Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 93

93 Drottinn er konungur orðinn! Hann hefir íklæðst hátign, Drottinn hefir skrýðst, hann hefir spennt sig belti styrkleika síns og fest jörðina, svo að hún haggast eigi.

Hásæti þitt stendur stöðugt frá öndverðu, frá eilífð ert þú.

Straumarnir hófu upp, Drottinn, straumarnir hófu upp raust sína, straumarnir hófu upp dunur sínar.

Drottinn á hæðum er tignarlegri en gnýr mikilla, tignarlegra vatna, tignarlegri en boðar hafsins.

Vitnisburðir þínir eru harla áreiðanlegir, húsi þínu hæfir heilagleiki, ó Drottinn, um allar aldir.

Sálmarnir 96

96 Syngið Drottni nýjan söng, syngið Drottni öll lönd!

Syngið Drottni, lofið nafn hans, kunngjörið hjálpráð hans dag eftir dag.

Segið frá dýrð hans meðal þjóðanna, frá dásemdarverkum hans meðal allra lýða.

Því að mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur, óttalegur er hann öllum guðum framar.

Því að allir guðir þjóðanna eru falsguðir, en Drottinn hefir gjört himininn.

Heiður og vegsemd eru fyrir augliti hans, máttur og prýði í helgidómi hans.

Tjáið Drottni lof, þér kynkvíslir þjóða, tjáið Drottni vegsemd og vald.

Tjáið Drottni dýrð þá, er nafni hans hæfir, færið gjafir og komið til forgarða hans,

fallið fram fyrir Drottni í helgum skrúða, titrið fyrir honum, öll lönd!

10 Segið meðal þjóðanna: Drottinn er konungur orðinn! Hann hefir fest jörðina, svo að hún bifast ekki, hann dæmir þjóðirnar með réttvísi.

11 Himinninn gleðjist og jörðin fagni, hafið drynji og allt sem í því er,

12 foldin fagni og allt sem á henni er, öll tré skógarins kveði fagnaðaróp,

13 fyrir Drottni, því að hann kemur, hann kemur til þess að dæma jörðina. Hann mun dæma heiminn með réttlæti og þjóðirnar eftir trúfesti sinni.

Sálmarnir 34

34 Sálmur Davíðs, þá er hann gjörði sér upp vitfirringu frammi fyrir Abímelek, svo að Abímelek rak hann í burt, og hann fór burt.

Ég vil vegsama Drottin alla tíma, ætíð sé lof hans mér í munni.

Sál mín hrósar sér af Drottni, hinir hógværu skulu heyra það og fagna.

Miklið Drottin ásamt mér, tignum í sameiningu nafn hans.

Ég leitaði Drottins, og hann svaraði mér, frelsaði mig frá öllu því er ég hræddist.

Lítið til hans og gleðjist, og andlit yðar skulu eigi blygðast.

Hér er volaður maður sem hrópaði, og Drottinn heyrði hann og hjálpaði honum úr öllum nauðum hans.

Engill Drottins setur vörð kringum þá er óttast hann, og frelsar þá.

Finnið og sjáið, að Drottinn er góður, sæll er sá maður er leitar hælis hjá honum.

10 Óttist Drottin, þér hans heilögu, því að þeir er óttast hann líða engan skort.

11 Ung ljón eiga við skort að búa og svelta, en þeir er leita Drottins fara einskis góðs á mis.

12 Komið, börn, hlýðið á mig, ég vil kenna yður ótta Drottins.

13 Ef einhver óskar lífs, þráir lífdaga til þess að njóta hamingjunnar,

14 þá varðveit tungu þína frá illu og varir þínar frá svikatali,

15 forðast illt og gjörðu gott, leita friðar og legg stund á hann.

16 Augu Drottins hvíla á réttlátum, og eyru hans gefa gaum að hrópi þeirra.

17 Auglit Drottins horfir á þá er illa breyta, til þess að afmá minningu þeirra af jörðunni.

18 Ef réttlátir hrópa, þá heyrir Drottinn, úr öllum nauðum þeirra frelsar hann þá.

19 Drottinn er nálægur þeim er hafa sundurmarið hjarta, þeim er hafa sundurkraminn anda, hjálpar hann.

20 Margar eru raunir réttláts manns, en Drottinn frelsar hann úr þeim öllum.

21 Hann gætir allra beina hans, ekki eitt af þeim skal brotið.

22 Ógæfa drepur óguðlegan mann, þeir er hata hinn réttláta, skulu sekir dæmdir.

23 Drottinn frelsar líf þjóna sinna, enginn sá er leitar hælis hjá honum, mun sekur dæmdur.

Fyrsta bók Móse 24:50-67

50 Þá svöruðu þeir Laban og Betúel og sögðu: "Þetta er frá Drottni komið. Við getum ekkert við þig sagt, hvorki illt né gott.

51 Sjá, Rebekka er á þínu valdi, tak þú hana og far þína leið, að hún verði kona sonar húsbónda þíns, eins og Drottinn hefir sagt."

