Book of Common Prayer
145 Ég kalla af öllu hjarta, bænheyr mig, Drottinn, ég vil halda lög þín.
146 Ég ákalla þig, hjálpa þú mér, að ég megi varðveita reglur þínar.
147 Ég er á ferli fyrir dögun og hrópa og bíð orða þinna.
148 Fyrr en vakan hefst eru augu mín vökul til þess að íhuga orð þitt.
149 Hlýð á raust mína eftir miskunn þinni, lát mig lífi halda, Drottinn, eftir ákvæðum þínum.
150 Þeir eru nærri, er ofsækja mig af fláræði, þeir eru langt burtu frá lögmáli þínu.
151 Þú ert nálægur, Drottinn, og öll boð þín eru trúfesti.
152 Fyrir löngu hefi ég vitað um reglur þínar, að þú hefir grundvallað þær um eilífð.
153 Sjá þú eymd mína og frelsa mig, því að ég hefi eigi gleymt lögmáli þínu.
154 Flyt þú mál mitt og leys mig, lát mig lífi halda samkvæmt fyrirheiti þínu.
155 Hjálpræðið er fjarri óguðlegum, því að þeir leita eigi fyrirmæla þinna.
156 Mikil er miskunn þín, Drottinn, lát mig lífi halda eftir ákvæðum þínum.
157 Margir eru ofsækjendur mínir og fjendur, en frá reglum þínum hefi ég eigi vikið.
158 Ég sé trúrofana og kenni viðbjóðs, þeir varðveita eigi orð þitt.
159 Sjá, hversu ég elska fyrirmæli þín, lát mig lífi halda, Drottinn, eftir miskunn þinni.
160 Allt orð þitt samanlagt er trúfesti, og hvert réttlætisákvæði þitt varir að eilífu.
161 Höfðingjar ofsækja mig að ástæðulausu, en hjarta mitt óttast orð þín.
162 Ég gleðst yfir fyrirheiti þínu eins og sá er fær mikið herfang.
163 Ég hata lygi og hefi andstyggð á henni, en þitt lögmál elska ég.
164 Sjö sinnum á dag lofa ég þig sakir þinna réttlátu ákvæða.
165 Gnótt friðar hafa þeir er elska lögmál þitt, og þeim er við engri hrösun hætt.
166 Ég vænti hjálpræðis þíns, Drottinn, og framkvæmi boð þín.
167 Sál mín varðveitir reglur þínar, og þær elska ég mjög.
168 Ég varðveiti fyrirmæli þín og reglur, allir mínir vegir eru þér augljósir.
169 Ó að hróp mitt mætti nálgast auglit þitt, Drottinn, veit mér að skynja í samræmi við orð þitt.
170 Ó að grátbeiðni mín mætti koma fyrir auglit þitt, frelsa mig samkvæmt fyrirheiti þínu.
171 Lof um þig skal streyma mér af vörum, því að þú kennir mér lög þín.
172 Tunga mín skal mæra orð þitt, því að öll boðorð þín eru réttlæti.
173 Hönd þín veiti mér lið, því að þín fyrirmæli hefi ég útvalið.
174 Ég þrái hjálpræði þitt, Drottinn, og lögmál þitt er unun mín.
175 Lát sál mína lifa, að hún megi lofa þig og dómar þínir veiti mér lið.
176 Ég villist sem týndur sauður, leita þú þjóns þíns, því að þínum boðum hefi ég eigi gleymt.
128 Sæll er hver sá, er óttast Drottin, er gengur á hans vegum.
2 Já, afla handa þinna skalt þú njóta, sæll ert þú, vel farnast þér.
3 Kona þín er sem frjósamur vínviður innst í húsi þínu, synir þínir sem teinungar olíutrésins umhverfis borð þitt.
4 Sjá, sannarlega hlýtur slíka blessun sá maður, er óttast Drottin.
5 Drottinn blessi þig frá Síon, þú munt horfa með unun á hamingju Jerúsalem alla ævidaga þína,
6 og sjá sonu sona þinna. Friður sé yfir Ísrael!
