Book of Common Prayer
30 Musterisvígsluljóð. Davíðssálmur.
2 Ég tigna þig, Drottinn, því að þú hefir bjargað mér og eigi látið óvini mína hlakka yfir mér.
3 Drottinn, Guð minn, ég hrópaði til þín og þú læknaðir mig.
4 Drottinn, þú heimtir sál mína úr Helju, lést mig halda lífi, er aðrir gengu til grafar.
5 Syngið Drottni lof, þér hans trúuðu, vegsamið hans heilaga nafn.
6 Andartak stendur reiði hans, en alla ævi náð hans. Að kveldi gistir oss grátur, en gleðisöngur að morgni.
7 En ég uggði eigi að mér og hugsaði: "Aldrei skriðnar mér fótur."
8 Drottinn, af náð þinni hafðir þú gjört bjarg mitt stöðugt, en nú huldir þú auglit þitt og ég skelfdist.
9 Til þín, Drottinn, kallaði ég, og Drottin grátbændi ég:
10 "Hver ávinningur er í dauða mínum, í því að ég gangi til grafar? Getur duftið lofað þig, kunngjört trúfesti þína?
11 Heyr, Drottinn, og líkna mér, ó Drottinn, ver þú hjálpari minn!"
12 Þú breyttir grát mínum í gleðidans, leystir af mér hærusekkinn og gyrtir mig fögnuði,
13 að sál mín megi lofsyngja þér og eigi þagna. Drottinn, Guð minn, ég vil þakka þér að eilífu.
32 Davíðsmaskíl. Sæll er sá er afbrotin eru fyrirgefin, synd hans hulin.
2 Sæll er sá maður er Drottinn tilreiknar eigi misgjörð, sá er eigi geymir svik í anda.
3 Meðan ég þagði, tærðust bein mín, allan daginn kveinaði ég,
4 því að dag og nótt lá hönd þín þungt á mér, lífsvökvi minn þvarr sem í sumarbreiskju. [Sela]
5 Þá játaði ég synd mína fyrir þér og fól eigi misgjörð mína. Ég mælti: "Ég vil játa afbrot mín fyrir Drottni," og þú fyrirgafst syndasekt mína. [Sela]
6 Þess vegna biðji þig sérhver trúaður, meðan þig er að finna. Þótt vatnsflóðið komi, nær það honum eigi.
7 Þú ert skjól mitt, þú leysir mig úr nauðum, með frelsisfögnuði umkringir þú mig. [Sela]
8 Ég vil fræða þig og vísa þér veginn, er þú átt að ganga, ég vil kenna þér og hafa augun á þér:
9 Verið eigi sem hestar eða skynlausir múlar; með taum og beisli verður að temja þrjósku þeirra, annars nálgast þeir þig ekki.
10 Miklar eru þjáningar óguðlegs manns, en þann er treystir Drottni umlykur hann elsku.
11 Gleðjist yfir Drottni og fagnið, þér réttlátir, kveðið fagnaðarópi, allir hjartahreinir!
42 Til söngstjórans. Kóraítamaskíl.
2 Eins og hindin, sem þráir vatnslindir, þráir sál mín þig, ó Guð.
3 Sál mína þyrstir eftir Guði, hinum lifanda Guði. Hvenær mun ég fá að koma og birtast fyrir augliti Guðs?
4 Tár mín urðu fæða mín dag og nótt, af því menn segja við mig allan daginn: "Hvar er Guð þinn?"
5 Um það vil ég hugsa og úthella sál minni, sem í mér er, hversu ég gekk fram í mannþrönginni, leiddi þá til Guðs húss með fagnaðarópi og lofsöng, með hátíðaglaumi.
6 Hví ert þú beygð, sál mín, og ólgar í mér? Vona á Guð, því að enn mun ég fá að lofa hann, hjálpræði auglitis míns og Guð minn.
