Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 83

83 Ljóð. Asafs-sálmur.

Guð, ver eigi hljóður, ver eigi þögull og hald eigi kyrru fyrir, ó Guð!

Því sjá, óvinir þínir gjöra hark, og hatursmenn þínir hefja höfuðið,

þeir bregða á slæg ráð gegn lýð þínum, bera ráð sín saman gegn þeim er þú geymir.

Þeir segja: "Komið, látum oss uppræta þá, svo að þeir séu ekki þjóð framar, og nafns Ísraels verði eigi framar minnst!"

Því að þeir hafa einhuga borið saman ráð sín, gegn þér hafa þeir gjört bandalag:

Edómtjöld og Ísmaelítar, Móab og Hagrítar,

Gebal, Ammon og Amalek, Filistea ásamt Týrusbúum.

Assúr hefir einnig gjört bandalag við þá og ljær armlegg sinn Lots-sonum. [Sela]

10 Far með þá eins og Midían, eins og Sísera, eins og Jabín við Kísonlæk,

11 þeim var útrýmt hjá Endór, urðu að áburði á jörðina.

12 Gjör þá, göfugmenni þeirra, eins og Óreb og Seeb, og alla höfðingja þeirra eins og Seba og Salmúna,

13 þá er sögðu: "Vér viljum kasta eign vorri á vengi Guðs."

14 Guð vor, gjör þá sem rykmökk, sem hálmleggi fyrir vindi.

15 Eins og eldur, sem brennir skóginn, eins og logi, sem bálast upp um fjöllin,

16 svo skalt þú elta þá með ofviðri þínu, skelfa þá með fellibyl þínum.

17 Lát andlit þeirra fyllast sneypu, að þeir megi leita nafns þíns, Drottinn!

18 Lát þá verða til skammar og skelfast um aldur, lát þá sæta háðung og tortímast,

19 að þeir megi komast að raun um, að þú einn heitir Drottinn, Hinn hæsti yfir allri jörðunni.

Sálmarnir 42-43

42 Til söngstjórans. Kóraítamaskíl.

Eins og hindin, sem þráir vatnslindir, þráir sál mín þig, ó Guð.

Sál mína þyrstir eftir Guði, hinum lifanda Guði. Hvenær mun ég fá að koma og birtast fyrir augliti Guðs?

Tár mín urðu fæða mín dag og nótt, af því menn segja við mig allan daginn: "Hvar er Guð þinn?"

Um það vil ég hugsa og úthella sál minni, sem í mér er, hversu ég gekk fram í mannþrönginni, leiddi þá til Guðs húss með fagnaðarópi og lofsöng, með hátíðaglaumi.

Hví ert þú beygð, sál mín, og ólgar í mér? Vona á Guð, því að enn mun ég fá að lofa hann, hjálpræði auglitis míns og Guð minn.

Guð minn, sál mín er beygð í mér, fyrir því vil ég minnast þín frá Jórdan- og Hermonlandi, frá litla fjallinu.

Eitt flóðið kallar á annað, þegar fossar þínir duna, allir boðar þínir og bylgjur ganga yfir mig.

Um daga býður Drottinn út náð sinni, og um nætur syng ég honum ljóð, bæn til Guðs lífs míns.

10 Ég mæli til Guðs: "Þú bjarg mitt, hví hefir þú gleymt mér? hví verð ég að ganga harmandi, kúgaður af óvinum?"

11 Háð fjandmanna minna er sem rotnun í beinum mínum, er þeir segja við mig allan daginn: "Hvar er Guð þinn?"

12 Hví ert þú beygð, sál mín, og ólgar í mér? Vona á Guð, því að enn mun ég fá að lofa hann, hjálpræði auglitis míns og Guð minn.

43 Lát mig ná rétti mínum, Guð, berst fyrir málefni mínu gegn miskunnarlausri þjóð, bjarga mér frá svikulum og ranglátum mönnum.

