Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 119:97-120

97 Hve mjög elska ég lögmál þitt, allan liðlangan daginn íhuga ég það.

98 Boð þín hafa gjört mig vitrari en óvinir mínir eru, því að þau heyra mér til um eilífð.

99 Ég er hyggnari en allir kennarar mínir, því að ég íhuga reglur þínar.

100 Ég er skynsamari en öldungar, því að ég held fyrirmæli þín.

101 Ég held fæti mínum frá hverjum vondum vegi til þess að gæta orðs þíns.

102 Frá ákvæðum þínum hefi ég eigi vikið, því að þú hefir frætt mig.

103 Hversu sæt eru fyrirheit þín gómi mínum, hunangi betri munni mínum.

104 Af fyrirmælum þínum er ég skynsamur orðinn, fyrir því hata ég sérhvern lygaveg.

105 Þitt orð er lampi fóta minna og ljós á vegum mínum.

106 Ég hefi svarið og haldið það að varðveita þín réttlátu ákvæði.

107 Ég er mjög beygður, Drottinn, lát mig lífi halda eftir orði þínu.

108 Haf þóknun á sjálfviljafórnum munns míns, Drottinn, og kenn mér ákvæði þín.

109 Líf mitt er ætíð í hættu, en þínu lögmáli hefi ég eigi gleymt.

110 Óguðlegir hafa lagt snöru fyrir mig, en ég hefi eigi villst frá fyrirmælum þínum.

111 Reglur þínar eru eign mín um aldur, því að þær eru yndi hjarta míns.

112 Ég hneigi hjarta mitt að því að breyta eftir lögum þínum, um aldur og allt til enda.

113 Ég hata þá, er haltra til beggja hliða, en lögmál þitt elska ég.

114 Þú ert skjól mitt og skjöldur, ég vona á orð þitt.

115 Burt frá mér, þér illgjörðamenn, að ég megi halda boð Guðs míns.

116 Styð mig samkvæmt fyrirheiti þínu, að ég megi lifa, og lát mig eigi til skammar verða í von minni.

117 Styð þú mig, að ég megi frelsast og ætíð líta til laga þinna.

118 Þú hafnar öllum þeim, er villast frá lögum þínum, því að svik þeirra eru til einskis.

119 Sem sora metur þú alla óguðlega á jörðu, þess vegna elska ég reglur þínar.

120 Hold mitt nötrar af hræðslu fyrir þér, og dóma þína óttast ég.

Sálmarnir 81-82

81 Til söngstjórans. Á gittít. Asafs-sálmur.

Fagnið fyrir Guði, styrkleika vorum, látið gleðióp gjalla Guði Jakobs.

Hefjið lofsöng og berjið bumbur, knýið hinar hugljúfu gígjur og hörpur.

Þeytið lúðurinn á tunglkomudögum, við tunglfylling á hátíðisdegi vorum.

Því að þetta eru lög fyrir Ísrael, boðorð Jakobs Guðs.

Hann gjörði það að reglu í Jósef, þá er hann fór út í móti Egyptalandi. Ég heyri mál, sem ég þekki eigi:

"Ég hefi losað herðar hans við byrðina, hendur hans eru sloppnar við burðarkörfuna.

Þú kallaðir í neyðinni, og ég frelsaði þig, ég bænheyrði þig í þrumuskýi, reyndi þig hjá Meríbavötnum. [Sela]

Heyr, lýður minn, að ég megi áminna þig, ó, að þú, Ísrael, vildir heyra mig!

10 Enginn annar guð má vera meðal þín, og engan útlendan guð mátt þú tilbiðja.

11 Ég er Drottinn, Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, opna munn þinn, að ég megi seðja þig.

12 En lýður minn heyrði eigi raust mína, og Ísrael var mér eigi auðsveipur.

13 Þá sleppti ég þeim í þrjósku hjartna þeirra, þeir fengu að ganga eftir eigin geðþótta.

14 Ó, að lýður minn vildi heyra mig, Ísrael ganga á mínum vegum,

15 þá skyldi ég skjótt lægja óvini þeirra, og snúa hendi minni gegn fjendum þeirra.

