Book of Common Prayer
145 Davíðs-lofsöngur. Ég vil vegsama þig, ó Guð minn, þú konungur, og prísa nafn þitt um aldur og ævi.
2 Á hverjum degi vil ég prísa þig og lofa nafn þitt um aldur og ævi.
3 Mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur, mikilleikur hans er órannsakanlegur.
4 Ein kynslóðin vegsamar verk þín fyrir annarri og kunngjörir máttarverk þín.
5 Þær segja frá tign og dýrð vegsemdar þinnar: "Ég vil syngja um dásemdir þínar."
6 Og um mátt ógnarverka þinna tala þær: "Ég vil segja frá stórvirkjum þínum."
7 Þær minna á þína miklu gæsku og fagna yfir réttlæti þínu.
8 Náðugur og miskunnsamur er Drottinn, þolinmóður og mjög gæskuríkur.
9 Drottinn er öllum góður, og miskunn hans er yfir öllu, sem hann skapar.
10 Öll sköpun þín lofar þig, Drottinn, og dýrkendur þínir prísa þig.
11 Þeir tala um dýrð konungdóms þíns, segja frá veldi þínu.
12 Þeir kunngjöra mönnum veldi þitt, hina dýrlegu tign konungdóms þíns.
13 Konungdómur þinn er konungdómur um allar aldir og ríki þitt stendur frá kyni til kyns. Drottinn er trúfastur í öllum orðum sínum og miskunnsamur í öllum verkum sínum.
14 Drottinn styður alla þá, er ætla að hníga, og reisir upp alla niðurbeygða.
15 Allra augu vona á þig, og þú gefur þeim fæðu þeirra á réttum tíma.
16 Þú lýkur upp hendi þinni og seður allt sem lifir með blessun.
17 Drottinn er réttlátur á öllum sínum vegum og miskunnsamur í öllum sínum verkum.
18 Drottinn er nálægur öllum sem ákalla hann, öllum sem ákalla hann í einlægni.
19 Hann uppfyllir ósk þeirra er óttast hann, og hróp þeirra heyrir hann og hjálpar þeim.
20 Drottinn varðveitir alla þá er elska hann, en útrýmir öllum níðingum.
21 Munnur minn skal mæla orðstír Drottins, allt hold vegsami hans heilaga nafn um aldur og ævi.
104 Lofa þú Drottin, sála mín! Drottinn, Guð minn, þú ert harla mikill. Þú ert klæddur hátign og vegsemd.
2 Þú hylur þig ljósi eins og skikkju, þenur himininn út eins og tjalddúk.
3 Þú hvelfir hásal þinn í vötnunum, gjörir ský að vagni þínum, og ferð um á vængjum vindarins.
4 Þú gjörir vindana að sendiboðum þínum, bálandi eld að þjónum þínum.
5 Þú grundvallar jörðina á undirstöðum hennar, svo að hún haggast eigi um aldur og ævi.
6 Hafflóðið huldi hana sem klæði, vötnin náðu upp yfir fjöllin,
7 en fyrir þinni ógnun flýðu þau, fyrir þrumurödd þinni hörfuðu þau undan með skelfingu.
8 Þau gengu yfir fjöllin, steyptust niður í dalina, þangað sem þú hafðir búið þeim stað.
9 Þú settir takmörk, sem þau mega ekki fara yfir, þau skulu ekki hylja jörðina framar.
10 Þú sendir lindir í dalina, þær renna milli fjallanna,
11 þær svala öllum dýrum merkurinnar, villiasnarnir slökkva þorsta sinn.
12 Yfir þeim byggja fuglar himins, láta kvak sitt heyrast milli greinanna.
13 Þú vökvar fjöllin frá hásal þínum, jörðin mettast af ávexti verka þinna.
14 Þú lætur gras spretta handa fénaðinum og jurtir, sem maðurinn ræktar, til þess að framleiða brauð af jörðinni
15 og vín, sem gleður hjarta mannsins, olíu, sem gjörir andlitið gljáandi, og brauð, sem hressir hjarta mannsins.
16 Tré Drottins mettast, sedrustrén á Líbanon, er hann hefir gróðursett
17 þar sem fuglarnir byggja hreiður, storkarnir, er hafa kýprestrén að húsi.
18 Hin háu fjöll eru handa steingeitunum, klettarnir eru hæli fyrir stökkhérana.
19 Þú gjörðir tunglið til þess að ákvarða tíðirnar, sólin veit, hvar hún á að ganga til viðar.
20 Þegar þú gjörir myrkur, verður nótt, og þá fara öll skógardýrin á kreik.
21 Ljónin öskra eftir bráð og heimta æti sitt af Guði.
22 Þegar sól rennur upp, draga þau sig í hlé og leggjast fyrir í fylgsnum sínum,
23 en þá fer maðurinn út til starfa sinna, til vinnu sinnar fram á kveld.
24 Hversu mörg eru verk þín, Drottinn, þú gjörðir þau öll með speki, jörðin er full af því, er þú hefir skapað.
25 Þar er hafið, mikið og vítt á alla vegu, þar er óteljandi grúi, smá dýr og stór.
26 Þar fara skipin um og Levjatan, er þú hefir skapað til þess að leika sér þar.
27 Öll vona þau á þig, að þú gefir þeim fæðu þeirra á réttum tíma.
28 Þú gefur þeim, og þau tína, þú lýkur upp hendi þinni, og þau mettast gæðum.
29 Þú byrgir auglit þitt, þá skelfast þau, þú tekur aftur anda þeirra, þá andast þau og hverfa aftur til moldarinnar.
30 Þú sendir út anda þinn, þá verða þau til, og þú endurnýjar ásjónu jarðar.
