Book of Common Prayer
97 Drottinn er konungur orðinn! jörðin fagni, eyjafjöldinn gleðjist.
2 Ský og sorti eru umhverfis hann, réttlæti og réttvísi eru grundvöllur hásætis hans,
3 eldur fer fyrir honum og bálast umhverfis spor hans.
4 Leiftur hans lýsa um jarðríki, jörðin sér það og nötrar.
5 Björgin bráðna sem vax fyrir Drottni, fyrir Drottni gjörvallrar jarðarinnar.
6 Himnarnir kunngjöra réttlæti hans, og allar þjóðir sjá dýrð hans.
7 Allir skurðgoðadýrkendur verða til skammar, þeir er stæra sig af falsguðunum. Allir guðir falla fram fyrir honum.
8 Síon heyrir það og gleðst, Júdadætur fagna sakir dóma þinna, Drottinn.
9 Því að þú, Drottinn, ert Hinn hæsti yfir gjörvallri jörðunni, þú ert hátt hafinn yfir alla guði.
10 Drottinn elskar þá er hata hið illa, hann verndar sálir dýrkenda sinna, frelsar þá af hendi óguðlegra.
11 Ljós rennur upp réttlátum og gleði hjartahreinum.
12 Gleðjist, þér réttlátir, yfir Drottni, vegsamið hans heilaga nafn.
99 Drottinn er konungur orðinn! Þjóðirnar skjálfi. Hann situr uppi yfir kerúbunum, jörðin nötri.
2 Drottinn er mikill á Síon og hátt upp hafinn yfir alla lýði.
3 Þeir skulu lofa nafn þitt, hið mikla og óttalega. Heilagur er hann!
4 Þú ert voldugur konungur, sem elskar réttinn, þú hefir staðfest réttvísina, rétt og réttlæti hefir þú framið í Jakob.
5 Tignið Drottin, Guð vorn, og fallið fram fyrir fótskör hans. Heilagur er hann!
6 Móse og Aron eru meðal presta hans, Samúel meðal þeirra er ákalla nafn hans, þeir ákalla Drottin og hann bænheyrir þá.
7 Hann talar til þeirra í skýstólpanum, því að þeir gæta vitnisburða hans og laganna, er hann gaf þeim.
8 Drottinn, Guð vor, þú bænheyrir þá, þú reynist þeim fyrirgefandi Guð og sýknar þá af gjörðum þeirra.
9 Tignið Drottin Guð vorn, og fallið fram fyrir hans heilaga fjalli, því að heilagur er Drottinn, Guð vor.
100 Þakkarfórnar-sálmur. Öll veröldin fagni fyrir Drottni!
2 Þjónið Drottni með gleði, komið fyrir auglit hans með fagnaðarsöng!
3 Vitið, að Drottinn er Guð, hann hefir skapað oss, og hans erum vér, lýður hans og gæsluhjörð.
4 Gangið inn um hlið hans með lofsöng, í forgarða hans með sálmum, lofið hann, vegsamið nafn hans.
5 Því að Drottinn er góður, miskunn hans varir að eilífu og trúfesti hans frá kyni til kyns.
94 Drottinn, Guð hefndarinnar, Guð hefndarinnar, birst þú í geisladýrð!
2 Rís þú upp, dómari jarðar, endurgjald ofstopamönnunum það er þeir hafa aðhafst!
3 Hversu lengi, Drottinn, eiga illir menn, hversu lengi, Drottinn, eiga illir menn að fagna?
4 Þeir ausa úr sér drambyrðum, allir illvirkjarnir rembast.
5 Þeir kremja lýð þinn, Drottinn, þjá arfleifð þína,
6 drepa ekkjur og aðkomandi og myrða föðurlausa
7 og segja: "Drottinn sér það ekki, Jakobs Guð tekur eigi eftir því."
8 Takið eftir, þér hinir fíflsku meðal lýðsins, og þér fáráðlingar, hvenær ætlið þér að verða hyggnir?
9 Mun sá eigi heyra, sem eyrað hefir plantað, mun sá eigi sjá, sem augað hefir til búið?
10 Skyldi sá er agar þjóðirnar eigi hegna, hann sem kennir mönnunum þekkingu?
11 Drottinn þekkir hugsanir mannsins, að þær eru einber hégómi.
12 Sæll er sá maður, er þú agar, Drottinn, og fræðir í lögmáli þínu,
13 til þess að hlífa honum við mótlætisdögunum, uns gröf er grafin fyrir óguðlega.
14 Því að Drottinn hrindir eigi burt lýð sínum og yfirgefur eigi arfleifð sína,
15 heldur mun rétturinn hverfa aftur til hins réttláta, og honum munu allir hjartahreinir fylgja.
