Book of Common Prayer
89 Etans-maskíl Esraíta.
2 Um náðarverk Drottins vil ég syngja að eilífu, kunngjöra trúfesti þína með munni mínum frá kyni til kyns,
3 því að ég hefi sagt: Náð þín er traust að eilífu, á himninum grundvallaðir þú trúfesti þína.
4 Ég hefi gjört sáttmála við minn útvalda, unnið Davíð þjóni mínum svolátandi eið:
5 "Ég vil staðfesta ætt þína að eilífu, reisa hásæti þitt frá kyni til kyns." [Sela]
6 Þá lofuðu himnarnir dásemdarverk þín, Drottinn, og söfnuður heilagra trúfesti þína.
7 Því að hver er í himninum jafn Drottni, hver er líkur Drottni meðal guðasonanna?
8 Guð er ægilegur í hópi heilagra, mikill er hann og óttalegur öllum þeim, sem eru umhverfis hann.
9 Drottinn, Guð hersveitanna, hver er sem þú? Þú ert voldugur, Drottinn, og trúfesti þín er umhverfis þig.
10 Þú ræður yfir ofstopa hafsins, þegar öldur þess hefjast, stöðvar þú þær.
11 Þú knosaðir skrímslið eins og veginn mann, með þínum volduga armi tvístraðir þú óvinum þínum.
12 Þinn er himinninn, þín er og jörðin, þú hefir grundvallað veröldina og allt sem í henni er.
13 Þú hefir skapað norðrið og suðrið, Tabor og Hermon fagna yfir nafni þínu.
14 Þú hefir máttugan armlegg, hönd þín er sterk, hátt upphafin hægri hönd þín.
15 Réttlæti og réttvísi er grundvöllur hásætis þíns, miskunn og trúfesti ganga frammi fyrir þér.
16 Sæll er sá lýður, sem þekkir fagnaðarópið, sem gengur í ljósi auglitis þíns, Drottinn.
17 Þeir gleðjast yfir nafni þínu alla daga og fagna yfir réttlæti þínu,
18 því að þú ert þeirra máttug prýði, og sakir velþóknunar þinnar munt þú hefja horn vort,
19 því að Drottni heyrir skjöldur vor, konungur vor Hinum heilaga í Ísrael.
20 Þá talaðir þú í sýn til dýrkanda þíns og sagðir: "Ég hefi sett kórónu á kappa, ég hefi upphafið útvaldan mann af lýðnum.
21 Ég hefi fundið Davíð þjón minn, smurt hann með minni heilögu olíu.
22 Hönd mín mun gjöra hann stöðugan og armleggur minn styrkja hann.
23 Óvinurinn skal eigi ráðast að honum, og ekkert illmenni skal kúga hann,
24 heldur skal ég gjöra út af við fjendur hans að honum ásjáandi, og hatursmenn hans skal ég ljósta.
25 Trúfesti mín og miskunn skulu vera með honum, og fyrir sakir nafns míns skal horn hans gnæfa hátt.
26 Ég legg hönd hans á hafið og hægri hönd hans á fljótin.
27 Hann mun segja við mig: Þú ert faðir minn, Guð minn og klettur hjálpræðis míns.
28 Og ég vil gjöra hann að frumgetning, að hinum hæsta meðal konunga jarðarinnar.
29 Ég vil varðveita miskunn mína við hann að eilífu, og sáttmáli minn við hann skal stöðugur standa.
30 Ég læt niðja hans haldast við um aldur og hásæti hans meðan himinninn er til.
31 Ef synir hans hafna lögmáli mínu og ganga eigi eftir boðum mínum,
32 ef þeir vanhelga lög mín og varðveita eigi boðorð mín,
33 þá vil ég vitja afbrota þeirra með vendinum og misgjörða þeirra með plágum,
34 en miskunn mína mun ég ekki frá honum taka og eigi bregða trúfesti minni.
35 Ég vil eigi vanhelga sáttmála minn og eigi breyta því, er mér hefir af vörum liðið.
36 Ég hefi einu sinni svarið við heilagleik minn og mun aldrei svíkja Davíð:
37 Niðjar hans skulu haldast við um aldur og hásæti hans sem sólin fyrir mér.
38 Það skal standa stöðugt að eilífu sem tunglið, svo sannarlega sem áreiðanlegt vitni er á himnum." [Sela]
39 Og þó hefir þú útskúfað og hafnað og reiðst þínum smurða.
40 Þú hefir riftað sáttmálanum við þjón þinn, vanhelgað kórónu hans og fleygt henni til jarðar.
41 Þú hefir brotið niður alla múrveggi hans og lagt virki hans í eyði.
42 Allir vegfarendur ræna hann, hann er til háðungar orðinn nágrönnum sínum.
43 Þú hefir hafið hægri hönd fjenda hans, glatt alla óvini hans.
44 Þú hefir og látið sverðseggjar hans hörfa undan og eigi látið hann standast í bardaganum.
