Book of Common Prayer
119 Sælir eru þeir sem breyta grandvarlega, þeir er fram ganga í lögmáli Drottins.
2 Sælir eru þeir er halda reglur hans, þeir er leita hans af öllu hjarta
3 og eigi fremja ranglæti, en ganga á vegum hans.
4 Þú hefir gefið skipanir þínar, til þess að menn skuli halda þær vandlega.
5 Ó að breytni mín mætti vera staðföst, svo að ég varðveiti lög þín.
6 Þá mun ég eigi til skammar verða, er ég gef gaum að öllum boðum þínum.
7 Ég skal þakka þér af einlægu hjarta, er ég hefi numið þín réttlátu ákvæði.
8 Ég vil gæta laga þinna, þá munt þú alls ekki yfirgefa mig.
9 Með hverju getur ungur maður haldið vegi sínum hreinum? Með því að gefa gaum að orði þínu.
10 Ég leita þín af öllu hjarta, lát mig eigi villast frá boðum þínum.
11 Ég geymi orð þín í hjarta mínu, til þess að ég skuli eigi syndga gegn þér.
12 Lofaður sért þú, Drottinn, kenn mér lög þín.
13 Með vörum mínum tel ég upp öll ákvæði munns þíns.
14 Yfir vegi vitnisburða þinna gleðst ég eins og yfir alls konar auði.
15 Fyrirmæli þín vil ég íhuga og skoða vegu þína.
16 Ég leita unaðar í lögum þínum, gleymi eigi orði þínu.
17 Veit þjóni þínum að lifa, að ég megi halda orð þín.
18 Ljúk upp augum mínum, að ég megi skoða dásemdirnar í lögmáli þínu.
19 Ég er útlendingur á jörðunni, dyl eigi boð þín fyrir mér.
20 Sál mín er kvalin af þrá eftir ákvæðum þínum alla tíma.
21 Þú hefir ógnað ofstopamönnunum, bölvaðir eru þeir, sem víkja frá boðum þínum.
22 Velt þú af mér háðung og skömm, því að ég hefi haldið reglur þínar.
23 Þótt þjóðhöfðingjar sitji og taki saman ráð sín gegn mér, þá íhugar þjónn þinn lög þín.
24 Og reglur þínar eru unun mín, boð þín eru ráðgjafar mínir.
12 Til söngstjórans. Á áttstrengjað hljóðfæri. Davíðssálmur.
2 Hjálpa þú, Drottinn, því að hinir trúuðu eru á brottu, hinir dygglyndu horfnir frá mönnunum.
3 Lygi tala þeir hver við annan, með mjúkfláum vörum og tvískiptu hjarta tala þeir.
4 Ó að Drottinn vildi eyða öllum mjúkfláum vörum, öllum tungum er tala drambsamleg orð,
5 þeim er segja: "Með tungunni munum vér sigra, varir vorar hjálpa oss, hver er drottnari yfir oss?"
6 "Sakir kúgunar hinna hrjáðu, sakir andvarpa hinna fátæku vil ég nú rísa upp," segir Drottinn. "Ég vil veita hjálp þeim, er þrá hana."
7 Orð Drottins eru hrein orð, skírt silfur, sjöhreinsað gull.
8 Þú, Drottinn, munt vernda oss, varðveita oss fyrir þessari kynslóð um aldur.
9 Hinir guðlausu vaða alls staðar uppi, og hrakmenni komast til vegs meðal mannanna.
13 Til söngstjórans. Davíðssálmur.
2 Hversu lengi, Drottinn, ætlar þú að gleyma mér með öllu? Hversu lengi ætlar þú að hylja auglit þitt fyrir mér?
3 Hversu lengi á ég að bera sút í sál, harm í hjarta dag frá degi? Hversu lengi á óvinur minn að hreykja sér upp yfir mig?
4 Lít til, svara mér, Drottinn, Guð minn, hýrga augu mín, að ég sofni ekki svefni dauðans,
5 að óvinur minn geti ekki sagt: "Ég hefi borið af honum!" að fjandmenn mínir geti ekki fagnað yfir því, að mér skriðni fótur.