7 Guð minn, sál mín er beygð í mér, fyrir því vil ég minnast þín frá Jórdan- og Hermonlandi, frá litla fjallinu.
8 Eitt flóðið kallar á annað, þegar fossar þínir duna, allir boðar þínir og bylgjur ganga yfir mig.
9 Um daga býður Drottinn út náð sinni, og um nætur syng ég honum ljóð, bæn til Guðs lífs míns.
10 Ég mæli til Guðs: "Þú bjarg mitt, hví hefir þú gleymt mér? hví verð ég að ganga harmandi, kúgaður af óvinum?"
11 Háð fjandmanna minna er sem rotnun í beinum mínum, er þeir segja við mig allan daginn: "Hvar er Guð þinn?"
12 Hví ert þú beygð, sál mín, og ólgar í mér? Vona á Guð, því að enn mun ég fá að lofa hann, hjálpræði auglitis míns og Guð minn.
43 Lát mig ná rétti mínum, Guð, berst fyrir málefni mínu gegn miskunnarlausri þjóð, bjarga mér frá svikulum og ranglátum mönnum.
2 Því að þú ert sá Guð, sem er mér vígi, hví hefir þú útskúfað mér? hví verð ég að ganga um harmandi, kúgaður af óvinum?
3 Send ljós þitt og trúfesti þína, þau skulu leiða mig, þau skulu fara með mig til fjallsins þíns helga, til bústaðar þíns,
4 svo að ég megi inn ganga að altari Guðs, til Guðs minnar fagnandi gleði, og lofa þig með gígjuhljómi, ó Guð, þú Guð minn.
5 Hví ert þú beygð, sál mín, og ólgar í mér? Vona á Guð, því að enn mun ég fá að lofa hann, hjálpræði auglitis míns og Guð minn.
25 Drottinn talaði við Móse og sagði:
2 "Seg Ísraelsmönnum að þeir færi mér gjafir. Af hverjum þeim manni skuluð þér gjöf taka mér til handa, sem gefur hana af fúsum huga.
3 Og þessar eru gjafir þær, sem þér skuluð af þeim taka: gull, silfur og eir;
4 blár purpuri, rauður purpuri, skarlat, baðmull og geitahár;
5 rauðlituð hrútskinn, höfrungaskinn og akasíuviður;
6 olía til ljósastikunnar, kryddjurtir til ilmsmyrsla og ilmreykelsis;
7 sjóamsteinar og steinar til legginga á hökulinn og brjóstskjöldinn.
8 Og þeir skulu gjöra mér helgidóm, að ég búi mitt á meðal þeirra.
9 Þér skuluð gjöra hann í öllum greinum eftir þeirri fyrirmynd af tjaldbúðinni og eftir þeirri fyrirmynd af öllum áhöldum hennar, sem ég mun sýna þér.
10 Þeir skulu gjöra örk af akasíuviði. Hún skal vera hálf þriðja alin á lengd, hálf önnur alin á breidd og hálf önnur alin á hæð.
11 Hana skaltu leggja skíru gulli, innan og utan skaltu gullleggja hana, og umhverfis á henni skaltu gjöra brún af gulli.
12 Þú skalt steypa til arkarinnar fjóra hringa af gulli og festa þá við fjóra fætur hennar, sína tvo hringana hvorumegin.
13 Þú skalt gjöra stengur af akasíuviði og gullleggja þær.
14 Síðan skalt þú smeygja stöngunum í hringana á hliðum arkarinnar, svo að bera megi örkina á þeim.
15 Skulu stengurnar vera kyrrar í hringum arkarinnar, eigi má taka þær þaðan.
16 Og þú skalt leggja niður í örkina sáttmálið, er ég mun fá þér í hendur.
17 Þú skalt og gjöra lok af skíru gulli. Skal það vera hálf þriðja alin á lengd og hálf önnur alin á breidd.
18 Og þú skalt gjöra tvo kerúba af gulli, af drifnu smíði skalt þú gjöra þá á hvorum tveggja loksendanum.
19 Og lát annan kerúbinn vera á öðrum endanum, en hinn á hinum endanum. Þú skalt gjöra kerúbana áfasta við lokið á báðum endum þess.
20 En kerúbarnir skulu breiða út vængina uppi yfir, svo að þeir hylji lokið með vængjum sínum, og andlit þeirra snúa hvort í mót öðru; að lokinu skulu andlit kerúbanna snúa.
