Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 18

18 Til söngstjórans. Eftir Davíð, þjón Drottins, er flutti Drottni orð þessara ljóða, þá er Drottinn frelsaði hann af hendi allra óvina hans og af hendi Sáls.

Hann mælti: Ég elska þig, Drottinn, þú styrkur minn.

Drottinn, bjarg mitt og vígi og frelsari minn, Guð minn, hellubjarg mitt, þar sem ég leita hælis, skjöldur minn og horn hjálpræðis míns, háborg mín!

Lofaður sé Drottinn, hrópa ég, og ég frelsast frá óvinum mínum.

Brimöldur dauðans umkringdu mig, elfur glötunarinnar skelfdu mig,

snörur Heljar luktu um mig, möskvar dauðans féllu yfir mig.

Í angist minni kallaði ég á Drottin, og til Guðs míns hrópaði ég. Hann heyrði raust mína í helgidómi sínum, og óp mitt barst til eyrna honum.

Jörðin bifaðist og nötraði, undirstöður fjallanna skulfu, þær bifuðust, því að hann var reiður,

reykur gekk fram úr nösum hans og eyðandi eldur af munni hans, glóðir brunnu út frá honum.

10 Hann sveigði himininn og steig niður, og skýsorti var undir fótum hans.

11 Hann steig á bak kerúb og flaug af stað og sveif á vængjum vindarins.

12 Hann gjörði myrkur að skýli sínu, regnsorta og skýþykkni að fylgsni sínu allt um kring.

13 Frá ljómanum fyrir honum brutust hagl og eldglæringar gegnum ský hans.

14 Þá þrumaði Drottinn á himnum, og Hinn hæsti lét raust sína gjalla.

15 Hann skaut örvum sínum og tvístraði óvinum sínum, lét eldingar leiftra og hræddi þá.

16 Þá sá í mararbotn, og undirstöður jarðarinnar urðu berar fyrir ógnun þinni, Drottinn, fyrir andgustinum úr nösum þínum.

17 Hann seildist niður af hæðum og greip mig, dró mig upp úr hinum miklu vötnum.

18 Hann frelsaði mig frá hinum sterku óvinum mínum, frá fjandmönnum mínum, er voru mér yfirsterkari.

19 Þeir réðust á mig á mínum óheilladegi, en Drottinn var mín stoð.

20 Hann leiddi mig út á víðlendi, frelsaði mig, af því að hann hafði þóknun á mér.

21 Drottinn fer með mig eftir réttlæti mínu, eftir hreinleik handa minna geldur hann mér,

22 því að ég hefi varðveitt vegu Drottins og hefi ekki reynst ótrúr Guði mínum.

23 Allar skipanir hans hefi ég fyrir augum, og boðorðum hans þokaði ég eigi burt frá mér.

24 Ég var lýtalaus fyrir honum og gætti mín við misgjörðum.

25 Fyrir því galt Drottinn mér eftir réttlæti mínu, eftir hreinleik handa minna fyrir augliti hans.

26 Gagnvart ástríkum ert þú ástríkur, gagnvart ráðvöndum ráðvandur,

27 gagnvart hreinum hreinn, en gagnvart rangsnúnum ert þú afundinn.

28 Þú hjálpar þjáðum lýð, en gjörir hrokafulla niðurlúta.

29 Já, þú lætur lampa minn skína, Drottinn, Guð minn, þú lýsir mér í myrkrinu.

30 Því að fyrir þína hjálp brýt ég múra, fyrir hjálp Guðs míns stekk ég yfir borgarveggi.

31 Vegur Guðs er lýtalaus, orð Drottins er hreint, skjöldur er hann öllum þeim sem leita hælis hjá honum.

32 Hver er Guð nema Drottinn, og hver er hellubjarg utan vor Guð?

33 Sá Guð sem gyrðir mig styrkleika og gjörir veg minn sléttan,

34 sem gjörir fætur mína sem hindanna og veitir mér fótfestu á hæðunum,

35 sem æfir hendur mínar til hernaðar, svo að armar mínir benda eirbogann.

36 Og þú gafst mér skjöld hjálpræðis þíns, og hægri hönd þín studdi mig, og lítillæti þitt gjörði mig mikinn.

37 Þú rýmdir til fyrir skrefum mínum, og ökklar mínir riðuðu ekki.

