Book of Common Prayer
118 Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.
2 Það mæli Ísrael: "Því að miskunn hans varir að eilífu!"
3 Það mæli Arons ætt: "Því að miskunn hans varir að eilífu!"
4 Það mæli þeir sem óttast Drottin: "Því að miskunn hans varir að eilífu!"
5 Í þrengingunni ákallaði ég Drottin, hann bænheyrði mig og rýmkaði um mig.
6 Drottinn er með mér, ég óttast eigi, hvað geta menn gjört mér?
7 Drottinn er með mér með hjálp sína, og ég mun fá að horfa á ófarir hatursmanna minna.
8 Betra er að leita hælis hjá Drottni en að treysta mönnum,
9 betra er að leita hælis hjá Drottni en að treysta tignarmönnum.
10 Allar þjóðir umkringdu mig, en í nafni Drottins hefi ég sigrast á þeim.
11 Þær umkringdu mig á alla vegu, en í nafni Drottins hefi ég sigrast á þeim.
12 Þær umkringdu mig eins og býflugur vax, brunnu sem eldur í þyrnum, en í nafni Drottins hefi ég sigrast á þeim.
13 Mér var hrundið, til þess að ég skyldi falla, en Drottinn veitti mér lið.
14 Drottinn er styrkur minn og lofsöngur, og hann varð mér til hjálpræðis.
15 Fagnaðar- og siguróp kveður við í tjöldum réttlátra: Hægri hönd Drottins vinnur stórvirki,
16 hægri hönd Drottins upphefur, hægri hönd Drottins vinnur stórvirki.
17 Ég mun eigi deyja, heldur lifa og kunngjöra verk Drottins.
18 Drottinn hefir hirt mig harðlega, en eigi ofurselt mig dauðanum.
19 Ljúkið upp fyrir mér hliðum réttlætisins, að ég megi fara inn um þau og lofa Drottin.
20 Þetta er hlið Drottins, réttlátir menn fara inn um það.
21 Ég lofa þig, af því að þú bænheyrðir mig og ert orðinn mér hjálpræði.
22 Steinninn sem smiðirnir höfnuðu er orðinn að hyrningarsteini.
23 Að tilhlutun Drottins er þetta orðið, það er dásamlegt í augum vorum.
24 Þetta er dagurinn sem Drottinn hefir gjört, fögnum, verum glaðir á honum.
25 Drottinn, hjálpa þú, Drottinn, gef þú gengi!
26 Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins, frá húsi Drottins blessum vér yður.
27 Drottinn er Guð, hann lætur oss skína ljós. Tengið saman dansraðirnar með laufgreinum, allt inn að altarishornunum.
28 Þú ert Guð minn, og ég þakka þér, Guð minn, ég vegsama þig.
29 Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.
145 Davíðs-lofsöngur. Ég vil vegsama þig, ó Guð minn, þú konungur, og prísa nafn þitt um aldur og ævi.
2 Á hverjum degi vil ég prísa þig og lofa nafn þitt um aldur og ævi.
3 Mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur, mikilleikur hans er órannsakanlegur.
4 Ein kynslóðin vegsamar verk þín fyrir annarri og kunngjörir máttarverk þín.
5 Þær segja frá tign og dýrð vegsemdar þinnar: "Ég vil syngja um dásemdir þínar."
6 Og um mátt ógnarverka þinna tala þær: "Ég vil segja frá stórvirkjum þínum."
7 Þær minna á þína miklu gæsku og fagna yfir réttlæti þínu.
8 Náðugur og miskunnsamur er Drottinn, þolinmóður og mjög gæskuríkur.
9 Drottinn er öllum góður, og miskunn hans er yfir öllu, sem hann skapar.
10 Öll sköpun þín lofar þig, Drottinn, og dýrkendur þínir prísa þig.
11 Þeir tala um dýrð konungdóms þíns, segja frá veldi þínu.
12 Þeir kunngjöra mönnum veldi þitt, hina dýrlegu tign konungdóms þíns.
13 Konungdómur þinn er konungdómur um allar aldir og ríki þitt stendur frá kyni til kyns. Drottinn er trúfastur í öllum orðum sínum og miskunnsamur í öllum verkum sínum.
14 Drottinn styður alla þá, er ætla að hníga, og reisir upp alla niðurbeygða.
15 Allra augu vona á þig, og þú gefur þeim fæðu þeirra á réttum tíma.
16 Þú lýkur upp hendi þinni og seður allt sem lifir með blessun.
