Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 95

95 Komið, fögnum fyrir Drottni, látum gleðióp gjalla fyrir kletti hjálpræðis vors.

Komum með lofsöng fyrir auglit hans, syngjum gleðiljóð fyrir honum.

Því að Drottinn er mikill Guð og mikill konungur yfir öllum guðum.

Í hans hendi eru jarðardjúpin, og fjallatindarnir heyra honum til.

Hans er hafið, hann hefir skapað það, og hendur hans mynduðu þurrlendið.

Komið, föllum fram og krjúpum niður, beygjum kné vor fyrir Drottni, skapara vorum,

því að hann er vor Guð, og vér erum gæslulýður hans og hjörð sú, er hann leiðir. Ó að þér í dag vilduð heyra raust hans!

Herðið eigi hjörtu yðar eins og hjá Meríba, eins og daginn við Massa í eyðimörkinni,

þegar feður yðar freistuðu mín, reyndu mig, þótt þeir sæju verk mín.

10 Í fjörutíu ár hafði ég viðbjóð á þessari kynslóð, og ég sagði: "Þeir eru andlega villtur lýður og þekkja ekki vegu mína."

11 Þess vegna sór ég í reiði minni: "Þeir skulu eigi ganga inn til hvíldar minnar."

Sálmarnir 88

88 Ljóð. Kóraíta-sálmur. Til söngstjórans. Syngist með Makalat-lagi. Hemans-maskíl Esraíta.

Drottinn, Guð minn, ég kalla um daga, um nætur hrópa ég frammi fyrir þér.

Lát bæn mína koma fyrir þig, hneig eyra að hrópi mínu,

því að sál mín er mett orðin af böli, og líf mitt nálægist Hel.

Ég er talinn með þeim, sem gengnir eru til grafar, ég er sem magnþrota maður.

Mér er fenginn bústaður með framliðnum, eins og vegnum mönnum, er liggja í gröfinni, er þú minnist eigi framar, því að þeir eru hrifnir burt úr hendi þinni.

Þú hefir lagt mig í gryfju undirheima, í myrkrið niðri í djúpinu.

Reiði þín hvílir á mér, og alla boða þína hefir þú látið skella á mér. [Sela]

Þú hefir fjarlægt frá mér kunningja mína, gjört mig að andstyggð í augum þeirra. Ég er byrgður inni og kemst ekki út,

10 augu mín eru döpruð af eymd. Ég ákalla þig, Drottinn, dag hvern, breiði út hendurnar í móti þér.

11 Gjörir þú furðuverk vegna framliðinna, eða munu hinir dauðu rísa upp til þess að lofa þig? [Sela]

12 Er sagt frá miskunn þinni í gröfinni, frá trúfesti þinni í undirdjúpunum?

13 Eru furðuverk þín kunngjörð í myrkrinu eða réttlæti þitt í landi gleymskunnar?

14 En ég hrópa til þín, Drottinn, og á morgnana kemur bæn mín fyrir þig.

15 Hví útskúfar þú, Drottinn, sálu minni, hylur auglit þitt fyrir mér?

16 Ég er hrjáður og aðþrengdur frá æsku, ég ber skelfingar þínar og er ráðþrota.

17 Reiðiblossar þínir ganga yfir mig, ógnir þínar eyða mér.

18 Þær umkringja mig eins og vötn allan liðlangan daginn, lykja um mig allar saman.

19 Þú hefir fjarlægt frá mér ástvini og félaga og gjört myrkrið að kunningja mínum.

Sálmarnir 91-92

91 Sæll er sá, er situr í skjóli Hins hæsta, sá er gistir í skugga Hins almáttka,

sá er segir við Drottin: "Hæli mitt og háborg, Guð minn, er ég trúi á!"

Hann frelsar þig úr snöru fuglarans, frá drepsótt glötunarinnar,

hann skýlir þér með fjöðrum sínum, undir vængjum hans mátt þú hælis leita, trúfesti hans er skjöldur og verja.

