Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 25

25 Davíðssálmur.

Til þín, Drottinn, hef ég sál mína, Guð minn, þér treysti ég. Lát mig eigi verða til skammar, lát eigi óvini mína hlakka yfir mér.

Hver sá er á þig vonar, mun eigi heldur verða til skammar, þeir verða til skammar, er ótrúir eru að raunalausu.

Vísa mér vegu þína, Drottinn, kenn mér stigu þína.

Lát mig ganga í sannleika þínum og kenn mér, því að þú ert Guð hjálpræðis míns, allan daginn vona ég á þig.

Minnst þú miskunnar þinnar, Drottinn, og kærleiksverka, því að þau eru frá eilífð.

Minnst eigi æskusynda minna og afbrota, minnst mín eftir elsku þinni sakir gæsku þinnar, Drottinn.

Góður og réttlátur er Drottinn, þess vegna vísar hann syndurum veginn.

Hann lætur hina hrjáðu ganga eftir réttlætinu og kennir hinum þjökuðu veg sinn.

10 Allir vegir Drottins eru elska og trúfesti fyrir þá er gæta sáttmála hans og vitnisburða.

11 Sakir nafns þíns, Drottinn, fyrirgef mér sekt mína, því að hún er mikil.

12 Ef einhver óttast Drottin, mun hann kenna honum veg þann er hann á að velja.

13 Sjálfur mun hann búa við hamingju, og niðjar hans eignast landið.

14 Drottinn sýnir trúnað þeim er óttast hann, og sáttmála sinn gjörir hann þeim kunnan.

15 Augu mín mæna ætíð til Drottins, því að hann greiðir fót minn úr snörunni.

16 Snú þér til mín og líkna mér, því að ég er einmana og hrjáður.

17 Angist sturlar hjarta mitt, leið mig úr nauðum mínum.

18 Lít á eymd mína og armæðu og fyrirgef allar syndir mínar.

19 Lít á, hversu margir óvinir mínir eru, með rangsleitnishatri hata þeir mig.

20 Varðveit líf mitt og frelsa mig, lát mig eigi verða til skammar, því að hjá þér leita ég hælis.

21 Lát ráðvendni og hreinskilni gæta mín, því að á þig vona ég.

22 Frelsa Ísrael, ó Guð, úr öllum nauðum hans.

Sálmarnir 9

Til söngstjórans. Almút labben. Davíðssálmur.

Ég vil lofa þig, Drottinn, af öllu hjarta, segja frá öllum þínum dásemdarverkum.

Ég vil gleðjast og kætast yfir þér, lofsyngja nafni þínu, þú Hinn hæsti.

Óvinir mínir hörfuðu undan, hrösuðu og fórust fyrir augliti þínu.

Já, þú hefir látið mig ná rétti mínum og flutt mál mitt, setst í hásætið sem réttlátur dómari.

Þú hefir hastað á þjóðirnar, tortímt hinum óguðlegu, afmáð nafn þeirra um aldur og ævi.

Óvinirnir eru liðnir undir lok _ rústir að eilífu _ og borgirnar hefir þú brotið, minning þeirra er horfin.

En Drottinn ríkir að eilífu, hann hefir reist hásæti sitt til dóms.

Hann dæmir heiminn með réttvísi, heldur réttlátan dóm yfir þjóðunum.

10 Og Drottinn er vígi orðinn hinum kúguðu, vígi á neyðartímum.

11 Þeir er þekkja nafn þitt, treysta þér, því að þú, Drottinn, yfirgefur eigi þá, er þín leita.

12 Lofsyngið Drottni, þeim er býr á Síon, gjörið stórvirki hans kunn meðal þjóðanna.

13 Því að hann sem blóðs hefnir hefir minnst þeirra, hann hefir eigi gleymt hrópi hinna hrjáðu:

14 "Líkna mér, Drottinn, sjá þú eymd mína, er hatursmenn mínir baka mér, þú sem lyftir mér upp frá hliðum dauðans,

15 að ég megi segja frá öllum lofstír þínum, fagna yfir hjálp þinni í hliðum Síonardóttur."

