Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 30

30 Musterisvígsluljóð. Davíðssálmur.

Ég tigna þig, Drottinn, því að þú hefir bjargað mér og eigi látið óvini mína hlakka yfir mér.

Drottinn, Guð minn, ég hrópaði til þín og þú læknaðir mig.

Drottinn, þú heimtir sál mína úr Helju, lést mig halda lífi, er aðrir gengu til grafar.

Syngið Drottni lof, þér hans trúuðu, vegsamið hans heilaga nafn.

Andartak stendur reiði hans, en alla ævi náð hans. Að kveldi gistir oss grátur, en gleðisöngur að morgni.

En ég uggði eigi að mér og hugsaði: "Aldrei skriðnar mér fótur."

Drottinn, af náð þinni hafðir þú gjört bjarg mitt stöðugt, en nú huldir þú auglit þitt og ég skelfdist.

Til þín, Drottinn, kallaði ég, og Drottin grátbændi ég:

10 "Hver ávinningur er í dauða mínum, í því að ég gangi til grafar? Getur duftið lofað þig, kunngjört trúfesti þína?

11 Heyr, Drottinn, og líkna mér, ó Drottinn, ver þú hjálpari minn!"

12 Þú breyttir grát mínum í gleðidans, leystir af mér hærusekkinn og gyrtir mig fögnuði,

13 að sál mín megi lofsyngja þér og eigi þagna. Drottinn, Guð minn, ég vil þakka þér að eilífu.

Sálmarnir 32

32 Davíðsmaskíl. Sæll er sá er afbrotin eru fyrirgefin, synd hans hulin.

Sæll er sá maður er Drottinn tilreiknar eigi misgjörð, sá er eigi geymir svik í anda.

Meðan ég þagði, tærðust bein mín, allan daginn kveinaði ég,

því að dag og nótt lá hönd þín þungt á mér, lífsvökvi minn þvarr sem í sumarbreiskju. [Sela]

Þá játaði ég synd mína fyrir þér og fól eigi misgjörð mína. Ég mælti: "Ég vil játa afbrot mín fyrir Drottni," og þú fyrirgafst syndasekt mína. [Sela]

Þess vegna biðji þig sérhver trúaður, meðan þig er að finna. Þótt vatnsflóðið komi, nær það honum eigi.

Þú ert skjól mitt, þú leysir mig úr nauðum, með frelsisfögnuði umkringir þú mig. [Sela]

Ég vil fræða þig og vísa þér veginn, er þú átt að ganga, ég vil kenna þér og hafa augun á þér:

Verið eigi sem hestar eða skynlausir múlar; með taum og beisli verður að temja þrjósku þeirra, annars nálgast þeir þig ekki.

10 Miklar eru þjáningar óguðlegs manns, en þann er treystir Drottni umlykur hann elsku.

11 Gleðjist yfir Drottni og fagnið, þér réttlátir, kveðið fagnaðarópi, allir hjartahreinir!

Sálmarnir 42-43

42 Til söngstjórans. Kóraítamaskíl.

Eins og hindin, sem þráir vatnslindir, þráir sál mín þig, ó Guð.

Sál mína þyrstir eftir Guði, hinum lifanda Guði. Hvenær mun ég fá að koma og birtast fyrir augliti Guðs?

Tár mín urðu fæða mín dag og nótt, af því menn segja við mig allan daginn: "Hvar er Guð þinn?"

Um það vil ég hugsa og úthella sál minni, sem í mér er, hversu ég gekk fram í mannþrönginni, leiddi þá til Guðs húss með fagnaðarópi og lofsöng, með hátíðaglaumi.

Hví ert þú beygð, sál mín, og ólgar í mér? Vona á Guð, því að enn mun ég fá að lofa hann, hjálpræði auglitis míns og Guð minn.

Guð minn, sál mín er beygð í mér, fyrir því vil ég minnast þín frá Jórdan- og Hermonlandi, frá litla fjallinu.

Eitt flóðið kallar á annað, þegar fossar þínir duna, allir boðar þínir og bylgjur ganga yfir mig.

Um daga býður Drottinn út náð sinni, og um nætur syng ég honum ljóð, bæn til Guðs lífs míns.

10 Ég mæli til Guðs: "Þú bjarg mitt, hví hefir þú gleymt mér? hví verð ég að ganga harmandi, kúgaður af óvinum?"

11 Háð fjandmanna minna er sem rotnun í beinum mínum, er þeir segja við mig allan daginn: "Hvar er Guð þinn?"

12 Hví ert þú beygð, sál mín, og ólgar í mér? Vona á Guð, því að enn mun ég fá að lofa hann, hjálpræði auglitis míns og Guð minn.

43 Lát mig ná rétti mínum, Guð, berst fyrir málefni mínu gegn miskunnarlausri þjóð, bjarga mér frá svikulum og ranglátum mönnum.

Því að þú ert sá Guð, sem er mér vígi, hví hefir þú útskúfað mér? hví verð ég að ganga um harmandi, kúgaður af óvinum?

Send ljós þitt og trúfesti þína, þau skulu leiða mig, þau skulu fara með mig til fjallsins þíns helga, til bústaðar þíns,

svo að ég megi inn ganga að altari Guðs, til Guðs minnar fagnandi gleði, og lofa þig með gígjuhljómi, ó Guð, þú Guð minn.

