Book of Common Prayer
63 Sálmur eftir Davíð, þá er hann var í Júda-eyðimörk.
2 Drottinn, þú ert minn Guð, þín leita ég, sál mína þyrstir eftir þér, hold mitt þráir þig, í þurru landi, örþrota af vatnsleysi.
3 Þannig hefi ég litast um eftir þér í helgidóminum til þess að sjá veldi þitt og dýrð,
4 því að miskunn þín er mætari en lífið. Varir mínar skulu vegsama þig.
5 Þannig skal ég lofa þig meðan lifi, hefja upp hendurnar í þínu nafni.
6 Sál mín mettast sem af merg og feiti, og með fagnandi vörum lofar þig munnur minn,
7 þá er ég minnist þín í hvílu minni, hugsa um þig á næturvökunum.
8 Því að þú ert mér fulltingi, í skugga vængja þinna fagna ég.
9 Sál mín heldur sér fast við þig, hægri hönd þín styður mig.
10 Þeir sem sitja um líf mitt sjálfum sér til glötunar, munu hverfa í djúp jarðar.
11 Þeir munu verða ofurseldir sverðseggjum, verða sjakölunum að bráð.
12 Konungurinn skal gleðjast yfir Guði, hver sá er sver við hann, skal sigri hrósa, af því að munni lygaranna hefir verið lokað.
98 Sálmur. Syngið Drottni nýjan söng, því að hann hefir gjört dásemdarverk, hægri hönd hans hjálpaði honum og hans heilagi armleggur.
2 Drottinn hefir kunngjört hjálpræði sitt, fyrir augum þjóðanna opinberaði hann réttlæti sitt.
3 Hann minntist miskunnar sinnar við Jakob og trúfesti sinnar við Ísraels ætt. Öll endimörk jarðar sáu hjálpræði Guðs vors.
4 Látið gleðióp gjalla fyrir Drottni, öll lönd, hefjið gleðisöng, æpið fagnaðaróp og lofsyngið.
5 Leikið fyrir Drottni á gígju, á gígju með lofsöngshljómi,
6 með lúðrum og básúnuhljómi, látið gleðióp gjalla fyrir konunginum Drottni.
7 Hafið drynji og allt sem í því er, heimurinn og þeir sem í honum lifa.
8 Fljótin skulu klappa lof í lófa, fjöllin fagna öll saman
9 fyrir Drottni sem kemur til að dæma jörðina. Hann dæmir heiminn með réttlæti og þjóðirnar með réttvísi.
103 Davíðssálmur. Lofa þú Drottin, sála mín, og allt sem í mér er, hans heilaga nafn,
2 lofa þú Drottin, sála mín, og gleym eigi neinum velgjörðum hans.
3 Hann fyrirgefur allar misgjörðir þínar, læknar öll þín mein,
4 leysir líf þitt frá gröfinni, krýnir þig náð og miskunn.
5 Hann mettar þig gæðum, þú yngist upp sem örninn.
6 Drottinn fremur réttlæti og veitir rétt öllum kúguðum.
7 Hann gjörði Móse vegu sína kunna og Ísraelsbörnum stórvirki sín.
8 Náðugur og miskunnsamur er Drottinn, þolinmóður og mjög gæskuríkur.
9 Hann þreytir eigi deilur um aldur og er eigi eilíflega reiður.
10 Hann hefir eigi breytt við oss eftir syndum vorum og eigi goldið oss eftir misgjörðum vorum,
11 heldur svo hár sem himinninn er yfir jörðunni, svo voldug er miskunn hans við þá er óttast hann.
12 Svo langt sem austrið er frá vestrinu, svo langt hefir hann fjarlægt afbrot vor frá oss.
13 Eins og faðir sýnir miskunn börnum sínum, eins hefir Drottinn sýnt miskunn þeim er óttast hann.
14 Því að hann þekkir eðli vort, minnist þess að vér erum mold.