16 Lýðirnir eru fallnir í gryfju þá, er þeir gjörðu, fætur þeirra festust í neti því, er þeir lögðu leynt.

17 Drottinn er kunnur orðinn: Hann hefir háð dóm, hinn óguðlegi festist í því, er hendur hans höfðu gjört. [Strengjaleikur. Sela]

18 Hinir óguðlegu hrapa til Heljar, allar þjóðir er gleyma Guði.

19 Hinum snauða verður eigi ávallt gleymt, von hinna hrjáðu bregst eigi sífellt.

20 Rís þú upp, Drottinn! Lát eigi dauðlega menn verða yfirsterkari, lát þjóðirnar hljóta dóm fyrir augliti þínu.

21 Skjót lýðunum skelk í bringu, Drottinn! Lát þá komast að raun um, að þeir eru dauðlegir menn. [Sela]

Sálmarnir 15

15 Davíðssálmur Drottinn, hver fær að gista í tjaldi þínu, hver fær að búa á fjallinu þínu helga?

Sá er fram gengur í flekkleysi og iðkar réttlæti og talar sannleik af hjarta,

sá er eigi talar róg með tungu sinni, eigi gjörir öðrum mein og eigi leggur náunga sínum svívirðing til;

sem fyrirlítur þá er illa breyta, en heiðrar þá er óttast Drottin, sá er sver sér í mein og bregður eigi af,

sá er eigi lánar fé sitt með okri og eigi þiggur mútur gegn saklausum _ sá er þetta gjörir, mun eigi haggast um aldur.

Önnur bók Móse 18:13-27

13 Daginn eftir settist Móse til að mæla lýðnum lögskil, og stóð fólkið frammi fyrir Móse frá morgni til kvelds.

14 En er tengdafaðir Móse sá allt það, sem hann gjörði við fólkið, þá sagði hann: "Hvað er þetta, sem þú gjörir við fólkið? Hvers vegna situr þú einn saman, en allt fólkið stendur frammi fyrir þér frá morgni til kvelds?"

15 Móse svaraði tengdaföður sínum: "Fólkið kemur til mín til þess að leita Guðs atkvæða.

16 Þegar mál gjörist þeirra á milli, koma þeir á fund minn, og ég dæmi milli manna og kunngjöri lög Guðs og boðorð hans."

17 Þá sagði tengdafaðir Móse við hann: "Eigi er það gott, sem þú gjörir.

18 Bæði þreytist þú og eins fólkið, sem hjá þér er, því að þetta starf er þér um megn, þú fær því ekki afkastað einn saman.

19 Hlýð nú orðum mínum. Ég vil leggja þér ráð, og mun Guð vera með þér. Þú skalt ganga fram fyrir Guð í nafni fólksins og fram bera málin fyrir Guð.

20 Og þú skalt kenna þeim lögin og boðorðin, og sýna þeim þann veg, sem þeir skulu ganga, og þau verk, sem þeir skulu gjöra.

21 Og þú skalt velja meðal alls fólksins dugandi menn og guðhrædda, áreiðanlega menn og ósérplægna, og skipa þá foringja yfir lýðinn, suma yfir þúsund, suma yfir hundrað, suma yfir fimmtíu og suma yfir tíu.

22 Og þeir skulu mæla lýðnum lögskil á öllum tímum. Öll hin stærri mál skulu þeir láta koma fyrir þig, en sjálfir skulu þeir dæma í öllum smærri málum. Skaltu þannig gjöra þér hægra fyrir, og þeir skulu létta undir með þér.

23 Ef þú gjörir þetta, og Guð býður þér það, þá muntu fá risið undir því, og þá mun og allt þetta fólk fara ánægt til heimila sinna."

24 Móse hlýddi orðum tengdaföður síns og gjörði allt, sem hann hafði sagt.

25 Og Móse valdi dugandi menn af öllum Ísraels lýð og skipaði þá foringja yfir lýðinn, suma yfir þúsund, suma yfir hundrað, suma yfir fimmtíu, suma yfir tíu.

26 Og mæltu þeir lýðnum lögskil á öllum tímum. Vandamálunum skutu þeir til Móse, en sjálfir dæmdu þeir í hinum smærri málum.

27 Lét Móse síðan tengdaföður sinn frá sér fara, og hélt hann aftur heim í sitt land.

Fyrra almenna bréf Péturs 5

Öldungana yðar á meðal áminni ég, sem einnig er öldungur og vottur písla Krists og einnig mun fá hlutdeild í þeirri dýrð, sem opinberuð mun verða:

Verið hirðar þeirrar hjarðar, sem Guð hefur falið yður. Gætið hennar ekki af nauðung, heldur af fúsu geði, að Guðs vilja, ekki sakir vansæmilegs ávinnings, heldur af áhuga.

