Book of Common Prayer
95 Komið, fögnum fyrir Drottni, látum gleðióp gjalla fyrir kletti hjálpræðis vors.
2 Komum með lofsöng fyrir auglit hans, syngjum gleðiljóð fyrir honum.
3 Því að Drottinn er mikill Guð og mikill konungur yfir öllum guðum.
4 Í hans hendi eru jarðardjúpin, og fjallatindarnir heyra honum til.
5 Hans er hafið, hann hefir skapað það, og hendur hans mynduðu þurrlendið.
6 Komið, föllum fram og krjúpum niður, beygjum kné vor fyrir Drottni, skapara vorum,
7 því að hann er vor Guð, og vér erum gæslulýður hans og hjörð sú, er hann leiðir. Ó að þér í dag vilduð heyra raust hans!
8 Herðið eigi hjörtu yðar eins og hjá Meríba, eins og daginn við Massa í eyðimörkinni,
9 þegar feður yðar freistuðu mín, reyndu mig, þótt þeir sæju verk mín.
10 Í fjörutíu ár hafði ég viðbjóð á þessari kynslóð, og ég sagði: "Þeir eru andlega villtur lýður og þekkja ekki vegu mína."
11 Þess vegna sór ég í reiði minni: "Þeir skulu eigi ganga inn til hvíldar minnar."
102 Bæn hrjáðs manns, þá er hann örmagnast og úthellir kveini sínu fyrir Drottni.
2 Drottinn, heyr þú bæn mína og hróp mitt berist til þín.
3 Byrg eigi auglit þitt fyrir mér, þegar ég er í nauðum staddur, hneig að mér eyra þitt, þegar ég kalla, flýt þér að bænheyra mig.
4 Því að dagar mínir hverfa sem reykur, bein mín brenna sem eldur.
5 Hjarta mitt er mornað og þornað sem gras, því að ég gleymi að neyta brauðs míns.
6 Sakir kveinstafa minna er ég sem skinin bein.
7 Ég líkist pelíkan í eyðimörkinni, er sem ugla í rústum.
8 Ég ligg andvaka og styn eins og einmana fugl á þaki.
9 Daginn langan smána óvinir mínir mig, fjandmenn mínir formæla með nafni mínu.
10 Ég et ösku sem brauð og blanda drykk minn tárum
11 sakir reiði þinnar og bræði, af því að þú hefir tekið mig upp og varpað mér burt.
12 Dagar mínir eru sem hallur skuggi, og ég visna sem gras.
13 En þú, Drottinn, ríkir að eilífu, og nafn þitt varir frá kyni til kyns.
14 Þú munt rísa upp til þess að miskunna Síon, því að tími er kominn til þess að líkna henni, já, stundin er komin.
15 Þjónar þínir elska steina hennar og harma yfir öskuhrúgum hennar.
16 Þá munu þjóðirnar óttast nafn Drottins og allir konungar jarðarinnar dýrð þína,
17 því að Drottinn byggir upp Síon og birtist í dýrð sinni.
18 Hann snýr sér að bæn hinna nöktu og fyrirlítur eigi bæn þeirra.
19 Þetta skal skráð fyrir komandi kynslóð, og þjóð, sem enn er ósköpuð, skal lofa Drottin.
20 Því að Drottinn lítur niður af sínum helgu hæðum, horfir frá himni til jarðar
21 til þess að heyra andvarpanir bandingjanna og leysa börn dauðans,
22 að þau mættu kunngjöra nafn Drottins í Síon og lofstír hans í Jerúsalem,
23 þegar þjóðirnar safnast saman og konungsríkin til þess að þjóna Drottni.
24 Hann hefir bugað kraft minn á ferð minni, stytt daga mína.
25 Ég segi: Guð minn, tak mig eigi burt á miðri ævinni. Ár þín vara frá kyni til kyns.
26 Í öndverðu grundvallaðir þú jörðina, og himnarnir eru verk handa þinna.
27 Þeir líða undir lok, en þú varir. Þeir fyrnast sem fat, þú skiptir þeim sem klæðum, og þeir hverfa.
28 En þú ert hinn sami, og þín ár fá engan enda.
29 Synir þjóna þinna munu búa kyrrir og niðjar þeirra standa stöðugir fyrir augliti þínu.
107 Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.
2 Svo skulu hinir endurleystu Drottins segja, þeir er hann hefir leyst úr nauðum
3 og safnað saman úr löndunum, frá austri og vestri, frá norðri og suðri.
4 Þeir reikuðu um eyðimörkina, um veglaus öræfin, og fundu eigi byggilegar borgir,
5 þá hungraði og þyrsti, sál þeirra vanmegnaðist í þeim.