52 Og er þjónn Abrahams heyrði þessi orð, laut hann til jarðar fyrir Drottni.

53 Og þjónninn tók upp skartgripi af silfri og skartgripi af gulli og klæði, og gaf Rebekku, en bróður hennar og móður gaf hann gersemar.

54 Því næst átu þeir og drukku, hann og mennirnir, sem með honum voru, og gistu þar um nóttina. Er þeir voru risnir úr rekkju um morguninn, mælti hann: "Látið mig nú fara heim til húsbónda míns."

55 Þá svöruðu bróðir hennar og móðir: "Leyf þú stúlkunni að vera hjá oss enn nokkurn tíma eða eina tíu daga. Þá má hún fara."

56 En hann svaraði þeim: "Tefjið mig ekki! Drottinn hefir látið ferð mína heppnast. Leyfið mér að fara heim til húsbónda míns."

57 Þau sögðu þá: "Við skulum kalla á stúlkuna og spyrja hana sjálfa."

58 Þá kölluðu þau á Rebekku og sögðu við hana: "Vilt þú fara með þessum manni?" Og hún sagði: "Ég vil fara."

59 Þá létu þau Rebekku systur sína og fóstru hennar fara með þjóni Abrahams og mönnum hans.

60 Þau blessuðu Rebekku og sögðu við hana: "Systir vor, vaxi af þér þúsundir þúsunda og eignist niðjar þínir borgarhlið fjandmanna sinna!"

61 Þá tók Rebekka sig upp með þernum sínum, og þær riðu úlföldunum og fóru með manninum. Og þjónninn tók Rebekku og fór leiðar sinnar.

62 Ísak hafði gengið að Beer-lahaj-róí, því að hann bjó í Suðurlandinu.

63 Og Ísak hafði gengið út að áliðnum degi til að hugleiða úti á mörkinni, og hann hóf upp augu sín og sá úlfalda koma.

64 Og Rebekka leit upp og sá Ísak. Sté hún þá jafnskjótt niður af úlfaldanum.

65 Og hún sagði við þjóninn: "Hver er þessi maður, sem kemur á móti oss þarna á mörkinni?" Og þjónninn svaraði: "Það er húsbóndi minn." Þá tók hún skýluna og huldi sig.

66 Og þjónninn sagði Ísak frá öllu því, sem hann hafði gjört.

67 Og Ísak leiddi hana í tjald Söru móður sinnar, og tók Rebekku og hún varð kona hans og hann elskaði hana. Og Ísak huggaðist af harmi þeim, er hann bar eftir móður sína.

Síðara bréf Páls til Tímó 2:14-21

14 Minn á þetta og heit á þá fyrir augliti Guðs að eiga ekki í orðastælum til einskis gagns, áheyrendum til falls.

15 Legg kapp á að reynast hæfur fyrir Guði sem verkamaður, er ekki þarf að skammast sín og fer rétt með orð sannleikans.

16 Forðast þú hinar vanheilögu hégómaræður, því að þeim, er leggja stund á þær, skilar lengra áfram í guðleysi,

17 og lærdómur þeirra etur um sig eins og helbruni. Í hópi þeirra eru þeir Hýmeneus og Fíletus.

18 Þeir hinir sömu hafa villst frá sannleikanum, þar sem þeir segja upprisuna þegar um garð gengna og umhverfa trú sumra manna.

19 En Guðs styrki grundvöllur stendur. Hann hefur þetta innsigli: "Drottinn þekkir sína" og "hver sá, sem nefnir nafn Drottins, haldi sér frá ranglæti."

20 Á stóru heimili eru ekki einungis gullker og silfurker, heldur og tréker og leirker. Sum eru til viðhafnar, önnur til óþriflegri nota.

21 Sá sem fær sig hreinan gjört af slíku, mun verða ker til viðhafnar, helgað og hagfellt húsbóndanum, hæfilegt til sérhvers góðs verks.

Markúsarguðspjall 10:13-22

13 Menn færðu börn til hans, að hann snerti þau, en lærisveinarnir átöldu þá.

14 Þegar Jesús sá það, sárnaði honum, og hann mælti við þá: "Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi, því að slíkra er Guðs ríki.

15 Sannlega segi ég yður: Hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn, mun aldrei inn í það koma."

16 Og hann tók þau sér í faðm, lagði hendur yfir þau og blessaði þau.

17 Þegar hann var að leggja af stað, kom maður hlaupandi, féll á kné fyrir honum og spurði hann: "Góði meistari, hvað á ég að gjöra til þess að öðlast eilíft líf?"

18 Jesús sagði við hann: "Hví kallar þú mig góðan? Enginn er góður nema Guð einn.

19 Þú kannt boðorðin: ,Þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki bera ljúgvitni, þú skalt ekki pretta, heiðra föður þinn og móður."`

20 Hinn svaraði honum: "Meistari, alls þessa hef ég gætt frá æsku."

21 Jesús horfði á hann með ástúð og sagði við hann: "Eins er þér vant. Far þú, sel allt, sem þú átt, og gef fátækum, og munt þú fjársjóð eiga á himni. Kom síðan, og fylg mér."

22 En hann varð dapur í bragði við þessi orð og fór burt hryggur, enda átti hann miklar eignir.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society