Hví ert þú beygð, sál mín, og ólgar í mér? Vona á Guð, því að enn mun ég fá að lofa hann, hjálpræði auglitis míns og Guð minn.

Esekíel 39:21-29

21 Ég vil auglýsa dýrð mína meðal þjóðanna, og allar þjóðir skulu sjá refsidóm minn, þann er ég hefi framkvæmt, og hönd mína, er ég hefi á þá lagt.

22 En Ísraelsmenn skulu viðurkenna, að ég, Drottinn, er Guð þeirra, upp frá þeim degi og framvegis.

23 Þjóðirnar skulu viðurkenna, að Ísraelsmenn urðu að fara úr landi eingöngu vegna misgjörðar sinnar, fyrir þá sök að þeir höfðu rofið trúnað við mig, svo að ég byrgði auglit mitt fyrir þeim og seldi þá í hendur óvina þeirra, og féllu þeir þá allir fyrir sverðseggjum.

24 Ég breytti við þá eins og þeir höfðu til unnið með saurugleik sínum og fráhvarfi, og byrgði auglit mitt fyrir þeim.

25 Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Nú mun ég snúa við högum Jakobs og miskunna mig yfir allan Ísraelslýð og vera sómakær um mitt heilaga nafn.

26 Og þeir skulu gleyma vanvirðu sinni og allri þeirri ótryggð, er þeir hafa í frammi haft við mig, þegar þeir búa aftur óhultir í landi sínu og enginn skelfir þá.

27 Þegar ég leiði þá heim aftur frá þjóðunum og safna þeim saman úr löndum óvina þeirra, þá skal ég auglýsa heilagleik minn á þeim í augsýn margra þjóða.

28 Og þá skulu þeir viðurkenna, að ég, Drottinn, er Guð þeirra, með því að ég herleiddi þá til þjóðanna, en safna þeim nú saman inn í þeirra eigið land og læt engan þeirra framar verða þar eftir.

29 Og ég vil ekki framar byrgja auglit mitt fyrir þeim, með því að ég hefi úthellt anda mínum yfir Ísraelslýð, segir Drottinn Guð."

Bréf Páls til Filippímann 4:10-20

10 Ég varð mjög glaður í Drottni yfir því, að hagur yðar hefur loks batnað svo aftur, að þér gátuð hugsað til mín. Að sönnu hafið þér hugsað til mín, en gátuð ekki sýnt það.

11 Ekki segi ég þetta vegna þess, að ég hafi liðið skort, því að ég hef lært að láta mér nægja það, sem fyrir hendi er.

12 Ég kann að búa við lítinn kost, ég kann einnig að hafa allsnægtir. Ég er fullreyndur orðinn í öllum hlutum, að vera mettur og hungraður, að hafa allsnægtir og líða skort.

13 Allt megna ég fyrir hjálp hans, sem mig styrkan gjörir.

14 Engu að síður gjörðuð þér vel í því, að taka þátt með mér í þrengingu minni.

15 Þér vitið og, Filippímenn, að þegar ég í upphafi boðaði yður fagnaðarerindið og var farinn burt úr Makedóníu, hafði enginn söfnuður nema þér einir reikning hjá mér yfir gefið og þegið.

16 Meira að segja, þegar ég var í Þessaloníku, senduð þér mér oftar en einu sinni til nauðsynja minna.

17 Ekki að mér væri svo umhugað um gjöfina sem um ábata þann, sem ríkulega rennur í yðar reikning.

18 En nú hef ég fengið allt og hef meira en nóg síðan ég af hendi Epafrodítusar tók við sendingunni frá yður, þægilegum ilm, þekkri fórn, Guði velþóknanlegri.

19 En Guð minn mun af auðlegð dýrðar sinnar í Kristi Jesú uppfylla sérhverja þörf yðar.

20 Guði og föður vorum sé dýrðin um aldir alda. Amen.

Jóhannesarguðspjall 17:20-26

20 Sannlega, sannlega segi ég yður: Þér munuð gráta og kveina, en heimurinn mun fagna. Þér munuð verða hryggir, en hryggð yðar mun snúast í fögnuð.

21 Þegar konan fæðir, er hún í nauð, því stund hennar er komin. Þegar hún hefur alið barnið, minnist hún ekki framar þrauta sinna af fögnuði yfir því, að maður er í heiminn borinn.

22 Eins eruð þér nú hryggir, en ég mun sjá yður aftur, og hjarta yðar mun fagna, og enginn tekur fögnuð yðar frá yður.

23 Á þeim degi munuð þér ekki spyrja mig neins. Sannlega, sannlega segi ég yður: Hvað sem þér biðjið föðurinn um í mínu nafni, mun hann veita yður.

24 Hingað til hafið þér einskis beðið í mínu nafni. Biðjið, og þér munuð öðlast, svo að fögnuður yðar verði fullkominn.

25 Þetta hef ég sagt yður í líkingum. Sú stund kemur, að ég tala ekki framar við yður í líkingum, heldur mun ég berum orðum segja yður frá föðurnum.

26 Á þeim degi munuð þér biðja í mínu nafni. Ég segi yður ekki, að ég muni biðja föðurinn fyrir yður,

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society