Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 119:97-120

97 Hve mjög elska ég lögmál þitt, allan liðlangan daginn íhuga ég það.

98 Boð þín hafa gjört mig vitrari en óvinir mínir eru, því að þau heyra mér til um eilífð.

99 Ég er hyggnari en allir kennarar mínir, því að ég íhuga reglur þínar.

100 Ég er skynsamari en öldungar, því að ég held fyrirmæli þín.

101 Ég held fæti mínum frá hverjum vondum vegi til þess að gæta orðs þíns.

102 Frá ákvæðum þínum hefi ég eigi vikið, því að þú hefir frætt mig.

103 Hversu sæt eru fyrirheit þín gómi mínum, hunangi betri munni mínum.

104 Af fyrirmælum þínum er ég skynsamur orðinn, fyrir því hata ég sérhvern lygaveg.

105 Þitt orð er lampi fóta minna og ljós á vegum mínum.

106 Ég hefi svarið og haldið það að varðveita þín réttlátu ákvæði.

107 Ég er mjög beygður, Drottinn, lát mig lífi halda eftir orði þínu.

108 Haf þóknun á sjálfviljafórnum munns míns, Drottinn, og kenn mér ákvæði þín.

109 Líf mitt er ætíð í hættu, en þínu lögmáli hefi ég eigi gleymt.

110 Óguðlegir hafa lagt snöru fyrir mig, en ég hefi eigi villst frá fyrirmælum þínum.

111 Reglur þínar eru eign mín um aldur, því að þær eru yndi hjarta míns.

112 Ég hneigi hjarta mitt að því að breyta eftir lögum þínum, um aldur og allt til enda.

113 Ég hata þá, er haltra til beggja hliða, en lögmál þitt elska ég.

114 Þú ert skjól mitt og skjöldur, ég vona á orð þitt.

115 Burt frá mér, þér illgjörðamenn, að ég megi halda boð Guðs míns.

116 Styð mig samkvæmt fyrirheiti þínu, að ég megi lifa, og lát mig eigi til skammar verða í von minni.

117 Styð þú mig, að ég megi frelsast og ætíð líta til laga þinna.

118 Þú hafnar öllum þeim, er villast frá lögum þínum, því að svik þeirra eru til einskis.

119 Sem sora metur þú alla óguðlega á jörðu, þess vegna elska ég reglur þínar.

120 Hold mitt nötrar af hræðslu fyrir þér, og dóma þína óttast ég.

Sálmarnir 81-82

81 Til söngstjórans. Á gittít. Asafs-sálmur.

Fagnið fyrir Guði, styrkleika vorum, látið gleðióp gjalla Guði Jakobs.

Hefjið lofsöng og berjið bumbur, knýið hinar hugljúfu gígjur og hörpur.

Þeytið lúðurinn á tunglkomudögum, við tunglfylling á hátíðisdegi vorum.

Því að þetta eru lög fyrir Ísrael, boðorð Jakobs Guðs.

Hann gjörði það að reglu í Jósef, þá er hann fór út í móti Egyptalandi. Ég heyri mál, sem ég þekki eigi:

"Ég hefi losað herðar hans við byrðina, hendur hans eru sloppnar við burðarkörfuna.

Þú kallaðir í neyðinni, og ég frelsaði þig, ég bænheyrði þig í þrumuskýi, reyndi þig hjá Meríbavötnum. [Sela]

Heyr, lýður minn, að ég megi áminna þig, ó, að þú, Ísrael, vildir heyra mig!

10 Enginn annar guð má vera meðal þín, og engan útlendan guð mátt þú tilbiðja.

11 Ég er Drottinn, Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, opna munn þinn, að ég megi seðja þig.

12 En lýður minn heyrði eigi raust mína, og Ísrael var mér eigi auðsveipur.

13 Þá sleppti ég þeim í þrjósku hjartna þeirra, þeir fengu að ganga eftir eigin geðþótta.

14 Ó, að lýður minn vildi heyra mig, Ísrael ganga á mínum vegum,

15 þá skyldi ég skjótt lægja óvini þeirra, og snúa hendi minni gegn fjendum þeirra.

16 Hatursmenn Drottins skyldu hræsna fyrir honum og ógæfutími þeirra vara að eilífu.

17 Ég skyldi gefa þér hið kjarnbesta hveiti að eta og seðja þig á hunangi úr klettunum."

