Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 20-21

20 Til söngstjórans. Davíðssálmur.

Drottinn bænheyri þig á degi neyðarinnar, nafn Jakobs Guðs bjargi þér.

Hann sendi þér hjálp frá helgidóminum, styðji þig frá Síon.

Hann minnist allra fórnargjafa þinna og taki brennifórn þína gilda. [Sela]

Hann veiti þér það er hjarta þitt þráir, og veiti framgang öllum áformum þínum.

Ó að vér mættum fagna yfir sigri þínum og veifa fánanum í nafni Guðs vors. Drottinn uppfylli allar óskir þínar.

Nú veit ég, að Drottinn veitir hjálp sínum smurða, svarar honum frá sínum helga himni, í máttarverkum kemur fulltingi hægri handar hans fram.

Hinir stæra sig af vögnum sínum og stríðshestum, en vér af nafni Drottins, Guðs vors.

Þeir fá knésig og falla, en vér rísum og stöndum uppréttir.

10 Drottinn! Hjálpa konunginum og bænheyr oss, er vér hrópum.

21 Til söngstjórans. Davíðssálmur.

Drottinn, yfir veldi þínu fagnar konungurinn, hve mjög kætist hann yfir hjálp þinni!

Þú hefir gefið honum það er hjarta hans þráði, um það sem varir hans báðu, neitaðir þú honum eigi. [Sela]

Því að þú kemur í móti honum með hamingjublessunum, setur gullna kórónu á höfuð honum.

Um líf bað hann þig, það veittir þú honum, fjöld lífdaga um aldur og ævi.

Mikil er sæmd hans fyrir þína hjálp, vegsemd og heiður veittir þú honum.

Já, þú hefir veitt honum blessun að eilífu, þú gleður hann með fögnuði fyrir augliti þínu.

Því að konungurinn treystir Drottni, og vegna elsku Hins hæsta bifast hann eigi.

Hönd þín nær til allra óvina þinna, hægri hönd þín nær til allra hatursmanna þinna.

10 Þú gjörir þá sem glóandi ofn, er þú lítur á þá. Drottinn tortímir þeim í reiði sinni, og eldurinn eyðir þeim.

11 Ávöxtu þeirra afmáir þú af jörðunni og afkvæmi þeirra úr mannheimi,

12 því að þeir hafa stofnað ill ráð í gegn þér, búið fánýtar vélar.

13 Því að þú rekur þá á flótta, miðar á andlit þeirra með boga þínum.

14 Hef þig, Drottinn, í veldi þínu! Vér viljum syngja og kveða um máttarverk þín!

Sálmarnir 110

110 Davíðssálmur. Svo segir Drottinn við herra minn: "Sest þú mér til hægri handar, þá mun ég leggja óvini þína sem fótskör að fótum þér."

Drottinn réttir út þinn volduga sprota frá Síon, drottna þú mitt á meðal óvina þinna!

Þjóð þín kemur sjálfboða á valdadegi þínum. Í helgu skrauti frá skauti morgunroðans kemur dögg æskuliðs þíns til þín.

Drottinn hefir svarið, og hann iðrar þess eigi: "Þú ert prestur að eilífu, að hætti Melkísedeks."

Drottinn er þér til hægri handar, hann knosar konunga á degi reiði sinnar.

Hann heldur dóm meðal þjóðanna, fyllir allt líkum, hann knosar höfuð um víðan vang.

Á leiðinni drekkur hann úr læknum, þess vegna ber hann höfuðið hátt.

Sálmarnir 116-117

116 Ég elska Drottin, af því að hann heyrir grátbeiðni mína.

Hann hefir hneigt eyra sitt að mér, og alla ævi vil ég ákalla hann.

Snörur dauðans umkringdu mig, angist Heljar mætti mér, ég mætti nauðum og harmi.

Þá ákallaði ég nafn Drottins: "Ó, Drottinn, bjarga sál minni!"

Náðugur er Drottinn og réttlátur, og vor Guð er miskunnsamur.

Drottinn varðveitir varnarlausa, þegar ég var máttvana hjálpaði hann mér.

Verð þú aftur róleg, sála mín, því að Drottinn gjörir vel til þín.

Já, þú hreifst sál mína frá dauða, auga mitt frá gráti, fót minn frá hrösun.

Ég geng frammi fyrir Drottni á landi lifenda.

10 Ég trúði, þó ég segði: "Ég er mjög beygður."

11 Ég sagði í angist minni: "Allir menn ljúga."

