Book of Common Prayer
70 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Minningarljóð.
2 Guð, lát þér þóknast að frelsa mig, Drottinn, skunda mér til hjálpar.
3 Lát þá verða til skammar og hljóta kinnroða, er sitja um líf mitt, lát þá hverfa aftur með skömm, er óska mér ógæfu.
4 Lát þá hörfa undan sakir smánar sinnar, er hrópa háð og spé.
5 En allir þeir er leita þín, skulu gleðjast og fagna yfir þér, þeir er unna hjálpræði þínu, skulu sífellt segja: "Vegsamaður sé Guð!"
6 Ég er þjáður og snauður, hraða þér til mín, ó Guð. Þú ert fulltingi mitt og frelsari, dvel eigi, Drottinn!
71 Hjá þér, Drottinn, leita ég hælis, lát mig aldrei verða til skammar.
2 Frelsa mig og bjarga mér eftir réttlæti þínu, hneig eyru þín til mín og hjálpa mér.
3 Ver mér verndarbjarg, vígi mér til hjálpar, því að þú ert bjarg mitt og vígi.
4 Guð minn, bjarga mér úr hendi illgjarnra, undan valdi illvirkja og harðstjóra.
5 Því að þú ert von mín, þú, Drottinn, ert athvarf mitt frá æsku.
6 Við þig hefi ég stuðst frá móðurlífi, frá móðurskauti hefir þú verið skjól mitt, um þig hljómar ætíð lofsöngur minn.
7 Ég er mörgum orðinn sem undur, en þú ert mér öruggt hæli.
8 Munnur minn er fullur af lofstír þínum, af dýrð þinni daginn allan.
9 Útskúfa mér eigi í elli minni, yfirgef mig eigi, þá er þróttur minn þverrar.
10 Því að óvinir mínir tala um mig, þeir er sitja um líf mitt, bera ráð sín saman:
11 "Guð hefir yfirgefið hann. Eltið hann og grípið hann, því að enginn bjargar."
12 Guð, ver eigi fjarri mér, Guð minn, skunda til liðs við mig.
13 Lát þá er sýna mér fjandskap farast með skömm, lát þá íklæðast háðung og svívirðing, er óska mér ógæfu.
14 En ég vil sífellt vona og auka enn á allan lofstír þinn.
15 Munnur minn skal segja frá réttlæti þínu, frá hjálpsemdum þínum allan daginn, því að ég veit eigi tölu á þeim.
16 Ég vil segja frá máttarverkum Drottins, ég vil boða réttlæti þitt, það eitt.
17 Guð, þú hefir kennt mér frá æsku, og allt til þessa kunngjöri ég dásemdarverk þín.
18 Yfirgef mig eigi, ó Guð, þegar ég er gamall orðinn og grár fyrir hærum, að ég megi kunngjöra styrkleik þinn komandi kynslóð.
19 Máttur þinn og réttlæti þitt, ó Guð, nær til himins, þú sem hefir framið stórvirki, Guð, hver er sem þú?
20 Þú sem hefir látið oss horfa upp á miklar nauðir og ógæfu, þú munt láta oss lifna við að nýju og láta oss aftur stíga upp úr undirdjúpum jarðar.
21 Þú munt auka við tign mína og aftur veita mér huggun.
22 Þá vil ég lofa trúfesti þína með hörpuleik, Guð minn, leika á gígju fyrir þér, þú Hinn heilagi í Ísrael.
23 Varir mínar skulu fagna, er ég leik fyrir þér, og sál mín er þú hefir leyst.
24 Þá skal og tunga mín tala um réttlæti þitt liðlangan daginn, því að þeir urðu til skammar, já hlutu kinnroða, er óskuðu mér ógæfu.
74 Asafs-maskíl. Hví hefir þú, Guð, hafnað oss að fullu, hví rýkur reiði þín gegn gæsluhjörð þinni?
2 Haf í minni söfnuð þinn, er þú aflaðir forðum og leystir til þess að vera kynkvísl óðals þíns, haf í minni Síonfjall, þar sem þú hefir tekið þér bústað.