38 Ég elti óvini mína og náði þeim og sneri ekki aftur, fyrr en ég hafði gjöreytt þeim.

39 Ég molaði þá sundur, þeir máttu eigi upp rísa, þeir hnigu undir fætur mér.

40 Þú gyrtir mig styrkleika til ófriðarins, beygðir fjendur mína undir mig.

41 Þú lést mig sjá bak óvina minna, og fjendum mínum eyddi ég.

42 Þeir hrópuðu, en enginn kom til hjálpar, þeir hrópuðu til Drottins, en hann svaraði þeim ekki.

43 Og ég muldi þá sem mold á jörð, tróð þá fótum sem saur á strætum.

44 Þú frelsaðir mig úr fólkorustum, gjörðir mig að höfðingja þjóðanna, lýður sem ég þekkti ekki þjónar mér.

45 Óðara en þeir heyra mín getið, hlýða þeir mér, útlendingar smjaðra fyrir mér.

46 Útlendingar dragast upp og koma skjálfandi fram úr fylgsnum sínum.

47 Lifi Drottinn, lofað sé mitt bjarg, og hátt upp hafinn sé Guð hjálpræðis míns,

48 sá Guð sem veitti mér hefndir og braut þjóðir undir mig,

49 sem hreif mig úr höndum óvina minna. Og yfir mótstöðumenn mína hófst þú mig, frá ójafnaðarmönnum frelsaðir þú mig.

50 Fyrir því vil ég vegsama þig, Drottinn, meðal þjóðanna og lofsyngja þínu nafni.

51 Hann veitir konungi sínum mikla hjálp og auðsýnir miskunn sínum smurða, Davíð og niðjum hans að eilífu.

Önnur bók Móse 16:10-22

10 Og er Aron talaði þetta til alls safnaðar Ísraelsmanna, sneru þeir sér í móti eyðimörkinni, og sjá, dýrð Drottins birtist í skýinu.

11 Drottinn talaði við Móse og sagði:

12 "Ég hefi heyrt möglanir Ísraelsmanna. Tala til þeirra og seg: ,Um sólsetur skuluð þér kjöt eta, og að morgni skuluð þér fá saðning yðar af brauði, og þér skuluð viðurkenna, að ég er Drottinn, Guð yðar."`

13 Um kveldið bar svo við, að lynghæns komu og huldu búðirnar, en um morguninn var döggmóða umhverfis búðirnar.

14 En er upp létti döggmóðunni, lá eitthvað þunnt, smákornótt yfir eyðimörkinni, þunnt eins og héla á jörðu.

15 Þegar Ísraelsmenn sáu þetta, sögðu þeir hver við annan: "Hvað er þetta?" Því að þeir vissu ekki, hvað það var. Þá sagði Móse við þá: "Þetta er brauðið, sem Drottinn gefur yður til fæðu.

16 En þessi er skipun Drottins: ,Safnið því, eftir því sem hver þarf að eta. Þér skuluð taka einn gómer á mann eftir fólksfjölda yðar, hver handa þeim, sem hann hefir í tjaldi sínu."`

17 Og Ísraelsmenn gjörðu svo, og söfnuðu sumir meira, sumir minna.

18 En er þeir mældu það í gómer-máli, hafði sá ekkert afgangs, sem miklu hafði safnað, og þann skorti ekki, sem litlu hafði safnað, heldur hafði hver safnað eftir því sem hann þurfti sér til fæðu.

19 Móse sagði við þá: "Enginn má leifa neinu af því til morguns."

20 En þeir hlýddu ekki Móse, heldur leifðu sumir nokkru af því til morguns. En þá kviknuðu maðkar í því, svo að það fúlnaði, og varð Móse þá reiður þeim.

21 Þeir söfnuðu því þá hvern morgun, hver eftir því sem hann þurfti sér til fæðu. En þegar sólin skein heitt, bráðnaði það.

22 En á sjötta deginum söfnuðu þeir tvöfalt meira af brauði, tvo gómera á mann. Komu þá allir foringjar lýðsins og sögðu Móse frá.

Fyrra almenna bréf Péturs 2:11-25

11 Þér elskuðu, ég áminni yður sem gesti og útlendinga að halda yður frá holdlegum girndum, sem heyja stríð gegn sálunni.

12 Hegðið yður vel meðal heiðingjanna, til þess að þeir, er nú hallmæla yður sem illgjörðamönnum, sjái góðverk yðar og vegsami Guð á tíma vitjunarinnar.