82 Asafs-sálmur. Guð stendur á guðaþingi, heldur dóm mitt á meðal guðanna:

"Hversu lengi ætlið þér að dæma með rangsleitni og draga taum hinna óguðlegu? [Sela]

Rekið réttar bágstaddra og föðurlausra, látið hinn þjáða og fátæka ná rétti sínum,

bjargið bágstöddum og snauðum, frelsið þá af hendi óguðlegra."

Þeir hafa eigi skyn né skilning, þeir ráfa í myrkri, allar undirstöður jarðarinnar riða.

Ég hefi sagt: "Þér eruð guðir og allir saman synir Hins hæsta,

en sannlega skuluð þér deyja sem menn, falla sem einn af höfðingjunum."

Rís upp, ó Guð, dæm þú jörðina, því að þú ert erfðahöfðingi yfir öllum þjóðum.

Fyrsta bók Móse 27:1-29

27 Svo bar til, er Ísak var orðinn gamall og augu hans döpruðust, svo að hann gat ekki séð, að hann kallaði á Esaú, eldri son sinn, og mælti til hans: "Sonur minn!" Og hann svaraði honum: "Hér er ég."

Og hann sagði: "Sjá, ég er orðinn gamall og veit ekki, nær ég muni deyja.

Tak þú nú veiðigögn þín, örvamæli þinn og boga, og far þú á heiðar og veið mér villidýr.

Og tilreið mér ljúffengan rétt, sem mér geðjast að, og fær mér hann, að ég megi eta, svo að sál mín blessi þig, áður en ég dey."

En Rebekka heyrði, hvað Ísak talaði við Esaú son sinn. Og er Esaú var farinn út á heiðar til að veiða villidýr og hafa heim með sér,

mælti Rebekka við Jakob son sinn á þessa leið: "Sjá, ég heyrði föður þinn tala við Esaú bróður þinn og segja:

,Fær þú mér villibráð og tilreið mér ljúffengan rétt, að ég megi eta og blessa þig í augsýn Drottins, áður en ég dey.`

Og hlýð þú mér nú, sonur minn, og gjör sem ég segi þér.

Far þú til hjarðarinnar og fær mér tvö væn hafurkið úr henni, að ég megi tilreiða föður þínum ljúffengan rétt, sem honum geðjast að,

10 og skalt þú færa hann föður þínum, að hann megi eta, svo að hann blessi þig, áður en hann deyr."

11 En Jakob sagði við Rebekku móður sína: "Gáðu að, Esaú bróðir minn er loðinn, en ég er snöggur.

12 Vera má að faðir minn þreifi á mér og þyki sem ég hafi viljað dára sig. Mun ég þá leiða yfir mig bölvun, en ekki blessun."

13 En móðir hans sagði við hann: "Yfir mig komi sú bölvun, sonur minn. Hlýð þú mér aðeins. Farðu og sæktu mér kiðin."

14 Þá fór hann og sótti þau og færði móður sinni. Og móðir hans tilreiddi ljúffengan rétt, sem föður hans geðjaðist að.

15 Og Rebekka tók klæðnað góðan af Esaú, eldri syni sínum, sem hún hafði hjá sér í húsinu, og færði Jakob, yngri son sinn, í hann.

16 En kiðskinnin lét hún um hendur hans og um hálsinn, þar sem hann var hárlaus.

17 Og hún fékk Jakob syni sínum í hendur hinn ljúffenga rétt og brauðið, sem hún hafði gjört.

18 Þá gekk hann inn til föður síns og mælti: "Faðir minn!" Og hann svaraði: "Hér er ég. Hver ert þú, son minn?"

19 Og Jakob sagði við föður sinn: "Ég er Esaú, sonur þinn frumgetinn. Ég hefi gjört sem þú bauðst mér. Sestu nú upp og et af villibráð minni, svo að sál þín blessi mig."

20 Og Ísak sagði við son sinn: "Hvernig máttir þú svo skjótlega finna nokkuð, son minn?" Og hann mælti: "Drottinn, Guð þinn, lét það verða á vegi mínum."

