Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 119:49-72

49 Minnst þú þess orðs við þjón þinn, sem þú lést mig vona á.

50 Þetta er huggun mín í eymd minni, að orð þitt lætur mig lífi halda.

51 Ofstopamenn spotta mig ákaflega, en ég vík eigi frá lögmáli þínu.

52 Ég minnist dóma þinna frá öndverðu, Drottinn, og læt huggast.

53 Heiftarreiði við óguðlega hrífur mig, við þá er yfirgefa lögmál þitt.

54 Lög þín eru efni ljóða minna á þessum stað, þar sem ég er gestur.

55 Um nætur minnist ég nafns þíns, Drottinn, og geymi laga þinna.

56 Þetta er orðin hlutdeild mín, að halda fyrirmæli þín.

57 Drottinn er hlutskipti mitt, ég hefi ákveðið að varðveita orð þín.

58 Ég hefi leitað hylli þinnar af öllu hjarta, ver mér náðugur samkvæmt fyrirheiti þínu.

59 Ég hefi athugað vegu mína og snúið fótum mínum að reglum þínum.

60 Ég hefi flýtt mér og eigi tafið að varðveita boð þín.

61 Snörur óguðlegra lykja um mig, en lögmáli þínu hefi ég eigi gleymt.

62 Um miðnætti rís ég upp til þess að þakka þér þín réttlátu ákvæði.

63 Ég er félagi allra þeirra er óttast þig og varðveita fyrirmæli þín.

64 Jörðin er full af miskunn þinni, Drottinn, kenn mér lög þín.

65 Þú hefir gjört vel til þjóns þíns eftir orði þínu, Drottinn.

66 Kenn mér góð hyggindi og þekkingu, því að ég trúi á boð þín.

67 Áður en ég var beygður, villtist ég, en nú varðveiti ég orð þitt.

68 Þú ert góður og gjörir vel, kenn mér lög þín.

69 Ofstopamenn spinna upp lygar gegn mér, en ég held fyrirmæli þín af öllu hjarta.

70 Hjarta þeirra er tilfinningarlaust sem mör væri, en ég leita unaðar í lögmáli þínu.

71 Það varð mér til góðs, að ég var beygður, til þess að ég mætti læra lög þín.

72 Lögmálið af munni þínum er mér mætara en þúsundir af gulli og silfri.

Sálmarnir 49

49 Fyrir kvenraddir. Til söngstjórans. Kóraítasálmur.

Heyrið þetta, allar þjóðir, hlustið á, allir heimsbúar,

bæði lágir og háir, jafnt ríkir sem fátækir!

Munnur minn talar speki, og ígrundun hjarta míns er hyggindi.

Ég hneigi eyra mitt að spakmæli, ræð gátu mína við gígjuhljóm.

Hví skyldi ég óttast á mæðudögunum, þá er hinir lævísu óvinir mínir umkringja mig með illsku,

þeir sem reiða sig á auðæfi sín og stæra sig af sínu mikla ríkidæmi.

Enginn maður fær keypt bróður sinn lausan né greitt Guði lausnargjald fyrir hann.

Lausnargjaldið fyrir líf þeirra mundi verða of hátt, svo að hann yrði að hætta við það að fullu,

10 ætti hann að halda áfram að lifa ævinlega og líta ekki í gröfina.

11 Nei, hann sér, að vitrir menn deyja, að fífl og fáráðlingar farast hver með öðrum og láta öðrum eftir auðæfi sín.

12 Grafir verða heimkynni þeirra að eilífu, bústaðir þeirra frá kyni til kyns, jafnvel þótt þeir hafi kennt lendur við nafn sitt.

13 Maðurinn í allri sinni vegsemd stenst ekki, hann verður jafn skepnunum sem farast.

14 Svo fer þeim sem eru þóttafullir, og þeim sem fylgja þeim og hafa þóknun á tali þeirra. [Sela]

15 Þeir stíga niður til Heljar eins og sauðahjörð, dauðinn heldur þeim á beit, og hinir hreinskilnu drottna yfir þeim, þá er morgnar, og mynd þeirra eyðist, Hel verður bústaður þeirra.

