Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 26

26 Davíðssálmur. Lát mig ná rétti mínum, Drottinn, því að ég geng fram í grandvarleik og þér treysti ég óbifanlega.

Rannsaka mig, Drottinn, og reyn mig, prófa hug minn og hjarta.

Því að ég hefi elsku þína fyrir augum, og ég geng í sannleika þínum.

Ég tek mér eigi sæti hjá lygurum og hefi eigi umgengni við fláráða menn.

Ég hata söfnuð illvirkjanna, sit eigi meðal óguðlegra.

Ég þvæ hendur mínar í sakleysi og geng í kringum altari þitt, Drottinn,

til þess að láta lofsönginn hljóma og segja frá öllum þínum dásemdarverkum.

Drottinn, ég elska bústað húss þíns og staðinn þar sem dýrð þín býr.

Hríf eigi sál mína burt með syndurum né líf mitt með morðingjum,

10 þeim er hafa svívirðing í höndum sér og hægri höndina fulla af mútugjöfum.

11 En ég geng fram í grandvarleik, frelsa mig og líkna mér.

12 Fótur minn stendur á sléttri grund, í söfnuðunum vil ég lofa Drottin.

Sálmarnir 28

28 Davíðssálmur. Til þín, Drottinn, hrópa ég, þú bjarg mitt, ver eigi hljóður gagnvart mér. Ef þú þegir við mér, verð ég sem þeir, er til grafar eru gengnir.

Heyr þú á grátbeiðni mína, er ég hrópa til þín, er ég lyfti höndum mínum til Hins allrahelgasta í musteri þínu.

Hríf mig eigi á burt með óguðlegum og með illgjörðamönnum, þeim er tala vinsamlega við náunga sinn, en hafa illt í hyggju.

Launa þeim eftir verkum þeirra, eftir þeirra illu breytni, launa þeim eftir verkum handa þeirra, endurgjald þeim það er þeir hafa aðhafst.

Því að þeir hyggja eigi á verk Drottins né handaverk hans, hann rífi þá niður og reisi þá eigi við aftur.

Lofaður sé Drottinn, því að hann hefir heyrt grátbeiðni mína.

Drottinn er vígi mitt og skjöldur, honum treysti hjarta mitt. Ég hlaut hjálp, því fagnar hjarta mitt, og með ljóðum mínum lofa ég hann.

Drottinn er vígi lýð sínum og hjálparhæli sínum smurða.

Hjálpa lýð þínum og blessa eign þína, gæt þeirra og ber þá að eilífu.

Sálmarnir 36

36 Til söngstjórans. Eftir Davíð, þjón Drottins.

Rödd syndarinnar talar til hins guðlausa í fylgsnum hjarta hans, enginn guðsótti býr í huga hans.

Hún smjaðrar fyrir honum í augum hans og misgjörð hans verður uppvís og hann verður fyrir hatri.

Orðin af munni hans eru tál og svik, hann er hættur að vera hygginn og breyta vel.

Í hvílu sinni hyggur hann á tál, hann fetar vonda vegu, forðast eigi hið illa.

Drottinn, til himna nær miskunn þín, til skýjanna trúfesti þín.

Réttlæti þitt er sem fjöll Guðs, dómar þínir sem reginhaf. Mönnum og skepnum hjálpar þú, Drottinn.

Hversu dýrmæt er miskunn þín, ó Guð, mannanna börn leita hælis í skugga vængja þinna.

Þau seðjast af feiti húss þíns, og þú lætur þau drekka úr lækjum unaðsemda þinna.

10 Hjá þér er uppspretta lífsins, í þínu ljósi sjáum vér ljós.

11 Lát miskunn þína haldast við þá er þekkja þig, og réttlæti þitt við þá sem hjartahreinir eru.

12 Lát eigi fót hins hrokafulla troða á mér né hönd óguðlegra hrekja mig burt.

13 Þar eru illgjörðamennirnir fallnir, þeim er varpað um koll og þeir fá eigi risið upp aftur.

Sálmarnir 39

39 Til söngstjórans, eftir Jedútún. Davíðssálmur.

Ég sagði: "Ég vil gefa gætur að vegum mínum, að ég drýgi eigi synd með tungunni, ég vil leggja haft á munn minn, meðan hinn illgjarni er í nánd við mig."

Ég var hljóður og þagði, en kvöl mín ýfðist.

Hjartað brann í brjósti mér, við andvörp mín logaði eldurinn upp, ég sagði:

"Lát mig, Drottinn, sjá afdrif mín og hvað mér er útmælt af dögum, lát mig sjá, hversu skammær ég er.