16 Hver rís upp mér til hjálpar gegn illvirkjunum, hver gengur fram fyrir mig gegn illgjörðamönnunum?
17 Ef Drottinn veitti mér eigi fulltingi, þá mundi sál mín brátt hvíla í dauðaþögn.
18 Þegar ég hugsaði: "Mér skriðnar fótur," þá studdi mig miskunn þín, Drottinn.
19 Þegar miklar áhyggjur lögðust á hjarta mitt, hressti huggun þín sálu mína.
20 Mun dómstóll spillingarinnar vera í bandalagi við þig, hann sem býr öðrum tjón undir yfirskini réttarins?
21 Þeir ráðast á líf hins réttláta og sakfella saklaust blóð.
22 En Drottinn er mér háborg og Guð minn klettur mér til hælis.
23 Hann geldur þeim misgjörð þeirra og afmáir þá í illsku þeirra, Drottinn, Guð vor, afmáir þá.
95 Komið, fögnum fyrir Drottni, látum gleðióp gjalla fyrir kletti hjálpræðis vors.
2 Komum með lofsöng fyrir auglit hans, syngjum gleðiljóð fyrir honum.
3 Því að Drottinn er mikill Guð og mikill konungur yfir öllum guðum.
4 Í hans hendi eru jarðardjúpin, og fjallatindarnir heyra honum til.
5 Hans er hafið, hann hefir skapað það, og hendur hans mynduðu þurrlendið.
6 Komið, föllum fram og krjúpum niður, beygjum kné vor fyrir Drottni, skapara vorum,
7 því að hann er vor Guð, og vér erum gæslulýður hans og hjörð sú, er hann leiðir. Ó að þér í dag vilduð heyra raust hans!
8 Herðið eigi hjörtu yðar eins og hjá Meríba, eins og daginn við Massa í eyðimörkinni,
9 þegar feður yðar freistuðu mín, reyndu mig, þótt þeir sæju verk mín.
10 Í fjörutíu ár hafði ég viðbjóð á þessari kynslóð, og ég sagði: "Þeir eru andlega villtur lýður og þekkja ekki vegu mína."
11 Þess vegna sór ég í reiði minni: "Þeir skulu eigi ganga inn til hvíldar minnar."
29 Og hann bauð þeim og mælti við þá: "Ég safnast nú til míns fólks. Jarðið mig hjá feðrum mínum, í hellinum, sem er í landi Efrons Hetíta,
30 í hellinum, sem er í Makpelalandi og liggur gegnt Mamre í Kanaanlandi og Abraham keypti með akrinum af Efron Hetíta fyrir grafreit.
31 Þar hafa þeir jarðað Abraham og Söru konu hans, þar hafa þeir jarðað Ísak og Rebekku konu hans, og þar hefi ég jarðað Leu.
32 Akurinn og hellirinn, sem á honum er, hafði keyptur verið af Hetítum."
33 Og er Jakob hafði lokið þessum fyrirmælum við sonu sína, lagði hann fætur sína upp í hvíluna og andaðist og safnaðist til síns fólks.
50 Jósef laut þá ofan að andliti föður síns og grét yfir honum og kyssti hann.
2 Og Jósef bauð þjónum sínum, læknunum, að smyrja föður sinn. Og læknarnir smurðu Ísrael,
3 en til þess gengu fjörutíu dagar, því að svo lengi stendur á smurningunni. Og Egyptar syrgðu hann sjötíu daga.
4 Er sorgardagarnir voru liðnir, kom Jósef að máli við hirðmenn Faraós og mælti: "Hafi ég fundið náð í augum yðar, þá berið Faraó þessi orð mín:
5 Faðir minn tók eið af mér og sagði: ,Sjá, nú mun ég deyja. Í gröf minni, sem ég gróf handa mér í Kanaanlandi, skaltu jarða mig.` Leyf mér því að fara og jarða föður minn. Að því búnu skal ég koma aftur."
6 Og Faraó sagði: "Far þú og jarða föður þinn, eins og hann lét þig vinna eið að."
7 Og Jósef fór að jarða föður sinn, og með honum fóru allir þjónar Faraós, öldungar hirðarinnar og allir öldungar Egyptalands
8 og allir heimilismenn Jósefs, svo og bræður hans og heimilismenn föður hans. Aðeins létu þeir börn sín, sauði sína og nautgripi eftir verða í Gósenlandi.
9 Í för með honum voru vagnar og riddarar, og var það stórmikið föruneyti.
10 En er þeir komu til Góren-haatad, sem er hinumegin við Jórdan, þá hófu þeir þar harmakvein mikið og hátíðlegt mjög, og hann hélt sorgarhátíð eftir föður sinn í sjö daga.