16 En mína sál mun Guð endurleysa, því að hann mun hrífa mig úr greipum Heljar. [Sela]

17 Óttast þú ekki, þegar einhver verður ríkur, þegar dýrð húss hans verður mikil,

18 því að hann tekur ekkert af því með sér, þegar hann deyr, auður hans fer ekki niður þangað á eftir honum.

19 Hann telur sig sælan meðan hann lifir: "Menn lofa þig, af því að þér farnast vel."

20 _ Hann verður þó að fara til kynslóðar feðra sinna, sem aldrei að eilífu sjá ljósið.

21 Maðurinn í vegsemd, en hyggindalaus, verður jafn skepnunum sem farast.

Sálmarnir 53

53 Til söngstjórans. Með makalatlagi. Davíðs-maskíl.

Heimskinginn segir í hjarta sínu: "Enginn Guð er til!" Ill og andstyggileg er breytni þeirra, enginn gjörir það sem gott er.

Guð lítur af himni niður á mennina til þess að sjá, hvort nokkur sé hygginn, nokkur sem leiti Guðs.

Allir eru viknir af leið, allir spilltir, enginn gjörir það sem gott er, ekki einn.

Skyldu þeir ekki fá að kenna á því, illgjörðamennirnir, þeir er eta lýð minn sem brauð væri og ákalla eigi Guð?

Þá skulu þeir verða mjög óttaslegnir, þar sem ekkert er að óttast, því að Guð tvístrar beinum þeirra, er setja herbúðir móti þér. Þú lætur þá verða til skammar, því að Guð hefir hafnað þeim.

Ó að hjálpræði Ísraels komi frá Síon! Þegar Guð snýr við hag lýðs síns, skal Jakob fagna, Ísrael gleðjast.

Fyrsta bók Móse 37:25-36

25 Settust þeir nú niður að neyta matar. En er þeim varð litið upp, sáu þeir lest Ísmaelíta koma frá Gíleað, og báru úlfaldar þeirra reykelsi, balsam og myrru. Voru þeir á leið með þetta til Egyptalands.

26 Þá mælti Júda við bræður sína: "Hver ávinningur er oss það, að drepa bróður vorn og leyna morðinu?

27 Komið, vér skulum selja hann Ísmaelítum, en ekki leggja hendur á hann, því hann er bróðir vor, hold vort og blóð." Og bræður hans féllust á það.

28 En midíanítískir kaupmenn fóru þar fram hjá, tóku Jósef og drógu hann upp úr gryfjunni. Og þeir seldu Jósef Ísmaelítunum fyrir tuttugu sikla silfurs, en þeir fóru með Jósef til Egyptalands.

29 En er Rúben kom aftur að gryfjunni, þá var Jósef ekki í gryfjunni. Reif hann þá klæði sín.

30 Og hann sneri aftur til bræðra sinna og mælti: "Sveinninn er horfinn, og hvert skal ég nú fara?"

31 Þá tóku þeir kyrtil Jósefs, skáru geithafur og velktu kyrtilinn í blóðinu.

32 Því næst sendu þeir dragkyrtilinn og létu færa hann föður sínum með þeirri orðsending: "Þetta höfum vér fundið. Gæt þú að, hvort það muni vera kyrtill sonar þíns eða ekki."

33 Og hann skoðaði hann og mælti: "Það er kyrtill sonar míns. Óargadýr hefir etið hann. Sannlega er Jósef sundur rifinn."

34 Þá reif Jakob klæði sín og lagði hærusekk um lendar sínar og harmaði son sinn langan tíma.

35 Og allir synir hans og allar dætur hans leituðust við að hugga hann, en hann vildi ekki huggast láta og sagði: "Með harmi mun ég niður stíga til sonar míns til heljar." Og faðir hans grét hann.

36 En Midíanítar seldu hann til Egyptalands, Pótífar hirðmanni Faraós og lífvarðarforingja.

Fyrra bréf Páls til Korin 2:1-13

Er ég kom til yðar, bræður, og boðaði yður leyndardóm Guðs, kom ég ekki með frábærri mælskusnilld eða speki.