17 Drottinn er réttlátur á öllum sínum vegum og miskunnsamur í öllum sínum verkum.
18 Drottinn er nálægur öllum sem ákalla hann, öllum sem ákalla hann í einlægni.
19 Hann uppfyllir ósk þeirra er óttast hann, og hróp þeirra heyrir hann og hjálpar þeim.
20 Drottinn varðveitir alla þá er elska hann, en útrýmir öllum níðingum.
21 Munnur minn skal mæla orðstír Drottins, allt hold vegsami hans heilaga nafn um aldur og ævi.
16 Far nú og safna saman öldungum Ísraels og mæl við þá: ,Drottinn, Guð feðra yðar birtist mér, Guð Abrahams, Ísaks og Jakobs, og sagði: Ég hefi vitjað yðar og séð, hversu með yður hefir verið farið í Egyptalandi.
17 Og ég hefi sagt: Ég vil leiða yður úr ánauð Egyptalands inn í land Kanaaníta, Hetíta, Amoríta, Peresíta, Hevíta og Jebúsíta, í það land, sem flýtur í mjólk og hunangi.`
18 Þeir munu skipast við orð þín og skaltu þá ganga með öldungum Ísraels fyrir Egyptalandskonung, og skuluð þér segja við hann: ,Drottinn, Guð Hebrea, hefir komið til móts við oss. Leyf oss því nú að fara þrjár dagleiðir á eyðimörkina, að vér færum fórnir Drottni, Guði vorum.`
19 Veit ég þó, að Egyptalandskonungur mun eigi leyfa yður burtförina, og jafnvel ekki þótt hart sé á honum tekið.
20 En ég vil útrétta hönd mína og ljósta Egyptaland með öllum undrum mínum, sem ég mun fremja þar, og þá mun hann láta yður fara.
21 Og ég skal láta þessa þjóð öðlast hylli Egypta, svo að þá er þér farið, skuluð þér eigi tómhentir burt fara,
22 heldur skal hver kona biðja grannkonu sína og sambýliskonu um silfurgripi og gullgripi og klæði, og það skuluð þér láta sonu yðar og dætur bera, og þannig skuluð þér ræna Egypta."
4 Móse svaraði og sagði: "Sjá, þeir munu eigi trúa mér og eigi skipast við orð mín, heldur segja: ,Guð hefir ekki birst þér!"`
2 Þá sagði Drottinn við hann: "Hvað er það, sem þú hefir í hendi þér?" Hann svaraði: "Stafur er það."
3 Hann sagði: "Kasta þú honum til jarðar!" Og hann kastaði honum til jarðar, og stafurinn varð að höggormi, og hrökk Móse undan honum.
4 Þá sagði Drottinn við Móse: "Rétt þú út hönd þína og gríp um ormshalann!" Þá rétti hann út hönd sína og tók um hann, og varð hann þá aftur að staf í hendi hans, _
5 "að þeir megi trúa því, að Drottinn, Guð feðra þeirra, Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs, hafi birst þér."
6 Drottinn sagði enn fremur við hann: "Sting hendi þinni í barm þér!" Og hann stakk hendi sinni í barm sér. En er hann tók hana út aftur, var höndin orðin líkþrá og hvít sem snjór.
7 Og hann sagði: "Sting aftur hendi þinni í barm þér!" Og hann stakk hendinni aftur í barm sér. En er hann tók hana aftur út úr barminum, var hún aftur orðin sem annað hold hans.
8 "Vilji þeir nú ekki trúa þér eða skipast við hið fyrra jarteiknið, þá munu þeir skipast við hið síðara.
9 En ef þeir vilja hvorugu þessu jarteikni trúa eða skipast láta við orð þín, þá skalt þú taka vatn úr ánni og ausa því upp á þurrt land, og mun þá það vatn er þú tekur úr ánni verða að blóði á þurrlendinu."
10 Þá sagði Móse við Drottin: "Æ, Drottinn, aldrei hefi ég málsnjall maður verið, hvorki áður fyrr né heldur síðan þú talaðir við þjón þinn, því að mér er tregt um málfæri og tungutak."
11 En Drottinn sagði við hann: "Hver gefur manninum málið, eða hver gjörir hann mállausan eða daufan eða skyggnan eða blindan? Er það ekki ég, Drottinn, sem gjöri það?
12 Far nú, ég skal vera með munni þínum og kenna þér, hvað þú skalt mæla."
12 Því brýni ég yður, bræður, að þér, vegna miskunnar Guðs, bjóðið fram sjálfa yður að lifandi, heilagri, Guði þóknanlegri fórn. Það er sönn og rétt guðsdýrkun af yðar hendi.
