Book of Common Prayer
16 Davíðs-miktam. Varðveit mig, Guð, því að hjá þér leita ég hælis.
2 Ég segi við Drottin: "Þú ert Drottinn minn, ég á engin gæði nema þig."
3 Á hinum heilögu sem í landinu eru og hinum dýrlegu _ á þeim hefi ég alla mína velþóknun.
4 Miklar eru þjáningar þeirra, er kjörið hafa sér annan guð. Ég vil eigi dreypa þeirra blóðugu dreypifórnum og eigi taka nöfn þeirra mér á varir.
5 Drottinn er hlutskipti mitt og minn afmældi bikar; þú heldur uppi hlut mínum.
6 Mér féllu að erfðahlut indælir staðir, og arfleifð mín líkar mér vel.
7 Ég lofa Drottin, er mér hefir ráð gefið, jafnvel um nætur er ég áminntur hið innra.
8 Ég hefi Drottin ætíð fyrir augum, þegar hann er mér til hægri handar, skriðnar mér ekki fótur.
9 Fyrir því fagnar hjarta mitt, sál mín gleðst, og líkami minn hvílist í friði,
10 því að þú ofurselur Helju eigi líf mitt, leyfir eigi að þinn trúaði sjái gröfina.
11 Kunnan gjörir þú mér veg lífsins, gleðignótt er fyrir augliti þínu, yndi í hægri hendi þinni að eilífu.
17 Bæn Davíðs. Heyr, Drottinn, á réttvíst málefni, hlýð á hróp mitt, ljá eyra bæn minni, er ég flyt með tállausum vörum.
2 Lát rétt minn út ganga frá augliti þínu, augu þín sjá hvað rétt er.
3 Þá er þú rannsakar hjarta mitt, prófar það um nætur, reynir mig í eldi, þá finnur þú engar illar hugsanir hjá mér, munnur minn heldur sér í skefjum.
4 Hvað sem aðrir gjöra, þá hefi ég eftir orði vara þinna forðast vegu ofbeldismannsins.
5 Skref mín fylgdu sporum þínum, mér skriðnaði ekki fótur.
6 Ég kalla á þig, því að þú svarar mér, ó Guð, hneig eyru þín til mín, hlýð á orð mín.
7 Veit mér þína dásamlegu náð, þú sem hjálpar þeim er leita hælis við þína hægri hönd fyrir ofsækjendum.
8 Varðveit mig sem sjáaldur augans, fel mig í skugga vængja þinna
9 fyrir hinum guðlausu, er sýna mér ofbeldi, fyrir gráðugum óvinum, er kringja um mig.
10 Mörhjörtum sínum hafa þeir lokað, með munni sínum mæla þeir drambsamleg orð.
11 Hvar sem ég geng, umkringja þeir mig, þeir beina augum sínum að því að varpa mér til jarðar.
12 Þeir líkjast ljóni er langar í bráð, ungu ljóni, er liggur í felum.
13 Rís upp, Drottinn! Far í móti óvininum og varpa honum niður, frelsa mig undan hinum óguðlega með sverði þínu.
14 Frelsa mig undan mönnunum með hendi þinni, Drottinn, undan mönnum heimsins, sem hafa hlutskipti sitt í lífinu og þú kviðfyllir gæðum þínum. Þeir eru ríkir að sonum og skilja börnum sínum eftir nægtir sínar.
15 En ég mun sakir réttlætisins skoða auglit þitt, þá er ég vakna, mun ég mettast af mynd þinni.
134 Já, lofið Drottin, allir þjónar Drottins, þér er standið í húsi Drottins um nætur.
2 Fórnið höndum til helgidómsins og lofið Drottin.
3 Drottinn blessi þig frá Síon, hann sem er skapari himins og jarðar.
135 Halelúja. Lofið nafn Drottins, lofið hann, þér þjónar Drottins,
2 er standið í húsi Drottins, í forgörðum húss Guðs vors.
3 Lofið Drottin, því að Drottinn er góður, leikið fyrir nafni hans, því að það er yndislegt.
4 Því að Drottinn hefir útvalið sér Jakob, gert Ísrael að eign sinni.
