Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 72

72 Eftir Salómon. Guð, sel konungi í hendur dóma þína og konungssyni réttlæti þitt,

að hann dæmi lýð þinn með réttvísi og þína þjáðu með sanngirni.

Fjöllin beri lýðnum frið og hálsarnir réttlæti.

Hann láti hina þjáðu meðal lýðsins ná rétti sínum, hann hjálpi hinum snauðu og kremji kúgarann.

Þá mun hann lifa meðan sólin skín og tunglið ber birtu, frá kyni til kyns.

Hann mun falla sem regn á slægjuland, sem regnskúrir, er vökva landið.

Um hans daga skal réttlætið blómgast og gnóttir friðar, uns tunglið er eigi framar til.

Og hann skal ríkja frá hafi til hafs, frá Fljótinu til endimarka jarðar.

Fjandmenn hans skulu beygja kné fyrir honum og óvinir hans sleikja duftið.

10 Konungarnir frá Tarsis og eylöndunum skulu koma með gjafir, konungarnir frá Saba og Seba skulu færa skatt.

11 Og allir konungar skulu lúta honum, allar þjóðir þjóna honum.

12 Hann bjargar hinum snauða, er hrópar á hjálp, og hinum þjáða, er enginn liðsinnir.

13 Hann aumkast yfir bágstadda og snauða, og fátækum hjálpar hann.

14 Frá ofbeldi og ofríki leysir hann þá, og blóð þeirra er dýrmætt í augum hans.

15 Hann mun lifa og menn munu gefa honum Saba-gull, menn munu sífellt biðja fyrir honum, blessa hann liðlangan daginn.

16 Gnóttir korns munu vera í landinu, á fjallatindunum, í gróðri þess mun þjóta eins og í Líbanon, og menn skulu spretta upp í borgunum eins og gras úr jörðu.

17 Nafn hans mun vara að eilífu, meðan sólin skín mun nafn hans gróa. Og með honum skulu allar ættkvíslir jarðarinnar óska sér blessunar, allar þjóðir munu hann sælan segja.

18 Lofaður sé Drottinn, Guð, Ísraels Guð, sem einn gjörir furðuverk,

19 og lofað sé hans dýrlega nafn um eilífð, og öll jörðin fyllist dýrð hans. Amen, amen.

20 Bænir Davíðs Ísaísonar eru á enda.

Sálmarnir 119:73-96

73 Hendur þínar hafa gjört mig og skapað, veit mér skyn, að ég megi læra boð þín.

74 Þeir er óttast þig sjá mig og gleðjast, því að ég vona á orð þitt.

75 Ég veit, Drottinn, að dómar þínir eru réttlátir og að þú hefir lægt mig í trúfesti þinni.

76 Lát miskunn þína verða mér til huggunar, eins og þú hefir heitið þjóni þínum.

77 Lát miskunn þína koma yfir mig, að ég megi lifa, því að lögmál þitt er unun mín.

78 Lát ofstopamennina verða til skammar, af því að þeir kúga mig með rangsleitni, en ég íhuga fyrirmæli þín.

79 Til mín snúi sér þeir er óttast þig og þeir er þekkja reglur þínar.

80 Hjarta mitt sé grandvart í lögum þínum, svo að ég verði eigi til skammar.

81 Sál mín tærist af þrá eftir hjálpræði þínu, ég bíð eftir orði þínu.

82 Augu mín tærast af þrá eftir fyrirheiti þínu: Hvenær munt þú hugga mig?

83 Því að ég er orðinn eins og belgur í reykhúsi, en lögum þínum hefi ég eigi gleymt.

84 Hversu margir eru dagar þjóns þíns? Hvenær munt þú heyja dóm á ofsækjendum mínum?

85 Ofstopamenn hafa grafið mér grafir, menn, er eigi hlýða lögmáli þínu.

86 Öll boð þín eru trúfesti. Menn ofsækja mig með lygum, veit þú mér lið.

