Book of Common Prayer
26 Davíðssálmur. Lát mig ná rétti mínum, Drottinn, því að ég geng fram í grandvarleik og þér treysti ég óbifanlega.
2 Rannsaka mig, Drottinn, og reyn mig, prófa hug minn og hjarta.
3 Því að ég hefi elsku þína fyrir augum, og ég geng í sannleika þínum.
4 Ég tek mér eigi sæti hjá lygurum og hefi eigi umgengni við fláráða menn.
5 Ég hata söfnuð illvirkjanna, sit eigi meðal óguðlegra.
6 Ég þvæ hendur mínar í sakleysi og geng í kringum altari þitt, Drottinn,
7 til þess að láta lofsönginn hljóma og segja frá öllum þínum dásemdarverkum.
8 Drottinn, ég elska bústað húss þíns og staðinn þar sem dýrð þín býr.
9 Hríf eigi sál mína burt með syndurum né líf mitt með morðingjum,
10 þeim er hafa svívirðing í höndum sér og hægri höndina fulla af mútugjöfum.
11 En ég geng fram í grandvarleik, frelsa mig og líkna mér.
12 Fótur minn stendur á sléttri grund, í söfnuðunum vil ég lofa Drottin.
28 Davíðssálmur. Til þín, Drottinn, hrópa ég, þú bjarg mitt, ver eigi hljóður gagnvart mér. Ef þú þegir við mér, verð ég sem þeir, er til grafar eru gengnir.
2 Heyr þú á grátbeiðni mína, er ég hrópa til þín, er ég lyfti höndum mínum til Hins allrahelgasta í musteri þínu.
3 Hríf mig eigi á burt með óguðlegum og með illgjörðamönnum, þeim er tala vinsamlega við náunga sinn, en hafa illt í hyggju.
4 Launa þeim eftir verkum þeirra, eftir þeirra illu breytni, launa þeim eftir verkum handa þeirra, endurgjald þeim það er þeir hafa aðhafst.
5 Því að þeir hyggja eigi á verk Drottins né handaverk hans, hann rífi þá niður og reisi þá eigi við aftur.
6 Lofaður sé Drottinn, því að hann hefir heyrt grátbeiðni mína.
7 Drottinn er vígi mitt og skjöldur, honum treysti hjarta mitt. Ég hlaut hjálp, því fagnar hjarta mitt, og með ljóðum mínum lofa ég hann.
8 Drottinn er vígi lýð sínum og hjálparhæli sínum smurða.
9 Hjálpa lýð þínum og blessa eign þína, gæt þeirra og ber þá að eilífu.
36 Til söngstjórans. Eftir Davíð, þjón Drottins.
2 Rödd syndarinnar talar til hins guðlausa í fylgsnum hjarta hans, enginn guðsótti býr í huga hans.
3 Hún smjaðrar fyrir honum í augum hans og misgjörð hans verður uppvís og hann verður fyrir hatri.
4 Orðin af munni hans eru tál og svik, hann er hættur að vera hygginn og breyta vel.
5 Í hvílu sinni hyggur hann á tál, hann fetar vonda vegu, forðast eigi hið illa.
6 Drottinn, til himna nær miskunn þín, til skýjanna trúfesti þín.
7 Réttlæti þitt er sem fjöll Guðs, dómar þínir sem reginhaf. Mönnum og skepnum hjálpar þú, Drottinn.
8 Hversu dýrmæt er miskunn þín, ó Guð, mannanna börn leita hælis í skugga vængja þinna.
9 Þau seðjast af feiti húss þíns, og þú lætur þau drekka úr lækjum unaðsemda þinna.
10 Hjá þér er uppspretta lífsins, í þínu ljósi sjáum vér ljós.
11 Lát miskunn þína haldast við þá er þekkja þig, og réttlæti þitt við þá sem hjartahreinir eru.
12 Lát eigi fót hins hrokafulla troða á mér né hönd óguðlegra hrekja mig burt.
13 Þar eru illgjörðamennirnir fallnir, þeim er varpað um koll og þeir fá eigi risið upp aftur.