3 Bein þú skrefum þínum til hinna endalausu rústa: Öllu hafa óvinirnir spillt í helgidóminum!
4 Fjandmenn þínir grenjuðu inni á samkomustað þínum, reistu upp hermerki sín.
5 Eins og menn sem reiða hátt axir í þykkum skógi,
6 höggva þeir allan útskurð, mölva með exi og hamri.
7 Þeir hafa lagt eld í helgidóm þinn, vanhelgað bústað nafns þíns til grunna.
8 Þeir hugsuðu með sjálfum sér: "Vér skulum tortíma þeim öllum." Þeir brenndu öll samkomuhús Guðs í landinu.
9 Vér sjáum eigi merki vor, þar er enginn spámaður framar, og enginn er hjá oss sem veit hve lengi.
10 Hversu lengi, ó Guð, á fjandmaðurinn að hæða, á óvinurinn að spotta nafn þitt um aldur?
11 Hví dregur þú að þér hönd þína, hví geymir þú hægri hönd þína í barmi þér?
12 Og þó er Guð konungur minn frá fornum tíðum, sá er framkvæmir hjálpræðisverk á jörðu.
13 Þú klaufst hafið með mætti þínum, þú braust sundur höfuð drekans á vatninu,
14 þú molaðir sundur hausa Levjatans, gafst hann dýrum eyðimerkurinnar að æti.
15 Þú lést lindir og læki spretta upp, þú þurrkaðir upp sírennandi ár.
16 Þinn er dagurinn og þín er nóttin, þú gjörðir ljós og sól.
17 Þú settir öll takmörk jarðarinnar, sumar og vetur hefir þú gjört.
18 Minnst þess, Drottinn, að óvinurinn lastmælir, og heimskur lýður smánar nafn þitt.
19 Ofursel eigi villidýrunum sál turtildúfu þinnar, gleym eigi um aldur lífi þinna hrjáðu.
20 Gef gætur að sáttmála þínum, því að skúmaskot landsins eru full af bælum ofríkisins.
21 Lát eigi þann er kúgun sætir, snúa aftur með svívirðing, lát hina hrjáðu og snauðu lofa nafn þitt.
22 Rís upp, Guð, berst fyrir málefni þínu, minnst þú háðungar þeirrar, er þú sætir af heimskingjum daginn á enda.
23 Gleym eigi hrópi fjenda þinna, glaumkæti andstæðinga þinna, þeirri er sífellt stígur upp.
29 Þeir komu til Jakobs föður síns í Kanaanlandi og sögðu honum frá öllu, sem fyrir þá hafði komið, með þessum orðum:
30 "Maðurinn, landsherrann, talaði harðlega til vor og fór með oss sem værum vér komnir til landsins í njósnarerindum.
31 En vér sögðum við hann: ,Vér erum hrekklausir, vér erum ekki njósnarmenn.
32 Vér erum tólf bræður, synir föður vors. Einn er ekki framar á lífi, og sá yngsti er nú hjá föður vorum í Kanaanlandi.`
33 Þá sagði maðurinn, landsherrann, við oss: ,Af þessu skal ég marka, hvort þér eruð hrekklausir: Látið einn af yður bræðrum verða eftir hjá mér, og takið korn til bjargar þurfandi heimilum yðar og farið leiðar yðar.
34 En komið með yngsta bróður yðar til mín, svo að ég sjái, að þér eruð ekki njósnarmenn, heldur að þér eruð hrekklausir. Þá skal ég skila yður bróður yðar aftur og þér megið fara allra yðar ferða um landið."`
35 En þeir helltu úr sekkjum sínum, sjá, þá var sjóður hvers eins í sekk hans. Og er þeir og faðir þeirra sáu sjóði þeirra, urðu þeir óttaslegnir.