45 Þú hefir látið endi á verða vegsemd hans og hrundið hásæti hans til jarðar.
46 Þú hefir stytt æskudaga hans og hulið hann skömm. [Sela]
47 Hversu lengi, Drottinn, ætlar þú að dyljast, á reiði þín ætíð að brenna sem eldur?
48 Minnst þú, Drottinn, hvað ævin er, til hvílíks hégóma þú hefir skapað öll mannanna börn.
49 Hver er sá, er lifi og sjái eigi dauðann, sá er bjargi sálu sinni úr greipum Heljar. [Sela]
50 Hvar eru þín fyrri náðarverk, ó Drottinn, þau er þú í trúfesti þinni sórst Davíð?
51 Minnst, ó Drottinn, háðungar þjóna þinna, að ég verð að bera í skauti smánan margra þjóða,
52 er óvinir þínir, Drottinn, smána mig með, smána fótspor þíns smurða. _________
53 Lofaður sé Drottinn að eilífu. Amen. Amen.
49 Þá lét Jakob kalla sonu sína og mælti: "Safnist saman, að ég megi birta yður það, sem fyrir yður liggur á komandi tímum."
2 Skipist saman og hlýðið á, synir Jakobs, hlýðið á Ísrael föður yðar!
3 Rúben, þú ert frumgetningur minn, kraftur minn og frumgróði styrkleika míns, fremstur að virðingum og fremstur að völdum.
4 En þar eð þú ólgar sem vatnið, skalt þú eigi fremstur vera, því að þú gekkst í hvílu föður þíns. Þá flekkaðir þú hana, gekkst í hjónasæng mína!
5 Símeon og Leví eru bræður, tól ofbeldis eru sverð þeirra.
6 Sál mín komi ekki á ráðstefnu þeirra, sæmd mín hafi eigi félagsskap við söfnuð þeirra, því að í reiði sinni drápu þeir menn, og í ofsa sínum skáru þeir á hásinar nautanna.
7 Bölvuð sé reiði þeirra, því að hún var römm, og bræði þeirra, því að hún var grimm. Ég vil dreifa þeim í Jakob og tvístra þeim í Ísrael.
8 Júda, þig munu bræður þínir vegsama. Hönd þín mun vera á hálsi óvina þinna, synir föður þíns skulu lúta þér.
9 Júda er ljónshvolpur, frá bráðinni ert þú stiginn upp, sonur minn. Hann leggst niður, hann hvílist sem ljón og sem ljónynja, hver þorir að reka hann á fætur?
10 Ekki mun veldissprotinn víkja frá Júda, né ríkisvöndurinn frá fótum hans, uns sá kemur, er valdið hefur, og þjóðirnar ganga honum á hönd.
11 Hann bindur við víntré ösnufola sinn, við gæðavínvið son ösnu sinnar, hann þvær klæði sín í víni og möttul sinn í vínberjablóði.
12 Vínmóða er í augum hans og tennur hans hvítar af mjólk.
13 Sebúlon mun búa við sjávarströndina, við ströndina þar sem skipin liggja, og land hans vita að Sídon.
14 Íssakar er beinasterkur asni, sem liggur á milli fjárgirðinganna.
15 Og hann sá, að hvíldin var góð og að landið var unaðslegt, og hann beygði herðar sínar undir byrðar og varð vinnuskyldur þræll.
16 Dan mun rétta hluta þjóðar sinnar sem hver önnur Ísraels ættkvísl.
17 Dan verður höggormur á veginum og naðra í götunni, sem hælbítur hestinn, svo að reiðmaðurinn fellur aftur á bak.
18 Þinni hjálp treysti ég, Drottinn!
19 Gað _ ræningjaflokkur fer að honum, en hann rekur þá á flótta.
20 Asser _ feit er fæða hans, og hann veitir konungakrásir.
21 Naftalí er rásandi hind, frá honum koma fegurðarorð.
22 Jósef er ungur aldinviður, ungur aldinviður við uppsprettulind, greinar hans teygja sig upp yfir múrinn.
23 Bogmenn veittust að honum, skutu að honum og ofsóttu hann,
24 en bogi hans reyndist stinnur, og handleggir hans voru fimir. Sá styrkur kom frá Jakobs Volduga, frá Hirðinum, Hellubjargi Ísraels,
25 frá Guði föður þíns, sem mun hjálpa þér, frá Almáttugum Guði, sem mun blessa þig með blessun himinsins að ofan, með blessun djúpsins, er undir hvílir, með blessun brjósta og móðurlífs.
26 Blessunin, sem faðir þinn hlaut, gnæfði hærra en hin öldnu fjöll, hærra en unaður hinna eilífu hæða. Hún komi yfir höfuð Jósefs og í hvirfil hans, sem er höfðingi meðal bræðra sinna.