5 Já, ég veit, að Drottinn er mikill og að Drottinn vor er öllum guðum æðri.
6 Allt, sem Drottni þóknast, það gjörir hann, á himni og jörðu, í hafinu og öllum djúpunum.
7 Hann lætur skýin uppstíga frá endimörkum jarðar, gjörir eldingarnar til að búa rás regninu, hleypir vindinum út úr forðabúrum hans.
8 Hann laust frumburði Egyptalands, bæði menn og skepnur,
9 sendi tákn og undur yfir Egyptaland, gegn Faraó og öllum þjónum hans.
10 Hann laust margar þjóðir og deyddi volduga konunga:
11 Síhon, Amorítakonung, og Óg, konung í Basan, og öll konungsríki í Kanaan,
12 og gaf lönd þeirra að erfð, að erfð Ísrael, lýð sínum.
13 Drottinn, nafn þitt varir að eilífu, minning þín, Drottinn, frá kyni til kyns,
14 því að Drottinn réttir hlut þjóðar sinnar og aumkast yfir þjóna sína.
15 Skurðgoð þjóðanna eru silfur og gull, handaverk manna.
16 Þau hafa munn, en tala ekki, augu, en sjá ekki,
17 þau hafa eyru, en heyra ekki, og eigi er heldur neinn andardráttur í munni þeirra.
18 Eins og þau eru, verða smiðir þeirra, allir þeir, er á þau treysta.
19 Ísraels ætt, lofið Drottin, Arons ætt, lofið Drottin!
20 Leví ætt, lofið Drottin, þér sem óttist Drottin, lofið hann!
21 Lofaður sé Drottinn frá Síon, hann sem býr í Jerúsalem! Halelúja.
23 En hann sagði við þá: "Þetta er það, sem Drottinn sagði: ,Á morgun er hvíldardagur, heilagur hvíldardagur Drottins. Bakið það, sem þér viljið baka, og sjóðið það, sem þér viljið sjóða, en allt það, sem af gengur, skuluð þér leggja fyrir og geyma til morguns."`
24 Þeir lögðu það þá fyrir til næsta morguns, eins og Móse bauð, og fúlnaði það ekki né maðkaði.
25 Þá sagði Móse: "Í dag skuluð þér eta það, því að í dag er hvíldardagur Drottins. Í dag finnið þér það ekki á mörkinni.
26 Sex daga skuluð þér safna því, en sjöundi dagurinn er hvíldardagur, þá mun ekkert finnast."
27 Og sjöunda daginn gengu nokkrir af fólkinu út til að safna, en fundu ekkert.
28 Drottinn sagði við Móse: "Hversu lengi tregðist þér við að varðveita boðorð mín og lög?
29 Lítið á! Vegna þess að Drottinn hefir gefið yður hvíldardaginn, þess vegna gefur hann yður sjötta daginn brauð til tveggja daga. Haldi hver maður kyrru fyrir á sínum stað, enginn fari að heiman á sjöunda deginum."
30 Og fólkið hvíldist á hinum sjöunda degi.
31 Ísraelsmenn kölluðu þetta brauð manna. Það líktist kóríanderfræi, var hvítt og á bragðið sem hunangskaka.
32 Móse sagði: "Þetta er það, sem Drottinn hefir boðið: ,Fyllið einn gómer af því til þess að geyma það handa eftirkomendum yðar, svo að þeir sjái það brauð, sem ég gaf yður að eta í eyðimörkinni, er ég leiddi yður út af Egyptalandi."`
33 Þá sagði Móse við Aron: "Tak eitt ker og lát í það fullan gómer af manna, og legg það til geymslu frammi fyrir Drottni, svo að það varðveitist handa eftirkomendum yðar."
34 Aron lagði það fyrir framan sáttmálið, til þess að það væri þar geymt, eins og Drottinn hafði boðið Móse.
35 Ísraelsmenn átu manna í fjörutíu ár, uns þeir komu í byggt land. Þeir átu manna, uns þeir komu að landamærum Kanaanlands.
36 En gómer er tíundi partur af efu.
13 Hver er sá, er mun gjöra yður illt, ef þér kappkostið það sem gott er?
14 En þótt þér skylduð líða illt fyrir réttlætis sakir, þá eruð þér sælir. Hræðist eigi og skelfist eigi fyrir neinum.
15 En helgið Krist sem Drottin í hjörtum yðar. Verið ætíð reiðubúnir að svara hverjum manni sem krefst raka hjá yður fyrir voninni, sem í yður er.