Ég ásetti mér að vita ekkert á meðal yðar, nema Jesú Krist og hann krossfestan.

Og ég dvaldist á meðal yðar í veikleika, ótta og mikilli angist.

Orðræða mín og prédikun studdist ekki við sannfærandi vísdómsorð, heldur við sönnun anda og kraftar,

til þess að trú yðar væri eigi byggð á vísdómi manna, heldur á krafti Guðs.

Speki tölum vér meðal hinna fullkomnu, þó ekki speki þessarar aldar eða höfðingja þessarar aldar, sem að engu verða,

heldur tölum vér leynda speki Guðs, sem hulin hefur verið, en Guð hefur frá eilífð fyrirhugað oss til dýrðar.

Enginn af höfðingjum þessarar aldar þekkti hana, því að ef þeir hefðu þekkt hana, hefðu þeir ekki krossfest Drottin dýrðarinnar.

En það er eins og ritað er: Það sem auga sá ekki og eyra heyrði ekki og ekki kom upp í hjarta nokkurs manns, allt það sem Guð fyrirbjó þeim, er elska hann.

10 En oss hefur Guð opinberað hana fyrir andann, því að andinn rannsakar allt, jafnvel djúp Guðs.

11 Hver meðal manna veit hvað mannsins er, nema andi mannsins, sem í honum er? Þannig hefur heldur enginn komist að raun um, hvað Guðs er, nema Guðs andi.

12 En vér höfum ekki hlotið anda heimsins, heldur andann, sem er frá Guði, til þess að vér skulum vita, hvað oss er af Guði gefið.

13 Enda tölum vér það ekki með orðum, sem mannlegur vísdómur kennir, heldur með orðum, sem andinn kennir, og útlistum andleg efni á andlegan hátt.

Markúsarguðspjall 1:29-45

29 Úr samkundunni fóru þeir rakleitt í hús Símonar og Andrésar og með þeim Jakob og Jóhannes.

30 Tengdamóðir Símonar lá með sótthita, og sögðu þeir Jesú þegar frá henni.

31 Hann gekk þá að, tók í hönd henni og reisti hana á fætur. Sótthitinn fór úr henni, og hún gekk þeim fyrir beina.

32 Þegar kvöld var komið og sólin setst, færðu menn til hans alla þá, er sjúkir voru og haldnir illum öndum,

33 og allur bærinn var saman kominn við dyrnar.

34 Hann læknaði marga, er þjáðust af ýmsum sjúkdómum, og rak út marga illa anda, en illu öndunum bannaði hann að tala, því að þeir vissu hver hann var.

35 Og árla, löngu fyrir dögun, fór hann á fætur og gekk út, vék burt á óbyggðan stað og baðst þar fyrir.

36 Þeir Símon leituðu hann uppi,

37 og þegar þeir fundu hann, sögðu þeir við hann: "Allir eru að leita að þér."

38 Hann sagði við þá: "Vér skulum fara annað, í þorpin hér í grennd, svo að ég geti einnig prédikað þar, því að til þess er ég kominn."

39 Og hann fór og prédikaði í samkundum þeirra í allri Galíleu og rak út illa anda.

40 Maður nokkur líkþrár kom til hans, féll á kné og bað hann: "Ef þú vilt, getur þú hreinsað mig."

41 Og hann kenndi í brjósti um manninn, rétti út höndina, snart hann og mælti: "Ég vil, verð þú hreinn!"

42 Jafnskjótt hvarf af honum líkþráin, og hann varð hreinn.

43 Og Jesús lét hann fara, lagði ríkt á við hann

44 og sagði: "Gæt þess að segja engum neitt, en far þú, sýn þig prestinum og fórna fyrir hreinsun þína því, sem Móse bauð, þeim til vitnisburðar."

45 En maðurinn gekk burt og ræddi margt um þetta og víðfrægði mjög, svo að Jesús gat ekki framar komið opinberlega í neina borg, heldur hafðist við úti á óbyggðum stöðum. En menn komu til hans hvaðanæva.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society