129 Þeir hafa fjandskapast mjög við mig frá æsku, _ skal Ísrael segja _
2 þeir hafa fjandskapast mjög við mig frá æsku, en þó eigi borið af mér.
3 Plógmennirnir hafa plægt um hrygg mér, gjört plógför sín löng,
4 en Drottinn hinn réttláti hefir skorið í sundur reipi óguðlegra.
5 Sneypast skulu þeir og undan hörfa, allir þeir sem hata Síon.
6 Þeir skulu verða sem gras á þekju, er visnar áður en það frævist.
7 Sláttumaðurinn skal eigi fylla hönd sína né sá fang sitt sem bindur,
8 og þeir sem fram hjá fara skulu ekki segja: "Blessun Drottins sé með yður." Vér blessum yður í nafni Drottins!
130 Úr djúpinu ákalla ég þig, Drottinn,
2 Drottinn, heyr þú raust mína, lát eyru þín hlusta á grátbeiðni mína!
3 Ef þú, Drottinn, gæfir gætur að misgjörðum, Drottinn, hver fengi þá staðist?
4 En hjá þér er fyrirgefning, svo að menn óttist þig.
5 Ég vona á Drottin, sál mín vonar, og hans orðs bíð ég.
6 Meir en vökumenn morgun, vökumenn morgun, þreyr sál mín Drottin.
7 Ó Ísrael, bíð þú Drottins, því að hjá Drottni er miskunn, og hjá honum er gnægð lausnar.
8 Hann mun leysa Ísrael frá öllum misgjörðum hans.
8 Drottinn talaði við þá Móse og Aron og sagði:
9 "Þegar Faraó segir við ykkur: ,Látið sjá stórmerki nokkur,` þá seg þú við Aron: ,Tak staf þinn og kasta honum frammi fyrir Faraó.` Skal hann þá verða að höggormi."
10 Þá gengu þeir Móse og Aron inn fyrir Faraó og gjörðu svo sem Drottinn hafði boðið þeim, og kastaði Aron staf sínum frammi fyrir Faraó og þjónum hans, og varð stafurinn að höggormi.
11 Þá lét Faraó og kalla vitringana og töframennina, og þeir, spásagnamenn Egypta, gjörðu slíkt hið sama með fjölkynngi sinni:
12 Kastaði hver þeirra staf sínum, og urðu stafirnir að höggormum. En stafur Arons gleypti þeirra stafi.
13 En hjarta Faraós harðnaði, og hann hlýddi þeim ekki, eins og Drottinn hafði sagt.
14 Þá sagði Drottinn við Móse: "Hjarta Faraós er ósveigjanlegt. Hann vill eigi leyfa fólkinu að fara.
15 Far þú á morgun á fund Faraós. Sjá, hann mun ganga til vatns. Skalt þú þá ganga í veg fyrir hann á árbakkanum, og haf í hendi þér staf þann, er varð að höggormi.
16 Og þú skalt segja við hann: ,Drottinn, Guð Hebrea, hefir sent mig til þín með þessa orðsending: Leyf fólki mínu að fara, að það megi þjóna mér á eyðimörkinni. En hingað til hefir þú ekki látið skipast.
17 Svo segir Drottinn: Af þessu skaltu vita mega, að ég er Drottinn: Með staf þeim, sem ég hefi í hendi mér, lýst ég á vatnið, sem er í ánni, og skal það þá verða að blóði.
18 Fiskarnir í ánni skulu deyja og áin fúlna, svo að Egypta skal velgja við að drekka vatn úr ánni."`
19 Þá mælti Drottinn við Móse: "Seg við Aron: ,Tak staf þinn og rétt hönd þína út yfir vötn Egyptalands, yfir fljót þess og ár, tjarnir og allar vatnsstæður, og skulu þau þá verða að blóði, og um allt Egyptaland skal blóð vera bæði í tréílátum og steinkerum."`
20 Móse og Aron gjörðu sem Drottinn hafði boðið þeim. Hann reiddi upp stafinn og laust vatnið í ánni að ásjáandi Faraó og þjónum hans, og allt vatnið í ánni varð að blóði.