13 Verið Drottins vegna undirgefnir allri mannlegri skipan, bæði keisara, hinum æðsta,

14 og landshöfðingjum, sem hann sendir til að refsa illgjörðamönnum og þeim til lofs er breyta vel.

15 Því að það er vilji Guðs, að þér skuluð með því að breyta vel þagga niður vanþekkingu heimskra manna.

16 Þér eruð frjálsir menn, hafið ekki frelsið fyrir hjúp yfir vonskuna, breytið heldur sem þjónar Guðs.

17 Virðið alla menn, elskið bræðrafélagið, óttist Guð, heiðrið keisarann.

18 Þér þjónar, verið undirgefnir húsbændum yðar með allri lotningu, ekki einungis hinum góðu og sanngjörnu, heldur einnig hinum ósanngjörnu.

19 Ef einhver þolir móðganir og líður saklaus vegna meðvitundar um Guð, þá er það þakkar vert.

20 Því að hvaða verðleiki er það, að þér sýnið þolgæði, er þér verðið fyrir höggum vegna misgjörða? En ef þér sýnið þolgæði, er þér líðið illt, þótt þér hafið breytt vel, það aflar velþóknunar hjá Guði.

21 Til þessa eruð þér kallaðir. Því að Kristur leið einnig fyrir yður og lét yður eftir fyrirmynd, til þess að þér skylduð feta í hans fótspor.

22 "Hann drýgði ekki synd, og svik voru ekki fundin í munni hans."

23 Hann illmælti eigi aftur, er honum var illmælt, og hótaði eigi, er hann leið, heldur gaf það í hans vald, sem réttvíslega dæmir.

24 Hann bar sjálfur syndir vorar á líkama sínum upp á tréð, til þess að vér skyldum deyja frá syndunum og lifa réttlætinu. Fyrir hans benjar eruð þér læknaðir.

25 Þér voruð sem villuráfandi sauðir, en nú hafið þér snúið yður til hans, sem er hirðir og biskup sálna yðar.

Jóhannesarguðspjall 15:12-27

12 Þetta er mitt boðorð, að þér elskið hver annan, eins og ég hef elskað yður.

13 Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína.

14 Þér eruð vinir mínir, ef þér gjörið það, sem ég býð yður.

15 Ég kalla yður ekki framar þjóna, því þjónninn veit ekki, hvað herra hans gjörir. En ég kalla yður vini, því ég hef kunngjört yður allt, sem ég heyrði af föður mínum.

16 Þér hafið ekki útvalið mig, heldur hef ég útvalið yður. Ég hef ákvarðað yður til að fara og bera ávöxt, ávöxt, sem varir, svo að faðirinn veiti yður sérhvað það sem þér biðjið hann um í mínu nafni.

17 Þetta býð ég yður, að þér elskið hver annan.

18 Ef heimurinn hatar yður, þá vitið, að hann hefur hatað mig fyrr en yður.

19 Væruð þér af heiminum, mundi heimurinn elska sitt eigið. Heimurinn hatar yður af því að þér eruð ekki af heiminum, heldur hef ég útvalið yður úr heiminum.

20 Minnist orðanna, sem ég sagði við yður: Þjónn er ekki meiri en herra hans. Hafi þeir ofsótt mig, þá munu þeir líka ofsækja yður. Hafi þeir varðveitt orð mitt, munu þeir líka varðveita yðar.

21 En allt þetta munu þeir yður gjöra vegna nafns míns, af því að þeir þekkja eigi þann, sem sendi mig.

22 Hefði ég ekki komið og talað til þeirra, væru þeir ekki sekir um synd. En nú hafa þeir ekkert til afsökunar synd sinni.

23 Sá sem hatar mig, hatar og föður minn.

24 Hefði ég ekki unnið meðal þeirra þau verk, sem enginn annar hefur gjört, væru þeir ekki sekir um synd. En nú hafa þeir séð þau og hata þó bæði mig og föður minn.

25 Svo hlaut að rætast orðið, sem ritað er í lögmáli þeirra: ,Þeir hötuðu mig án saka.`

26 Þegar hjálparinn kemur, sem ég sendi yður frá föðurnum, sannleiksandinn, er út gengur frá föðurnum, mun hann vitna um mig.

27 Þér skuluð einnig vitni bera, því þér hafið verið með mér frá upphafi.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society