2 Hegðið yður eigi eftir öld þessari, heldur takið háttaskipti með endurnýjung hugarfarsins, svo að þér fáið að reyna, hver sé vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna.
3 Fyrir þá náð, sem mér er gefin, segi ég yður hverjum og einum að hugsa ekki hærra um sig en hugsa ber, heldur í réttu hófi, og halda sér hver og einn við þann mæli trúar, sem Guð hefur úthlutað honum.
4 Vér höfum á einum líkama marga limi, en limirnir hafa ekki allir sama starfa.
5 Eins erum vér, þótt margir séum, einn líkami í Kristi, en hver um sig annars limir.
6 Vér höfum margvíslegar náðargjafir, eftir þeirri náð, sem oss er gefin. Sé það spádómsgáfa, þá notum hana í hlutfalli við trúna.
7 Sé það þjónusta, skulum vér þjóna. Sá sem kennir, hann kenni,
8 sá sem áminnir, hann áminni. Sá sem útbýtir gjöfum, gjöri það í einlægni. Sá sem veitir forstöðu, sé kostgæfinn og sá sem iðkar miskunnsemi, gjöri það með gleði.
9 Elskan sé flærðarlaus. Hafið andstyggð á hinu vonda, en haldið fast við hið góða.
10 Sýnið hver öðrum bróðurkærleika og ástúð, og verið hver yðar fyrri til að veita öðrum virðing.
11 Verið ekki hálfvolgir í áhuganum, verið brennandi í andanum. Þjónið Drottni.
12 Verið glaðir í voninni, þolinmóðir í þjáningunni og staðfastir í bæninni.
13 Takið þátt í þörfum heilagra, stundið gestrisni.
14 Blessið þá, er ofsækja yður, blessið þá, en bölvið þeim ekki.
15 Fagnið með fagnendum, grátið með grátendum.
16 Berið sama hug til allra, hreykið yður ekki, en haldið yður að hinum lítilmótlegu. Ætlið yður ekki hyggna með sjálfum yður.
17 Gjaldið engum illt fyrir illt. Stundið það sem fagurt er fyrir sjónum allra manna.
18 Hafið frið við alla menn að því leyti sem það er unnt og á yðar valdi.
19 Hefnið yðar ekki sjálfir, þér elskaðir, heldur lofið hinni refsandi reiði Guðs að komast að, því að ritað er: "Mín er hefndin, ég mun endurgjalda, segir Drottinn."
20 En "ef óvin þinn hungrar, þá gef honum að eta, ef hann þyrstir, þá gef honum að drekka. Með því að gjöra þetta, safnar þú glóðum elds á höfuð honum."
21 Lát ekki hið vonda yfirbuga þig, heldur sigra þú illt með góðu.
46 Hver yðar getur sannað á mig synd? Ef ég segi sannleikann, hví trúið þér mér ekki?
47 Sá sem er af Guði, heyrir Guðs orð. Þér heyrið ekki, vegna þess að þér eruð ekki af Guði."
48 Gyðingar svöruðu honum: "Er það ekki rétt, sem vér segjum, að þú sért Samverji og hafir illan anda?"
49 Jesús ansaði: "Ekki hef ég illan anda. Ég heiðra föður minn, en þér smánið mig.
50 Ég leita ekki míns heiðurs. Sá er til, sem leitar hans og dæmir.
51 Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem varðveitir mitt orð, skal aldrei að eilífu deyja."
52 Þá sögðu Gyðingar við hann: "Nú vitum vér, að þú hefur illan anda. Abraham dó og spámennirnir, og þú segir, að sá sem varðveitir orð þitt, skuli aldrei að eilífu deyja.
53 Ert þú meiri en faðir vor, Abraham? Hann dó, og spámennirnir dóu. Hver þykist þú vera?"
54 Jesús svaraði: "Ef ég vegsama sjálfan mig, er vegsemd mín engin. Faðir minn er sá, sem vegsamar mig, hann sem þér segið vera Guð yðar.
55 Og þér þekkið hann ekki, en ég þekki hann. Ef ég segðist ekki þekkja hann, væri ég lygari eins og þér. En ég þekki hann og varðveiti orð hans.
56 Abraham faðir yðar vænti þess með fögnuði að sjá dag minn, og hann sá hann og gladdist."
57 Nú sögðu Gyðingar við hann: "Þú ert ekki enn orðinn fimmtugur, og hefur séð Abraham!"
58 Jesús sagði við þá: "Sannlega, sannlega segi ég yður: Áður en Abraham fæddist, er ég."
59 Þá tóku þeir upp steina til að grýta Jesú. En hann duldist og fór út úr helgidóminum.
by Icelandic Bible Society