Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 136

136 Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.

Þakkið Guði guðanna, því að miskunn hans varir að eilífu,

þakkið Drottni drottnanna, því að miskunn hans varir að eilífu,

honum, sem einn gjörir mikil dásemdarverk, því að miskunn hans varir að eilífu,

honum, sem skapaði himininn með speki, því að miskunn hans varir að eilífu,

honum, sem breiddi jörðina út á vötnunum, því að miskunn hans varir að eilífu,

honum, sem skapaði stóru ljósin, því að miskunn hans varir að eilífu,

sólina til þess að ráða deginum, því að miskunn hans varir að eilífu,

tunglið og stjörnurnar til þess að ráða nóttunni, því að miskunn hans varir að eilífu,

10 honum, sem laust Egypta með deyðing frumburðanna, því að miskunn hans varir að eilífu,

11 og leiddi Ísrael burt frá þeim, því að miskunn hans varir að eilífu,

12 með sterkri hendi og útréttum armlegg, því að miskunn hans varir að eilífu,

13 honum, sem skipti Rauðahafinu sundur, því að miskunn hans varir að eilífu,

14 og lét Ísrael ganga gegnum það, því að miskunn hans varir að eilífu,

15 og keyrði Faraó og her hans út í Rauðahafið, því að miskunn hans varir að eilífu,

16 honum, sem leiddi lýð sinn gegnum eyðimörkina, því að miskunn hans varir að eilífu,

17 honum, sem laust mikla konunga, því að miskunn hans varir að eilífu,

18 og deyddi volduga konunga, því að miskunn hans varir að eilífu,

19 Síhon Amorítakonung, því að miskunn hans varir að eilífu,

20 og Óg konung í Basan, því að miskunn hans varir að eilífu,

21 og gaf land þeirra að erfð, því að miskunn hans varir að eilífu,

22 að erfð Ísrael þjóni sínum, því að miskunn hans varir að eilífu,

23 honum, sem minntist vor í læging vorri, því að miskunn hans varir að eilífu,

24 og frelsaði oss frá fjandmönnum vorum, því að miskunn hans varir að eilífu,

25 sem gefur fæðu öllu holdi, því að miskunn hans varir að eilífu.

26 Þakkið Guði himnanna, því að miskunn hans varir að eilífu.

Sálmarnir 118

118 Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.

Það mæli Ísrael: "Því að miskunn hans varir að eilífu!"

Það mæli Arons ætt: "Því að miskunn hans varir að eilífu!"

Það mæli þeir sem óttast Drottin: "Því að miskunn hans varir að eilífu!"

Í þrengingunni ákallaði ég Drottin, hann bænheyrði mig og rýmkaði um mig.

Drottinn er með mér, ég óttast eigi, hvað geta menn gjört mér?

Drottinn er með mér með hjálp sína, og ég mun fá að horfa á ófarir hatursmanna minna.

Betra er að leita hælis hjá Drottni en að treysta mönnum,

betra er að leita hælis hjá Drottni en að treysta tignarmönnum.

10 Allar þjóðir umkringdu mig, en í nafni Drottins hefi ég sigrast á þeim.

11 Þær umkringdu mig á alla vegu, en í nafni Drottins hefi ég sigrast á þeim.

12 Þær umkringdu mig eins og býflugur vax, brunnu sem eldur í þyrnum, en í nafni Drottins hefi ég sigrast á þeim.

13 Mér var hrundið, til þess að ég skyldi falla, en Drottinn veitti mér lið.

14 Drottinn er styrkur minn og lofsöngur, og hann varð mér til hjálpræðis.

15 Fagnaðar- og siguróp kveður við í tjöldum réttlátra: Hægri hönd Drottins vinnur stórvirki,

16 hægri hönd Drottins upphefur, hægri hönd Drottins vinnur stórvirki.

17 Ég mun eigi deyja, heldur lifa og kunngjöra verk Drottins.

18 Drottinn hefir hirt mig harðlega, en eigi ofurselt mig dauðanum.

19 Ljúkið upp fyrir mér hliðum réttlætisins, að ég megi fara inn um þau og lofa Drottin.

20 Þetta er hlið Drottins, réttlátir menn fara inn um það.

21 Ég lofa þig, af því að þú bænheyrðir mig og ert orðinn mér hjálpræði.

22 Steinninn sem smiðirnir höfnuðu er orðinn að hyrningarsteini.

23 Að tilhlutun Drottins er þetta orðið, það er dásamlegt í augum vorum.

24 Þetta er dagurinn sem Drottinn hefir gjört, fögnum, verum glaðir á honum.

