Book of Common Prayer
63 Sálmur eftir Davíð, þá er hann var í Júda-eyðimörk.
2 Drottinn, þú ert minn Guð, þín leita ég, sál mína þyrstir eftir þér, hold mitt þráir þig, í þurru landi, örþrota af vatnsleysi.
3 Þannig hefi ég litast um eftir þér í helgidóminum til þess að sjá veldi þitt og dýrð,
4 því að miskunn þín er mætari en lífið. Varir mínar skulu vegsama þig.
5 Þannig skal ég lofa þig meðan lifi, hefja upp hendurnar í þínu nafni.
6 Sál mín mettast sem af merg og feiti, og með fagnandi vörum lofar þig munnur minn,
7 þá er ég minnist þín í hvílu minni, hugsa um þig á næturvökunum.
8 Því að þú ert mér fulltingi, í skugga vængja þinna fagna ég.
9 Sál mín heldur sér fast við þig, hægri hönd þín styður mig.
10 Þeir sem sitja um líf mitt sjálfum sér til glötunar, munu hverfa í djúp jarðar.
11 Þeir munu verða ofurseldir sverðseggjum, verða sjakölunum að bráð.
12 Konungurinn skal gleðjast yfir Guði, hver sá er sver við hann, skal sigri hrósa, af því að munni lygaranna hefir verið lokað.
98 Sálmur. Syngið Drottni nýjan söng, því að hann hefir gjört dásemdarverk, hægri hönd hans hjálpaði honum og hans heilagi armleggur.
2 Drottinn hefir kunngjört hjálpræði sitt, fyrir augum þjóðanna opinberaði hann réttlæti sitt.
3 Hann minntist miskunnar sinnar við Jakob og trúfesti sinnar við Ísraels ætt. Öll endimörk jarðar sáu hjálpræði Guðs vors.
4 Látið gleðióp gjalla fyrir Drottni, öll lönd, hefjið gleðisöng, æpið fagnaðaróp og lofsyngið.
5 Leikið fyrir Drottni á gígju, á gígju með lofsöngshljómi,
6 með lúðrum og básúnuhljómi, látið gleðióp gjalla fyrir konunginum Drottni.
7 Hafið drynji og allt sem í því er, heimurinn og þeir sem í honum lifa.
8 Fljótin skulu klappa lof í lófa, fjöllin fagna öll saman
9 fyrir Drottni sem kemur til að dæma jörðina. Hann dæmir heiminn með réttlæti og þjóðirnar með réttvísi.
103 Davíðssálmur. Lofa þú Drottin, sála mín, og allt sem í mér er, hans heilaga nafn,
2 lofa þú Drottin, sála mín, og gleym eigi neinum velgjörðum hans.
3 Hann fyrirgefur allar misgjörðir þínar, læknar öll þín mein,
4 leysir líf þitt frá gröfinni, krýnir þig náð og miskunn.
5 Hann mettar þig gæðum, þú yngist upp sem örninn.
6 Drottinn fremur réttlæti og veitir rétt öllum kúguðum.
7 Hann gjörði Móse vegu sína kunna og Ísraelsbörnum stórvirki sín.
8 Náðugur og miskunnsamur er Drottinn, þolinmóður og mjög gæskuríkur.
9 Hann þreytir eigi deilur um aldur og er eigi eilíflega reiður.
10 Hann hefir eigi breytt við oss eftir syndum vorum og eigi goldið oss eftir misgjörðum vorum,
11 heldur svo hár sem himinninn er yfir jörðunni, svo voldug er miskunn hans við þá er óttast hann.
12 Svo langt sem austrið er frá vestrinu, svo langt hefir hann fjarlægt afbrot vor frá oss.
13 Eins og faðir sýnir miskunn börnum sínum, eins hefir Drottinn sýnt miskunn þeim er óttast hann.
14 Því að hann þekkir eðli vort, minnist þess að vér erum mold.
15 Dagar mannsins eru sem grasið, hann blómgast sem blómið á mörkinni,
16 þegar vindur blæs á hann er hann horfinn, og staður hans þekkir hann ekki framar.
17 En miskunn Drottins við þá er óttast hann varir frá eilífð til eilífðar, og réttlæti hans nær til barnabarnanna,
18 þeirra er varðveita sáttmála hans og muna að breyta eftir boðum hans.