16 En gjörið það með hógværð og virðingu, og hafið góða samvisku, til þess að þeir, sem lasta góða hegðun yðar sem kristinna manna, verði sér til skammar í því, sem þeir mæla gegn yður.
17 Því að það er betra, ef Guð vill svo vera láta, að þér líðið fyrir að breyta vel, heldur en fyrir að breyta illa.
18 Kristur dó í eitt skipti fyrir öll fyrir syndir, réttlátur fyrir rangláta, til þess að hann gæti leitt yður til Guðs. Hann var deyddur að líkamanum til, en lifandi gjörður í anda.
19 Í andanum fór hann einnig og prédikaði fyrir öndunum í varðhaldi.
20 Þeir höfðu óhlýðnast fyrrum, þegar Guð sýndi langlyndi og beið á dögum Nóa meðan örkin var í smíðum. Í henni frelsuðust fáeinar _ það er átta _ sálir í vatni.
21 Með því var skírnin fyrirmynduð, sem nú einnig frelsar yður, hún sem ekki er hreinsun óhreininda á líkamanum, heldur bæn til Guðs um góða samvisku fyrir upprisu Jesú Krists,
22 sem uppstiginn til himna, situr Guði á hægri hönd, en englar, völd og kraftar eru undir hann lagðir.
4 Eins og því Kristur leið líkamlega, svo skuluð þér og herklæðast sama hugarfari. Sá sem hefur liðið líkamlega, er skilinn við synd,
2 hann lifir ekki framar í mannlegum fýsnum, heldur lifir hann tímann, sem eftir er, að vilja Guðs.
3 Nógu lengi hafið þér gjört vilja heiðingjanna og lifað í saurlifnaði, girndum, ofdrykkju, óhófi, samdrykkjum og svívirðilegri skurðgoðadýrkun.
4 Nú furðar þá, að þér hlaupið ekki með þeim út í hið sama spillingardíki; og þeir hallmæla yður.
5 En þeir munu verða að gjöra reikningsskil þeim, sem reiðubúinn er að dæma lifendur og dauða.
6 Því að til þess var og dauðum boðað fagnaðarerindið, að þeir, þótt dæmdir væru líkamlega með mönnum, mættu lifa í andanum með Guði.
16 Þetta hef ég talað til yðar, svo að þér fallið ekki frá.
2 Þeir munu gjöra yður samkunduræka. Já, sú stund kemur, að hver sem líflætur yður þykist veita Guði þjónustu.
3 Þetta munu þeir gjöra, af því þeir þekkja hvorki föðurinn né mig.
4 Þetta hef ég talað til yðar, til þess að þér minnist þess, að ég sagði yður það, þegar stund þeirra kemur. Ég hef ekki sagt yður þetta frá öndverðu, af því ég var með yður.
5 En nú fer ég til hans, sem sendi mig, og enginn yðar spyr mig: ,Hvert fer þú?`
6 En hryggð hefur fyllt hjarta yðar, af því að ég sagði yður þetta.
7 En ég segi yður sannleikann: Það er yður til góðs, að ég fari burt, því ef ég fer ekki, kemur hjálparinn ekki til yðar. En ef ég fer, sendi ég hann til yðar.
8 Þegar hann kemur, mun hann sanna heiminum, hvað er synd og réttlæti og dómur, _
9 syndin er, að þeir trúðu ekki á mig,
10 réttlætið, að ég fer til föðurins, og þér sjáið mig ekki lengur,
11 og dómurinn, að höfðingi þessa heims er dæmdur.
12 Enn hef ég margt að segja yður, en þér getið ekki borið það nú.
13 En þegar hann kemur, andi sannleikans, mun hann leiða yður í allan sannleikann. Hann mun ekki mæla af sjálfum sér, heldur mun hann tala það, sem hann heyrir, og kunngjöra yður það, sem koma á.
14 Hann mun gjöra mig dýrlegan, því af mínu mun hann taka og kunngjöra yður.
15 Allt sem faðirinn á, er mitt. Því sagði ég, að hann tæki af mínu og kunngjörði yður.
by Icelandic Bible Society