Því að þú ert sá Guð, sem er mér vígi, hví hefir þú útskúfað mér? hví verð ég að ganga um harmandi, kúgaður af óvinum?

Send ljós þitt og trúfesti þína, þau skulu leiða mig, þau skulu fara með mig til fjallsins þíns helga, til bústaðar þíns,

svo að ég megi inn ganga að altari Guðs, til Guðs minnar fagnandi gleði, og lofa þig með gígjuhljómi, ó Guð, þú Guð minn.

Hví ert þú beygð, sál mín, og ólgar í mér? Vona á Guð, því að enn mun ég fá að lofa hann, hjálpræði auglitis míns og Guð minn.

Sálmarnir 85-86

85 Til söngstjórans. Kóraíta-sálmur.

Þú hefir haft þóknun á landi þínu, Drottinn, snúið við hag Jakobs,

þú hefir fyrirgefið misgjörð lýðs þíns, hulið allar syndir þeirra. [Sela]

Þú hefir dregið að þér alla bræði þína, látið af heiftarreiði þinni.

Snú þér til vor aftur, þú Guð hjálpræðis vors, og lát af gremju þinni í gegn oss.

Ætlar þú að vera oss reiður um eilífð, láta reiði þína haldast við frá kyni til kyns?

Vilt þú eigi láta oss lifna við aftur, svo að lýður þinn megi gleðjast yfir þér?

Lát oss, Drottinn, sjá miskunn þína og veit oss hjálpræði þitt!

Ég vil hlýða á það sem Guð Drottinn talar. Hann talar frið til lýðs síns og til dýrkenda sinna og til þeirra, er snúa hjarta sínu til hans.

10 Já, hjálp hans er nálæg þeim er óttast hann, og vegsemdir munu búa í landi voru.

11 Elska og trúfesti mætast, réttlæti og friður kyssast.

12 Trúfesti sprettur upp úr jörðunni, og réttlæti lítur niður af himni.

13 Þá gefur og Drottinn gæði, og land vort veitir afurðir sínar.

14 Réttlæti fer fyrir honum, og friður fylgir skrefum hans.

86 Davíðs-bæn. Hneig eyra þitt, Drottinn, og bænheyr mig, því að ég er hrjáður og snauður.

Vernda líf mitt, því að ég er helgaður þér, hjálpa þú, Guð minn, þjóni þínum, er treystir þér.

Ver mér náðugur, Drottinn, því þig ákalla ég allan daginn.

Gleð þú sál þjóns þíns, því að til þín, Drottinn, hef ég sál mína.

Þú, Drottinn, ert góður og fús til að fyrirgefa, gæskuríkur öllum þeim er ákalla þig.

Hlýð, Drottinn, á bæn mína og gef gaum grátbeiðni minni.

Þegar ég er í nauðum staddur ákalla ég þig, því að þú bænheyrir mig.

Enginn er sem þú meðal guðanna, Drottinn, og ekkert er sem þín verk.

Allar þjóðir, er þú hefir skapað, munu koma og falla fram fyrir þér, Drottinn, og tigna nafn þitt.

10 Því að þú ert mikill og gjörir furðuverk, þú einn, ó Guð!

11 Vísa mér veg þinn, Drottinn, lát mig ganga í sannleika þínum, gef mér heilt hjarta, að ég tigni nafn þitt.

12 Ég vil lofa þig, Drottinn, Guð minn, af öllu hjarta og heiðra nafn þitt að eilífu,

13 því að miskunn þín er mikil við mig, og þú hefir frelsað sál mína frá djúpi Heljar.

14 Ofstopamenn hefjast gegn mér, ó Guð, og hópur ofríkismanna sækist eftir lífi mínu, eigi hafa þeir þig fyrir augum.

15 En þú, Drottinn, ert miskunnsamur og líknsamur Guð, þolinmóður og gæskuríkur og harla trúfastur.

16 Snú þér að mér og ver mér náðugur, veit þjóni þínum kraft þinn og hjálpa syni ambáttar þinnar.

17 Gjör þú tákn til góðs fyrir mig, að hatursmenn mínir megi horfa á það sneyptir, að þú, Drottinn, hjálpar mér og huggar mig.

