Book of Common Prayer
78 Asafs-maskíl. Hlýð þú, lýður minn, á kenning mína, hneigið eyrun að orðum munns míns.
2 Ég vil opna munn minn með orðskviði, mæla fram gátur frá fornum tíðum.
3 Það sem vér höfum heyrt og skilið og feður vorir sögðu oss,
4 það viljum vér eigi dylja fyrir niðjum þeirra, er vér segjum seinni kynslóð frá lofstír Drottins og mætti hans og dásemdarverkum og þeim undrum er hann gjörði.
5 Hann setti reglu í Jakob og skipaði lögmál í Ísrael, sem hann bauð feðrum vorum að kunngjöra sonum þeirra,
6 til þess að seinni kynslóð mætti skilja það og synir þeir er fæðast mundu, mættu ganga fram og segja sonum sínum frá því,
7 og setja traust sitt á Guð og eigi gleyma stórvirkjum Guðs, heldur varðveita boðorð hans,
8 og eigi verða sem feður þeirra, þrjósk og ódæl kynslóð, kynslóð með óstöðugu hjarta og anda sem var Guði ótrúr.
9 Niðjar Efraíms, herbúnir bogmenn, sneru við á orustudeginum.
10 Þeir héldu eigi sáttmála Guðs og færðust undan að fylgja lögmáli hans.
11 Þeir gleymdu stórvirkjum hans og dásemdum hans, er hann hafði látið þá horfa á.
12 Í augsýn feðra þeirra hafði hann framið furðuverk í Egyptalandi og Sóanhéraði.
13 Hann klauf hafið og lét þá fara yfir og lét vatnið standa sem vegg.
14 Hann leiddi þá með skýinu um daga og alla nóttina með eldskini.
15 Hann klauf björg í eyðimörkinni og gaf þeim gnóttir að drekka eins og úr stórvötnum,
16 hann lét læki spretta upp úr klettinum og vatnið streyma niður sem fljót.
17 Þó héldu þeir áfram að syndga í gegn honum, að rísa í gegn Hinum hæsta í eyðimörkinni.
18 Þeir freistuðu Guðs í hjörtum sínum, er þeir kröfðust matar þess er þeir girntust
19 og töluðu gegn Guði og sögðu: "Skyldi Guð geta búið borð í eyðimörkinni?
20 Víst sló hann á klettinn, svo að vatnið vall upp og lækir streymdu, en skyldi hann líka geta gefið brauð eða veitt lýð sínum kjöt?"
21 Fyrir því reiddist Drottinn, er hann heyrði þetta, eldur bálaði upp gegn Jakob og reiði steig upp gegn Ísrael,
22 af því að þeir trúðu eigi á Guð né treystu hjálp hans.
23 Og hann bauð skýjunum að ofan og opnaði hurðir himinsins,
24 lét manna rigna yfir þá til matar og gaf þeim himnakorn;
25 englabrauð fengu menn að eta, fæði sendi hann þeim til saðningar.
26 Hann lét austanvindinn taka sig upp í himninum og leiddi sunnanvindinn að með mætti sínum.
27 Hann lét kjöti rigna yfir þá sem dufti og vængjuðum fuglum sem sjávarsandi,
28 og hann lét þá falla niður í búðir sínar, umhverfis bústað sinn.
29 Átu þeir og urðu vel saddir, og græðgi þeirra sefaði hann.
30 En meðan þeir voru eigi horfnir frá græðgi sinni, meðan fæðan enn var í munni þeirra,
31 þá steig reiði Guðs upp í gegn þeim. Hann deyddi hina gildustu meðal þeirra og lagði að velli æskumenn Ísraels.
32 Þrátt fyrir allt þetta héldu þeir áfram að syndga og trúðu eigi á dásemdarverk hans.
33 Þá lét hann daga þeirra hverfa í hégóma og ár þeirra enda í skelfingu.