25 Drottinn, hjálpa þú, Drottinn, gef þú gengi!

26 Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins, frá húsi Drottins blessum vér yður.

27 Drottinn er Guð, hann lætur oss skína ljós. Tengið saman dansraðirnar með laufgreinum, allt inn að altarishornunum.

28 Þú ert Guð minn, og ég þakka þér, Guð minn, ég vegsama þig.

29 Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.

Önnur bók Móse 13:1-2

13 Þá talaði Drottinn við Móse og sagði:

"Þú skalt helga mér alla frumburði. Hvað eina sem opnar móðurlíf meðal Ísraelsmanna, hvort heldur er menn eða fénaður, það er mitt."

Önnur bók Móse 13:11-16

11 Þegar Drottinn leiðir þig inn í land Kanaaníta, eins og hann sór þér og feðrum þínum, og gefur þér það,

12 þá skaltu eigna Drottni allt það, sem opnar móðurlíf. Og allir frumburðir, sem koma undan þeim fénaði, er þú átt, skulu heyra Drottni til, séu þeir karlkyns.

13 Alla frumburði undan ösnum skaltu leysa með lambi. Leysir þú ekki, skaltu brjóta þá úr hálsliðum. En alla frumburði manna meðal barna þinna skaltu leysa.

14 Og þegar sonur þinn spyr þig á síðan og segir: ,Hvað á þetta að þýða?` þá svara honum: ,Með voldugri hendi leiddi Drottinn oss út af Egyptalandi, úr þrælahúsinu,

15 því þegar Faraó synjaði oss þverlega fararleyfis, þá deyddi Drottinn alla frumburði í Egyptalandi, bæði frumburði manna og frumburði fénaðar. Þess vegna fórnfæri ég Drottni öllu, sem opnar móðurlíf, en alla frumburði barna minna leysi ég.`

16 Og það skal vera merki á hendi þér og minningarband á milli augna þinna um það, að Drottinn leiddi oss út af Egyptalandi með voldugri hendi."

Fyrra bréf Páls til Korin 15:51-58

51 Sjá, ég segi yður leyndardóm: Vér munum ekki allir sofna, en allir munum vér umbreytast

52 í einni svipan, á einu augabragði, við hinn síðasta lúður. Því lúðurinn mun gjalla og þá munu hinir dauðu upp rísa óforgengilegir, og vér munum umbreytast.

53 Þetta forgengilega á að íklæðast óforgengileikanum og þetta dauðlega að íklæðast ódauðleikanum.

54 En þegar hið forgengilega íklæðist óforgengileikanum og hið dauðlega ódauðleikanum, þá mun rætast orð það, sem ritað er: Dauðinn er uppsvelgdur í sigur.

55 Dauði, hvar er sigur þinn? Dauði, hvar er broddur þinn?

56 En syndin er broddur dauðans og lögmálið afl syndarinnar.

57 Guði séu þakkir, sem gefur oss sigurinn fyrir Drottin vorn Jesú Krist!

58 Þess vegna, mínir elskuðu bræður, verið staðfastir, óbifanlegir, síauðugir í verki Drottins. Þér vitið að erfiði yðar er ekki árangurslaust í Drottni.

Lúkasarguðspjall 24:1-12

24 En í afturelding fyrsta dag vikunnar komu þær til grafarinnar með ilmsmyrslin, sem þær höfðu búið.

Þær sáu þá, að steininum hafði verið velt frá gröfinni,

og þegar þær stigu inn, fundu þær ekki líkama Drottins Jesú.

Þær skildu ekkert í þessu, en þá brá svo við, að hjá þeim stóðu tveir menn í leiftrandi klæðum.

Þær urðu mjög hræddar og hneigðu andlit til jarðar. En þeir sögðu við þær: "Hví leitið þér hins lifanda meðal dauðra?

Hann er ekki hér, hann er upp risinn. Minnist þess, hvernig hann talaði við yður, meðan hann var enn í Galíleu.

Hann sagði, að Mannssonurinn skyldi framseldur verða í hendur syndugra manna og krossfestur, en rísa upp á þriðja degi."

Og þær minntust orða hans,

sneru frá gröfinni og kunngjörðu allt þetta þeim ellefu og öllum hinum.

10 Þessar konur voru þær María Magdalena, Jóhanna og María móðir Jakobs og hinar, sem voru með þeim. Þær sögðu postulunum frá þessu.

11 En þeir töldu orð þeirra markleysu eina og trúðu þeim ekki.

12 Pétur stóð þó upp og hljóp til grafarinnar, skyggndist inn og sá þar líkklæðin ein. Fór hann heim síðan og undraðist það, sem við hafði borið.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society