Eigi þarft þú að óttast ógnir næturinnar, eða örina, sem flýgur um daga,

drepsóttina, er reikar um í dimmunni, eða sýkina, er geisar um hádegið.

Þótt þúsund falli þér við hlið og tíu þúsund þér til hægri handar, þá nær það ekki til þín.

Þú horfir aðeins á með augunum, sér hversu óguðlegum er endurgoldið.

Þitt hæli er Drottinn, þú hefir gjört Hinn hæsta að athvarfi þínu.

10 Engin ógæfa hendir þig, og engin plága nálgast tjald þitt.

11 Því að þín vegna býður hann út englum sínum til þess að gæta þín á öllum vegum þínum.

12 Þeir munu bera þig á höndum sér, til þess að þú steytir ekki fót þinn við steini.

13 Þú skalt stíga ofan á höggorma og nöðrur, troða fótum ljón og dreka.

14 "Af því að hann leggur ást á mig, mun ég frelsa hann, ég bjarga honum, af því að hann þekkir nafn mitt.

15 Ákalli hann mig, mun ég bænheyra hann, ég er hjá honum í neyðinni, ég frelsa hann og gjöri hann vegsamlegan.

16 Ég metta hann með fjöld lífdaga og læt hann sjá hjálpræði mitt."

92 Gott er að lofa Drottin og lofsyngja nafni þínu, þú Hinn hæsti,

að kunngjöra miskunn þína að morgni og trúfesti þína um nætur

á tístrengjað hljóðfæri og hörpu með strengjaleik gígjunnar.

Þú hefir glatt mig, Drottinn, með dáð þinni, yfir handaverkum þínum fagna ég.

Hversu mikil eru verk þín, Drottinn, harla djúpar hugsanir þínar.

Fíflið eitt skilur eigi, og fáráðlingurinn einn skynjar eigi þetta.

Þegar óguðlegir greru sem gras og allir illgjörðamennirnir blómguðust, þá var það til þess að þeir skyldu afmáðir verða að eilífu,

en þú sem ert á hæðum, ert til að eilífu, Drottinn.

Því sjá, óvinir þínir, Drottinn, því sjá, óvinir þínir farast, allir illgjörðamennirnir tvístrast.

10 En mig lætur þú bera hornið hátt eins og vísundinn, mig hressir þú með ferskri olíu.

11 Auga mitt lítur með gleði á fjandmenn mína, eyra mitt heyrir með gleði um níðingana, er rísa gegn mér.

12 Hinir réttlátu gróa sem pálminn, vaxa sem sedrustréð á Líbanon.

13 Þeir eru gróðursettir í húsi Drottins, gróa í forgörðum Guðs vors.

14 Jafnvel í hárri elli bera þeir ávöxt, þeir eru safamiklir og grænir.

15 Þeir kunngjöra, að Drottinn er réttlátur, klettur minn, sem ekkert ranglæti er hjá.

Fyrsta bók Móse 47:1-26

47 Því næst gekk Jósef fyrir Faraó, sagði honum frá og mælti: "Faðir minn og bræður mínir eru komnir úr Kanaanlandi með sauði sína og nautgripi og allt, sem þeir eiga, og eru nú í Gósenlandi."

En hann hafði tekið fimm af bræðrum sínum með sér og leiddi þá fyrir Faraó.

Þá mælti Faraó við bræður Jósefs: "Hver er atvinna yðar?" Og þeir svöruðu Faraó: "Þjónar þínir eru hjarðmenn, bæði vér og feður vorir."

Og þeir sögðu við Faraó: "Vér erum komnir til að staðnæmast um hríð í landinu, því að enginn hagi er fyrir sauði þjóna þinna, af því að hallærið er mikið í Kanaanlandi. Leyf því þjónum þínum að búa í Gósenlandi."

Faraó sagði við Jósef: "Faðir þinn og bræður þínir eru komnir til þín.

Egyptaland er þér heimilt, lát þú föður þinn og bræður þína búa þar sem landkostir eru bestir. Búi þeir í Gósenlandi, og ef þú þekkir nokkra duglega menn meðal þeirra, þá fel þeim yfirumsjón hjarða minna."

