Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 24

24 Davíðssálmur. Drottni heyrir jörðin og allt sem á henni er, heimurinn og þeir sem í honum búa.

Því að hann hefir grundvallað hana á hafinu og fest hana á vötnunum.

_ Hver fær að stíga upp á fjall Drottins, hver fær að dveljast á hans helga stað?

_ Sá er hefir óflekkaðar hendur og hreint hjarta, eigi sækist eftir hégóma og eigi vinnur rangan eið.

Hann mun blessun hljóta frá Drottni og réttlætingu frá Guði hjálpræðis síns.

_ Þessi er sú kynslóð er leitar Drottins, stundar eftir augliti þínu, þú Jakobs Guð. [Sela] _________

_ Þér hlið, lyftið höfðum yðar, hefjið yður, þér öldnu dyr, að konungur dýrðarinnar megi inn ganga.

_ Hver er þessi konungur dýrðarinnar? _ Það er Drottinn, hin volduga hetja, Drottinn, bardagahetjan.

_ Þér hlið, lyftið höfðum yðar, hefjið yður, þér öldnu dyr, að konungur dýrðarinnar megi inn ganga.

10 _ Hver er þessi konungur dýrðarinnar? _ Drottinn hersveitanna, hann er konungur dýrðarinnar. [Sela]

Sálmarnir 29

29 Davíðssálmur. Tjáið Drottni vegsemd, þér guðasynir, tjáið Drottni vegsemd og vald.

Tjáið Drottni dýrð þá er nafni hans hæfir, fallið fram fyrir Drottni í helgum skrúða.

Raust Drottins hljómar yfir vötnunum, Guð dýrðarinnar lætur þrumur drynja, Drottinn ríkir yfir hinum miklu vötnum.

Raust Drottins hljómar með krafti, raust Drottins hljómar með tign.

Raust Drottins brýtur sundur sedrustré, Drottinn brýtur sundur sedrustrén á Líbanon.

Hann lætur Líbanonfjöll hoppa eins og kálfa og Hermonfjall eins og ungan vísund.

Raust Drottins klýfur eldsloga.

Raust Drottins lætur eyðimörkina skjálfa, Drottinn lætur Kadeseyðimörk skjálfa.

Raust Drottins lætur hindirnar bera fyrir tímann og gjörir skógana nakta, og allt í helgidómi hans segir: Dýrð!

10 Drottinn situr í hásæti uppi yfir flóðinu, Drottinn mun ríkja sem konungur að eilífu.

11 Drottinn veitir lýð sínum styrkleik, Drottinn blessar lýð sinn með friði.

Sálmarnir 8

Til söngstjórans. Á gittít. Davíðssálmur.

Drottinn, Guð vor, hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina! Þú breiðir ljóma þinn yfir himininn.

Af munni barna og brjóstmylkinga hefir þú gjört þér vígi til varnar gegn óvinum þínum, til þess að þagga niður í hefndargirni óvinarins.

Þegar ég horfi á himininn, verk handa þinna, tunglið og stjörnurnar, er þú hefir skapað,

hvað er þá maðurinn þess, að þú minnist hans, og mannsins barn, að þú vitjir þess?

Þú lést hann verða litlu minni en Guð, með sæmd og heiðri krýndir þú hann.

Þú lést hann ríkja yfir handaverkum þínum, allt lagðir þú að fótum hans:

sauðfénað allan og uxa, og auk þess dýr merkurinnar,

fugla loftsins og fiska hafsins, allt það er fer hafsins vegu.

10 Drottinn, Guð vor, hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina!

Sálmarnir 84

84 Til söngstjórans. Á gittít. Kóraíta-sálmur.

Hversu yndislegir eru bústaðir þínir, Drottinn hersveitanna.

Sálu mína langaði til, já, hún þráði forgarða Drottins, nú fagnar hjarta mitt og hold fyrir hinum lifanda Guði.

Jafnvel fuglinn hefir fundið hús, og svalan á sér hreiður, þar sem hún leggur unga sína: ölturu þín, Drottinn hersveitanna, konungur minn og Guð minn!

Sælir eru þeir, sem búa í húsi þínu, þeir munu ætíð lofa þig. [Sela]

Sælir eru þeir menn, sem finna styrk hjá þér, er þeir hugsa til helgigöngu.