34 Þegar hann deyddi þá, leituðu þeir hans, sneru sér og spurðu eftir Guði
35 og minntust þess, að Guð var klettur þeirra og Guð hinn hæsti frelsari þeirra.
36 Þeir beittu við hann fagurgala með munni sínum og lugu að honum með tungum sínum.
37 En hjarta þeirra var eigi stöðugt gagnvart honum, og þeir voru eigi trúir sáttmála hans.
38 En hann er miskunnsamur, hann fyrirgefur misgjörðir og tortímir eigi, hann stillir reiði sína hvað eftir annað og hleypir eigi fram allri bræði sinni.
39 Hann minntist þess, að þeir voru hold, andgustur, sem líður burt og snýr eigi aftur.
40 Hversu oft þrjóskuðust þeir við hann í eyðimörkinni, hryggðu hann á öræfunum.
41 Og aftur freistuðu þeir Guðs og móðguðu Hinn heilaga í Ísrael.
42 Þeir minntust eigi handar hans, eður dags þess, er hann frelsaði þá frá fjandmönnum þeirra,
43 hann sem gjörði tákn sín í Egyptalandi og undur sín í Sóanhéraði.
44 Hann breytti ám þeirra í blóð og lækjum þeirra, svo að þeir fengu eigi drukkið.
45 Hann sendi flugur meðal þeirra, er bitu þá, og froska, er eyddu þeim.
46 Hann gaf engisprettunum afurðir þeirra og jarðvörgunum uppskeru þeirra.
47 Hann eyddi vínvið þeirra með haglhríð og mórberjatré þeirra með frosti.
48 Hann ofurseldi haglhríðinni fénað þeirra og eldingunni hjarðir þeirra.
49 Hann sendi heiftarreiði sína í gegn þeim, æði, bræði og nauðir, sveitir af sendiboðum ógæfunnar.
50 Hann ruddi braut reiði sinni, þyrmdi eigi sálum þeirra við dauðanum og ofurseldi drepsóttinni líf þeirra.
51 Hann laust alla frumburði í Egyptalandi, frumgróða styrkleikans í tjöldum Kams.
52 Hann lét lýð sinn leggja af stað sem sauði og leiddi þá eins og hjörð í eyðimörkinni.
53 Hann leiddi þá öruggt, svo að þeir óttuðust eigi, en óvini þeirra huldi hafið.
54 Hann fór með þá til síns helga héraðs, til fjalllendis þess, er hægri hönd hans hafði aflað.
55 Hann stökkti þjóðum undan þeim, skipti þeim niður eins og erfðahlut og lét kynkvíslir Ísraels setjast að í tjöldum þeirra.
56 En þeir freistuðu í þrjósku sinni Guðs hins hæsta og gættu eigi vitnisburða hans.
57 Þeir viku af leið, rufu trúnað sinn, eins og feður þeirra, brugðust eins og svikull bogi.
58 Þeir egndu hann til reiði með fórnarhæðum sínum, vöktu vandlæti hans með skurðgoðum sínum.
59 Guð heyrði það og reiddist og fékk mikla óbeit á Ísrael.
60 Hann hafnaði bústaðnum í Síló, tjaldi því, er hann hafði reist meðal mannanna,
61 hann ofurseldi hernáminu vegsemd sína og fjandmannshendi prýði sína.
62 Hann seldi lýð sinn undir sverðseggjar og reiddist arfleifð sinni.
63 Æskumönnum hans eyddi eldurinn og meyjar hans misstu brúðsöngs síns.
64 Prestar hans féllu fyrir sverðseggjum, og ekkjur hans fengu engan líksöng flutt.
65 Þá vaknaði Drottinn eins og af svefni, eins og hetja, sem hefir látið sigrast af víni.
66 Hann barði fjandmenn sína á bakhlutina, lét þá sæta eilífri háðung.
67 Samt hafnaði hann tjaldi Jósefs og útvaldi eigi kynkvísl Efraíms,
68 heldur útvaldi hann Júda kynkvísl, Síonfjall, sem hann elskar.
