Book of Common Prayer
148 Halelúja. Lofið Drottin af himnum, lofið hann á hæðum.
2 Lofið hann, allir englar hans, lofið hann, allir herskarar hans.
3 Lofið hann, sól og tungl, lofið hann, allar lýsandi stjörnur.
4 Lofið hann, himnar himnanna og vötnin, sem eru yfir himninum.
5 Þau skulu lofa nafn Drottins, því að hans boði voru þau sköpuð.
6 Og hann fékk þeim stað um aldur og ævi, hann gaf þeim lög, sem þau mega eigi brjóta.
7 Lofið Drottin af jörðu, þér sjóskrímsl og allir hafstraumar,
8 eldur og hagl, snjór og reykur, stormbylurinn, sem framkvæmir orð hans,
9 fjöllin og allar hæðir, ávaxtartrén og öll sedrustrén,
10 villidýrin og allur fénaður, skriðkvikindin og fleygir fuglar,
11 konungar jarðarinnar og allar þjóðir, höfðingjar og allir dómendur jarðar,
12 bæði yngismenn og yngismeyjar, öldungar og ungir sveinar!
13 Þau skulu lofa nafn Drottins, því að hans nafn eitt er hátt upp hafið, tign hans er yfir jörð og himni.
14 Hann lyftir upp horni fyrir lýð sinn, lofsöngur hljómi hjá öllum dýrkendum hans, hjá sonum Ísraels, þjóðinni, sem er nálæg honum. Halelúja.
149 Halelúja. Syngið Drottni nýjan söng, lofsöngur hans hljómi í söfnuði trúaðra.
2 Ísrael gleðjist yfir skapara sínum, synir Síonar fagni yfir konungi sínum.
3 Þeir skulu lofa nafn hans með gleðidansi, leika fyrir honum á bumbur og gígjur.
4 Því að Drottinn hefir þóknun á lýð sínum, hann skrýðir hrjáða með sigri.
5 Hinir trúuðu skulu gleðjast með sæmd, syngja fagnandi í hvílum sínum
6 með lofgjörð Guðs á tungu og tvíeggjað sverð í höndum
7 til þess að framkvæma hefnd á þjóðunum, hirtingu á lýðunum,
8 til þess að binda konunga þeirra með fjötrum, þjóðhöfðingja þeirra með járnhlekkjum,
9 til þess að fullnægja á þeim skráðum dómi. Það er til vegsemdar öllum dýrkendum hans. Halelúja.
150 Halelúja. Lofið Guð í helgidómi hans, lofið hann í voldugri festingu hans!
2 Lofið hann fyrir máttarverk hans, lofið hann eftir mikilleik hátignar hans!
3 Lofið hann með lúðurhljómi, lofið hann með hörpu og gígju!
4 Lofið hann með bumbum og gleðidansi, lofið hann með strengleik og hjarðpípum!
5 Lofið hann með hljómandi skálabumbum, lofið hann með hvellum skálabumbum!
114 Þegar Ísrael fór út af Egyptalandi, Jakobs ætt frá þjóðinni, er mælti á erlenda tungu,
2 varð Júda helgidómur hans, Ísrael ríki hans.
3 Hafið sá það og flýði, Jórdan hörfaði undan.
4 Fjöllin hoppuðu sem hrútar, hæðirnar sem lömb.
5 Hvað er þér, haf, er þú flýr, Jórdan, er þú hörfar undan,
6 þér fjöll, er þér hoppið sem hrútar, þér hæðir sem lömb?
7 Titra þú, jörð, fyrir augliti Drottins, fyrir augliti Jakobs Guðs,
8 hans sem gjörir klettinn að vatnstjörn, tinnusteininn að vatnslind.
115 Gef eigi oss, Drottinn, eigi oss, heldur þínu nafni dýrðina sakir miskunnar þinnar og trúfesti.
2 Hví eiga heiðingjarnir að segja: "Hvar er Guð þeirra?"
3 En vor Guð er í himninum, allt sem honum þóknast, það gjörir hann.
4 Skurðgoð þeirra eru silfur og gull, handaverk manna.
5 Þau hafa munn, en tala ekki, augu, en sjá ekki,
6 þau hafa eyru, en heyra ekki, nef, en finna engan þef.
7 Þau hafa hendur, en þreifa ekki, fætur, en ganga ekki, þau tala eigi með barka sínum.
