Book of Common Prayer
103 Davíðssálmur. Lofa þú Drottin, sála mín, og allt sem í mér er, hans heilaga nafn,
2 lofa þú Drottin, sála mín, og gleym eigi neinum velgjörðum hans.
3 Hann fyrirgefur allar misgjörðir þínar, læknar öll þín mein,
4 leysir líf þitt frá gröfinni, krýnir þig náð og miskunn.
5 Hann mettar þig gæðum, þú yngist upp sem örninn.
6 Drottinn fremur réttlæti og veitir rétt öllum kúguðum.
7 Hann gjörði Móse vegu sína kunna og Ísraelsbörnum stórvirki sín.
8 Náðugur og miskunnsamur er Drottinn, þolinmóður og mjög gæskuríkur.
9 Hann þreytir eigi deilur um aldur og er eigi eilíflega reiður.
10 Hann hefir eigi breytt við oss eftir syndum vorum og eigi goldið oss eftir misgjörðum vorum,
11 heldur svo hár sem himinninn er yfir jörðunni, svo voldug er miskunn hans við þá er óttast hann.
12 Svo langt sem austrið er frá vestrinu, svo langt hefir hann fjarlægt afbrot vor frá oss.
13 Eins og faðir sýnir miskunn börnum sínum, eins hefir Drottinn sýnt miskunn þeim er óttast hann.
14 Því að hann þekkir eðli vort, minnist þess að vér erum mold.
15 Dagar mannsins eru sem grasið, hann blómgast sem blómið á mörkinni,
16 þegar vindur blæs á hann er hann horfinn, og staður hans þekkir hann ekki framar.
17 En miskunn Drottins við þá er óttast hann varir frá eilífð til eilífðar, og réttlæti hans nær til barnabarnanna,
18 þeirra er varðveita sáttmála hans og muna að breyta eftir boðum hans.
19 Drottinn hefir reist hásæti sitt á himnum, og konungdómur hans drottnar yfir alheimi.
20 Lofið Drottin, þér englar hans, þér voldugu hetjur, er framkvæmið boð hans, er þér heyrið hljóminn af orði hans.
21 Lofið Drottin, allar hersveitir hans, þjónar hans, er framkvæmið vilja hans.
22 Lofið Drottin, öll verk hans, á hverjum stað í ríki hans. Lofa þú Drottin, sála mín.
111 Halelúja. Ég vil lofa Drottin af öllu hjarta, í félagi og söfnuði réttvísra.
2 Mikil eru verk Drottins, verð íhugunar öllum þeim, er hafa unun af þeim.
3 Tign og vegsemd eru verk hans og réttlæti hans stendur stöðugt að eilífu.
4 Hann hefir látið dásemdarverka sinna minnst verða, náðugur og miskunnsamur er Drottinn.
5 Hann hefir gefið fæðu þeim, er óttast hann, hann minnist að eilífu sáttmála síns.
6 Hann hefir kunngjört þjóð sinni kraft verka sinna, með því að gefa þeim eignir heiðingjanna.
7 Verk handa hans eru trúfesti og réttvísi, öll fyrirmæli hans eru áreiðanleg,
8 örugg um aldur og ævi, framkvæmd í trúfesti og réttvísi.
9 Hann hefir sent lausn lýð sínum, skipað sáttmála sinn að eilífu, heilagt og óttalegt er nafn hans.
10 Upphaf speki er ótti Drottins, hann er fögur hyggindi öllum þeim, er iðka hann. Lofstír hans stendur um eilífð.
114 Þegar Ísrael fór út af Egyptalandi, Jakobs ætt frá þjóðinni, er mælti á erlenda tungu,
2 varð Júda helgidómur hans, Ísrael ríki hans.
3 Hafið sá það og flýði, Jórdan hörfaði undan.
4 Fjöllin hoppuðu sem hrútar, hæðirnar sem lömb.
5 Hvað er þér, haf, er þú flýr, Jórdan, er þú hörfar undan,
6 þér fjöll, er þér hoppið sem hrútar, þér hæðir sem lömb?
7 Titra þú, jörð, fyrir augliti Drottins, fyrir augliti Jakobs Guðs,
8 hans sem gjörir klettinn að vatnstjörn, tinnusteininn að vatnslind.
28 Og Ísraelsmenn fóru og gjörðu þetta. Þeir gjörðu eins og Drottinn hafði boðið þeim Móse og Aroni.
29 Um miðnæturskeið laust Drottinn alla frumburði í Egyptalandi, frá frumgetnum syni Faraós, sem sat í hásæti sínu, allt til frumgetnings bandingjans, sem í myrkvastofu sat, og alla frumburði fénaðarins.
30 Þá reis Faraó upp um nóttina, hann og allir þjónar hans, og allir Egyptar. Gjörðist þá mikið harmakvein í Egyptalandi, því að ekki var það hús, að eigi væri lík inni.
31 Lét hann kalla þá Móse og Aron um nóttina og sagði: "Takið yður upp og farið burt frá minni þjóð, bæði þið og Ísraelsmenn. Farið og þjónið Drottni, eins og þið hafið um talað.
32 Takið með yður bæði sauðfé yðar og nautgripi, eins og þið hafið um talað, farið því næst af stað og biðjið einnig mér blessunar."