6 Þá hrópuðu þeir til Drottins í neyð sinni, hann bjargaði þeim úr angist þeirra
7 og leiddi þá um slétta leið, svo að þeir komust til byggilegrar borgar.
8 Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans og dásemdarverk hans við mannanna börn,
9 því að hann mettaði magnþrota sál og fyllti hungraða sál gæðum.
10 Þeir sem sátu í myrkri og niðdimmu, bundnir eymd og járnum,
11 af því að þeir höfðu þrjóskast við orðum Guðs og fyrirlitið ráð Hins hæsta,
12 svo að hann beygði hug þeirra með mæðu, þeir hrösuðu, og enginn liðsinnti þeim.
13 Þá hrópuðu þeir til Drottins í neyð sinni, hann frelsaði þá úr angist þeirra,
14 hann leiddi þá út úr myrkrinu og niðdimmunni og braut sundur fjötra þeirra.
15 Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans og dásemdarverk hans við mannanna börn,
16 því að hann braut eirhliðin og mölvaði járnslárnar.
17 Heimskingjar, er vegna sinnar syndsamlegu breytni og vegna misgjörða sinna voru þjáðir,
18 þeim bauð við hverri fæðu og voru komnir nálægt hliðum dauðans.
19 Þá hrópuðu þeir til Drottins í neyð sinni, hann frelsaði þá úr angist þeirra,
20 hann sendi út orð sitt og læknaði þá og bjargaði þeim frá gröfinni.
21 Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans og dásemdarverk hans við mannanna börn,
22 og færa þakkarfórnir og kunngjöra verk hans með fögnuði.
23 Þeir sem fóru um hafið á skipum, ráku verslun á hinum miklu vötnum,
24 þeir hafa séð verk Drottins og dásemdir hans á djúpinu.
25 Því að hann bauð og þá kom stormviðri, sem hóf upp bylgjur þess.
26 Þeir hófust til himins, sigu niður í djúpið, þeim féllst hugur í neyðinni.
27 Þeir römbuðu og skjögruðu eins og drukkinn maður, og öll kunnátta þeirra var þrotin.
28 Þá hrópuðu þeir til Drottins í neyð sinni, og hann leiddi þá úr angist þeirra.
29 Hann breytti stormviðrinu í blíðan blæ, svo að bylgjur hafsins urðu hljóðar.
30 Þá glöddust þeir, af því að þær kyrrðust, og hann lét þá komast í höfn þá, er þeir þráðu.
31 Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans og dásemdarverk hans við mannanna börn,
32 vegsama hann á þjóðarsamkomunni og lofa hann í hóp öldunganna.
2 Maður nokkur af Leví ætt gekk að eiga dóttur Leví.
2 Og konan varð þunguð og fæddi son. Og er hún sá að sveinninn var fríður, þá leyndi hún honum í þrjá mánuði.
3 En er hún mátti eigi leyna honum lengur, tók hún handa honum örk af reyr, bræddi hana með jarðlími og biki, lagði sveininn í hana og lét örkina út í sefið hjá árbakkanum.
4 En systir hans stóð þar álengdar til að vita, hvað um hann yrði.
5 Þá gekk dóttir Faraós ofan að ánni til að lauga sig, og gengu þjónustumeyjar hennar eftir árbakkanum. Hún leit örkina í sefinu og sendi þernu sína að sækja hana.
6 En er hún lauk upp örkinni, sá hún barnið, og sjá, það var sveinbarn og var að gráta. Og hún kenndi í brjósti um það og sagði: "Þetta er eitt af börnum Hebrea."
7 Þá sagði systir sveinsins við dóttur Faraós: "Á ég að fara og sækja fyrir þig barnfóstru, einhverja hebreska konu, að hún hafi sveininn á brjósti fyrir þig?"
8 Og dóttir Faraós svaraði henni: "Já, far þú." En mærin fór og sótti móður sveinsins.
9 Og dóttir Faraós sagði við hana: "Tak svein þennan með þér og haf hann á brjósti fyrir mig, og skal ég launa þér fyrir." Tók konan þá sveininn og hafði hann á brjósti.
10 En er sveinninn var vaxinn, fór hún með hann til dóttur Faraós. Tók hún hann í sonar stað og nefndi hann Móse, því að hún sagði: "Ég hefi dregið hann upp úr vatninu."
11 Um þær mundir bar svo við, þegar Móse var orðinn fulltíða maður, að hann fór á fund ættbræðra sinna og sá þrældóm þeirra. Sá hann þá egypskan mann ljósta hebreskan mann, einn af ættbræðrum hans.