16 Hatursmenn Drottins skyldu hræsna fyrir honum og ógæfutími þeirra vara að eilífu.

17 Ég skyldi gefa þér hið kjarnbesta hveiti að eta og seðja þig á hunangi úr klettunum."

82 Asafs-sálmur. Guð stendur á guðaþingi, heldur dóm mitt á meðal guðanna:

"Hversu lengi ætlið þér að dæma með rangsleitni og draga taum hinna óguðlegu? [Sela]

Rekið réttar bágstaddra og föðurlausra, látið hinn þjáða og fátæka ná rétti sínum,

bjargið bágstöddum og snauðum, frelsið þá af hendi óguðlegra."

Þeir hafa eigi skyn né skilning, þeir ráfa í myrkri, allar undirstöður jarðarinnar riða.

Ég hefi sagt: "Þér eruð guðir og allir saman synir Hins hæsta,

en sannlega skuluð þér deyja sem menn, falla sem einn af höfðingjunum."

Rís upp, ó Guð, dæm þú jörðina, því að þú ert erfðahöfðingi yfir öllum þjóðum.

Fyrsta bók Móse 45:16-28

16 Þau tíðindi bárust til hirðar Faraós: "Bræður Jósefs eru komnir!" Og lét Faraó og þjónar hans vel yfir því.

17 Og Faraó sagði við Jósef: "Seg þú við bræður þína: ,Þetta skuluð þér gjöra: Klyfjið eyki yðar og haldið af stað og farið til Kanaanlands.

18 Takið föður yðar og fjölskyldur yðar og komið til mín, og skal ég gefa yður bestu afurðir Egyptalands, og þér skuluð eta feiti landsins.`

19 Og bjóð þú þeim: ,Gjörið svo: Takið yður vagna í Egyptalandi handa börnum yðar og konum yðar og flytjið föður yðar og komið.

20 Og hirðið eigi um búshluti yðar, því að hið besta í öllu Egyptalandi skal vera yðar."`

21 Og synir Ísraels gjörðu svo, og Jósef fékk þeim vagna eftir boði Faraós, og hann gaf þeim nesti til ferðarinnar.

22 Hann gaf og sérhverjum þeirra alklæðnað, en Benjamín gaf hann þrjú hundruð sikla silfurs og fimm alklæðnaði.

23 Og föður sínum sendi hann sömuleiðis tíu asna klyfjaða hinum bestu afurðum Egyptalands og tíu ösnur klyfjaðar korni og brauði og vistum handa föður hans til ferðarinnar.

24 Lét hann síðan bræður sína fara, og þeir héldu af stað. Og hann sagði við þá: "Deilið ekki á leiðinni."

25 Og þeir fóru frá Egyptalandi og komu til Kanaanlands, heim til Jakobs föður síns.

26 Og þeir færðu honum tíðindin og sögðu: "Jósef er enn á lífi og er höfðingi yfir öllu Egyptalandi." En hjarta hans komst ekki við, því að hann trúði þeim ekki.

27 En er þeir báru honum öll orð Jósefs, sem hann hafði við þá talað, og hann sá vagnana, sem Jósef hafði sent til að flytja hann á, þá lifnaði yfir Jakob föður þeirra.

28 Og Ísrael sagði: "Mér er það nóg, að Jósef sonur minn er enn á lífi. Ég vil fara og sjá hann áður en ég dey."

Fyrra bréf Páls til Korin 8

Þá er að minnast á kjötið, sem fórnað hefur verið skurðgoðum. Vér vitum, að þekking höfum vér allir. Þekkingin blæs menn upp, en kærleikurinn byggir upp.

Ef einhver þykist hafa öðlast þekkingu á einhverju, þá þekkir hann enn ekki eins og þekkja ber.

En ef einhver elskar Guð, þá er hann þekktur af honum.

En hvað varðar neyslu kjöts, sem fórnað hefur verið skurðgoðum, þá vitum vér, að skurðgoð er ekkert í heiminum og að enginn er Guð nema einn.