Er þeir fara gegnum táradalinn, umbreyta þeir honum í vatnsríka vin, og haustregnið færir honum blessun.

Þeim eykst æ kraftur á göngunni og fá að líta Guð á Síon.

Drottinn, Guð hersveitanna, heyr bæn mína, hlýð til, þú Jakobs Guð. [Sela]

10 Guð, skjöldur vor, sjá og lít á auglit þíns smurða!

11 Því að einn dagur í forgörðum þínum er betri en þúsund aðrir, heldur vil ég standa við þröskuldinn í húsi Guðs míns en dvelja í tjöldum óguðlegra.

12 Því að Drottinn Guð er sól og skjöldur, náð og vegsemd veitir Drottinn. Hann synjar þeim engra gæða, er ganga í grandvarleik.

13 Drottinn hersveitanna, sæll er sá maður, sem treystir þér.

Fyrsta bók Móse 41:14-45

14 Þá sendi Faraó og lét kalla Jósef, og leiddu þeir hann í skyndi út úr myrkvastofunni. Því næst lét hann skera hár sitt og fór í önnur klæði, gekk síðan inn fyrir Faraó.

15 Þá sagði Faraó við Jósef: "Mig hefir dreymt draum, og enginn getur ráðið hann. En það hefi ég af þér frétt, að þú ráðir hvern draum, sem þú heyrir."

16 Þá svaraði Jósef Faraó og mælti: "Eigi er það á mínu valdi. Guð mun birta Faraó það, er honum má til heilla verða."

17 Faraó sagði við Jósef: "Mig dreymdi, að ég stæði á árbakkanum.

18 Og sjá, upp úr ánni komu sjö kýr, feitar á hold og fallegar útlits, og fóru að bíta sefgresið.

19 Og sjá, á eftir þeim komu upp sjö aðrar kýr, renglulegar og mjög ljótar útlits og magrar á hold. Hefi ég engar séð jafnljótar á öllu Egyptalandi.

20 Og hinar mögru og ljótu kýrnar átu sjö fyrri feitu kýrnar.

21 En er þær höfðu etið þær, var það ekki á þeim að sjá, að þær hefðu etið þær, heldur voru þær ljótar útlits sem áður. Þá vaknaði ég.

22 Og ég sá í draumi mínum, og sjá, sjö öx uxu á einni stöng, full og væn.

23 Og sjö öx kornlaus, grönn og skrælnuð af austanvindi, spruttu á eftir þeim.

24 Og hin grönnu öxin svelgdu í sig sjö vænu öxin. Ég hefi sagt spásagnamönnunum frá þessu, en enginn getur úr leyst."

25 Þá mælti Jósef við Faraó: "Draumur Faraós er einn. Það sem Guð ætlar að gjöra, hefir hann boðað Faraó.

26 Sjö vænu kýrnar merkja sjö ár, og sjö vænu öxin merkja sjö ár. Þetta er einn og sami draumur.

27 Og sjö mögru og ljótu kýrnar, sem á eftir hinum komu, merkja sjö ár, og sjö tómu öxin, sem skrælnuð voru af austanvindi, munu vera sjö hallærisár.

28 Það er það, sem ég sagði við Faraó: Það sem Guð ætlar að gjöra, hefir hann sýnt Faraó.

29 Sjá, sjö ár munu koma. Munu þá verða miklar nægtir um allt Egyptaland.

30 En eftir þau munu koma sjö hallærisár. Munu þá gleymast allar nægtirnar í Egyptalandi og hungrið eyða landið.

31 Og eigi mun nægtanna gæta í landinu sakir hallærisins, sem á eftir kemur, því að það mun verða mjög mikið.

32 En þar sem Faraó dreymdi tvisvar sinnum hið sama, þá er það fyrir þá sök, að þetta er fastráðið af Guði, og Guð mun skjótlega framkvæma það.

33 Fyrir því velji nú Faraó til hygginn og vitran mann og setji hann yfir Egyptaland.

34 Faraó gjöri þetta og skipi umsjónarmenn yfir landið og taki fimmtung af afrakstri Egyptalands á sjö nægtaárunum.

35 Og þeir skulu safna öllum vistum frá góðu árunum, sem fara í hönd, og draga saman kornbirgðir í borgirnar undir umráð Faraós og geyma.