6 Ég treysti á miskunn þína; hjarta mitt fagnar yfir hjálp þinni. Ég vil syngja fyrir Drottni, því að hann hefir gjört vel til mín.
14 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Heimskinginn segir í hjarta sínu: "Guð er ekki til." Ill og andstyggileg er breytni þeirra, enginn gjörir það sem gott er.
2 Drottinn lítur af himni niður á mennina til þess að sjá, hvort nokkur sé hygginn, nokkur sem leiti Guðs.
3 Allir eru viknir af leið, allir spilltir, enginn gjörir það sem gott er _ ekki einn.
4 Skyldu þeir ekki fá að kenna á því, allir illgjörðamennirnir, þeir er eta lýð minn sem brauð væri og ákalla eigi Drottin?
5 Þá skulu þeir verða mjög óttaslegnir, því að Guð er hjá kynslóð réttlátra.
6 Þér megið láta ráð hinna hrjáðu til skammar verða, því að Drottinn er samt athvarf þeirra.
7 Ó að hjálpræði Ísraels komi frá Síon! Þegar Drottinn snýr við hag lýðs síns, skal Jakob fagna og Ísrael gleðjast.
22 Móse lét Ísrael hefja ferð sína frá Sefhafinu, og héldu þeir til Súr-eyðimerkur. Gengu þeir þrjá daga um eyðimörkina og fundu ekkert vatn.
23 Þá komu þeir til Mara, en þeir gátu ekki drukkið vatnið fyrir beiskju, því að það var beiskt. Fyrir því var sá staður kallaður Mara.
24 Þá möglaði fólkið móti Móse og sagði: "Hvað eigum vér að drekka?"
25 En hann hrópaði til Drottins, og vísaði Drottinn honum þá á tré nokkurt. Kastaði hann því í vatnið, og varð vatnið þá sætt. Þar setti hann þeim lög og rétt, og þar reyndi hann þá.
26 Og hann sagði: "Ef þú hlýðir gaumgæfilega raust Drottins Guðs þíns og gjörir það, sem rétt er fyrir honum, gefur gaum boðorðum hans og heldur allar skipanir hans, þá vil ég engan þann sjúkdóm á þig leggja, sem ég lagði á Egypta, því ég er Drottinn, græðari þinn."
27 Síðan komu þeir til Elím. Þar voru tólf vatnslindir og sjötíu pálmar, og settu þeir búðir sínar þar við vatnið.
16 Því næst héldu þeir af stað frá Elím, og allur söfnuður Ísraelsmanna kom til Sín-eyðimerkur, sem liggur milli Elím og Sínaí, á fimmtánda degi hins annars mánaðar eftir burtför þeirra úr Egyptalandi.
2 Þá möglaði allur söfnuður Ísraelsmanna gegn Móse og Aroni í eyðimörkinni.
3 Og Ísraelsmenn sögðu við þá: "Betur að vér hefðum dáið fyrir hendi Drottins í Egyptalandi, er vér sátum við kjötkatlana og átum oss sadda af brauði, því að þið hafið farið með oss út á þessa eyðimörk til þess að láta allan þennan mannfjölda deyja af hungri."
4 Þá sagði Drottinn við Móse: "Sjá, ég vil láta rigna brauði af himni handa yður, og skal fólkið fara út og safna hvern dag svo miklu sem þarf þann daginn, svo að ég reyni það, hvort það vill breyta eftir mínu lögmáli eða ekki.
5 Og er þeir þá á hinum sjötta degi tilreiða það, sem þeir koma heim með, skal það vera tvöfalt við það, sem þeir annars safna daglega."
6 Þá sögðu Móse og Aron við alla Ísraelsmenn: "Í kveld skuluð þér viðurkenna, að Drottinn hefir leitt yður út af Egyptalandi.
7 Og á morgun skuluð þér sjá dýrð Drottins, með því að hann hefir heyrt möglanir yðar gegn Drottni. Því að hvað erum við, að þér möglið gegn okkur?"