12 Hann skimaði þá í allar áttir, og er hann sá, að þar var enginn, drap hann Egyptann og huldi hann í sandinum.
13 Daginn eftir gekk hann út og sá tvo Hebrea vera að þrátta sín á milli. Þá mælti hann við þann, sem á röngu hafði að standa: "Hví slær þú náunga þinn?"
14 En hann sagði: "Hver skipaði þig höfðingja og dómara yfir okkur? Er þér í hug að drepa mig, eins og þú drapst Egyptann?" Þá varð Móse hræddur og hugsaði með sér: "Það er þá orðið uppvíst!"
15 Er Faraó frétti þennan atburð, leitaði hann eftir að drepa Móse, en Móse flýði undan Faraó og tók sér bústað í Midíanslandi og settist að hjá vatnsbólinu.
16 Presturinn í Midíanslandi átti sjö dætur. Þær komu þangað, jusu vatn og fylltu þrórnar til að brynna fénaði föður síns.
17 Þá komu að hjarðmenn og bægðu þeim frá. En Móse tók sig til og hjálpaði þeim og brynnti fénaði þeirra.
18 Og er þær komu heim til Regúels föður síns, mælti hann: "Hví komið þér svo snemma heim í dag?"
19 Þær svöruðu: "Egypskur maður hjálpaði oss móti hjarðmönnunum, jós líka vatnið upp fyrir oss og brynnti fénaðinum."
20 Hann sagði þá við dætur sínar: "Hvar er hann þá? Hvers vegna skilduð þér manninn eftir? Bjóðið honum heim, að hann neyti matar."
21 Móse lét sér vel líka að vera hjá þessum manni, og hann gifti Móse Sippóru dóttur sína.
22 Hún ól son, og hann nefndi hann Gersóm, því að hann sagði: "Gestur er ég í ókunnu landi."
27 Þér eruð líkami Krists og limir hans hver um sig.
28 Guð hefur sett nokkra í kirkjunni, fyrst postula, í öðru lagi spámenn, í þriðja lagi fræðara, sumum hefur hann veitt gáfu að gjöra kraftaverk, lækna, vinna líknarstörf, stjórna og tala tungum.
29 Hvort eru allir postular? Hvort eru allir spámenn? Hvort eru allir fræðarar? Hvort eru allir kraftaverkamenn?
30 Hvort hafa allir hlotið lækningagáfu? Hvort tala allir tungum? Hvort útlista allir tungutal?
31 Nei, sækist heldur eftir náðargáfunum, þeim hinum meiri. Og nú bendi ég yður á enn þá miklu ágætari leið.
13 Þótt ég talaði tungum manna og engla, en hefði ekki kærleika, væri ég hljómandi málmur eða hvellandi bjalla.
2 Og þótt ég hefði spádómsgáfu og vissi alla leyndardóma og ætti alla þekking, og þótt ég hefði svo takmarkalausa trú, að færa mætti fjöll úr stað, en hefði ekki kærleika, væri ég ekki neitt.
3 Og þótt ég deildi út öllum eigum mínum, og þótt ég framseldi líkama minn, til þess að verða brenndur, en hefði ekki kærleika, væri ég engu bættari.
2 Eftir sex daga tekur Jesús með sér þá Pétur, Jakob og Jóhannes og fer með þá upp á hátt fjall, að þeir væru einir saman. Þar ummyndaðist hann fyrir augum þeirra,
3 og klæði hans urðu fannhvít og skínandi, og fær enginn bleikir á jörðu svo hvítt gjört.
4 Og þeim birtist Elía ásamt Móse, og voru þeir á tali við Jesú.
5 Þá tekur Pétur til máls og segir við Jesú: "Rabbí, gott er, að vér erum hér. Gjörum þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina."
6 Hann vissi ekki, hvað hann átti að segja, enda urðu þeir mjög skelfdir.
7 Þá kom ský og skyggði yfir þá, og rödd kom úr skýinu: "Þessi er minn elskaði sonur, hlýðið á hann!"
8 Og snögglega, þegar þeir litu í kring, sáu þeir engan framar hjá sér nema Jesú einan.
9 Á leiðinni ofan fjallið bannaði hann þeim að segja nokkrum frá því, er þeir höfðu séð, fyrr en Mannssonurinn væri risinn upp frá dauðum.
10 Þeir festu orðin í minni og ræddu um, hvað væri að rísa upp frá dauðum.
11 Og þeir spurðu hann: "Hví segja fræðimennirnir, að Elía eigi fyrst að koma?"
12 Hann svaraði þeim: "Víst kemur Elía fyrst og færir allt í lag. En hvernig er ritað um Mannssoninn? Á hann ekki margt að líða og smáður verða?
13 En ég segi yður: Elía er kominn, og þeir gjörðu honum allt, sem þeir vildu, eins og ritað er um hann."
by Icelandic Bible Society