39 Til söngstjórans, eftir Jedútún. Davíðssálmur.
2 Ég sagði: "Ég vil gefa gætur að vegum mínum, að ég drýgi eigi synd með tungunni, ég vil leggja haft á munn minn, meðan hinn illgjarni er í nánd við mig."
3 Ég var hljóður og þagði, en kvöl mín ýfðist.
4 Hjartað brann í brjósti mér, við andvörp mín logaði eldurinn upp, ég sagði:
5 "Lát mig, Drottinn, sjá afdrif mín og hvað mér er útmælt af dögum, lát mig sjá, hversu skammær ég er.
6 Sjá, örfáar þverhendur hefir þú gjört daga mína, og ævi mín er sem ekkert fyrir þér. Andgustur einn eru allir menn. [Sela]
7 Sem tómur skuggi gengur maðurinn um, gjörir háreysti um hégómann einan, hann safnar í hrúgur, en veit eigi hver þær hlýtur."
8 Hvers vona ég þá, Drottinn? Von mín er öll á þér.
9 Frelsa mig frá öllum syndum mínum, lát mig eigi verða heimskingjum að spotti.
10 Ég þegi, ég opna eigi munninn, því að þú hefir talað.
11 Lát plágu þína víkja frá mér, ég verð að engu fyrir krafti handar þinnar.
12 Þá er þú beitir hirtingu við manninn fyrir misgjörð hans, lætur þú yndisleik hans eyðast, sem mölur væri. Andgustur einn eru allir menn. [Sela]
13 Heyr bæn mína, Drottinn, og hlýð á kvein mitt, ver eigi hljóður við tárum mínum, því að ég er aðkomandi hjá þér, útlendingur eins og allir feður mínir.
14 Lít af mér, svo að hýrna megi yfir mér, áður en ég fer burt og er eigi til framar.
19 Á þriðja mánuði eftir brottför Ísraelsmanna frá Egyptalandi, á þeim degi komu þeir í Sínaí-eyðimörk.
2 Þeir tóku sig upp frá Refídím og komu í Sínaí-eyðimörk og settu búðir sínar í eyðimörkinni. Og Ísrael setti búðir sínar þar gegnt fjallinu.
3 Gekk Móse þá upp til Guðs, og kallaði Drottinn til hans af fjallinu og sagði: "Svo skalt þú segja Jakobs niðjum og kunngjöra Ísraelsmönnum:
4 ,Þér hafið sjálfir séð, hvað ég hefi gjört Egyptum, og hversu ég hefi borið yður á arnarvængjum og flutt yður til mín.
5 Nú ef þér hlýðið minni röddu grandgæfilega og haldið minn sáttmála, þá skuluð þér vera mín eiginleg eign umfram allar þjóðir, því að öll jörðin er mín.
6 Og þér skuluð vera mér prestaríki og heilagur lýður.` Þetta eru þau orð, sem þú skalt flytja Ísraelsmönnum."
7 Og Móse fór og stefndi saman öldungum lýðsins og flutti þeim öll þau orð, er Drottinn hafði boðið honum.
8 Þá svaraði allur lýðurinn einum munni og sagði: "Vér viljum gjöra allt það, sem Drottinn býður." Og Móse flutti Drottni aftur orð fólksins.
9 Þá sagði Drottinn við Móse: "Sjá, ég vil koma til þín í dimmu skýi, svo að fólkið heyri, er ég tala við þig, og trúi þér ævinlega." Og Móse flutti Drottni orð lýðsins.
10 Þá mælti Drottinn við Móse: "Far til fólksins og helga þá í dag og á morgun, og lát þá þvo klæði sín,
11 og skulu þeir vera búnir á þriðja degi, því að á þriðja degi mun Drottinn ofan stíga á Sínaífjall í augsýn alls lýðsins.