69 Hann reisti helgidóm sinn sem himinhæðir, grundvallaði hann að eilífu eins og jörðina.
70 Hann útvaldi þjón sinn Davíð og tók hann frá fjárbyrgjunum.
71 Hann sótti hann frá lambánum til þess að vera hirðir fyrir Jakob, lýð sinn, og fyrir Ísrael, arfleifð sína.
72 Og Davíð var hirðir fyrir þá af heilum hug og leiddi þá með hygginni hendi.
26 Hallæri varð í landinu, annað hallæri en hið fyrra, sem var á dögum Abrahams. Fór þá Ísak til Abímeleks Filistakonungs í Gerar.
2 Og Drottinn birtist honum og mælti: "Far þú ekki til Egyptalands. Ver þú kyrr í því landi, sem ég segi þér.
3 Dvel þú um hríð í þessu landi, og ég mun vera með þér og blessa þig, því að þér og niðjum þínum mun ég gefa öll þessi lönd, og ég mun halda þann eið, sem ég sór Abraham, föður þínum.
4 Og ég mun margfalda niðja þína sem stjörnur himinsins og gefa niðjum þínum öll þessi lönd, og af þínu afkvæmi skulu allar þjóðir á jörðinni blessun hljóta,
5 af því að Abraham hlýddi minni röddu og varðveitti boðorð mín, skipanir mínar, ákvæði og lög."
6 Og Ísak staðnæmdist í Gerar.
12 Og Ísak sáði í þessu landi og uppskar hundraðfalt á því ári, því að Drottinn blessaði hann.
13 Og maðurinn efldist og auðgaðist meir og meir, uns hann var orðinn stórauðugur.
14 Og hann átti sauðahjarðir og nautahjarðir og margt þjónustufólk, svo að Filistar öfunduðu hann.
15 Alla þá brunna, sem þjónar föður Ísaks höfðu grafið á dögum Abrahams, föður hans, byrgðu Filistar og fylltu með mold.
16 Og Abímelek sagði við Ísak: "Far þú burt frá oss, því að þú ert orðinn miklu voldugri en vér."
17 Þá fór Ísak þaðan og tók sér bólfestu í Gerardal og bjó þar.
18 Og Ísak lét aftur grafa upp brunnana, sem þeir höfðu grafið á dögum Abrahams föður hans og Filistar höfðu aftur byrgt eftir dauða Abrahams, og gaf þeim hin sömu heiti sem faðir hans hafði gefið þeim.
19 Þrælar Ísaks grófu í dalnum og fundu þar brunn lifandi vatns.
20 En fjárhirðar í Gerar deildu við fjárhirða Ísaks og sögðu: "Vér eigum vatnið." Og hann nefndi brunninn Esek, af því að þeir höfðu þráttað við hann.
21 Þá grófu þeir annan brunn, en deildu einnig um hann, og hann nefndi hann Sitna.
22 Eftir það fór hann þaðan og gróf enn brunn. En um hann deildu þeir ekki, og hann nefndi hann Rehóbót og sagði: "Nú hefir Drottinn rýmkað um oss, svo að vér megum vaxa í landinu."
23 Og þaðan fór hann upp til Beerseba.
24 Þá hina sömu nótt birtist Drottinn honum og mælti: "Ég er Guð Abrahams, föður þíns. Óttast þú eigi, því að ég er með þér. Og ég mun blessa þig og margfalda afkvæmi þitt fyrir sakir Abrahams, þjóns míns."
25 Og hann reisti þar altari og ákallaði nafn Drottins og setti þar tjald sitt, og þrælar Ísaks grófu þar brunn.
26 Þá kom Abímelek til hans frá Gerar og Akúsat, vinur hans, og Píkól, hershöfðingi hans.
27 Þá sagði Ísak við þá: "Hví komið þér til mín, þar sem þér þó hatið mig og hafið rekið mig burt frá yður?"
