Book of Common Prayer
146 Halelúja. Lofa þú Drottin, sála mín!
2 Ég vil lofa Drottin meðan lifi, lofsyngja Guði mínum, meðan ég er til.
3 Treystið eigi tignarmennum, mönnum sem enga hjálp geta veitt.
4 Andi þeirra líður burt, þeir verða aftur að jörðu, á þeim degi verða áform þeirra að engu.
5 Sæll er sá, er á Jakobs Guð sér til hjálpar, sá er setur von sína á Drottin, Guð sinn,
6 hann sem skapað hefir himin og jörð, hafið og allt sem í því er, hann sem varðveitir trúfesti sína að eilífu,
7 sem rekur réttar kúgaðra og veitir brauð hungruðum. Drottinn leysir hina bundnu,
8 Drottinn opnar augu blindra, Drottinn reisir upp niðurbeygða, Drottinn elskar réttláta.
9 Drottinn varðveitir útlendingana, hann annast ekkjur og föðurlausa, en óguðlega lætur hann fara villa vegar.
10 Drottinn er konungur að eilífu, hann er Guð þinn, Síon, frá kyni til kyns. Halelúja.
147 Halelúja. Það er gott að leika fyrir Guði vorum, því að hann er yndislegur, honum hæfir lofsöngur.
2 Drottinn endurreisir Jerúsalem, safnar saman hinum tvístruðu af Ísrael.
3 Hann læknar þá, er hafa sundurkramið hjarta, og bindur um benjar þeirra.
4 Hann ákveður tölu stjarnanna, kallar þær allar með nafni.
5 Mikill er Drottinn vor og ríkur að veldi, speki hans er ómælanleg.
6 Drottinn annast hrjáða, en óguðlega lægir hann að jörðu.
7 Syngið Drottni með þakklæti, leikið á gígju fyrir Guði vorum.
8 Hann hylur himininn skýjum, býr regn handa jörðinni, lætur gras spretta á fjöllunum.
9 Hann gefur skepnunum fóður þeirra, hrafnsungunum, þegar þeir kalla.
10 Hann hefir eigi mætur á styrkleika hestsins, eigi þóknun á fótleggjum mannsins.
11 Drottinn hefir þóknun á þeim er óttast hann, þeim er bíða miskunnar hans.
12 Vegsama Drottin, Jerúsalem, lofa þú Guð þinn, Síon,
13 því að hann hefir gjört sterka slagbrandana fyrir hliðum þínum, blessað börn þín, sem í þér eru.
14 Hann gefur landi þínu frið, seður þig á hinu kjarnbesta hveiti.
15 Hann sendir orð sitt til jarðar, boð hans hleypur með hraða.
16 Hann gefur snjó eins og ull, stráir út hrími sem ösku.
17 Hann sendir hagl sitt sem brauðmola, hver fær staðist frost hans?
18 Hann sendir út orð sitt og lætur ísinn þiðna, lætur vind sinn blása, og vötnin renna.
19 Hann kunngjörði Jakob orð sitt, Ísrael lög sín og ákvæði.
20 Svo hefir hann eigi gjört við neina þjóð, þeim kennir hann ekki ákvæði sín. Halelúja.
111 Halelúja. Ég vil lofa Drottin af öllu hjarta, í félagi og söfnuði réttvísra.
2 Mikil eru verk Drottins, verð íhugunar öllum þeim, er hafa unun af þeim.
3 Tign og vegsemd eru verk hans og réttlæti hans stendur stöðugt að eilífu.
4 Hann hefir látið dásemdarverka sinna minnst verða, náðugur og miskunnsamur er Drottinn.
5 Hann hefir gefið fæðu þeim, er óttast hann, hann minnist að eilífu sáttmála síns.
6 Hann hefir kunngjört þjóð sinni kraft verka sinna, með því að gefa þeim eignir heiðingjanna.
7 Verk handa hans eru trúfesti og réttvísi, öll fyrirmæli hans eru áreiðanleg,
8 örugg um aldur og ævi, framkvæmd í trúfesti og réttvísi.