12 Hvað á ég að gjalda Drottni fyrir allar velgjörðir hans við mig?

13 Ég lyfti upp bikar hjálpræðisins og ákalla nafn Drottins.

14 Ég greiði Drottni heit mín, og það í augsýn alls lýðs hans.

15 Dýr er í augum Drottins dauði dýrkenda hans.

16 Æ, Drottinn, víst er ég þjónn þinn, ég er þjónn þinn, sonur ambáttar þinnar, þú leystir fjötra mína.

17 Þér færi ég þakkarfórn og ákalla nafn Drottins.

18 Ég greiði Drottni heit mín, og það í augsýn alls lýðs hans,

19 í forgörðum húss Drottins, í þér, Jerúsalem. Halelúja.

117 Lofið Drottin, allar þjóðir, vegsamið hann, allir lýðir,

því að miskunn hans er voldug yfir oss, og trúfesti Drottins varir að eilífu. Halelúja.

Önnur bók Móse 17

17 Allur söfnuður Ísraelsmanna tók sig nú upp frá Sín-eyðimörk, og fóru þeir í áföngum að boði Drottins og settu herbúðir sínar í Refídím. En þar var ekkert vatn handa fólkinu að drekka.

Þá þráttaði fólkið við Móse og sagði: "Gef oss vatn að drekka!" En Móse sagði við þá: "Hví þráttið þér við mig? Hví freistið þér Drottins?"

Og fólkið þyrsti þar eftir vatni, og fólkið möglaði gegn Móse og sagði: "Hví fórstu með oss frá Egyptalandi til þess að láta oss og börn vor og fénað deyja af þorsta?"

Þá hrópaði Móse til Drottins og sagði: "Hvað skal ég gjöra við þetta fólk? Það vantar lítið á að þeir grýti mig."

En Drottinn sagði við Móse: "Gakk þú fram fyrir fólkið og tak með þér nokkra af öldungum Ísraels, og tak í hönd þér staf þinn, er þú laust með ána, og gakk svo af stað.

Sjá, ég mun standa frammi fyrir þér þar á klettinum á Hóreb, en þú skalt ljósta á klettinn, og mun þá vatn spretta af honum, svo að fólkið megi drekka."

Og Móse gjörði svo í augsýn öldunga Ísraels. Og hann kallaði þennan stað Massa og Meríba sökum þráttanar Ísraelsmanna, og fyrir því að þeir höfðu freistað Drottins og sagt: "Hvort mun Drottinn vera meðal vor eður ekki?"

Þá komu Amalekítar og áttu orustu við Ísraelsmenn í Refídím.

Þá sagði Móse við Jósúa: "Vel oss menn og far út og berst við Amalekíta. Á morgun mun ég standa efst uppi á hæðinni og hafa staf Guðs í hendi mér."

10 Jósúa gjörði sem Móse hafði sagt honum og lagði til orustu við Amalekíta, en þeir Móse, Aron og Húr gengu efst upp á hæðina.

11 Þá gjörðist það, að alla þá stund, er Móse hélt uppi hendi sinni, veitti Ísraelsmönnum betur, en þegar er hann lét síga höndina, veitti Amalekítum betur.

12 En með því að Móse urðu þungar hendurnar, tóku þeir stein og létu undir hann, og settist hann á steininn, en þeir Aron og Húr studdu hendur hans, sinn á hvora hlið, og héldust þannig hendur hans stöðugar allt til sólarlags.

13 En Jósúa lagði Amalekíta og lið þeirra að velli með sverðseggjum.

14 Þá sagði Drottinn við Móse: "Rita þú þetta í bók til minningar og gjör Jósúa það hugfast, því að ég vil vissulega afmá nafn Amalekíta af jörðinni."

15 Og Móse reisti þar altari og nefndi það "Jahve-nisí".

16 Og hann sagði: "Með upplyftri hendi að hásæti Drottins sver ég: ,Ófrið mun Drottinn heyja við Amalekíta frá kyni til kyns."`

Fyrra almenna bréf Péturs 4:7-19

En endir allra hluta er í nánd. Verið því gætnir og algáðir til bæna.

Umfram allt hafið brennandi kærleika hver til annars, því að kærleikur hylur fjölda synda.

Verið gestrisnir hver við annan án möglunar.

10 Þjónið hver öðrum með þeirri náðargáfu, sem yður hefur verið gefin, sem góðir ráðsmenn margvíslegrar náðar Guðs.