87 Nærri lá, að þeir gjörðu út af við mig á jörðunni, og þó hafði ég eigi yfirgefið fyrirmæli þín.

88 Lát mig lífi halda sakir miskunnar þinnar, að ég megi varðveita reglurnar af munni þínum.

89 Orð þitt, Drottinn, varir að eilífu, það stendur stöðugt á himnum.

90 Frá kyni til kyns varir trúfesti þín, þú hefir grundvallað jörðina, og hún stendur.

91 Eftir ákvæðum þínum stendur hún enn í dag, því að allt lýtur þér.

92 Ef lögmál þitt hefði eigi verið unun mín, þá hefði ég farist í eymd minni.

93 Ég skal eigi gleyma fyrirmælum þínum að eilífu, því að með þeim hefir þú látið mig lífi halda.

94 Þinn er ég, hjálpa þú mér, því að ég leita fyrirmæla þinna.

95 Óguðlegir bíða mín til þess að tortíma mér, en ég gef gætur að reglum þínum.

96 Á allri fullkomnun hefi ég séð endi, en þín boð eiga sér engin takmörk.

Fyrsta bók Móse 42:18-28

18 En á þriðja degi sagði Jósef við þá: "Þetta skuluð þér gjöra, að þér megið lífi halda, því að ég óttast Guð.

19 Ef þér eruð hrekklausir, þá verði einn af yður bræðrum eftir í böndum í dýflissunni, þar sem þér voruð, en farið þér hinir og flytjið heim korn til bjargar þurfandi heimilum yðar.

20 Komið svo til mín með yngsta bróður yðar, þá munu orð yðar reynast sönn og þér eigi lífi týna." Og þeir gjörðu svo.

21 Þá sögðu þeir hver við annan: "Sannlega erum vér í sök fallnir fyrir bróður vorn, því að vér sáum sálarangist hans, þegar hann bað oss vægðar, en vér daufheyrðumst við. Þess vegna erum vér komnir í þessar nauðir."

22 Rúben svaraði þeim og mælti: "Sagði ég ekki við yður: ,Syndgist ekki á sveininum,` en þér daufheyrðust við. Og sjá, nú er einnig blóðs hans krafist."

23 En þeir vissu ekki, að Jósef skildi þá, því að þeir höfðu túlk.

24 Þá vék Jósef frá þeim og grét. Síðan sneri hann til þeirra aftur og talaði við þá og tók Símeon úr flokki þeirra og batt hann fyrir augum þeirra.

25 Síðan bauð hann að fylla sekki þeirra korni og láta silfurpeninga hvers eins þeirra aftur í sekk hans og fá þeim nesti til ferðarinnar. Og var svo gjört við þá.

26 Þá létu þeir korn sitt upp á asna sína og fóru af stað.

27 En er einn af þeim opnaði sekk sinn til að gefa asna sínum fóður á gistingarstaðnum, sá hann silfurpeninga sína, og sjá, þeir lágu ofan á í sekk hans.

28 Og hann sagði við bræður sína: "Silfurpeningar mínir eru komnir aftur, sjá, þeir liggja hér í sekk mínum." Þá féllst þeim hugur, og skjálfandi litu þeir hver á annan og sögðu: "Hví hefir Guð gjört oss þetta?"

Fyrra bréf Páls til Korin 5:9-6:8

Ég ritaði yður í bréfinu, að þér skylduð ekki umgangast saurlífismenn.

10 Átti ég þar ekki við saurlífismenn þessa heims yfirleitt, ásælna og ræningja eða hjáguðadýrkendur, því að þá hefðuð þér orðið að fara út úr heiminum.

11 En nú rita ég yður, að þér skuluð ekki umgangast nokkurn þann, er nefnir sig bróður, en er saurlífismaður eða ásælinn, skurðgoðadýrkari eða lastmáll, ofdrykkjumaður eða ræningi. Þér skuluð jafnvel ekki sitja að borði með slíkum manni.