19 Drottinn hefir reist hásæti sitt á himnum, og konungdómur hans drottnar yfir alheimi.
20 Lofið Drottin, þér englar hans, þér voldugu hetjur, er framkvæmið boð hans, er þér heyrið hljóminn af orði hans.
21 Lofið Drottin, allar hersveitir hans, þjónar hans, er framkvæmið vilja hans.
22 Lofið Drottin, öll verk hans, á hverjum stað í ríki hans. Lofa þú Drottin, sála mín.
3 Ég sneri þá ásjónu minni til Drottins Guðs til þess að bera fram bæn mína og grátbeiðni með föstu, í sekk og ösku.
4 Ég bað til Drottins, Guðs míns, gjörði játningu mína og sagði: "Æ, Drottinn, þú mikli og ógurlegi Guð, sem heldur sáttmálann og miskunnsemina við þá, sem elska hann og varðveita boðorð hans.
5 Vér höfum syndgað og illa gjört, vér höfum breytt óguðlega og verið þér mótsnúnir og vikið frá boðum þínum og setningum.
6 Vér höfum ekki hlýtt þjónum þínum, spámönnunum, sem töluðu í þínu nafni til konunga vorra, höfðingja og feðra og til alls landslýðsins.
7 Þú, Drottinn, ert réttlátur, en vér megum blygðast vor, sem vér og gjörum í dag, vér Júdamenn og Jerúsalembúar og allur Ísrael, bæði þeir sem nálægir eru og þeir sem fjarlægir eru í öllum þeim löndum, þangað sem þú hefir rekið þá fyrir tryggðrof þeirra, er þeir hafa í frammi við þig haft.
8 Drottinn, vér megum blygðast vor, konungar vorir, höfðingjar vorir og feður vorir, því að vér höfum syndgað móti þér.
9 En hjá Drottni, Guði vorum, er miskunnsemi og fyrirgefning, því að vér höfum verið honum mótsnúnir
10 og ekki hlýtt raustu Drottins Guðs vors, að breyta eftir boðorðum hans, þeim er hann fyrir oss lagði fyrir munn þjóna sinna, spámannanna.
10 Allt er til vegna Guðs og fyrir Guð. Því varð hann, er hann leiðir marga syni til dýrðar, að fullkomna með þjáningum þann, er leiðir þá til hjálpræðis.
11 Því að sá sem helgar og þeir sem helgaðir verða eru allir frá einum komnir. Þess vegna telur hann sér eigi vanvirðu að kalla þá bræður,
12 er hann segir: Ég mun kunnugt gjöra nafn þitt bræðrum mínum, ég mun syngja þér lof mitt í söfnuðinum.
13 Og aftur: Ég mun treysta á hann. Og enn fremur: Sjá, hér er ég og börnin, er Guð gaf mér.
14 Þar sem nú börnin eru af holdi og blóði, þá hefur hann og sjálfur fengið hlutdeild í mannlegu eðli á sama hátt, til þess að hann með dauða sínum gæti að engu gjört þann, sem hefur mátt dauðans, það er að segja djöfulinn,
15 og frelsað alla þá, sem af ótta við dauðann voru undir þrælkun seldir alla sína ævi.
16 Því að víst er um það, að ekki tekur hann að sér englana, en hann tekur að sér afsprengi Abrahams.
17 Því var það, að hann í öllum greinum átti að verða líkur bræðrum sínum, svo að hann yrði miskunnsamur og trúr æðsti prestur í þjónustu fyrir Guði, til þess að friðþægja fyrir syndir lýðsins.
18 Sjálfur hefur hann þjáðst og hans verið freistað. Þess vegna er hann fær um að hjálpa þeim, er verða fyrir freistingu.
44 En Jesús hrópaði: "Sá sem trúir á mig, trúir ekki á mig, heldur þann sem sendi mig,
45 og sá sem sér mig, sér þann er sendi mig.
46 Ég er ljós í heiminn komið, svo að enginn, sem á mig trúir, sé áfram í myrkri.
47 Ef nokkur heyrir orð mín og gætir þeirra ekki, þá dæmi ég hann ekki. Ég er ekki kominn til að dæma heiminn, heldur til að frelsa heiminn.
48 Sá sem hafnar mér og tekur ekki við orðum mínum, hefur sinn dómara: Orðið, sem ég hef talað, verður dómari hans á efsta degi.
49 Því ég hef ekki talað af sjálfum mér, heldur hefur faðirinn, sem sendi mig, boðið mér, hvað ég skuli segja og hvað ég skuli tala.
50 Og ég veit, að boðorð hans er eilíft líf. Það sem ég tala, það tala ég því eins og faðirinn hefur sagt mér."
by Icelandic Bible Society