12 En þú skalt marka fólkinu svið umhverfis og segja: ,Varist að ganga upp á fjallið eða snerta fjallsræturnar.` Hver sem snertir fjallið, skal vissulega láta líf sitt.
13 Engin mannshönd skal snerta hann, heldur skal hann grýttur eða skotinn til bana, hvort það er heldur skepna eða maður, þá skal það ekki lífi halda. Þegar lúðurinn kveður við, skulu þeir stíga upp á fjallið."
14 Þá gekk Móse ofan af fjallinu til fólksins og helgaði fólkið, og þeir þvoðu klæði sín.
15 Og hann sagði við fólkið: "Verið búnir á þriðja degi: Komið ekki nærri nokkurri konu."
16 Á þriðja degi, þegar ljóst var orðið, gengu reiðarþrumur og eldingar, og þykkt ský lá á fjallinu, og heyrðist mjög sterkur lúðurþytur. Skelfdist þá allt fólkið, sem var í búðunum.
1 Páll, að vilja Guðs postuli Krists Jesú og Tímóteus, bróðir vor, heilsa
2 hinum heilögu og trúuðu bræðrum í Kólossu, sem eru í Kristi. Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum.
3 Vér þökkum Guði, föður Drottins vors Jesú Krists, ávallt er vér biðjum fyrir yður.
4 Því að vér höfum heyrt um trú yðar á Krist Jesú og um kærleikann, sem þér berið til allra heilagra,
5 vegna vonar þeirrar, sem yður er geymd í himnunum. Um þá von hafið þér áður heyrt í orði sannleikans, fagnaðarerindinu,
6 sem til yðar er komið, eins og það einnig ber ávöxt og vex í öllum heiminum. Það hefur það líka gjört hjá yður frá þeim degi, er þér heyrðuð það og lærðuð að þekkja náð Guðs í sannleika.
7 Hið sama hafið þér og numið af Epafrasi, vorum elskaða samþjóni, sem er trúr þjónn Krists í vorn stað.
8 Hann hefur og sagt oss frá kærleika yðar, sem andinn hefur vakið með yður.
9 Frá þeim degi, er vér heyrðum þetta, höfum vér því ekki látið af að biðja fyrir yður. Vér biðjum þess, að þér mættuð fyllast þekkingu á vilja Guðs með allri speki og skilningi andans,
10 svo að þér hegðið yður eins og Drottni er samboðið, honum til þóknunar á allan hátt, og fáið borið ávöxt í öllu góðu verki og vaxið að þekkingu á Guði.
11 Mætti hann styrkja yður á allan hátt með dýrðarmætti sínum, svo að þér fyllist þolgæði í hvívetna og umburðarlyndi og getið með gleði
12 þakkað föðurnum, sem hefur gjört yður hæfa til að fá hlutdeild í arfleifð heilagra í ljósinu.
13 Hann hefur frelsað oss frá valdi myrkursins og flutt oss inn í ríki síns elskaða sonar.
14 Í honum eigum vér endurlausnina, fyrirgefningu synda vorra.
7 Þegar hann sá, að margir farísear og saddúkear komu til skírnar, sagði hann við þá: "Þér nöðru kyn, hver kenndi yður að flýja komandi reiði?
8 Berið þá ávöxt samboðinn iðruninni!
9 Látið yður ekki til hugar koma, að þér getið sagt með sjálfum yður: ,Vér eigum Abraham að föður.` Ég segi yður, að Guð getur vakið Abraham börn af steinum þessum.
10 Öxin er þegar lögð að rótum trjánna, og hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og í eld kastað.
11 Ég skíri yður með vatni til iðrunar, en sá sem kemur eftir mig, er mér máttugri, og er ég ekki verður að bera skó hans. Hann mun skíra yður með heilögum anda og eldi.
12 Hann er með varpskófluna í hendi sér og mun gjörhreinsa láfa sinn og safna hveiti sínu í hlöðu, en hismið mun hann brenna í óslökkvanda eldi."
by Icelandic Bible Society