31 Dýrð Drottins vari að eilífu, Drottinn gleðjist yfir verkum sínum,
32 hann sem lítur til jarðar, svo að hún nötrar, sem snertir við fjöllunum, svo að úr þeim rýkur.
33 Ég vil ljóða um Drottin meðan lifi, lofsyngja Guði mínum meðan ég er til.
34 Ó að mál mitt mætti falla honum í geð! Ég gleðst yfir Drottni.
35 Ó að syndarar mættu hverfa af jörðunni og óguðlegir eigi vera til framar. Vegsama þú Drottin, sála mín. Halelúja.
17 Þegar Faraó hafði gefið fólkinu fararleyfi, leiddi Guð þá ekki á leið til Filistalands, þótt sú leið væri skemmst, _ því að Guð sagði: "Vera má að fólkið iðrist, þegar það sér, að ófriðar er von, og snúi svo aftur til Egyptalands,"
18 _ heldur lét Guð fólkið fara í bug eyðimerkurveginn til Sefhafsins, og fóru Ísraelsmenn vígbúnir af Egyptalandi.
19 Móse tók með sér bein Jósefs, því að hann hafði tekið eið af Ísraelsmönnum og sagt: "Sannlega mun Guð vitja yðar. Flytjið þá bein mín héðan burt með yður."
20 Þeir tóku sig upp frá Súkkót og settu búðir sínar í Etam, þar sem eyðimörkina þrýtur.
21 Drottinn gekk fyrir þeim á daginn í skýstólpa til að vísa þeim veg, en á nóttunni í eldstólpa til að lýsa þeim, svo að þeir gætu ferðast nótt sem dag.
22 Skýstólpinn vék ekki frá fólkinu á daginn, né heldur eldstólpinn á nóttunni.
14 Drottinn talaði við Móse og sagði:
2 "Seg Ísraelsmönnum, að þeir snúi aftur og setji búðir sínar fyrir framan Pí-Hakírót, milli Migdóls og hafsins, gegnt Baal Sefón. Þar andspænis skuluð þér setja búðir yðar við hafið.
3 Og Faraó mun segja um Ísraelsmenn: ,Þeir fara villir vega í landinu, eyðimörkin hefir innibyrgt þá.`
4 Og ég vil herða hjarta Faraós, og hann skal veita þeim eftirför. Ég vil sýna dýrð mína á Faraó og öllum liðsafla hans, svo að Egyptar skulu vita, að ég er Drottinn." Og þeir gjörðu svo.
16 Fyrir því látum vér ekki hugfallast. Jafnvel þótt vor ytri maður hrörni, þá endurnýjast dag frá degi vor innri maður.
17 Þrenging vor er skammvinn og léttbær og aflar oss eilífrar dýrðar sem stórum yfirgnæfir allt.
18 Vér horfum ekki á hið sýnilega, heldur hið ósýnilega. Hið sýnilega er stundlegt, en hið ósýnilega eilíft.
5 Vér vitum, að þótt vor jarðneska tjaldbúð verði rifin niður, þá höfum vér hús frá Guði, eilíft hús á himnum, sem eigi er með höndum gjört.
2 Á meðan andvörpum vér og þráum að íklæðast húsi voru frá himnum.
3 Þegar vér íklæðumst því, munum vér ekki standa uppi naktir.
4 En á meðan vér erum í tjaldbúðinni, stynjum vér mæddir, af því að vér viljum ekki afklæðast, heldur íklæðast, til þess að hið dauðlega uppsvelgist af lífinu.
5 En sá, sem hefur gjört oss færa einmitt til þessa, er Guð, sem hefur gefið oss anda sinn sem pant.
6 Vér erum því ávallt hughraustir, þótt vér vitum, að meðan vér eigum heima í líkamanum erum vér að heiman frá Drottni,
7 því að vér lifum í trú, en sjáum ekki.
8 Já, vér erum hughraustir og langar öllu fremur til að hverfa burt úr líkamanum og vera heima hjá Drottni.
9 Þess vegna kostum vér kapps um, hvort sem vér erum heima eða að heiman, að vera honum þóknanlegir.
10 Því að öllum oss ber að birtast fyrir dómstóli Krists, til þess að sérhver fái það endurgoldið, sem hann hefur aðhafst í líkamanum, hvort sem það er gott eða illt.
18 Saddúkear komu til hans, en þeir neita því, að upprisa sé til, og sögðu við hann:
19 "Meistari, Móse segir oss í ritningunum, ,að deyi maður barnlaus, en láti eftir sig konu, skuli bróðir hans ganga að eiga ekkjuna og vekja honum niðja.`
20 Nú voru sjö bræður. Sá fyrsti tók sér konu, en dó barnlaus.
21 Annar bróðirinn gekk að eiga hana og dó barnlaus. Eins hinn þriðji,
22 og allir sjö urðu barnlausir. Síðast allra dó konan.
23 Í upprisunni, þegar menn rísa upp, kona hvers þeirra verður hún þá? Allir sjö höfðu átt hana."
24 Jesús svaraði þeim: "Er það ekki þetta, sem veldur því, að þér villist: Þér þekkið ekki ritningarnar né mátt Guðs?
25 Þegar menn rísa upp frá dauðum, kvænast þeir hvorki né giftast. Þeir eru sem englar á himnum.
26 En um þá dauðu, að þeir rísa upp, hafið þér ekki lesið það í bók Móse, í sögunni um þyrnirunninn? Guð segir við Móse: ,Ég er Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs.`
27 Ekki er hann Guð dauðra heldur lifenda. Þér villist stórlega."
by Icelandic Bible Society