Book of Common Prayer
5 Til söngstjórans. Með hljóðpípu. Davíðssálmur.
2 Heyr orð mín, Drottinn, gef gaum að andvörpum mínum.
3 Hlýð þú á kveinstafi mína, konungur minn og Guð minn, því að til þín bið ég.
4 Drottinn, á morgnana heyrir þú rödd mína, á morgnana legg ég bæn mína fram fyrir þig, og ég bíð þín.
5 Þú ert eigi sá Guð, er óguðlegt athæfi líki, hinir vondu fá eigi að dveljast hjá þér.
6 Hinir hrokafullu fá eigi staðist fyrir þér, þú hatar alla er illt gjöra.
7 Þú tortímir þeim, sem lygar mæla, á blóðvörgum og svikurum hefir Drottinn andstyggð.
8 En ég fæ að ganga í hús þitt fyrir mikla miskunn þína, fæ að falla fram fyrir þínu heilaga musteri í ótta frammi fyrir þér.
9 Drottinn, leið mig eftir réttlæti þínu sakir óvina minna, gjör sléttan veg þinn fyrir mér.
10 Einlægni er ekki til í munni þeirra, hjarta þeirra er glötunardjúp. Kok þeirra er opin gröf, með tungu sinni hræsna þeir.
11 Dæm þá seka, Guð, falli þeir sakir ráðagjörða sinna, hrind þeim burt sakir hinna mörgu afbrota þeirra, því að þeir storka þér.
12 Allir kætast, er treysta þér, þeir fagna að eilífu, því að þú verndar þá. Þeir sem elska nafn þitt gleðjast yfir þér.
13 Því að þú, Drottinn, blessar hinn réttláta, hlífir honum með náð þinni eins og með skildi.
6 Til söngstjórans. Með strengjaleik á áttstrengjað hljóðfæri. Davíðssálmur.
2 Drottinn, refsa mér ekki í reiði þinni og tyfta mig ekki í gremi þinni.
3 Líkna mér, Drottinn, því að ég örmagnast, lækna mig, Drottinn, því að bein mín tærast.
4 Sál mín er óttaslegin, en þú, ó Drottinn _ hversu lengi?
5 Snú þú aftur, Drottinn, frelsa sálu mína, hjálpa mér sakir elsku þinnar.
6 Því að enginn minnist þín í dánarheimum, hver skyldi lofa þig hjá Helju?
7 Ég er þreyttur af andvörpum mínum, ég lauga rekkju mína í tárum, læt hvílu mína flóa hverja nótt.
8 Augu mín eru döpruð af harmi, orðin sljó sakir allra óvina minna.
9 Farið frá mér, allir illgjörðamenn, því að Drottinn hefir heyrt grátraust mína.
10 Drottinn hefir heyrt grátbeiðni mína, Drottinn tekur á móti bæn minni.
11 Allir óvinir mínir skulu verða til skammar og skelfast mjög, hraða sér sneyptir burt.
10 Hví stendur þú fjarri, Drottinn, hví byrgir þú augu þín á neyðartímum?
2 Hinn óguðlegi ofsækir hina hrjáðu í hroka sínum, þeir flækjast í vélum þeim, er þeir hafa upp hugsað.
3 Hinn óguðlegi lofar Guð fyrir það, er sála hans girnist, og hinn ásælni prísar Drottin, sem hann fyrirlítur.
4 Hinn óguðlegi segir í drambsemi sinni: "Hann hegnir eigi!" "Guð er ekki til" _ svo hugsar hann í öllu.
5 Fyrirtæki hans heppnast ætíð, dómar þínir fara hátt yfir höfði hans, alla fjandmenn sína kúgar hann.
6 Hann segir í hjarta sínu: "Ég verð eigi valtur á fótum, frá kyni til kyns mun ég eigi í ógæfu rata."
7 Munnur hans er fullur af formælingum, svikum og ofbeldi, undir tungu hans býr illska og ranglæti.
8 Hann situr í launsátri í þorpunum, í skúmaskotinu drepur hann hinn saklausa, augu hans skima eftir hinum bágstöddu.
9 Hann gjörir fyrirsát í fylgsninu eins og ljón í skógarrunni; hann gjörir fyrirsát til þess að ná hinum volaða, hann nær honum í snöru sína, í net sitt.