11 Og er landsbúar, Kanaanítar, sáu sorgarhátíðina í Góren-haatad, sögðu þeir: "Þar halda Egyptar mikla sorgarhátíð." Fyrir því var sá staður nefndur Abel Mísraím. Liggur hann hinumegin við Jórdan.
12 Synir hans gjörðu svo við hann sem hann hafði boðið þeim.
13 Og synir hans fluttu hann til Kanaanlands og jörðuðu hann í helli Makpelalands, sem Abraham hafði keypt ásamt akrinum fyrir grafreit af Efron Hetíta, gegnt Mamre.
14 Og Jósef fór aftur til Egyptalands, er hann hafði jarðað föður sinn, hann og bræður hans og allir, sem með honum höfðu farið að jarða föður hans.
17 En um leið og ég áminni um þetta, get ég ekki hrósað yður fyrir samkomur yðar, sem eru fremur til ills en góðs.
18 Í fyrsta lagi heyri ég, að flokkadráttur eigi sér stað á meðal yðar, er þér komið saman á safnaðarsamkomum, og því trúi ég að nokkru leyti.
19 Víst verður að vera flokkaskipting á meðal yðar, til þess að þeir yðar þekkist úr, sem hæfir eru.
20 Þegar þér komið saman er það ekki til þess að neyta máltíðar Drottins,
21 því að við borðhaldið hrifsar hver sína máltíð, svo einn er hungraður, en annar drekkur sig ölvaðan.
22 Hafið þér þá ekki hús til að eta og drekka í? Eða fyrirlítið þér söfnuð Guðs og gjörið þeim kinnroða, sem ekkert eiga? Hvað á ég að segja við yður? Á ég að hæla yður fyrir þetta? Nei, ég hæli yður ekki.
23 Því að ég hef meðtekið frá Drottni það, sem ég hef kennt yður: Nóttina, sem Drottinn Jesús var svikinn, tók hann brauð,
24 gjörði þakkir, braut það og sagði: "Þetta er minn líkami, sem er fyrir yður. Gjörið þetta í mína minningu."
25 Sömuleiðis tók hann og bikarinn eftir kvöldmáltíðina og sagði: "Þessi bikar er hinn nýi sáttmáli í mínu blóði. Gjörið þetta, svo oft sem þér drekkið, í mína minningu."
26 Svo oft sem þér etið þetta brauð og drekkið af bikarnum, boðið þér dauða Drottins, þangað til hann kemur.
27 Hver sem etur brauðið eða drekkur bikar Drottins óverðuglega, verður þess vegna sekur við líkama og blóð Drottins.
28 Hver maður prófi sjálfan sig og eti síðan af brauðinu og drekki af bikarnum.
29 Því að sá sem etur og drekkur án þess að dæma rétt um líkamann, hann etur og drekkur sjálfum sér til dóms.
30 Fyrir því eru svo margir sjúkir og krankir á meðal yðar, og allmargir deyja.
31 Ef vér dæmdum um sjálfa oss, yrðum vér ekki dæmdir.
32 En fyrst Drottinn dæmir oss, þá er hann að aga oss til þess að vér verðum ekki dæmdir sekir ásamt heiminum.
33 Fyrir því skuluð þér bíða hver eftir öðrum, bræður mínir, þegar þér komið saman til að matast.
34 Ef nokkur er hungraður, þá eti hann heima, til þess að samkomur yðar verði yður ekki til dóms. Annað mun ég segja til um, þegar ég kem.
8 Um þessar mundir bar enn svo við, að mikill mannfjöldi var saman kominn og hafði ekkert til matar. Jesús kallar þá til sín lærisveinana og segir við þá:
2 "Ég kenni í brjósti um mannfjöldann. Þeir hafa nú hjá mér verið þrjá daga og hafa ekkert til matar.
3 Láti ég þá fara fastandi heim til sín, örmagnast þeir á leiðinni, en sumir þeirra eru langt að."
4 Þá svöruðu lærisveinarnir: "Hvar er hægt að fá brauð til að metta þetta fólk hér í óbyggðum?"
5 Hann spurði þá: "Hve mörg brauð hafið þér?" Þeir sögðu: "Sjö."
6 Þá bauð hann fólkinu að setjast á jörðina, tók brauðin sjö, gjörði þakkir og braut þau og gaf lærisveinum sínum, að þeir bæru þau fram. En þeir báru þau fram fyrir fólkið.
7 Þeir höfðu og fáeina smáfiska. Hann þakkaði Guði og bauð, að einnig þeir skyldu fram bornir.
8 Menn neyttu og urðu mettir. Síðan tóku þeir saman leifarnar, sjö körfur.
9 En þeir voru um fjórar þúsundir. Síðan lét hann þá fara.
10 Og hann sté þegar í bátinn með lærisveinum sínum og kom í Dalmanútabyggðir.
by Icelandic Bible Society