9 Hann hefir sent lausn lýð sínum, skipað sáttmála sinn að eilífu, heilagt og óttalegt er nafn hans.
10 Upphaf speki er ótti Drottins, hann er fögur hyggindi öllum þeim, er iðka hann. Lofstír hans stendur um eilífð.
112 Halelúja. Sæll er sá maður, sem óttast Drottin og hefir mikla unun af boðum hans.
2 Niðjar hans verða voldugir á jörðunni, ætt réttvísra mun blessun hljóta.
3 Nægtir og auðæfi eru í húsi hans, og réttlæti hans stendur stöðugt að eilífu.
4 Hann upprennur réttvísum sem ljós í myrkrinu, mildur og meðaumkunarsamur og réttlátur.
5 Vel farnast þeim manni, sem er mildur og fús að lána, sem framkvæmir málefni sín með réttvísi,
6 því að hann mun eigi haggast að eilífu, hins réttláta mun minnst um eilífð.
7 Hann óttast eigi ill tíðindi, hjarta hans er stöðugt og treystir Drottni.
8 Hjarta hans er öruggt, hann óttast eigi, og loks fær hann að horfa á fjendur sína auðmýkta.
9 Hann hefir miðlað mildilega, gefið fátækum, réttlæti hans stendur stöðugt að eilífu, horn hans gnæfir hátt í vegsemd.
10 Hinn óguðlegi sér það, og honum gremst, nístir tönnum og tortímist. Ósk óguðlegra verður að engu.
113 Halelúja. Þjónar Drottins, lofið, lofið nafn Drottins.
2 Nafn Drottins sé blessað héðan í frá og að eilífu.
3 Frá sólarupprás til sólarlags sé nafn Drottins vegsamað.
4 Drottinn er hafinn yfir allar þjóðir og dýrð hans yfir himnana.
5 Hver er sem Drottinn, Guð vor? Hann situr hátt
6 og horfir djúpt á himni og á jörðu.
7 Hann reisir lítilmagnann úr duftinu, lyftir snauðum upp úr saurnum
8 og leiðir hann til sætis hjá tignarmönnum, hjá tignarmönnum þjóðar hans.
9 Hann lætur óbyrjuna í húsinu búa í næði sem glaða barnamóður. Halelúja.
5 Þegar Egyptalandskonungi var sagt, að fólkið væri flúið, varð hugur Faraós og þjóna hans mótsnúinn fólkinu og þeir sögðu: "Hví höfum vér gjört þetta, að sleppa Ísrael úr þjónustu vorri?"
6 Lét hann þá beita fyrir vagna sína og tók menn sína með sér.
7 Og hann tók sex hundruð valda vagna og alla vagna Egyptalands og setti kappa á hvern þeirra.
8 En Drottinn herti hjarta Faraós, Egyptalandskonungs, svo að hann veitti Ísraelsmönnum eftirför, því að Ísraelsmenn höfðu farið burt með upplyftri hendi.
9 Egyptar sóttu nú eftir þeim, allir hestar og vagnar Faraós, riddarar hans og her hans, og náðu þeim þar sem þeir höfðu sett búðir sínar við hafið, hjá Pí-Hakírót, gegnt Baal Sefón.
10 Þegar Faraó nálgaðist, hófu Ísraelsmenn upp augu sín, og sjá, Egyptar sóttu eftir þeim. Urðu Ísraelsmenn þá mjög óttaslegnir og hrópuðu til Drottins.
11 Og þeir sögðu við Móse: "Tókst þú oss burt til þess að deyja hér á eyðimörk, af því að engar væru grafir til í Egyptalandi? Hví hefir þú gjört oss þetta, að fara með oss burt af Egyptalandi?
12 Kemur nú ekki fram það, sem vér sögðum við þig á Egyptalandi: ,Lát oss vera kyrra, og viljum vér þjóna Egyptum, því að betra er fyrir oss að þjóna Egyptum en að deyja í eyðimörkinni`?"