15 Dagar mannsins eru sem grasið, hann blómgast sem blómið á mörkinni,
16 þegar vindur blæs á hann er hann horfinn, og staður hans þekkir hann ekki framar.
17 En miskunn Drottins við þá er óttast hann varir frá eilífð til eilífðar, og réttlæti hans nær til barnabarnanna,
18 þeirra er varðveita sáttmála hans og muna að breyta eftir boðum hans.
19 Drottinn hefir reist hásæti sitt á himnum, og konungdómur hans drottnar yfir alheimi.
20 Lofið Drottin, þér englar hans, þér voldugu hetjur, er framkvæmið boð hans, er þér heyrið hljóminn af orði hans.
21 Lofið Drottin, allar hersveitir hans, þjónar hans, er framkvæmið vilja hans.
22 Lofið Drottin, öll verk hans, á hverjum stað í ríki hans. Lofa þú Drottin, sála mín.
28 Þú skalt taka Aron bróður þinn og sonu hans með honum til þín úr sveit Ísraelsmanna, að hann þjóni mér í prestsembætti, þá Aron, Nadab og Abíhú, Eleasar og Ítamar, sonu Arons.
2 Þú skalt gjöra Aroni bróður þínum helg klæði til vegs og prýði.
3 Og þú skalt tala við alla hugvitsmenn, sem ég hefi fyllt hugvitsanda, og skulu þeir gjöra Aroni klæði, svo að hann verði vígður til að þjóna mér í prestsembætti.
4 Þessi eru klæðin, sem þeir skulu gjöra: Brjóstskjöldur, hökull, möttull, tiglofinn kyrtill, vefjarhöttur og belti. Þeir skulu gjöra Aroni bróður þínum og sonum hans helg klæði, að hann þjóni mér í prestsembætti,
30 Og þú skalt leggja inn í dómskjöldinn úrím og túmmím, svo að það sé á brjósti Arons, þegar hann gengur inn fyrir Drottin, og Aron skal ávallt bera dóm Ísraelsmanna á brjósti sér frammi fyrir Drottni.
31 Hökulmöttulinn skalt þú allan gjöra af bláum purpura.
32 Á honum skal vera hálsmál faldað með ofnum borða, eins og á brynju, svo að ekki rifni út úr.
33 Á faldi hans skalt þú búa til granatepli af bláum purpura, rauðum purpura og skarlati, á faldi hans allt í kring, og bjöllur af gulli í milli eplanna allt í kring,
34 svo að fyrst komi gullbjalla og granatepli, og þá aftur gullbjalla og granatepli, allt í kring á möttulfaldinum.
35 Í honum skal Aron vera, þegar hann embættar, svo að heyra megi til hans, þegar hann gengur inn í helgidóminn fram fyrir Drottin og þá er hann gengur út, svo að hann deyi ekki.
36 Þú skalt gjöra spöng af skíru gulli og grafa á hana með innsiglisgrefti: ,Helgaður Drottni.`
37 Og þú skalt festa hana á snúru af bláum purpura, og skal hún vera á vefjarhettinum. Framan á vefjarhettinum skal hún vera.
38 Og hún skal vera á enni Arons, svo að Aron taki á sig galla þá, er verða kunna á hinum helgu fórnum, er Ísraelsmenn fram bera, hverjar svo sem helgigjafir þeirra eru. Hún skal ætíð vera á enni hans til þess að gjöra þær velþóknanlegar fyrir Drottni.
18 Börn mín, það er hin síðasta stund. Þér hafið heyrt að andkristur kemur, og nú eru líka margir andkristar komnir fram. Af því vitum vér, að það er hin síðasta stund.
19 Þeir komu úr vorum hópi, en heyrðu oss ekki til. Ef þeir hefðu heyrt oss til, þá hefðu þeir áfram verið með oss. En þetta varð til þess að augljóst yrði, að enginn þeirra heyrði oss til.