Sjá, örfáar þverhendur hefir þú gjört daga mína, og ævi mín er sem ekkert fyrir þér. Andgustur einn eru allir menn. [Sela]

Sem tómur skuggi gengur maðurinn um, gjörir háreysti um hégómann einan, hann safnar í hrúgur, en veit eigi hver þær hlýtur."

Hvers vona ég þá, Drottinn? Von mín er öll á þér.

Frelsa mig frá öllum syndum mínum, lát mig eigi verða heimskingjum að spotti.

10 Ég þegi, ég opna eigi munninn, því að þú hefir talað.

11 Lát plágu þína víkja frá mér, ég verð að engu fyrir krafti handar þinnar.

12 Þá er þú beitir hirtingu við manninn fyrir misgjörð hans, lætur þú yndisleik hans eyðast, sem mölur væri. Andgustur einn eru allir menn. [Sela]

13 Heyr bæn mína, Drottinn, og hlýð á kvein mitt, ver eigi hljóður við tárum mínum, því að ég er aðkomandi hjá þér, útlendingur eins og allir feður mínir.

14 Lít af mér, svo að hýrna megi yfir mér, áður en ég fer burt og er eigi til framar.

Orðskviðirnir 30:1-4

30 Orð Agúrs Jakesonar. Guðmælið. Maðurinn segir: Ég hefi streitst, ó Guð, ég hefi streitst, ó Guð, og er að þrotum kominn.

Því að ég er of heimskur til að geta talist maður, og ég hefi eigi mannsvit,

ég hefi eigi lært speki, svo að ég hafi þekking á Hinum heilaga.

Hver hefir stigið upp til himna og komið niður? Hver hefir safnað vindinum í greipar sínar? Hver hefir bundið vatnið í skikkju sína? Hver hefir reist öll endimörk jarðar? Hvað heitir hann og hvað heitir sonur hans _ fyrst þú veist það?

Orðskviðirnir 30:24-33

24 Fjórir eru smáir á jörðinni, og þó eru þeir vitrir spekingar:

25 Maurarnir eru kraftlítil þjóð, og þó afla þeir sér fæðunnar á sumrin.

26 Stökkhérarnir eru þróttlítil þjóð, og þó gjöra þeir sér híbýli í klettunum.

27 Engispretturnar hafa engan konung, og þó fer allur hópurinn út í röð og reglu.

28 Ferfætlunni getur þú náð með tómum höndunum, og þó er hún í konungahöllum.

29 Þrír eru þeir, sem tigulegir eru á velli, og fjórir, sem tigulegir eru í gangi:

30 ljónið, hetjan meðal dýranna, er eigi hopar fyrir neinni skepnu,

31 lendgyrtur hesturinn og geithafurinn og konungur, er enginn fær móti staðið.

32 Hafir þú heimskast til að upphefja sjálfan þig, eða hafir þú gjört það af ásettu ráði, þá legg höndina á munninn!

33 Því að þrýstingur á mjólk framleiðir smjör, og þrýstingur á nasir framleiðir blóð, og þrýstingur á reiði framleiðir deilu.

Bréf Páls til Filippímann 3:1-11

Að endingu, bræður mínir, verið glaðir í Drottni. Ég tel ekki eftir mér að endurtaka það, sem ég hef skrifað, en yður er það til öryggis.

Gefið gætur að hundunum, gefið gætur að hinum vondu verkamönnum, gefið gætur að hinum sundurskornu.

Vér erum hinir umskornu, vér sem dýrkum Guð í anda hans og miklumst af Kristi Jesú og treystum ekki ytri yfirburðum,

jafnvel þótt ég hafi einnig þá ytri yfirburði, sem ég gæti treyst. Ef einhver annar þykist geta treyst ytri yfirburðum, þá get ég það fremur.

Ég var umskorinn á áttunda degi, af kyni Ísraels, ættkvísl Benjamíns, Hebrei af Hebreum, farísei í afstöðunni til lögmálsins,

svo ákafur, að ég ofsótti kirkjuna. Ef litið er á réttlætið, sem fæst með lögmálinu, var ég vammlaus.

En það, sem var mér ávinningur, met ég nú vera tjón sakir Krists.

Já, meira að segja met ég allt vera tjón hjá þeim yfirburðum að þekkja Krist Jesú, Drottin minn. Sakir hans hef ég misst allt og met það sem sorp, til þess að ég geti áunnið Krist

og reynst vera í honum. Nú á ég ekki eigið réttlæti, það er fæst af lögmáli, heldur það er fæst fyrir trú á Krist, réttlætið frá Guði með trúnni. _

10 Ég vil þekkja Krist og kraft upprisu hans og samfélag písla hans með því að mótast eftir honum í dauða hans.

11 Mætti mér auðnast að ná til upprisunnar frá dauðum.

Error: 'Jóhannesarguðspjall 18:28-38' not found for the version: Icelandic Bible
Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society