Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 102

102 Bæn hrjáðs manns, þá er hann örmagnast og úthellir kveini sínu fyrir Drottni.

Drottinn, heyr þú bæn mína og hróp mitt berist til þín.

Byrg eigi auglit þitt fyrir mér, þegar ég er í nauðum staddur, hneig að mér eyra þitt, þegar ég kalla, flýt þér að bænheyra mig.

Því að dagar mínir hverfa sem reykur, bein mín brenna sem eldur.

Hjarta mitt er mornað og þornað sem gras, því að ég gleymi að neyta brauðs míns.

Sakir kveinstafa minna er ég sem skinin bein.

Ég líkist pelíkan í eyðimörkinni, er sem ugla í rústum.

Ég ligg andvaka og styn eins og einmana fugl á þaki.

Daginn langan smána óvinir mínir mig, fjandmenn mínir formæla með nafni mínu.

10 Ég et ösku sem brauð og blanda drykk minn tárum

11 sakir reiði þinnar og bræði, af því að þú hefir tekið mig upp og varpað mér burt.

12 Dagar mínir eru sem hallur skuggi, og ég visna sem gras.

13 En þú, Drottinn, ríkir að eilífu, og nafn þitt varir frá kyni til kyns.

14 Þú munt rísa upp til þess að miskunna Síon, því að tími er kominn til þess að líkna henni, já, stundin er komin.

15 Þjónar þínir elska steina hennar og harma yfir öskuhrúgum hennar.

16 Þá munu þjóðirnar óttast nafn Drottins og allir konungar jarðarinnar dýrð þína,

17 því að Drottinn byggir upp Síon og birtist í dýrð sinni.

18 Hann snýr sér að bæn hinna nöktu og fyrirlítur eigi bæn þeirra.

19 Þetta skal skráð fyrir komandi kynslóð, og þjóð, sem enn er ósköpuð, skal lofa Drottin.

20 Því að Drottinn lítur niður af sínum helgu hæðum, horfir frá himni til jarðar

21 til þess að heyra andvarpanir bandingjanna og leysa börn dauðans,

22 að þau mættu kunngjöra nafn Drottins í Síon og lofstír hans í Jerúsalem,

23 þegar þjóðirnar safnast saman og konungsríkin til þess að þjóna Drottni.

24 Hann hefir bugað kraft minn á ferð minni, stytt daga mína.

25 Ég segi: Guð minn, tak mig eigi burt á miðri ævinni. Ár þín vara frá kyni til kyns.

26 Í öndverðu grundvallaðir þú jörðina, og himnarnir eru verk handa þinna.

27 Þeir líða undir lok, en þú varir. Þeir fyrnast sem fat, þú skiptir þeim sem klæðum, og þeir hverfa.

28 En þú ert hinn sami, og þín ár fá engan enda.

29 Synir þjóna þinna munu búa kyrrir og niðjar þeirra standa stöðugir fyrir augliti þínu.

Sálmarnir 142-143

142 Maskíl eftir Davíð, er hann var í hellinum. Bæn.

Ég hrópa hátt til Drottins, hástöfum grátbæni ég Drottin.

Ég úthelli kveini mínu fyrir honum, tjái honum neyð mína.

Þegar andi minn örmagnast í mér, þekkir þú götu mína. Á leið þeirri er ég geng hafa þeir lagt snörur fyrir mig.

Ég lít til hægri handar og skyggnist um, en enginn kannast við mig. Mér er varnað sérhvers hælis, enginn spyr eftir mér.

Ég hrópa til þín, Drottinn, ég segi: Þú ert hæli mitt, hlutdeild mín á landi lifenda.

Veit athygli kveini mínu, því að ég er mjög þjakaður, bjarga mér frá ofsækjendum mínum, því að þeir eru mér yfirsterkari.

Leið mig út úr dýflissunni, að ég megi lofa nafn þitt, hinir réttlátu skipast í kringum mig, þegar þú gjörir vel til mín.

143 Davíðssálmur. Drottinn, heyr þú bæn mína, ljá eyra grátbeiðni minni í trúfesti þinni, bænheyr mig í réttlæti þínu.

Gakk eigi í dóm við þjón þinn, því að enginn er réttlátur fyrir augliti þínu.

Óvinurinn eltir sál mína, slær líf mitt til jarðar, lætur mig búa í myrkri eins og þá sem löngu eru dánir.

Andi minn örmagnast í mér, hjarta mitt er agndofa hið innra í mér.

Ég minnist fornra daga, íhuga allar gjörðir þínar, ígrunda verk handa þinna.

Ég breiði út hendurnar í móti þér, sál mín er sem örþrota land fyrir þér. [Sela]

Flýt þér að bænheyra mig, Drottinn, andi minn örmagnast, byrg eigi auglit þitt fyrir mér, svo að ég verði ekki líkur þeim, er gengnir eru til grafar.

Lát þú mig heyra miskunn þína að morgni dags, því að þér treysti ég. Gjör mér kunnan þann veg, er ég á að ganga, því að til þín hef ég sál mína.

Frelsa mig frá óvinum mínum, Drottinn, ég flý á náðir þínar.

10 Kenn mér að gjöra vilja þinn, því að þú ert minn Guð. Þinn góði andi leiði mig um slétta braut.

11 Veit mér að lifa, Drottinn, sakir nafns þíns, leið mig úr nauðum sakir réttlætis þíns.

12 Lát þú óvini mína hverfa sakir trúfesti þinnar, ryð þeim öllum úr vegi, er að mér þrengja, því að ég er þjónn þinn.

Harmljóðin 2:10-18

10 Þeir sitja þegjandi á jörðinni, öldungar dótturinnar Síon, þeir hafa ausið mold yfir höfuð sín, gyrst hærusekk, höfuð létu hníga að jörðu Jerúsalem-meyjar.