21 Fiskarnir í ánni dóu, og áin fúlnaði, svo að Egyptar gátu ekki drukkið vatn úr ánni, og blóð var um allt Egyptaland.
22 En spásagnamenn Egypta gjörðu slíkt hið sama með fjölkynngi sinni. Harðnaði þá hjarta Faraós, og hann hlýddi þeim ekki, eins og Drottinn hafði sagt.
23 Sneri Faraó þá burt og fór heim til sín og lét þetta ekki heldur á sig fá.
24 En allir Egyptar grófu með fram ánni eftir neysluvatni, því að þeir gátu eigi drukkið vatnið úr ánni.
14 En Guði séu þakkir, sem fer með oss í óslitinni sigurför Krists og lætur oss útbreiða ilm þekkingarinnar á honum á hverjum stað.
15 Því að vér erum góðilmur Krists fyrir Guði meðal þeirra, er hólpnir verða, og meðal þeirra, sem glatast;
16 þeim síðarnefndu ilmur af dauða til dauða, en hinum ilmur af lífi til lífs. Og hver er til þessa hæfur?
17 Ekki erum vér eins og hinir mörgu, er pranga með Guðs orð, heldur flytjum vér það af hreinum huga frá Guði frammi fyrir augliti Guðs, með því að vér erum í Kristi.
3 Erum vér nú aftur teknir að mæla með sjálfum oss? Eða mundum vér þurfa, eins og sumir, meðmælabréf til yðar eða frá yður?
2 Þér eruð vort bréf, ritað á hjörtu vor, þekkt og lesið af öllum mönnum.
3 Þér sýnið ljóslega, að þér eruð bréf Krists, sem vér höfum unnið að, ekki skrifað með bleki, heldur með anda lifanda Guðs, ekki á steinspjöld, heldur á hjartaspjöld úr holdi.
4 En þetta traust höfum vér til Guðs fyrir Krist.
5 Ekki svo, að vér séum sjálfir hæfir og eitthvað komi frá oss sjálfum, heldur er hæfileiki vor frá Guði,
6 sem hefur gjört oss hæfa til að vera þjóna nýs sáttmála, ekki bókstafs, heldur anda. Því að bókstafurinn deyðir, en andinn lífgar.
10 Hann tók sig upp þaðan og hélt til byggða Júdeu og yfir um Jórdan. Fjöldi fólks safnast enn til hans, og hann kenndi þeim, eins og hann var vanur.
2 Farísear komu og spurðu hann, hvort maður mætti skilja við konu sína. Þeir vildu freista hans.
3 Hann svaraði þeim: "Hvað hefur Móse boðið yður?"
4 Þeir sögðu: "Móse leyfði að ,rita skilnaðarbréf og skilja við hana."`
5 Jesús mælti þá til þeirra: "Vegna harðúðar hjartna yðar ritaði hann yður þetta boðorð,
6 en frá upphafi sköpunar ,gjörði Guð þau karl og konu.
7 Fyrir því skal maður yfirgefa föður sinn og móður og bindast konu sinni,
8 og þau tvö skulu verða einn maður.` Þannig eru þau ekki framar tvö, heldur einn maður.
9 Það sem Guð hefur tengt saman, má maður eigi sundur skilja."
10 Þegar lærisveinarnir voru komnir inn, spurðu þeir hann aftur um þetta.
11 En hann sagði við þá: "Sá sem skilur við konu sína og kvænist annarri, drýgir hór gegn henni.
12 Og ef kona skilur við mann sinn og giftist öðrum, drýgir hún hór."
13 Menn færðu börn til hans, að hann snerti þau, en lærisveinarnir átöldu þá.
14 Þegar Jesús sá það, sárnaði honum, og hann mælti við þá: "Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi, því að slíkra er Guðs ríki.
15 Sannlega segi ég yður: Hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn, mun aldrei inn í það koma."
16 Og hann tók þau sér í faðm, lagði hendur yfir þau og blessaði þau.
by Icelandic Bible Society