20 En þér hafið smurning frá hinum heilaga og vitið þetta allir.
21 Ég hef ekki skrifað yður vegna þess, að þér þekkið ekki sannleikann, heldur af því að þér þekkið hann og af því að engin lygi getur komið frá sannleikanum.
22 Hver er lygari, ef ekki sá sem neitar, að Jesús sé Kristur? Sá er andkristurinn, sem afneitar föðurnum og syninum.
23 Hver sem afneitar syninum hefur ekki heldur fundið föðurinn. Sá sem játar soninn hefur og fundið föðurinn.
24 En þér, látið það vera stöðugt í yður, sem þér hafið heyrt frá upphafi. Ef það er stöðugt í yður, sem þér frá upphafi hafið heyrt, þá munuð þér einnig vera stöðugir í syninum og í föðurnum.
25 Og þetta er fyrirheitið, sem hann gaf oss: Hið eilífa líf.
26 Þetta hef ég skrifað yður um þá, sem eru að leiða yður afvega.
27 Og sú smurning, sem þér fenguð af honum, hún er stöðug í yður, og þér þurfið þess ekki, að neinn kenni yður, því smurning hans fræðir yður um allt, hún er sannleiki, en engin lygi. Verið stöðugir í honum, eins og hún kenndi yður.
28 Og nú, börnin mín, verið stöðug í honum, til þess að vér getum, þegar hann birtist, átt djörfung og blygðumst vor ekki fyrir honum, þegar hann kemur.
29 Þér vitið, að hann er réttlátur. Þá skiljið þér einnig, að hver sem iðkar réttlætið, er fæddur af honum.
30 Postularnir komu nú aftur til Jesú og sögðu honum frá öllu því, er þeir höfðu gjört og kennt.
31 Hann sagði við þá: "Komið þér nú á óbyggðan stað, svo að vér séum einir saman, og hvílist um stund." En fjöldi fólks var stöðugt að koma og fara, svo að þeir höfðu ekki einu sinni næði til að matast.
32 Og þeir fóru á bátnum einir saman á óbyggðan stað.
33 Menn sáu þá fara, og margir þekktu þá, og nú streymdi fólk þangað gangandi úr öllum borgunum og varð á undan þeim.
34 Þegar Jesús steig á land, sá hann þar mikinn mannfjölda, og hann kenndi í brjósti um þá, því að þeir voru sem sauðir, er engan hirði hafa. Og hann kenndi þeim margt.
35 Þá er mjög var áliðið dags, komu lærisveinar hans að máli við hann og sögðu: "Hér er engin mannabyggð og langt á daginn liðið.
36 Lát þá fara, að þeir geti náð til býla og þorpa hér í kring og keypt sér eitthvað til matar."
37 En hann svaraði þeim: "Gefið þeim sjálfir að eta." Þeir svara honum: "Eigum vér að fara og kaupa brauð fyrir tvö hundruð denara og gefa þeim að eta?"
38 Jesús spyr þá: "Hve mörg brauð hafið þér? Farið og gætið að." Þeir hugðu að og svöruðu: "Fimm brauð og tvo fiska."
39 Þá bauð hann þeim að láta alla setjast í grængresið og skipta sér í hópa.
40 Þeir settust niður í flokkum, hundrað í sumum, en fimmtíu í öðrum.
41 Og hann tók brauðin fimm og fiskana tvo, leit upp til himins, þakkaði Guði, braut brauðin og gaf lærisveinunum til að bera fram fyrir mannfjöldann. Fiskunum tveim skipti hann og meðal allra.
42 Og þeir neyttu allir og urðu mettir.
43 Þeir tóku saman brauðbitana, er fylltu tólf körfur, svo og fiskleifarnar.
44 En þeir, sem brauðanna neyttu, voru fimm þúsund karlmenn.
by Icelandic Bible Society