Fyrsta bók Móse 46:1-7

46 Ísrael lagði af stað með allt sitt, og hann kom til Beerseba og færði þar Guði Ísaks föður síns sláturfórn.

Og Guð talaði við Ísrael í sýn um nóttina og sagði: "Jakob, Jakob!" Og hann svaraði: "Hér er ég."

Og hann sagði: "Ég er Guð, Guð föður þíns. Óttast þú ekki að fara til Egyptalands, því að þar mun ég gjöra þig að mikilli þjóð.

Ég mun fara með þér til Egyptalands, og ég mun líka flytja þig þaðan aftur, og Jósef skal veita þér nábjargirnar."

Þá tók Jakob sig upp frá Beerseba, og Ísraels synir fluttu Jakob föður sinn og börn sín og konur sínar á vögnunum, sem Faraó hafði sent til að flytja hann á.

Og þeir tóku fénað sinn og fjárhluti, sem þeir höfðu aflað sér í Kanaanlandi, og komu til Egyptalands, Jakob og allir niðjar hans með honum.

Sonu sína og sonasonu, dætur sínar og sonadætur og alla niðja sína flutti hann með sér til Egyptalands.

Fyrsta bók Móse 46:28-34

28 Jakob sendi Júda á undan sér til Jósefs, að hann vísaði sér veginn til Gósen. Og þeir komu til Gósenlands.

29 Þá lét Jósef beita fyrir vagn sinn og fór á móti Ísrael föður sínum til Gósen, og er fundum þeirra bar saman, féll hann um háls honum og grét lengi um háls honum.

30 Og Ísrael sagði við Jósef: "Nú vil ég glaður deyja, fyrst ég hefi séð auglit þitt, að þú ert enn á lífi."

31 Og Jósef sagði við bræður sína og við frændlið föður síns: "Nú vil ég fara og láta Faraó vita og segja við hann: ,Bræður mínir og frændlið föður míns, sem var í Kanaanlandi, er til mín komið.

32 Og mennirnir eru hjarðmenn, því að þeir hafa stundað kvikfjárrækt, og sauði sína og nautpening sinn og allt, sem þeir eiga, hafa þeir haft hingað með sér.`

33 Þegar nú Faraó lætur kalla yður og spyr: ,Hver er atvinna yðar?`

34 þá skuluð þér svara: ,Kvikfjárrækt hafa þjónar þínir stundað frá barnæsku allt til þessa dags, bæði vér og feður vorir,` _ til þess að þér fáið að búa í Gósenlandi, því að Egyptar hafa andstyggð á öllum hjarðmönnum."

Fyrra bréf Páls til Korin 9:1-15

Er ég ekki frjáls? Er ég ekki postuli? Hef ég ekki séð Jesú, Drottin vorn? Eruð þér ekki verk mitt, sem ég hef unnið fyrir Drottin?

Þótt ekki væri ég postuli fyrir aðra, þá er ég það fyrir yður. Þér eruð staðfesting Drottins á postuladómi mínum.

Þetta er vörn mín gagnvart þeim, sem dæma um mig.

Höfum vér ekki rétt til að eta og drekka?

Höfum vér ekki rétt til að ferðast um með kristna eiginkonu, alveg eins og hinir postularnir og bræður Drottins og Kefas?

Eða erum við Barnabas þeir einu, sem eru ekki undanþegnir því að vinna?

Hver tekst nokkurn tíma herþjónustu á hendur á sjálfs sín mála? Hver plantar víngarð og neytir ekki ávaxtar hans? Hver gætir hjarðar og neytir ekki af mjólk hjarðarinnar?

Tala ég þetta á mannlegan hátt, eða segir ekki einnig lögmálið það?