11 Sá sem talar flytji Guðs orð, sá sem þjónustu hefur skal þjóna eftir þeim mætti, sem Guð gefur, til þess að Guð vegsamist í öllum hlutum fyrir Jesú Krist. Hans er dýrðin og mátturinn um aldir alda. Amen.

12 Þér elskaðir, látið yður eigi undra eldraunina, sem yfir yður er komin yður til reynslu, eins og yður hendi eitthvað kynlegt.

13 Gleðjist heldur er þér takið þátt í píslum Krists, til þess að þér einnig megið gleðjast miklum fögnuði við opinberun dýrðar hans.

14 Sælir eruð þér, er þér eruð smánaðir vegna nafns Krists, því að andi dýrðarinnar, andi Guðs hvílir þá yfir yður.

15 Enginn yðar líði sem manndrápari, þjófur eða illvirki eða fyrir að hlutast til um það, er öðrum kemur við.

16 En ef hann líður sem kristinn maður, þá fyrirverði hann sig ekki, heldur gjöri Guð vegsamlegan með þessu nafni.

17 Því að nú er tíminn kominn, að dómurinn byrji á húsi Guðs. En ef hann byrjar á oss, hver munu þá verða afdrif þeirra, sem ekki hlýðnast fagnaðarerindi Guðs?

18 Ef hinn réttláti naumlega frelsast, hvar mun þá hinn óguðlegi og syndarinn lenda?

19 Þess vegna skulu þeir, sem líða eftir vilja Guðs, fela sálir sínar á hendur hinum trúa skapara og halda áfram að gjöra hið góða.

Jóhannesarguðspjall 16:16-33

16 Innan skamms sjáið þér mig ekki lengur, og aftur innan skamms munuð þér sjá mig."

17 Þá sögðu nokkrir lærisveina hans sín á milli: "Hvað er hann að segja við oss: 'Innan skamms sjáið þér mig ekki, og aftur innan skamms munuð þér sjá mig,' og: 'Ég fer til föðurins'?"

18 Þeir spurðu: "Hvað merkir þetta: ,Innan skamms`? Vér vitum ekki, hvað hann er að fara."

19 Jesús vissi, að þeir vildu spyrja hann, og sagði við þá: "Eruð þér að spyrjast á um það, að ég sagði: ,Innan skamms sjáið þér mig ekki, og aftur innan skamms munuð þér sjá mig`?

20 Sannlega, sannlega segi ég yður: Þér munuð gráta og kveina, en heimurinn mun fagna. Þér munuð verða hryggir, en hryggð yðar mun snúast í fögnuð.

21 Þegar konan fæðir, er hún í nauð, því stund hennar er komin. Þegar hún hefur alið barnið, minnist hún ekki framar þrauta sinna af fögnuði yfir því, að maður er í heiminn borinn.

22 Eins eruð þér nú hryggir, en ég mun sjá yður aftur, og hjarta yðar mun fagna, og enginn tekur fögnuð yðar frá yður.

23 Á þeim degi munuð þér ekki spyrja mig neins. Sannlega, sannlega segi ég yður: Hvað sem þér biðjið föðurinn um í mínu nafni, mun hann veita yður.

24 Hingað til hafið þér einskis beðið í mínu nafni. Biðjið, og þér munuð öðlast, svo að fögnuður yðar verði fullkominn.

25 Þetta hef ég sagt yður í líkingum. Sú stund kemur, að ég tala ekki framar við yður í líkingum, heldur mun ég berum orðum segja yður frá föðurnum.

26 Á þeim degi munuð þér biðja í mínu nafni. Ég segi yður ekki, að ég muni biðja föðurinn fyrir yður,

27 því sjálfur elskar faðirinn yður, þar eð þér hafið elskað mig og trúað, að ég sé frá Guði út genginn.

28 Ég er út genginn frá föðurnum og kominn í heiminn. Ég yfirgef heiminn aftur og fer til föðurins."

29 Lærisveinar hans sögðu: "Nú talar þú berum orðum og mælir enga líking.

30 Nú vitum vér, að þú veist allt og þarft eigi, að nokkur spyrji þig. Þess vegna trúum vér, að þú sért út genginn frá Guði."

31 Jesús svaraði þeim: "Trúið þér nú?

32 Sjá, sú stund kemur og er komin, að þér tvístrist hver til sín og skiljið mig einan eftir. Þó er ég ekki einn, því faðirinn er með mér.

33 Þetta hef ég talað við yður, svo að þér eigið frið í mér. Í heiminum hafið þér þrenging. En verið hughraustir. Ég hef sigrað heiminn."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society