13 Þá sagði Móse við lýðinn: "Óttist ekki. Standið stöðugir, og munuð þér sjá hjálpræði Drottins, er hann í dag mun láta fram við yður koma, því að eins og þér sjáið Egyptana í dag, munuð þér aldrei nokkurn tíma framar sjá þá.
14 Drottinn mun berjast fyrir yður, en þér skuluð vera kyrrir."
15 Þá sagði Drottinn við Móse: "Hví hrópar þú til mín? Seg Ísraelsmönnum, að þeir haldi áfram,
16 en lyft þú upp staf þínum og rétt út hönd þína yfir hafið og kljúf það, og Ísraelsmenn skulu ganga á þurru mitt í gegnum hafið.
17 Sjá, ég mun herða hjörtu Egypta, svo að þeir skulu sækja á eftir þeim, og ég vil sýna dýrð mína á Faraó og öllum liðsafla hans, á vögnum hans og riddurum.
18 Og Egyptar skulu vita, að ég er Drottinn, þá er ég sýni dýrð mína á Faraó, á vögnum hans og riddurum."
19 Engill Guðs, sem gekk á undan liði Ísraels, færði sig og gekk aftur fyrir þá, og skýstólpinn, sem var fyrir framan þá, færðist og stóð að baki þeim.
20 Og hann bar á milli herbúða Egypta og herbúða Ísraels, og var skýið myrkt annars vegar, en annars vegar lýsti það upp nóttina, og færðust hvorugir nær öðrum alla þá nótt.
21 En Móse rétti út hönd sína yfir hafið, og Drottinn lét hvassan austanvind blása alla nóttina og bægja sjónum burt og gjörði hafið að þurrlendi. Og vötnin klofnuðu,
22 og Ísraelsmenn gengu á þurru mitt í gegnum hafið, og vötnin stóðu eins og veggur til hægri og vinstri handar þeim.
1 Efni vort er það sem var frá upphafi, það sem vér höfum heyrt, það sem vér höfum séð með augum vorum, það sem vér horfðum á og hendur vorar þreifuðu á, það er orð lífsins.
2 Og lífið var opinberað, og vér höfum séð það og vottum um það og boðum yður lífið eilífa, sem var hjá föðurnum og var opinberað oss.
3 Já, það sem vér höfum séð og heyrt, það boðum vér yður einnig, til þess að þér getið líka haft samfélag við oss. Og samfélag vort er við föðurinn og við son hans Jesú Krist.
4 Þetta skrifum vér til þess að fögnuður vor verði fullkominn.
5 Og þetta er boðskapurinn, sem vér höfum heyrt af honum og boðum yður: "Guð er ljós, og myrkur er alls ekki í honum."
6 Ef vér segjum: "Vér höfum samfélag við hann," og göngum þó í myrkrinu, þá ljúgum vér og iðkum ekki sannleikann.
7 En ef vér göngum í ljósinu, eins og hann er sjálfur í ljósinu, þá höfum vér samfélag hver við annan og blóð Jesú, sonar hans, hreinsar oss af allri synd.
14 "Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig.
2 Í húsi föður míns eru margar vistarverur. Væri ekki svo, hefði ég þá sagt yður, að ég færi burt að búa yður stað?
3 Þegar ég er farinn burt og hef búið yður stað, kem ég aftur og tek yður til mín, svo að þér séuð einnig þar sem ég er.
4 Veginn þangað, sem ég fer, þekkið þér."
5 Tómas segir við hann: "Herra, vér vitum ekki, hvert þú ferð, hvernig getum vér þá þekkt veginn?"
6 Jesús segir við hann: "Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins, nema fyrir mig.
7 Ef þér hafið þekkt mig, munuð þér og þekkja föður minn. Héðan af þekkið þér hann og hafið séð hann."
by Icelandic Bible Society