36 Og vistirnar skulu vera forði fyrir landið á sjö hallærisárunum, sem koma munu yfir Egyptaland, að landið farist eigi af hungrinu."

37 Þetta líkaði Faraó vel og öllum þjónum hans.

38 Og Faraó sagði við þjóna sína: "Munum vér finna slíkan mann sem þennan, er Guðs andi býr í?"

39 Og Faraó sagði við Jósef: "Með því að Guð hefir birt þér allt þetta, þá er enginn svo hygginn og vitur sem þú.

40 Þig set ég yfir hús mitt, og þínum boðum skal öll mín þjóð hlýða. Að hásætinu einu skal ég þér æðri vera."

41 Faraó sagði við Jósef: "Sjá, ég set þig yfir allt Egyptaland."

42 Og Faraó tók innsiglishring sinn af hendi sér og dró á hönd Jósefs og lét færa hann í dýrindis línklæði og lét gullmen um háls honum.

43 Og hann lét aka honum í öðrum vagni sínum, og menn hrópuðu fyrir honum: "Lútið honum!" _ og hann setti hann yfir allt Egyptaland.

44 Faraó sagði við Jósef: "Ég er Faraó, en án þíns vilja skal enginn hreyfa hönd eða fót í öllu Egyptalandi."

45 Og Faraó kallaði Jósef Safenat-panea og gaf honum fyrir konu Asenat, dóttur Pótífera, prests í Ón. Og Jósef ferðaðist um Egyptaland.

Bréf Páls til Rómverja 6:3-14

Eða vitið þér ekki, að allir vér, sem skírðir erum til Krists Jesú, erum skírðir til dauða hans?

Vér erum því dánir og greftraðir með honum í skírninni, til þess að lifa nýju lífi, eins og Kristur var upp vakinn frá dauðum fyrir dýrð föðurins.

Því að ef vér erum orðnir samgrónir honum í líkingu dauða hans, munum vér einnig vera það í líkingu upprisu hans.

Vér vitum, að vor gamli maður er með honum krossfestur, til þess að líkami syndarinnar skuli að engu verða og vér ekki framar þjóna syndinni.

Því að sá, sem dauður er, er leystur frá syndinni.

Ef vér erum með Kristi dánir, trúum vér því, að vér og munum með honum lifa.

Vér vitum að Kristur, upp vakinn frá dauðum, deyr ekki framar. Dauðinn drottnar ekki lengur yfir honum.

10 Með dauða sínum dó hann syndinni í eitt skipti fyrir öll, en með lífi sínu lifir hann Guði.

11 Þannig skuluð þér líka álíta yður sjálfa vera dauða syndinni, en lifandi Guði í Kristi Jesú.

12 Látið því ekki syndina ríkja í dauðlegum líkama yðar, svo að þér hlýðnist girndum hans.

13 Ljáið ekki heldur syndinni limi yðar að ranglætisvopnum, heldur bjóðið sjálfa yður Guði sem lifnaða frá dauðum og limi yðar Guði sem réttlætisvopn.

14 Synd skal ekki drottna yfir yður, því að ekki eruð þér undir lögmáli, heldur undir náð.

Jóhannesarguðspjall 5:19-24

19 Þessu svaraði Jesús og sagði við þá: "Sannlega, sannlega segi ég yður: Ekkert getur sonurinn gjört af sjálfum sér, nema það sem hann sér föðurinn gjöra. Því hvað sem hann gjörir, það gjörir sonurinn einnig.

20 Faðirinn elskar soninn og sýnir honum allt, sem hann gjörir sjálfur. Hann mun sýna honum meiri verk en þessi, svo að þér verðið furðu lostnir.

21 Eins og faðirinn vekur upp dauða og lífgar, þannig lífgar og sonurinn þá, sem hann vill.

22 Enda dæmir faðirinn engan, heldur hefur hann falið syninum allan dóm,

23 svo að allir heiðri soninn eins og þeir heiðra föðurinn. Sá sem heiðrar ekki soninn, heiðrar ekki föðurinn, sem sendi hann.

24 Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem heyrir orð mitt og trúir þeim, sem sendi mig, hefur eilíft líf og kemur ekki til dóms, heldur er hann stiginn yfir frá dauðanum til lífsins.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society