10 Kraminn hnígur hann niður, hinn bágstaddi fellur fyrir klóm hans.
11 Hann segir í hjarta sínu: "Guð gleymir því, hann hefir hulið auglit sitt, sér það aldrei."
12 Rís þú upp, Drottinn! Lyft þú upp hendi þinni, Guð! Gleym eigi hinum voluðu.
13 Hvers vegna á hinn óguðlegi að sýna Guði fyrirlitningu, segja í hjarta sínu: "Þú hegnir eigi"?
14 Þú gefur gaum að mæðu og böli til þess að taka það í hönd þína. Hinn bágstaddi felur þér það; þú ert hjálpari föðurlausra.
15 Brjót þú armlegg hins óguðlega, og er þú leitar að guðleysi hins vonda, finnur þú það eigi framar.
16 Drottinn er konungur um aldur og ævi, heiðingjum er útrýmt úr landi hans.
17 Þú hefir heyrt óskir hinna voluðu, Drottinn, þú eykur þeim hugrekki, hneigir eyra þitt.
18 Þú lætur hina föðurlausu og kúguðu ná rétti sínum. Eigi skulu menn af moldu framar beita kúgun.
11 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Hjá Drottni leita ég hælis. Hvernig getið þér sagt við mig: "Fljúg sem fugl til fjallanna!"
2 Því að nú benda hinir óguðlegu bogann, leggja örvar sínar á streng til þess að skjóta í myrkrinu á hina hjartahreinu.
3 Þegar stoðirnar eru rifnar niður, hvað megna þá hinir réttlátu?
4 Drottinn er í sínu heilaga musteri, hásæti Drottins er á himnum, augu hans sjá, sjónir hans rannsaka mennina.
5 Drottinn rannsakar hinn réttláta og hinn óguðlega, og þann er elskar ofríki, hatar hann.
6 Á óguðlega lætur hann rigna glóandi kolum, eldur og brennisteinn og brennheitur vindur er þeirra mældi bikar.
7 Því að Drottinn er réttlátur og hefir mætur á réttlætisverkum. Hinir hreinskilnu fá að líta auglit hans.
15 Þá söng Móse og Ísraelsmenn Drottni þennan lofsöng: Ég vil lofsyngja Drottni, því að hann hefir sig dýrlegan gjört, hestum og riddurum steypti hann niður í hafið.
2 Drottinn er styrkur minn og lofsöngur, og hann varð mitt hjálpræði. Hann er minn Guð, og ég vil vegsama hann, Guð föður míns, og ég vil tigna hann.
3 Drottinn er stríðshetja, Drottinn er hans nafn.
4 Vögnum Faraós og herliði hans varpaði hann í hafið, og hinir völdustu kappar hans drukknuðu í Hafinu rauða.
5 Undirdjúpin huldu þá, þeir sukku niður í sjávardjúpið eins og steinn.
6 Þín hægri hönd, Drottinn, hefir sýnt sig dýrlega í krafti, þín hægri hönd, Drottinn, sundurkremur fjandmennina.
7 Og með mikilleik þinnar hátignar leggur þú mótstöðumenn þína að velli, þú útsendir þína reiði, og hún eyðir þeim eins og hálmleggjum.
8 Og fyrir blæstri nasa þinna hlóðust vötnin upp, rastirnar stóðu eins og veggur, öldurnar stirðnuðu mitt í hafinu.
9 Óvinurinn sagði: "Ég skal elta þá, ég skal ná þeim, ég skal skipta herfangi, ég skal skeyta skapi mínu á þeim, ég skal bregða sverði mínu, hönd mín skal eyða þeim."
10 Þú blést með þínum anda, hafið huldi þá, þeir sukku sem blý niður í hin miklu vötn.
11 Hver er sem þú, Drottinn, meðal guðanna? Hver er sem þú, dýrlegur að heilagleik, dásamlegur til lofsöngva, þú sem stórmerkin gjörir?
12 Þú útréttir þína hægri hönd, jörðin svalg þá.
13 Þú hefir leitt fólkið, sem þú frelsaðir, með miskunn þinni, þú fylgdir því með þínum krafti til þíns heilaga bústaðar.
14 Þjóðirnar heyrðu það og urðu felmtsfullar, ótti gagntók íbúa Filisteu.
15 Þá skelfdust ættarhöfðingjarnir í Edóm, hræðsla greip forystumennina í Móab, allir íbúar Kanaanlands létu hugfallast.
16 Skelfingu og ótta sló yfir þá. Fyrir mikilleik þíns armleggs urðu þeir hljóðir sem steinninn, meðan fólk þitt, Drottinn, fór leiðar sinnar, meðan fólkið, sem þú hefir aflað þér, fór leiðar sinnar.
17 Þú leiddir þá inn og gróðursettir þá á fjalli arfleifðar þinnar, þeim stað, sem þú, Drottinn, hefir gjört að þínum bústað, þeim helgidóm, sem þínar hendur, Drottinn, hafa reist.