27 Benjamín er úlfur, sem sundurrífur. Á morgnana etur hann bráð, og á kveldin skiptir hann herfangi.
28 Allir þessir eru tólf kynþættir Ísraels, og þetta er það, sem faðir þeirra talaði við þá. Jakob blessaði þá, sérhvern blessaði hann með þeirri blessun, er honum bar.
14 Fyrir því, mínir elskuðu, flýið skurðgoðadýrkunina.
15 Ég tala til yðar sem skynsamra manna. Dæmið þér um það, sem ég segi.
16 Sá bikar blessunarinnar, sem vér blessum, er hann ekki samfélag um blóð Krists? Og brauðið, sem vér brjótum, er það ekki samfélag um líkama Krists?
17 Af því að brauðið er eitt, erum vér hinir mörgu einn líkami, því að vér höfum allir hlutdeild í hinu eina brauði.
18 Lítið á Ísraelsþjóðina. Eiga þeir, sem fórnirnar eta, ekki hlut í altarinu?
19 Hvað segi ég þá? Að kjöt fórnað skurðgoðum sé nokkuð? Eða skurðgoð sé nokkuð?
20 Nei, heldur að það sem heiðingjarnir blóta, það blóta þeir illum öndum, en ekki Guði. En ég vil ekki, að þér hafið samfélag við illa anda.
21 Ekki getið þér drukkið bikar Drottins og bikar illra anda. Ekki getið þér tekið þátt í borðhaldi Drottins og borðhaldi illra anda.
22 Eða eigum vér að reita Drottin til reiði? Munum vér vera máttugri en hann?
23 Allt er leyfilegt, en ekki er allt gagnlegt. Allt er leyfilegt, en ekki byggir allt upp.
24 Enginn hyggi að eigin hag, heldur hag annarra.
25 Allt það, sem selt er á kjöttorginu, getið þér etið án nokkurra eftirgrennslana vegna samviskunnar.
26 Því að jörðin er Drottins og allt, sem á henni er.
27 Ef einhver hinna vantrúuðu býður yður og ef þér viljið fara, þá etið af öllu því, sem fyrir yður er borið, án eftirgrennslana vegna samviskunnar.
28 En ef einhver segir við yður: "Þetta er fórnarkjöt!" þá etið ekki, vegna þess, er gjörði viðvart, og vegna samviskunnar.
29 Samviskunnar, segi ég, ekki eigin samvisku, heldur samvisku hins. En hvers vegna skyldi frelsi mitt eiga að dæmast af samvisku annars?
30 Ef ég neyti fæðunnar með þakklæti, hvers vegna skyldi ég sæta lasti fyrir það, sem ég þakka fyrir?
31 Hvort sem þér því etið eða drekkið eða hvað sem þér gjörið, þá gjörið það allt Guði til dýrðar.
32 Verið hvorki Gyðingum né Grikkjum né kirkju Guðs til ásteytingar.
33 Ég fyrir mitt leyti reyni í öllu að þóknast öllum og hygg ekki að eigin hag, heldur hag hinna mörgu, til þess að þeir verði hólpnir.
11 Verið eftirbreytendur mínir eins og ég er eftirbreytandi Krists.
24 Hann tók sig upp þaðan og hélt til byggða Týrusar. Þar fór hann inn í hús og vildi engan láta vita. En eigi fékk hann dulist.
25 Kona ein frétti þegar af honum og kom og féll honum til fóta, en dóttir hennar hafði óhreinan anda.
26 Konan var heiðin, ættuð úr Fönikíu sýrlensku. Hún bað hann að reka illa andann út af dóttur sinni.
27 Hann sagði við hana: "Lofaðu börnunum að seðjast fyrst, ekki sæmir að taka brauð barnanna og kasta því fyrir hundana."
28 Hún svaraði honum: "Satt er það, herra, þó eta hundarnir undir borðinu af molum barnanna."
29 Og hann sagði við hana: "Vegna þessara orða skaltu heim snúa, illi andinn er farinn úr dóttur þinni."
30 Hún fór heim, fann barnið liggjandi á rúminu, og illi andinn var farinn.
31 Síðan hélt hann úr Týrusarbyggðum, um Sídon og yfir Dekapólisbyggðir miðjar til Galíleuvatns.
32 Þá færa þeir til hans mann, daufan og málhaltan, og biðja hann að leggja hönd sína yfir hann.
33 Jesús leiddi hann afsíðis frá fólkinu, stakk fingrum sínum í eyru honum og vætti tungu hans með munnvatni sínu.
34 Þá leit hann upp til himins, andvarpaði og sagði við hann: "Effaþa," það er: Opnist þú.
35 Og eyru hans opnuðust, og haft tungu hans losnaði, og hann talaði skýrt.
36 Jesús bannaði þeim að segja þetta neinum, en svo mjög sem hann bannaði þeim, því frekar sögðu þeir frá því.
37 Menn undruðust næsta mjög og sögðu: "Allt gjörir hann vel, daufa lætur hann heyra og mállausa mæla."
by Icelandic Bible Society