Því að enda þótt til séu svo nefndir guðir, hvort heldur er á himni eða á jörðu, _ enda eru margir guðir og margir herrar _,

þá höfum vér ekki nema einn Guð, föðurinn, sem allir hlutir eru frá og líf vort stefnir til, og einn Drottin, Jesú Krist, sem allir hlutir eru til orðnir fyrir og vér fyrir hann.

En ekki hafa allir þessa þekkingu. Af gömlum vana eta nokkrir kjötið allt til þessa sem fórnarkjöt, og þá saurgast samviska þeirra, sem er óstyrk.

En matur mun ekki gjöra oss þóknanlega Guði. Hvorki missum vér neins, þótt vér etum það ekki, né ávinnum vér neitt, þótt vér etum.

En gætið þess, að þetta frelsi yðar verði ekki hinum óstyrku að falli.

10 Því sjái einhver þig, sem hefur þekkingu á þessu, sitja til borðs í goðahofi, mundi það ekki stæla samvisku þess, sem óstyrkur er, til að neyta fórnarkjöts?

11 Hinn óstyrki glatast þá vegna þekkingar þinnar, bróðirinn, sem Kristur dó fyrir.

12 Þegar þér þannig syndgið gegn bræðrunum og særið óstyrka samvisku þeirra, þá syndgið þér á móti Kristi.

13 Þess vegna mun ég, ef matur verður bróður mínum til falls, um aldur og ævi ekki kjöts neyta, til þess að ég verði bróður mínum ekki til falls.

Markúsarguðspjall 6:13-29

13 ráku út marga illa anda og smurðu marga sjúka með olíu og læknuðu þá.

14 Heródes konungur frétti þetta, enda var nafn Jesú orðið víðfrægt. Sögðu sumir: "Jóhannes skírari er risinn upp frá dauðum, þess vegna eru kraftarnir að verki í honum."

15 Aðrir sögðu: "Hann er Elía," enn aðrir: "Hann er spámaður eins og spámennirnir fornu."

16 Þegar Heródes heyrði þetta, sagði hann: "Jóhannes, sem ég lét hálshöggva, hann er upp risinn."

17 En Heródes hafði sent menn að taka Jóhannes höndum, fjötra hann og varpa í fangelsi vegna Heródíasar, konu Filippusar, bróður síns. Hann hafði gengið að eiga hana,

18 en Jóhannes hafði sagt við Heródes: "Þú mátt ekki eiga konu bróður þíns."

19 Þess vegna lagði Heródías fæð á Jóhannes og vildi deyða hann, en gat ekki,

20 því að Heródes hafði beyg af honum og verndaði hann, þar eð hann vissi, að hann var maður réttlátur og heilagur. Hann komst í mikinn vanda, þegar hann hlýddi á mál hans, en þó var honum ljúft að hlusta á hann.

21 En nú kom hentugur dagur; á afmæli sínu gjörði Heródes veislu gæðingum sínum, hershöfðingjum og fyrirmönnum Galíleu.

22 Dóttir Heródíasar gekk þar inn og sté dans. Hún hreif Heródes og gesti hans, og konungur sagði við stúlkuna: "Bið mig hvers þú vilt, og mun ég veita þér."

23 Og hann sór henni: "Hvað sem þú biður um, það mun ég veita þér, allt að helmingi ríkis míns."

24 Hún gekk þá út og spurði móður sína: "Um hvað á ég að biðja?" Hún svaraði: "Höfuð Jóhannesar skírara."

25 Jafnskjótt skundaði hún til konungs og bað hann: "Gef mér þegar á fati höfuð Jóhannesar skírara."

26 Konungur varð hryggur við, en vegna eiðsins og gesta sinna vildi hann ekki synja henni þessa,

27 heldur sendi þegar varðmann og bauð að færa sér höfuð Jóhannesar. Hann fór og hjó af höfuð Jóhannesar í fangelsinu,

28 kom með höfuð hans á fati og færði stúlkunni, en stúlkan móður sinni.

29 Þegar lærisveinar hans fréttu þetta, komu þeir, tóku lík hans og lögðu í gröf.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society