Þá fór Jósef inn með Jakob föður sinn og leiddi hann fyrir Faraó. Og Jakob heilsaði Faraó með blessunaróskum.

Og Faraó sagði við Jakob: "Hversu gamall ert þú?"

Og Jakob svaraði Faraó: "Vegferðartími minn er hundrað og þrjátíu ár. Fáir og illir hafa dagar lífs míns verið og ná ekki þeirri áratölu, er feður mínir náðu á vegferð sinni."

10 Síðan kvaddi Jakob Faraó með blessunaróskum og gekk út frá honum.

11 Og Jósef fékk föður sínum og bræðrum bústaði og gaf þeim fasteign í Egyptalandi, þar sem bestir voru landkostir, í Ramseslandi, eins og Faraó hafði boðið.

12 Og Jósef sá föður sínum og bræðrum sínum og öllu skylduliði föður síns fyrir viðurværi eftir tölu barnanna.

13 Algjör skortur var á neyslukorni um allt landið, því að hallærið var mjög mikið, og Egyptaland og Kanaanland voru að þrotum komin af hungrinu.

14 Og Jósef dró saman allt það silfur, sem til var í Egyptalandi og Kanaanlandi, fyrir kornið, sem þeir keyptu, og Jósef skilaði silfrinu í hús Faraós.

15 Og er silfur þraut í Egyptalandi og í Kanaanlandi, þá komu allir Egyptar til Jósefs og sögðu: "Lát oss fá brauð! _ hví skyldum vér deyja fyrir augum þér? _ því að silfur þrýtur."

16 Og Jósef mælti: "Komið hingað með fénað yðar, ég skal gefa yður korn til neyslu fyrir fénað yðar, ef silfur þrýtur."

17 Þá fóru þeir með fénað sinn til Jósefs, og hann lét þá fá neyslukorn fyrir hestana, sauðféð, nautpeninginn og asnana, og hann birgði þá upp með korni það árið fyrir allan fénað þeirra.

18 Og er það árið var liðið, komu þeir til hans næsta ár og sögðu við hann: "Eigi viljum vér leyna herra vorn því, að silfrið er allt þrotið og kvikfénaður vor er orðinn eign herra vors. Nú er ekki annað eftir handa herra vorum en líkamir vorir og ekrur vorar.

19 Hví skyldum vér farast fyrir augsýn þinni, bæði vér og ekrur vorar? Kaup þú oss og ekrur vorar fyrir brauð, þá viljum vér með ekrum vorum vera þrælar Faraós, og gef þú oss sáðkorn, að vér megum lífi halda og ekki deyja og ekrurnar leggist ekki í auðn."

20 Þá keypti Jósef allar ekrur Egypta handa Faraó, því að Egyptar seldu hver sinn akur, þar eð hungrið svarf að þeim. Og þannig eignaðist Faraó landið.

21 Og landslýðinn gjörði hann að þrælum frá einum enda Egyptalands til annars.

22 Ekrur prestanna einar keypti hann ekki, því að prestarnir höfðu ákveðnar tekjur frá Faraó og þeir lifðu af hinum ákveðnu tekjum sínum, sem Faraó gaf þeim. Fyrir því seldu þeir ekki ekrur sínar.

23 Þá sagði Jósef við lýðinn: "Sjá, nú hefi ég keypt yður og ekrur yðar Faraó til handa. Hér er sáðkorn handa yður, og sáið nú ekrurnar.

24 En af ávextinum skuluð þér skila Faraó fimmta hluta, en hina fjóra fimmtuhlutana skuluð þér hafa til þess að sá akrana, og yður til viðurlífis og heimafólki yðar og börnum yðar til framfærslu."

25 Og þeir svöruðu: "Þú hefir haldið í oss lífinu. Lát oss finna náð í augum þínum, herra minn, og þá viljum vér vera þrælar Faraós."