Ritað er í lögmáli Móse: "Þú skalt ekki múlbinda uxann, er hann þreskir." Hvort lætur Guð sér annt um uxana?

10 Eða segir hann það ekki að öllu leyti vor vegna? Jú, vor vegna stendur skrifað, að sá sem plægir og sá sem þreskir eigi að gjöra það með von um hlutdeild í uppskerunni.

11 Ef vér nú höfum sáð hjá yður því, sem andlegt er, er það þá of mikið að vér uppskerum hjá yður það, sem líkamlegt er?

12 Ef aðrir hafa þennan rétt hjá yður, höfum vér hann þá ekki miklu fremur? En vér höfum ekki hagnýtt oss þennan rétt, heldur sættum oss við allt, til þess að tálma ekki fagnaðarerindinu um Krist.

13 Vitið þér ekki, að þeir, sem vinna við helgidóminn, lifa af því, sem kemur úr helgidóminum, og þeir, sem starfa við altarið, taka hlut með altarinu?

14 Þannig hefur Drottinn einnig fyrirskipað að þeir, sem prédika fagnaðarerindið, skuli lifa af fagnaðarerindinu.

15 En ég hef ekki hagnýtt mér neitt af þessu og ég skrifa þetta ekki heldur til þess, að svo verði við mig gjört. Mér væri betra að deyja, _ enginn skal ónýta það, sem ég hrósa mér af.

Markúsarguðspjall 6:30-46

30 Postularnir komu nú aftur til Jesú og sögðu honum frá öllu því, er þeir höfðu gjört og kennt.

31 Hann sagði við þá: "Komið þér nú á óbyggðan stað, svo að vér séum einir saman, og hvílist um stund." En fjöldi fólks var stöðugt að koma og fara, svo að þeir höfðu ekki einu sinni næði til að matast.

32 Og þeir fóru á bátnum einir saman á óbyggðan stað.

33 Menn sáu þá fara, og margir þekktu þá, og nú streymdi fólk þangað gangandi úr öllum borgunum og varð á undan þeim.

34 Þegar Jesús steig á land, sá hann þar mikinn mannfjölda, og hann kenndi í brjósti um þá, því að þeir voru sem sauðir, er engan hirði hafa. Og hann kenndi þeim margt.

35 Þá er mjög var áliðið dags, komu lærisveinar hans að máli við hann og sögðu: "Hér er engin mannabyggð og langt á daginn liðið.

36 Lát þá fara, að þeir geti náð til býla og þorpa hér í kring og keypt sér eitthvað til matar."

37 En hann svaraði þeim: "Gefið þeim sjálfir að eta." Þeir svara honum: "Eigum vér að fara og kaupa brauð fyrir tvö hundruð denara og gefa þeim að eta?"

38 Jesús spyr þá: "Hve mörg brauð hafið þér? Farið og gætið að." Þeir hugðu að og svöruðu: "Fimm brauð og tvo fiska."

39 Þá bauð hann þeim að láta alla setjast í grængresið og skipta sér í hópa.

40 Þeir settust niður í flokkum, hundrað í sumum, en fimmtíu í öðrum.

41 Og hann tók brauðin fimm og fiskana tvo, leit upp til himins, þakkaði Guði, braut brauðin og gaf lærisveinunum til að bera fram fyrir mannfjöldann. Fiskunum tveim skipti hann og meðal allra.

42 Og þeir neyttu allir og urðu mettir.

43 Þeir tóku saman brauðbitana, er fylltu tólf körfur, svo og fiskleifarnar.

44 En þeir, sem brauðanna neyttu, voru fimm þúsund karlmenn.

45 Tafarlaust knúði hann lærisveina sína að fara í bátinn og halda á undan yfir til Betsaídu, meðan hann sendi fólkið brott.

46 Og þá er hann hafði kvatt það, fór hann til fjalls að biðjast fyrir.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society