þitt, þegar þú fer upp til að birtast frammi fyrir Drottni Guði þínum þrem sinnum á ári.
25 Þú skalt ekki fram bera blóð fórnar minnar með sýrðu brauði, og páskahátíðarfórnin má ekki liggja til morguns.
26 Hið fyrsta, frumgróða jarðar þinnar, skaltu færa til húss Drottins Guðs þíns. Þú skalt ekki sjóða kið í mjólk móður sinnar."
27 Drottinn sagði við Móse: "Skrifa þú upp þessi orð, því að samkvæmt þessum orðum hefi ég gjört sáttmála við þig og við Ísrael."
28 Og Móse var þar hjá Drottni fjörutíu daga og fjörutíu nætur og át ekki brauð og drakk ekki vatn. Og hann skrifaði á töflurnar orð sáttmálans, tíu boðorðin.
29 En er Móse gekk ofan af Sínaífjalli, og hann hafði báðar sáttmálstöflurnar í hendi sér, þegar hann gekk ofan af fjallinu, þá vissi Móse ekki að geislar stóðu af andlitshörundi hans, af því að hann hafði talað við Drottin.
30 Og Aron og allir Ísraelsmenn sáu Móse, og sjá: Geislar stóðu af andlitshörundi hans. Þorðu þeir þá ekki að koma nærri honum.
31 En Móse kallaði á þá, og sneru þeir þá aftur til hans, Aron og allir leiðtogar safnaðarins, og talaði Móse við þá.
32 Eftir það gengu allir Ísraelsmenn til hans, og bauð hann þeim að halda allt það, sem Drottinn hafði við hann talað á Sínaífjalli.
33 Er Móse hafði lokið máli sínu við þá, lét hann skýlu fyrir andlit sér.
34 En er Móse gekk fram fyrir Drottin til þess að tala við hann, tók hann skýluna frá, þar til er hann gekk út aftur. Því næst gekk hann út og flutti Ísraelsmönnum það, sem honum var boðið.
35 Sáu Ísraelsmenn þá andlit Móse, hversu geislar stóðu af andlitshörundi hans. Lét Móse þá skýluna aftur fyrir andlit sér, þar til er hann gekk inn til þess að tala við Guð.
3 Þar kom, að vér þoldum ekki lengur við og réðum þá af að verða einir eftir í Aþenu,
2 en sendum Tímóteus, bróður vorn og aðstoðarmann Guðs við fagnaðarerindið um Krist, til að styrkja yður og áminna í trú yðar,
3 svo að enginn láti bifast í þrengingum þessum. Þér vitið sjálfir, að þetta er oss ætlað.
4 Þegar vér vorum hjá yður, þá sögðum vér yður fyrir, að vér mundum verða að þola þrengingar. Það kom líka fram, eins og þér vitið.
5 Því þoldi ég ekki lengur við og sendi Tímóteus til að fá að vita um trú yðar, hvort freistarinn kynni að hafa freistað yðar og erfiði vort orðið til einskis.
6 En nú er hann aftur kominn til vor frá yður og hefur borið oss gleðifregn um trú yðar og kærleika, að þér ávallt munið eftir oss með hlýjum hug og yður langi til að sjá oss, eins og oss líka til að sjá yður.
7 Sökum þessa höfum vér, bræður, huggun hlotið vegna trúar yðar þrátt fyrir alla neyð og þrengingu.
8 Nú lifum vér, ef þér standið stöðugir í Drottni.
9 Hvernig getum vér nógsamlega þakkað Guði fyrir alla þá gleði, er vér höfum af yður frammi fyrir Guði vorum?
10 Og vér biðjum nótt og dag, heitt og af hjarta, að fá að sjá yður og bæta úr því, sem trú yðar er áfátt.
11 Sjálfur Guð og faðir vor og Drottinn vor Jesús greiði veg vorn til yðar.
12 En Drottinn efli yður og auðgi að kærleika hvern til annars og til allra, eins og vér berum kærleika til yðar.
13 Þannig styrkir hann hjörtu yðar, svo að þér verðið óaðfinnanlegir og heilagir frammi fyrir Guði, föður vorum, við komu Drottins vors Jesú ásamt öllum hans heilögu.
27 Þér hafið heyrt, að sagt var: ,Þú skalt ekki drýgja hór.`
28 En ég segi yður: Hver sem horfir á konu í girndarhug, hefur þegar drýgt hór með henni í hjarta sínu.
29 Ef hægra auga þitt tælir þig til falls, þá ríf það úr og kasta frá þér. Betra er þér, að einn lima þinna glatist, en öllum líkama þínum verði kastað í helvíti.
30 Ef hægri hönd þín tælir þig til falls, þá sníð hana af og kasta frá þér. Betra er þér, að einn lima þinna glatist, en allur líkami þinn fari til helvítis.
31 Þá var og sagt: ,Sá sem skilur við konu sína, skal gefa henni skilnaðarbréf.`
32 En ég segi yður: Hver sem skilur við konu sína, nema fyrir hórsök, verður til þess, að hún drýgir hór. Og sá sem gengur að eiga fráskilda konu, drýgir hór.
33 Enn hafið þér heyrt, að sagt var við forfeðurna: ,Þú skalt ekki vinna rangan eið, en halda skaltu eiða þína við Drottin.`
34 En ég segi yður, að þér eigið alls ekki að sverja, hvorki við himininn, því hann er hásæti Guðs,
35 né við jörðina, því hún er skör fóta hans, né við Jerúsalem, því hún er borg hins mikla konungs.
36 Og eigi skaltu sverja við höfuð þitt, því að þú getur ekki gjört eitt hár hvítt eða svart.
37 En þegar þér talið, sé já yðar já og nei sé nei. Það sem umfram er, kemur frá hinum vonda.
by Icelandic Bible Society