Þér skuluð eigi drottna yfir söfnuðunum, heldur vera fyrirmynd hjarðarinnar.

Þá munuð þér, þegar hinn æðsti hirðir birtist, öðlast þann dýrðarsveig, sem aldrei fölnar.

Og þér, yngri menn, verið öldungunum undirgefnir og skrýðist allir lítillætinu hver gagnvart öðrum, því að "Guð stendur gegn dramblátum, en auðmjúkum veitir hann náð".

Auðmýkið yður því undir Guðs voldugu hönd, til þess að hann á sínum tíma upphefji yður.

Varpið allri áhyggju yðar á hann, því að hann ber umhyggju fyrir yður.

Verið algáðir, vakið. Óvinur yðar, djöfullinn, gengur um sem öskrandi ljón, leitandi að þeim, sem hann geti gleypt.

Standið gegn honum, stöðugir í trúnni, og vitið, að bræður yðar um allan heim verða fyrir sömu þjáningum.

10 En Guð allrar náðar, sem hefur kallað yður í Kristi til sinnar eilífu dýrðar, mun sjálfur, er þér hafið þjáðst um lítinn tíma, fullkomna yður, styrkja og öfluga gjöra.

11 Hans er mátturinn um aldir alda. Amen.

12 Með hjálp Silvanusar, hins trúa bróður, í mínum augum, hef ég stuttlega ritað yður þetta til þess að minna á og vitna hátíðlega, að þetta er hin sanna náð Guðs. Standið stöðugir í henni.

13 Yður heilsar söfnuðurinn í Babýlon, útvalinn ásamt yður, og Markús sonur minn.

Matteusarguðspjall 1:1-17

Ættartala Jesú Krists, sonar Davíðs, sonar Abrahams.

Abraham gat Ísak, Ísak gat Jakob, Jakob gat Júda og bræður hans.

Júda gat Peres og Sara við Tamar, Peres gat Esrom, Esrom gat Ram,

Ram gat Ammínadab, Ammínadab gat Nakson, Nakson gat Salmon,

Salmon gat Bóas við Rahab, og Bóas gat Óbeð við Rut. Óbeð gat Ísaí,

og Ísaí gat Davíð konung. Davíð gat Salómon við konu Úría,

Salómon gat Róbóam, Róbóam gat Abía, Abía gat Asaf,

Asaf gat Jósafat, Jósafat gat Jóram, Jóram gat Ússía,

Ússía gat Jótam, Jótam gat Akas, Akas gat Esekía,

10 Esekía gat Manasse, Manasse gat Amos, Amos gat Jósía.

11 Jósía gat Jekonja og bræður hans á tíma herleiðingarinnar til Babýlonar.

12 Eftir herleiðinguna til Babýlonar gat Jekonja Sealtíel, Sealtíel gat Serúbabel,

13 Serúbabel gat Abíúd, Abíúd gat Eljakím, Eljakím gat Asór,

14 Asór gat Sadók, Sadók gat Akím, Akím gat Elíúd,

15 Elíúd gat Eleasar, Eleasar gat Mattan, Mattan gat Jakob,

16 og Jakob gat Jósef, mann Maríu, en hún ól Jesú, sem kallast Kristur.

17 Þannig eru alls fjórtán ættliðir frá Abraham til Davíðs, fjórtán ættliðir frá Davíð fram að herleiðingunni til Babýlonar og fjórtán ættliðir frá herleiðingunni til Krists.

Matteusarguðspjall 3:1-6

Á þeim dögum kemur Jóhannes skírari fram og prédikar í óbyggðum Júdeu.

Hann sagði: "Gjörið iðrun, himnaríki er í nánd."

Jóhannes er sá sem svo er um mælt hjá Jesaja spámanni: Rödd hrópanda í eyðimörk: Greiðið veg Drottins, gjörið beinar brautir hans.

Jóhannes bar klæði úr úlfaldahári og leðurbelti um lendar sér og hafði til matar engisprettur og villihunang.

Menn streymdu til hans frá Jerúsalem, allri Júdeu og Jórdanbyggð,

létu skírast af honum í ánni Jórdan og játuðu syndir sínar.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society