33 Og Egyptar ráku hart eftir fólkinu til þess að koma þeim sem fyrst burt úr landinu, því að þeir sögðu: "Vér munum allir deyja."
34 Fólkið tók þá deigið, sem það hafði, áður en það sýrðist, batt deigtrogin innan í klæði sín og bar þau á öxlum sér.
35 En Ísraelsmenn höfðu gjört eftir fyrirmælum Móse og beðið Egypta um gullgripi og silfurgripi og klæði,
36 og hafði Drottinn látið fólkið öðlast hylli Egypta, svo að þeir urðu við bæn þeirra, og þannig rændu þeir Egypta.
37 Tóku Ísraelsmenn sig nú upp frá Ramses og fóru til Súkkót, hér um bil sex hundruð þúsund fótgangandi manna, auk barna.
38 Þar að auki fór með þeim mikill fjöldi af alls konar lýð, svo og stórar hjarðir sauða og nauta.
39 Og þeir bökuðu ósýrðar kökur af deiginu, sem þeir höfðu með sér úr Egyptalandi, því að deigið hafði ekki sýrst, þar eð þeir voru reknir burt úr Egyptalandi og máttu engar viðtafir hafa og höfðu því ekkert búið sér til veganestis.
12 En ef nú er prédikað, að Kristur sé upprisinn frá dauðum, hvernig geta þá nokkrir yðar sagt, að dauðir rísi ekki upp?
13 Ef ekki er til upprisa dauðra, þá er Kristur ekki heldur upprisinn.
14 En ef Kristur er ekki upprisinn, þá er ónýt prédikun vor, ónýt líka trú yðar.
15 Vér reynumst þá vera ljúgvottar um Guð, þar eð vér höfum vitnað um Guð, að hann hafi uppvakið Krist, sem hann hefur ekki uppvakið, svo framarlega sem dauðir rísa ekki upp.
16 Því að ef dauðir rísa ekki upp, er Kristur ekki heldur upprisinn.
17 En ef Kristur er ekki upprisinn, er trú yðar fánýt, þér eruð þá enn í syndum yðar,
18 og þá eru einnig þeir, sem sofnaðir eru í trú á Krist, glataðir.
19 Ef von vor til Krists nær aðeins til þessa lífs, þá erum vér aumkunarverðastir allra manna.
20 En nú er Kristur upprisinn frá dauðum sem frumgróði þeirra, sem sofnaðir eru.
21 Því að þar eð dauðinn kom fyrir mann, kemur og upprisa dauðra fyrir mann.
22 Því að eins og allir deyja fyrir samband sitt við Adam, svo munu allir lífgaðir verða fyrir samfélag sitt við Krist.
23 En sérhver í sinni röð: Kristur sem frumgróðinn, því næst, við komu hans, þeir sem honum tilheyra.
24 Síðan kemur endirinn, er hann selur ríkið Guði föður í hendur, er hann hefur að engu gjört sérhverja tign, sérhvert veldi og kraft.
25 Því að honum ber að ríkja, uns hann leggur alla fjendurna undir fætur hans.
26 Dauðinn er síðasti óvinurinn, sem verður að engu gjörður.
27 "Allt hefur hann lagt undir fætur honum." Þegar stendur, að allt hafi verið lagt undir hann, er augljóst, að sá er undan skilinn, sem lagði allt undir hann.
28 En þegar allt hefur verið lagt undir hann, þá mun og sonurinn sjálfur leggja sig undir þann, er lagði alla hluti undir hann, til þess að Guð sé allt í öllu.
9 Þegar hann var upp risinn árla hinn fyrsta dag vikunnar, birtist hann fyrst Maríu Magdalenu, en út af henni hafði hann rekið sjö illa anda.
10 Hún fór og kunngjörði þetta þeim, er með honum höfðu verið og hörmuðu nú og grétu.
11 Þá er þeir heyrðu, að hann væri lifandi og hún hefði séð hann, trúðu þeir ekki.
12 Eftir þetta birtist hann í annarri mynd tveimur þeirra, þar sem þeir voru á göngu á leið út í sveit.
13 Þeir sneru við og kunngjörðu hinum, en þeir trúðu þeim ekki heldur.
14 Seinna birtist hann þeim ellefu, þegar þeir sátu til borðs, og ávítaði þá fyrir vantrú þeirra og harðúð hjartans, að þeir hefðu ekki trúað þeim, er sáu hann upp risinn.
15 Hann sagði við þá: "Farið út um allan heim, og prédikið fagnaðarerindið öllu mannkyni.
16 Sá sem trúir og skírist, mun hólpinn verða, en sá sem trúir ekki, mun fyrirdæmdur verða.
17 En þessi tákn munu fylgja þeim, er trúa: Í mínu nafni munu þeir reka út illa anda, tala nýjum tungum,
18 taka upp höggorma, og þó að þeir drekki eitthvað banvænt, mun þeim ekki verða meint af. Yfir sjúka munu þeir leggja hendur, og þeir verða heilir."
19 Þegar nú Drottinn Jesús hafði talað við þá, var hann upp numinn til himins og settist til hægri handar Guði.
by Icelandic Bible Society