21 Þú skalt setja lokið ofan yfir örkina, og niður í örkina skalt þú leggja sáttmálið, sem ég mun fá þér.
22 Og þar vil ég eiga samfundi við þig og birta þér ofan af arkarlokinu millum beggja kerúbanna, sem standa á sáttmálsörkinni, allt það, er ég býð þér að flytja Ísraelsmönnum.
3 Fyrst þér því eruð uppvaktir með Kristi, þá keppist eftir því, sem er hið efra, þar sem Kristur situr við hægri hönd Guðs.
2 Hugsið um það, sem er hið efra, en ekki um það, sem á jörðinni er.
3 Því að þér eruð dánir og líf yðar er fólgið með Kristi í Guði.
4 Þegar Kristur, sem er líf yðar, opinberast, þá munuð þér og ásamt honum opinberast í dýrð.
5 Deyðið því hið jarðneska í fari yðar: Hórdóm, saurlifnað, losta, vonda fýsn og ágirnd, sem ekki er annað en skurðgoðadýrkun.
6 Af þessu kemur reiði Guðs [yfir þá, sem hlýða honum ekki].
7 Meðal þeirra voruð og þér áður, þegar þér lifðuð í þessum syndum.
8 En nú skuluð þér segja skilið við allt þetta: Reiði, bræði, vonsku, lastmæli, svívirðilegt orðbragð.
9 Ljúgið ekki hver að öðrum, því þér hafið afklæðst hinum gamla manni með gjörðum hans
10 og íklæðst hinum nýja, sem endurnýjast til fullkominnar þekkingar og verður þannig mynd skapara síns.
11 Þar er ekki grískur maður eða Gyðingur, umskorinn eða óumskorinn, útlendingur, Skýti, þræll eða frjáls maður, þar er Kristur allt og í öllum.
12 Íklæðist því eins og Guðs útvaldir, heilagir og elskaðir, hjartans meðaumkun, góðvild, auðmýkt, hógværð og langlyndi.
13 Umberið hver annan og fyrirgefið hver öðrum, ef einhver hefur sök á hendur öðrum. Eins og Drottinn hefur fyrirgefið yður, svo skuluð þér og gjöra.
14 En íklæðist yfir allt þetta elskunni, sem er band algjörleikans.
15 Látið frið Krists ríkja í hjörtum yðar, því að til friðar voruð þér kallaðir sem limir í einum líkama. Verðið þakklátir.
16 Látið orð Krists búa ríkulega hjá yður með allri speki. Fræðið og áminnið hver annan með sálmum, lofsöngum og andlegum ljóðum og syngið Guði sætlega lof í hjörtum yðar.
17 Hvað sem þér gjörið í orði eða verki, gjörið það allt í nafni Drottins Jesú og þakkið Guði föður fyrir hann.
18 Hann gekk með Galíleuvatni og sá tvo bræður, Símon, sem kallaður var Pétur, og Andrés, bróður hans, vera að kasta neti í vatnið, en þeir voru fiskimenn.
19 Hann sagði við þá: "Komið og fylgið mér, og mun ég láta yður menn veiða."
20 Og þegar í stað yfirgáfu þeir netin og fylgdu honum.
21 Hann gekk áfram þaðan og sá tvo aðra bræður, Jakob Sebedeusson og Jóhannes, bróður hans. Þeir voru í bátnum með Sebedeusi, föður sínum, að búa net sín. Jesús kallaði þá,
22 og þeir yfirgáfu jafnskjótt bátinn og föður sinn og fylgdu honum.
23 Hann fór nú um alla Galíleu, kenndi í samkundum þeirra, prédikaði fagnaðarerindið um ríkið og læknaði hvers kyns sjúkdóm og veikindi meðal lýðsins.
24 Orðstír hans barst um allt Sýrland, og menn færðu til hans alla, sem þjáðust af ýmsum sjúkdómum og kvölum, voru haldnir illum öndum, tunglsjúka menn og lama. Og hann læknaði þá.
25 Mikill mannfjöldi fylgdi honum úr Galíleu, Dekapólis, Jerúsalem, Júdeu og landinu handan Jórdanar.
by Icelandic Bible Society