8 Og Móse sagði: "Þetta verður, þegar Drottinn gefur yður að kveldi kjöt að eta og brauð til saðnings að morgni, því að Drottinn hefir heyrt möglanir yðar, sem þér beinið gegn honum. Því að hvað erum við? Þér möglið ekki gegn okkur, heldur gegn Drottni."
9 Og Móse sagði við Aron: "Seg við allan söfnuð Ísraelsmanna: ,Gangið nær í augsýn Drottins, því að hann hefir heyrt möglanir yðar."`
10 Og er Aron talaði þetta til alls safnaðar Ísraelsmanna, sneru þeir sér í móti eyðimörkinni, og sjá, dýrð Drottins birtist í skýinu.
2 Leggið því af alla vonsku og alla pretti, hræsni og öfund og allt baktal.
2 Sækist eins og nýfædd börn eftir hinni andlegu, ósviknu mjólk, til þess að þér af henni getið dafnað til hjálpræðis,
3 enda "hafið þér smakkað, hvað Drottinn er góður."
4 Komið til hans, hins lifanda steins, sem hafnað var af mönnum, en er hjá Guði útvalinn og dýrmætur,
5 og látið sjálfir uppbyggjast sem lifandi steinar í andlegt hús, til heilags prestafélags, til að bera fram andlegar fórnir, Guði velþóknanlegar fyrir Jesú Krist.
6 Því svo stendur í Ritningunni: Sjá, ég set hornstein í Síon, valinn og dýrmætan. Sá sem trúir á hann mun alls eigi verða til skammar.
7 Yður sem trúið er hann dýrmætur, en hinum vantrúuðu er steinninn, sem smiðirnir höfnuðu, orðinn að hyrningarsteini
8 og: ásteytingarsteini og hrösunarhellu. Þeir steyta sig á honum, af því að þeir óhlýðnast boðskapnum. Það var þeim ætlað.
9 En þér eruð "útvalin kynslóð, konunglegt prestafélag, heilög þjóð, eignarlýður, til þess að þér skuluð víðfrægja dáðir hans," sem kallaði yður frá myrkrinu til síns undursamlega ljóss.
10 Þér sem áður voruð ekki lýður eruð nú orðnir "Guðs lýður". Þér, sem "ekki nutuð miskunnar", hafið nú "miskunn hlotið".
15 "Ég er hinn sanni vínviður, og faðir minn er vínyrkinn.
2 Hverja þá grein á mér, sem ber ekki ávöxt, sníður hann af, og hverja þá, sem ávöxt ber, hreinsar hann, svo að hún beri meiri ávöxt.
3 Þér eruð þegar hreinir vegna orðsins, sem ég hef talað til yðar.
4 Verið í mér, þá verð ég í yður. Eins og greinin getur ekki borið ávöxt af sjálfri sér, nema hún sé á vínviðnum, eins getið þér ekki heldur borið ávöxt, nema þér séuð í mér.
5 Ég er vínviðurinn, þér eruð greinarnar. Sá ber mikinn ávöxt, sem er í mér og ég í honum, en án mín getið þér alls ekkert gjört.
6 Hverjum sem er ekki í mér, verður varpað út eins og greinunum, og hann visnar. Þeim er safnað saman og varpað á eld og brennt.
7 Ef þér eruð í mér og orð mín eru í yður, þá biðjið um hvað sem þér viljið, og yður mun veitast það.
8 Með því vegsamast faðir minn, að þér berið mikinn ávöxt, og verðið lærisveinar mínir.
9 Ég hef elskað yður, eins og faðirinn hefur elskað mig. Verið stöðugir í elsku minni.
10 Ef þér haldið boðorð mín, verðið þér stöðugir í elsku minni, eins og ég hef haldið boðorð föður míns og er stöðugur í elsku hans.
11 Þetta hef ég talað til yðar, til þess að fögnuður minn sé í yður og fögnuður yðar sé fullkominn.
by Icelandic Bible Society