26 Og Jósef leiddi það í lög, sem haldast allt til þessa dags, að Faraó skyldi fá fimmta hlutann af akurlendi Egypta. Ekrur prestanna einar urðu ekki eign Faraós.

Fyrra bréf Páls til Korin 9:16-27

16 Þótt ég sé að boða fagnaðarerindið, þá er það mér ekki neitt hrósunarefni, því að skyldukvöð hvílir á mér. Já, vei mér, ef ég boðaði ekki fagnaðarerindið.

17 Því að gjöri ég þetta af frjálsum vilja, þá fæ ég laun, en gjöri ég það tilknúður, þá hefur mér verið trúað fyrir ráðsmennsku.

18 Hver eru þá laun mín? Að ég boða fagnaðarerindið án endurgjalds og hagnýti mér ekki það, sem ég á rétt á.

19 Þótt ég sé öllum óháður, hef ég gjört sjálfan mig að þræli allra, til þess að ávinna sem flesta.

20 Ég hef verið Gyðingunum sem Gyðingur, til þess að ávinna Gyðinga. Þeim, sem eru undir lögmálinu, hef ég verið eins og sá, sem er undir lögmálinu, enda þótt ég sjálfur sé ekki undir lögmálinu, til þess að ávinna þá, sem eru undir lögmálinu.

21 Hinum lögmálslausu hef ég verið sem lögmálslaus, þótt ég sé ekki laus við lögmál Guðs, heldur bundinn lögmáli Krists, til þess að ávinna hina lögmálslausu.

22 Hinum óstyrku hef ég verið óstyrkur til þess að ávinna hina óstyrku. Ég hef verið öllum allt, til þess að ég geti að minnsta kosti frelsað nokkra.

23 Ég gjöri allt vegna fagnaðarerindisins, til þess að ég fái hlutdeild með því.

24 Vitið þér ekki, að þeir, sem keppa á íþróttavelli, hlaupa að sönnu allir, en einn fær sigurlaunin? Hlaupið þannig, að þér hljótið þau.

25 Sérhver, sem tekur þátt í kappleikjum, neitar sér um allt. Þeir sem keppa gjöra það til þess að hljóta forgengilegan sigursveig, en vér óforgengilegan.

26 Þess vegna hleyp ég ekki stefnulaust. Ég berst eins og hnefaleikamaður, sem engin vindhögg slær.

27 Ég leik líkama minn hart og gjöri hann að þræli mínum, til þess að ég, sem hef prédikað fyrir öðrum, skuli ekki sjálfur verða gjörður rækur.

Markúsarguðspjall 6:47-56

47 Þegar kvöld var komið, var báturinn á miðju vatni, en hann einn á landi.

48 Hann sá, að þeim var þungur róðurinn, því að vindur var á móti þeim, og er langt var liðið nætur kemur hann til þeirra, gangandi á vatninu, og ætlar fram hjá þeim.

49 Þegar þeir sáu hann ganga á vatninu, hugðu þeir, að þar færi vofa, og æptu upp yfir sig.

50 Því að allir sáu þeir hann og varð þeim bilt við. En Jesús mælti jafnskjótt til þeirra: "Verið hughraustir, það er ég, verið óhræddir."

51 Og hann sté í bátinn til þeirra og lægði þá vindinn. Og þeir urðu öldungis agndofa,

52 enda höfðu þeir ekki skilið það, sem gjörst hafði með brauðin, hjörtu þeirra voru blind.

53 Þegar þeir höfðu náð yfir um, komu þeir að landi við Genesaret og lögðu þar að.

54 Um leið og þeir stigu úr bátnum, þekktu menn hann.

55 Og fólk tók að streyma fram og aftur um allt það hérað og bera sjúklinga í burðarrekkjum hvert þangað, sem þeir heyrðu, að hann væri.

56 Og hvar sem hann kom í þorp, borgir eða á bæi, lögðu menn sjúka á torgin og báðu hann, að þeir fengju rétt að snerta fald klæða hans, og allir þeir, sem snertu hann, urðu heilir.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society