8 Eins og þau eru, verða smiðir þeirra, allir þeir er á þau treysta.
9 En Ísrael treystir Drottni, hann er hjálp þeirra og skjöldur.
10 Arons ætt treystir Drottni, hann er hjálp þeirra og skjöldur.
11 Þeir sem óttast Drottin treysta Drottni, hann er hjálp þeirra og skjöldur.
12 Drottinn minnist vor, hann mun blessa, hann mun blessa Ísraels ætt, hann mun blessa Arons ætt,
13 hann mun blessa þá er óttast Drottin, yngri sem eldri.
14 Drottinn mun fjölga yður, sjálfum yður og börnum yðar.
15 Þér eruð blessaðir af Drottni, skapara himins og jarðar.
16 Himinninn er himinn Drottins, en jörðina hefir hann gefið mannanna börnum.
17 Eigi lofa andaðir menn Drottin, né heldur neinn sá, sem hniginn er í dauðaþögn,
18 en vér viljum lofa Drottin, héðan í frá og að eilífu. Halelúja.
7 En ef þjónusta dauðans, sem letruð var og höggvin á steina, kom fram í dýrð, svo að Ísraelsmenn gátu ekki horft framan í Móse vegna ljómans af ásýnd hans, sem þó varð að engu,
8 hversu miklu fremur mun þá þjónusta andans koma fram í dýrð?
9 Ef þjónustan, sem sakfellir, var dýrleg, þá er þjónustan, sem réttlætir, enn þá miklu auðugri að dýrð.
10 Í þessu efni verður jafnvel það, sem áður var dýrlegt, ekki dýrlegt í samanburði við hina yfirgnæfandi dýrð.
11 Því að ef það, sem að engu verður, kom fram með dýrð, þá hlýtur miklu fremur hið varanlega að koma fram í dýrð.
12 Þar eð vér nú höfum slíka von, þá komum vér fram með mikilli djörfung
13 og gjörum ekki eins og Móse, sem setti skýlu fyrir andlit sér, til þess að Ísraelsmenn skyldu ekki horfa á endalok ljóma þess, sem var að hverfa.
14 En hugur þeirra varð forhertur. Því allt til þessa dags hvílir sama skýlan yfir upplestri hins gamla sáttmála og henni hefur ekki verið svipt burt, því að aðeins í Kristi hverfur hún.
15 Já, allt til þessa dags hvílir skýla yfir hjörtum þeirra, hvenær sem Móse er lesinn.
16 En "þegar einhver snýr sér til Drottins, verður skýlan burtu tekin."
17 Drottinn er andinn, og þar sem andi Drottins er, þar er frelsi.
18 En allir vér, sem með óhjúpuðu andliti endurspeglum dýrð Drottins, ummyndumst til hinnar sömu myndar, frá dýrð til dýrðar. Þetta gjörir andi Drottins.
18 Svo bar við, að hann var einn á bæn og lærisveinarnir hjá honum. Þá spurði hann þá: "Hvern segir fólkið mig vera?"
19 Þeir svöruðu: "Jóhannes skírara, aðrir Elía og aðrir, að einn hinna fornu spámanna sé risinn upp."
20 Og hann sagði við þá: "En þér, hvern segið þér mig vera?" Pétur svaraði: "Krist Guðs."
21 Hann lagði ríkt á við þá að segja þetta engum
22 og mælti: "Mannssonurinn á margt að líða, honum mun útskúfað verða af öldungum, æðstu prestum og fræðimönnum, hann mun líflátinn, en upp rísa á þriðja degi."
23 Og hann sagði við alla: "Hver sem vill fylgja mér, afneiti sjálfum sér, taki kross sinn daglega og fylgi mér.
24 Því að hver sem vill bjarga lífi sínu, mun týna því, og hver sem týnir lífi sínu mín vegna, hann mun bjarga því.
25 Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn, en týna eða fyrirgjöra sjálfum sér?
26 En þann sem blygðast sín fyrir mig og mín orð, mun Mannssonurinn blygðast sín fyrir, er hann kemur í dýrð sinni og föðurins og heilagra engla.
27 En ég segi yður með sanni: Nokkrir þeirra, sem hér standa, munu eigi dauða bíða, fyrr en þeir sjá Guðs ríki."
by Icelandic Bible Society