36 Jakob faðir þeirra sagði við þá: "Þér gjörið mig barnlausan. Jósef er farinn, Símeon er farinn, og nú ætlið þér að taka Benjamín. Allt kemur þetta yfir mig."
37 Þá sagði Rúben við föður sinn: "Þú mátt deyða báða sonu mína, ef ég færi þér hann ekki aftur. Trúðu mér fyrir honum, og ég skal aftur koma með hann til þín."
38 En Jakob sagði: "Ekki skal sonur minn fara með yður, því að bróðir hans er dáinn og hann er einn eftir, og verði hann fyrir slysi á þeirri leið, sem þér farið, þá leiðið þér hærur mínar með harmi niður til heljar."
12 Allt er mér leyfilegt, en ekki er allt gagnlegt. Allt er mér leyfilegt, en ég má ekki láta neitt fá vald yfir mér.
13 Maturinn er fyrir magann og maginn fyrir matinn, en Guð mun hvort tveggja að engu gjöra. En líkaminn er ekki fyrir saurlífi, heldur fyrir Drottin og Drottinn fyrir líkamann.
14 Guð hefur uppvakið Drottin og mun uppvekja oss fyrir kraft sinn.
15 Vitið þér ekki, að líkamir yðar eru limir Krists? Á ég þá að taka limi Krists og gjöra þá að skækjulimum? Fjarri fer því.
16 Vitið þér ekki, að sá er samlagar sig skækjunni verður ásamt henni einn líkami? Því að sagt er: "Þau tvö munu verða eitt hold."
17 En sá er samlagar sig Drottni er einn andi ásamt honum.
18 Flýið saurlifnaðinn! Sérhver önnur synd, sem maðurinn drýgir, er fyrir utan líkama hans. En saurlífismaðurinn syndgar á móti eigin líkama.
19 Vitið þér ekki, að líkami yðar er musteri heilags anda, sem í yður er og þér hafið frá Guði? Og ekki eruð þér yðar eigin.
20 Þér eruð verði keyptir. Vegsamið því Guð með líkama yðar.
21 Og hann sagði við þá: "Ekki bera menn ljós inn og setja það undir mæliker eða bekk? Er það ekki sett á ljósastiku?
22 Því að ekkert er hulið, að það verði eigi gjört opinbert, né leynt, að það komi ekki í ljós.
23 Ef einhver hefur eyru að heyra, hann heyri!"
24 Enn sagði hann við þá: "Gætið að, hvað þér heyrið. Með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður mælt verða og við yður bætt.
25 Því að þeim, sem hefur, mun gefið verða, og frá þeim, sem eigi hefur, mun tekið verða jafnvel það sem hann hefur."
26 Þá sagði hann: "Svo er Guðs ríki sem maður sái sæði í jörð.
27 Hann sefur síðan og vakir, nætur og daga, en sæðið grær og vex, hann veit ekki með hverjum hætti.
28 Sjálfkrafa ber jörðin ávöxt, fyrst stráið, þá axið og síðan fullvaxið hveiti í axinu.
29 En þá er ávöxturinn er fullþroska, lætur hann þegar bera út sigðina, því að uppskeran er komin."
30 Og hann sagði: "Við hvað eigum vér að líkja Guðs ríki? Með hvaða dæmi eigum vér að lýsa því?
31 Líkt er það mustarðskorni. Þegar því er sáð í mold, er það smærra hverju sáðkorni á jörðu.
32 En eftir að því er sáð tekur það að spretta, það verður öllum jurtum meira og fær svo stórar greinar, að fuglar himins geta hreiðrað sig í skugga þess."
33 Í mörgum slíkum dæmisögum flutti hann þeim orðið, svo sem þeir gátu numið,
34 og án dæmisagna talaði hann ekki til þeirra, en fyrir lærisveinum sínum skýrði hann allt, þegar þeir voru einir.
by Icelandic Bible Society