21 Þá sagði Ísak við Jakob: "Kom þú samt nær, að ég megi þreifa á þér, son minn, hvort þú sannlega ert Esaú sonur minn eða ekki."

22 Jakob gekk þá að Ísak föður sínum, og hann þreifaði á honum og mælti: "Röddin er rödd Jakobs, en hendurnar eru hendur Esaú."

23 Og hann þekkti hann ekki, því að hendur hans voru loðnar eins og hendur Esaú bróður hans, og hann blessaði hann.

24 Og hann mælti: "Ert þú þá Esaú sonur minn?" Og hann svaraði: "Ég er hann."

25 Þá sagði hann: "Kom þú þá með það, að ég eti af villibráð sonar míns, svo að sál mín megi blessa þig." Og hann færði honum það og hann át, og hann bar honum vín og hann drakk.

26 Og Ísak faðir hans sagði við hann: "Kom þú nær og kyss þú mig, son minn!"

27 Og hann gekk að honum og kyssti hann. Kenndi hann þá ilm af klæðum hans og blessaði hann og mælti: Sjá, ilmurinn af syni mínum er sem ilmur af akri, sem Drottinn hefir blessað.

28 Guð gefi þér dögg af himni og feiti jarðar og gnægð korns og víns.

29 Þjóðir skulu þjóna þér og lýðir lúta þér. Þú skalt vera herra bræðra þinna, og synir móður þinnar skulu lúta þér. Bölvaður sé hver sá, sem bölvar þér, en blessaður sé hver sá, sem blessar þig!

Bréf Páls til Rómverja 12:1-8

12 Því brýni ég yður, bræður, að þér, vegna miskunnar Guðs, bjóðið fram sjálfa yður að lifandi, heilagri, Guði þóknanlegri fórn. Það er sönn og rétt guðsdýrkun af yðar hendi.

Hegðið yður eigi eftir öld þessari, heldur takið háttaskipti með endurnýjung hugarfarsins, svo að þér fáið að reyna, hver sé vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna.

Fyrir þá náð, sem mér er gefin, segi ég yður hverjum og einum að hugsa ekki hærra um sig en hugsa ber, heldur í réttu hófi, og halda sér hver og einn við þann mæli trúar, sem Guð hefur úthlutað honum.

Vér höfum á einum líkama marga limi, en limirnir hafa ekki allir sama starfa.

Eins erum vér, þótt margir séum, einn líkami í Kristi, en hver um sig annars limir.

Vér höfum margvíslegar náðargjafir, eftir þeirri náð, sem oss er gefin. Sé það spádómsgáfa, þá notum hana í hlutfalli við trúna.

Sé það þjónusta, skulum vér þjóna. Sá sem kennir, hann kenni,

sá sem áminnir, hann áminni. Sá sem útbýtir gjöfum, gjöri það í einlægni. Sá sem veitir forstöðu, sé kostgæfinn og sá sem iðkar miskunnsemi, gjöri það með gleði.

Jóhannesarguðspjall 8:12-20

12 Nú talaði Jesús aftur til þeirra og sagði: "Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér, mun ekki ganga í myrkri, heldur hafa ljós lífsins."

13 Þá sögðu farísear við hann: "Þú vitnar um sjálfan þig. Vitnisburður þinn er ekki gildur."

14 Jesús svaraði þeim: "Enda þótt ég vitni um sjálfan mig, er vitnisburður minn gildur, því ég veit hvaðan ég kom og hvert ég fer. En þér vitið ekki, hvaðan ég kem né hvert ég fer.

15 Þér dæmið að hætti manna. Ég dæmi engan.

16 En ef ég dæmi, er dómur minn réttur, því ég er ekki einn, með mér er faðirinn, sem sendi mig.

17 Og í lögmáli yðar er ritað, að vitnisburður tveggja manna sé gildur.

18 Ég er sá, sem vitna um sjálfan mig, og faðirinn, sem sendi mig, vitnar um mig."

19 Þeir sögðu við hann: "Hvar er faðir þinn?" Jesús svaraði: "Hvorki þekkið þér mig né föður minn. Ef þér þekktuð mig, þá þekktuð þér líka föður minn."

20 Þessi orð mælti Jesús hjá fjárhirslunni, þegar hann var að kenna í helgidóminum. Enginn lagði hendur á hann, því stund hans var ekki enn komin.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society