12 Hvað skyldi ég vera að dæma þá, sem fyrir utan eru? Dæmið þér ekki þá, sem fyrir innan eru?

13 Og mun ekki Guð dæma þá, sem fyrir utan eru? "Útrýmið hinum vonda úr yðar hópi."

Getur nokkur yðar, sem hefur sök móti öðrum, fengið af sér að leggja málið undir dóm heiðinna manna, en ekki hinna heilögu?

Eða vitið þér ekki, að hinir heilögu eiga að dæma heiminn? Og ef þér eigið að dæma heiminn, eruð þér þá óverðugir að dæma í hinum minnstu málum?

Vitið þér eigi, að vér eigum að dæma engla? Hvað þá heldur tímanleg efni!

Þegar þér eigið að dæma um tímanleg efni, þá kveðjið þér að dómurum menn, sem að engu eru hafðir í söfnuðinum.

Ég segi það yður til blygðunar. Er þá enginn vitur til á meðal yðar, sem skorið geti úr málum milli bræðra?

Í stað þess á bróðir í máli við bróður og það fyrir vantrúuðum!

Annars er það nú yfirleitt galli á yður, að þér eigið í málaferlum hver við annan. Hví líðið þér ekki heldur órétt? Hví látið þér ekki heldur hafa af yður?

Í stað þess hafið þér rangsleitni í frammi og hafið af öðrum og það af bræðrum!

Markúsarguðspjall 4:1-20

Aftur tók hann að kenna við vatnið. Svo mikill mannfjöldi safnaðist að honum, að hann varð að stíga í bát og sitja þar, úti á vatninu. En allt fólkið var á landi við vatnið.

Hann kenndi þeim margt í dæmisögum og sagði við þá:

"Hlýðið á! Sáðmaður gekk út að sá,

og þá er hann sáði, féll sumt hjá götunni, og fuglar komu og átu það upp.

Sumt féll í grýtta jörð, þar sem var lítill jarðvegur, og það rann skjótt upp, því það hafði ekki djúpa jörð.

En er sól hækkaði, visnaði það, og sökum þess að það hafði ekki rætur, skrælnaði það.

Og sumt féll meðal þyrna, og þyrnarnir uxu og kæfðu það, og það bar ekki ávöxt.

En sumt féll í góða jörð, kom upp, óx og bar ávöxt, það gaf þrítugfaldan, sextugfaldan og hundraðfaldan ávöxt."

Og hann sagði: "Hver sem eyru hefur að heyra, hann heyri!"

10 Þegar hann var orðinn einn, spurðu þeir tólf og hinir, sem með honum voru, um dæmisögurnar.

11 Hann svaraði þeim: "Yður er gefinn leyndardómur Guðs ríkis. Hinir, sem fyrir utan eru, fá allt í dæmisögum,

12 að sjáandi sjái þeir og skynji ekki, heyrandi heyri þeir og skilji ekki, svo þeir snúi sér eigi og verði fyrirgefið."

13 Og hann segir við þá: "Þér skiljið eigi þessa dæmisögu. Hvernig fáið þér þá skilið nokkra dæmisögu?

14 Sáðmaðurinn sáir orðinu.

15 Það hjá götunni, þar sem orðinu er sáð, merkir þá sem heyra, en Satan kemur jafnskjótt og tekur burt orðið, sem í þá var sáð.

16 Eins það sem sáð var í grýtta jörð, það merkir þá sem taka orðinu með fögnuði, um leið og þeir heyra það,

17 en hafa enga rótfestu. Þeir eru hvikulir og er þrenging verður síðan eða ofsókn vegna orðsins, bregðast þeir þegar.

18 Öðru var sáð meðal þyrna. Það merkir þá sem heyra orðið,

19 en áhyggjur heimsins, tál auðæfanna og aðrar girndir koma til og kefja orðið, svo það ber engan ávöxt.

20 Hitt, sem sáð var í góða jörð, merkir þá sem heyra orðið, taka við því og bera þrítugfaldan, sextugfaldan og hundraðfaldan ávöxt."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society