11 Augu mín daprast af gráti, iður mín ólga, hjarta mitt ætlar að springa yfir tortíming dóttur þjóðar minnar, er börn og brjóstmylkingar hníga magnþrota á strætum borgarinnar.

12 Þau segja við mæður sínar: "Hvar er korn og vín?" er þau hníga magnþrota eins og dauðsærðir menn á strætum borgarinnar, er þau gefa upp öndina í faðmi mæðra sinna.

13 Hvað á ég að taka til dæmis um þig, við hvað líkja þér, þú dóttirin Jerúsalem? Hverju á ég að jafna við þig til að hugga þig, þú mærin, dóttirin Síon? Já, sár þitt er stórt eins og hafið, hver gæti læknað þig?

14 Spámenn þínir birtu þér tálsýnir og hégóma, en drógu ekki skýluna af misgjörð þinni til þess að snúa við högum þínum, heldur birtu þér spár til táls og ginninga.

15 Yfir þér skelltu lófum saman allir þeir er um veginn fóru, blístruðu og skóku höfuðið yfir dótturinni Jerúsalem: "Er þetta borgin, hin alfagra, unun allrar jarðarinnar?"

16 Yfir þér glenntu upp ginið allir óvinir þínir, blístruðu og nístu tönnum, sögðu: "Vér höfum gjöreytt hana! Já, eftir þessum degi höfum vér beðið, vér höfum lifað hann, vér höfum séð hann!"

17 Drottinn hefir framkvæmt það, er hann hafði ákveðið, efnt orð sín, þau er hann hefir boðið frá því forðum daga, hefir rifið niður vægðarlaust og látið óvinina fagna yfir þér, hann hóf horn fjenda þinna.

18 Hrópa þú hátt til Drottins, þú mærin, dóttirin Síon. Lát tárin renna eins og læk dag og nótt, unn þér engrar hvíldar, auga þitt láti ekki hlé á verða.

Fyrra bréf Páls til Korin 10:14-17

14 Fyrir því, mínir elskuðu, flýið skurðgoðadýrkunina.

15 Ég tala til yðar sem skynsamra manna. Dæmið þér um það, sem ég segi.

16 Sá bikar blessunarinnar, sem vér blessum, er hann ekki samfélag um blóð Krists? Og brauðið, sem vér brjótum, er það ekki samfélag um líkama Krists?

17 Af því að brauðið er eitt, erum vér hinir mörgu einn líkami, því að vér höfum allir hlutdeild í hinu eina brauði.

Fyrra bréf Páls til Korin 11:27-32

27 Hver sem etur brauðið eða drekkur bikar Drottins óverðuglega, verður þess vegna sekur við líkama og blóð Drottins.

28 Hver maður prófi sjálfan sig og eti síðan af brauðinu og drekki af bikarnum.

29 Því að sá sem etur og drekkur án þess að dæma rétt um líkamann, hann etur og drekkur sjálfum sér til dóms.

30 Fyrir því eru svo margir sjúkir og krankir á meðal yðar, og allmargir deyja.

31 Ef vér dæmdum um sjálfa oss, yrðum vér ekki dæmdir.

32 En fyrst Drottinn dæmir oss, þá er hann að aga oss til þess að vér verðum ekki dæmdir sekir ásamt heiminum.

Markúsarguðspjall 14:12-25

12 Á fyrsta degi ósýrðu brauðanna, þegar menn slátruðu páskalambinu, sögðu lærisveinar hans við hann: "Hvert vilt þú, að vér förum og búum þér páskamáltíðina?"

13 Þá sendi hann tvo lærisveina sína og sagði við þá: "Farið inn í borgina, og ykkur mun mæta maður, sem ber vatnsker. Fylgið honum,

14 og þar sem hann fer inn, skuluð þið segja við húsráðandann: ,Meistarinn spyr: Hvar er herbergið, þar sem ég get neytt páskamáltíðarinnar með lærisveinum mínum?`

15 Hann mun þá sýna ykkur loftsal mikinn, búinn hægindum og til reiðu. Hafið þar viðbúnað fyrir oss."

16 Lærisveinarnir fóru, komu inn í borgina og fundu allt eins og hann hafði sagt og bjuggu til páskamáltíðar.

17 Um kvöldið kom hann með þeim tólf.

18 Þegar þeir sátu að borði og mötuðust sagði Jesús: "Sannlega segi ég yður: Einn af yður mun svíkja mig, einn sem með mér etur."

19 Þeir urðu hryggir við og sögðu við hann, einn af öðrum: "Ekki er það ég?"

20 Hann svaraði þeim: "Það er einn þeirra tólf. Hann dýfir í sama fat og ég.

21 Mannssonurinn fer að sönnu héðan, svo sem um hann er ritað, en vei þeim manni, sem því veldur, að Mannssonurinn verður framseldur. Betra væri þeim manni að hafa aldrei fæðst."

22 Þá er þeir mötuðust, tók hann brauð, þakkaði Guði, braut það og gaf þeim og sagði: "Takið, þetta er líkami minn."

23 Og hann tók kaleik, gjörði þakkir og gaf þeim, og þeir drukku af honum allir.

24 Og hann sagði við þá: "Þetta er blóð mitt, blóð sáttmálans, úthellt fyrir marga.

25 Sannlega segi ég yður: Héðan í frá mun ég eigi drekka af ávexti vínviðarins til þess dags, er ég drekk hann nýjan í Guðs ríki."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society