18 Drottinn skal ríkja um aldur og að eilífu!
19 Þegar hestar Faraós ásamt vögnum hans og riddurum fóru út í hafið, lét Drottinn vötn sjávarins flæða yfir þá, en Ísraelsmenn gengu á þurru mitt í gegnum hafið.
20 Þá tók Mirjam spákona, systir Arons, bumbu í hönd sér, og allar konurnar gengu á eftir henni með bumbum og dansi.
21 Og Mirjam söng fyrir þeim: Lofsyngið Drottni, því að hann hefir sig dýrlegan gjört, hestum og riddurum steypti hann í hafið.
13 Gjörið því hugi yðar viðbúna og vakið. Setjið alla von yðar til þeirrar náðar, sem yður mun veitast við opinberun Jesú Krists.
14 Verið eins og hlýðin börn og látið eigi framar lifnað yðar mótast af þeim girndum, er þér áður létuð stjórnast af í vanvisku yðar.
15 Verðið heldur sjálfir heilagir í allri hegðun, eins og sá er heilagur, sem yður hefur kallað.
16 Ritað er: "Verið heilagir, því ég er heilagur."
17 Fyrst þér ákallið þann sem föður, er dæmir án manngreinarálits eftir verkum hvers eins, þá gangið fram í guðsótta útlegðartíma yðar.
18 Þér vitið, að þér voruð eigi leystir með hverfulum hlutum, silfri eða gulli, frá fánýtri hegðun yðar, er þér höfðuð að erfðum tekið frá feðrum yðar,
19 heldur með blóði hins lýtalausa og óflekkaða lambs, með dýrmætu blóði Krists.
20 Hann var útvalinn, áður en veröldin var grundvölluð, en var opinberaður í lok tímanna vegna yðar.
21 Fyrir hann trúið þér á Guð, er vakti hann upp frá dauðum og gaf honum dýrð, svo að trú yðar skyldi jafnframt vera von til Guðs.
22 Þér hafið hreinsað yður með því að hlýða sannleikanum og berið hræsnislausa bróðurelsku í brjósti. Elskið því hver annan af heilu hjarta.
23 Þér eruð endurfæddir, ekki af forgengilegu sæði, heldur óforgengilegu, fyrir orð Guðs, sem lifir og varir.
24 Því að: Allt hold er sem gras og öll vegsemd þess sem blóm á grasi; grasið skrælnar og blómið fellur.
25 En orð Drottins varir að eilífu. Og þetta orð er fagnaðarerindið, sem yður hefur verið boðað.
18 Ekki mun ég skilja yður eftir munaðarlausa. Ég kem til yðar.
19 Innan skamms mun heimurinn ekki sjá mig framar. Þér munuð sjá mig, því ég lifi og þér munuð lifa.
20 Á þeim degi munuð þér skilja, að ég er í föður mínum og þér í mér og ég í yður.
21 Sá sem hefur boðorð mín og heldur þau, hann er sá sem elskar mig. En sá sem elskar mig, mun elskaður verða af föður mínum, og ég mun elska hann og birta honum sjálfan mig."
22 Júdas _ ekki Ískaríot _ sagði við hann: "Herra, hverju sætir það, að þú vilt birtast oss, en eigi heiminum?"
23 Jesús svaraði: "Sá sem elskar mig, varðveitir mitt orð, og faðir minn mun elska hann. Til hans munum við koma og gjöra okkur bústað hjá honum.
24 Sá sem elskar mig ekki, varðveitir ekki mín orð. Orðið, sem þér heyrið, er ekki mitt, heldur föðurins, sem sendi mig.
25 Þetta hef ég talað til yðar, meðan ég var hjá yður.
26 En hjálparinn, andinn heilagi, sem faðirinn mun senda í mínu nafni, mun kenna yður allt og minna yður á allt það, sem ég hef sagt yður.
27 Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist.
28 Þér heyrðuð, að ég sagði við yður: ,Ég fer burt og kem til yðar.` Ef þér elskuðuð mig, yrðuð þér glaðir af því, að ég fer til föðurins, því faðirinn er mér meiri.
29 Nú hef ég sagt yður það, áður en það verður, svo að þér trúið, þegar það gerist.
30 Ég mun ekki framar tala margt við yður, því höfðingi heimsins kemur. Í mér á hann ekki neitt.
31 En heimurinn á að sjá, að ég elska föðurinn og gjöri eins og faðirinn hefur boðið mér. Standið upp, vér skulum fara héðan."
by Icelandic Bible Society