28 En þeir svöruðu: "Vér höfum berlega séð, að Drottinn er með þér. Fyrir því sögðum vér: ,Eiður sé milli vor, milli vor og þín,` og vér viljum gjöra við þig sáttmála:
29 Þú skalt oss ekki mein gjöra, svo sem vér höfum eigi snortið þig og svo sem vér höfum eigi gjört þér nema gott og látið þig fara í friði, því að þú ert nú blessaður af Drottni."
30 Eftir það gjörði hann þeim veislu, og þeir átu og drukku.
31 Og árla morguninn eftir unnu þeir hver öðrum eiða. Og Ísak lét þá í burt fara, og þeir fóru frá honum í friði.
32 Þann sama dag bar svo við, að þrælar Ísaks komu og sögðu honum frá brunninum, sem þeir höfðu grafið, og mæltu við hann: "Vér höfum fundið vatn."
33 Og hann nefndi hann Síba. Fyrir því heitir borgin Beerseba allt til þessa dags.
17 Hlýðið leiðtogum yðar og verið þeim eftirlátir. Þeir vaka yfir sálum yðar og eiga að lúka reikning fyrir þær. Verið þeim eftirlátir til þess að þeir geti gjört það með gleði, ekki andvarpandi. Það væri yður til ógagns.
18 Biðjið fyrir oss, því að vér erum þess fullvissir, að vér höfum góða samvisku og viljum í öllum greinum breyta vel.
19 Ég bið yður enn rækilegar um að gjöra þetta, til þess að þér fáið mig brátt aftur heimtan.
20 En Guð friðarins, er leiddi hinn mikla hirði sauðanna, Drottin vorn Jesú, upp frá dauðum með blóði eilífs sáttmála,
21 hann fullkomni yður í öllu góðu til að gjöra vilja hans og komi því til leiðar í oss, sem þóknanlegt er í hans augum, fyrir Jesú Krist. Honum sé dýrð um aldir alda. Amen.
22 Ég bið yður, bræður, að þér takið vel þessum áminningarorðum. Fáort hef ég ritað yður.
23 Vita skuluð þér, að bróðir vor Tímóteus hefur verið látinn laus og ásamt honum mun ég heimsækja yður, komi hann bráðum.
24 Berið kveðju öllum leiðtogum yðar og öllum heilögum. Mennirnir frá Ítalíu senda yður kveðju.
53 [Nú fór hver heim til sín.
8 En Jesús fór til Olíufjallsins.
2 Snemma morguns kom hann aftur í helgidóminn, og allur lýður kom til hans, en hann settist og tók að kenna þeim.
3 Farísear og fræðimenn koma með konu, staðna að hórdómi, létu hana standa mitt á meðal þeirra
4 og sögðu við hann: "Meistari, kona þessi var staðin að verki, þar sem hún var að drýgja hór.
5 Móse bauð oss í lögmálinu að grýta slíkar konur. Hvað segir þú nú?"
6 Þetta sögðu þeir til að reyna hann, svo þeir hefðu eitthvað að ákæra hann fyrir. En Jesús laut niður og skrifaði með fingrinum á jörðina.
7 Og þegar þeir héldu áfram að spyrja hann, rétti hann sig upp og sagði við þá: "Sá yðar, sem syndlaus er, kasti fyrstur steini á hana."
8 Og aftur laut hann niður og skrifaði á jörðina.
9 Þegar þeir heyrðu þetta, fóru þeir burt, einn af öðrum, öldungarnir fyrstir. Jesús var einn eftir, og konan stóð í sömu sporum.
10 Hann rétti sig upp og sagði við hana: "Kona, hvað varð af þeim? Sakfelldi enginn þig?"
11 En hún sagði: "Enginn, herra." Jesús mælti: "Ég sakfelli þig ekki heldur. Far þú. Syndga ekki framar."]
by Icelandic Bible Society